14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera örlitla aths. við afgreiðslu á þessu máli. Hún er í meginatriðum sú, að þetta mál er fyrir samgn., hún hefur skilað hér um þetta mál áliti. Þetta er 67. mál þingsins, en hliðstætt mál er 22. mál þingsins, það mun liggja fyrir fjh: og viðskn., og er það út af fyrir sig aðfinnsluvert, að algerlega hliðstæð mál skuli liggja fyrir mismunandi n. í þinginu. Ég er ekki mjög þingvanur maður, en ég held, að þetta hljóti að vera afskaplega óeðlilegur háttur og óeðlileg vinnubrögð.

Þetta mál, sem ég er að ræða um hér, er happdrættislán fyrir Norðurlandsveg og var flutt mjög snemma á þinginu, 22. mál, eins og ég segi, og það liggur fyrir allt annarri n. en þessari hv. n., sem skilaði áliti um Djúpvegarmálið.

Nú er það svo, að þetta mál um happdrættislán fyrir Norðurlandsveg er afskaplega mikilvægt, ekki aðeins fyrir Norðlendinga, heldur og fyrir Vestfirðinga og þá, sem búa á Vesturlandi, jafnvel Austfirðinga, þannig að þetta er mál, sem varðar mjög marga aðila og er mikið framfaramál. Þarna er um að ræða að afla fjár til þess að gera varanlegan veg um 200 km leið.

Ég vildi sem sagt gera aths. við þessi vinnubrögð, að þessi mál skuli liggja fyrir mismunandi n., og að svo skuli að málum staðið, að þau séu ekki tekin samtímis og á þau lagt hliðstætt mat. Ég er ekki með þessu að mæla gegn þessu frv., sem hér er til umr., síður en svo, en ég vil gera mjög alvarlega aths. við þessi vinnubrögð.