18.03.1974
Efri deild: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

65. mál, orlof

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem nú er til umr., er þmfrv., sem flutt var í Nd. Við umr. þar tók 1. gr. eða fyrri gr. frv. nokkrum breytingum, sem miðuðu að því að gera ákvæði skýrari.

Þetta frv. er flutt, eins og fram kemur í grg., að beiðni Sjómannafélags Reykjavíkur, eftir að því höfðu borist tilmæli frá nemendum Stýrimannaskólans um, að fram fengjust leiðréttingar á orlofslögunum, að því er þá varðar.

Þegar núgildandi orlofslög voru sett, var eitt af markmiðum þeirra að tryggja, að launþegar notuðu orlofsfé sitt raunverulega sér til hvíldar og hressingar á orlofstímabilinu, þ.e.a.s. frá 1. maí til 16. sept., en talið var, að misbrestur hefði þá verið á því, að svo hefði verið. Hins vegar er það svo, að fjöldi skólafólks stundar vinnu í sumarleyfum skólanna, en leyfin eru, eins og menn vita, einmitt á sjálfu orlofstímabilinu. Fyrir margt af þessu fólki byggist möguleiki á námi á sumarvinnunni, og þetta fólk má ekki við því að missa tekjur vegna töku orlofs á orlofstímabilinu. Samkv. núgildandi lögum og reglugerð er ekki heimilt að greiða þessu fólki áunnið orlofsfé á tímabilinu 16. sept. til 1. maí, einmitt þegar það hefur mesta þörf á fénu sér til framfæris. Til leiðréttingar á þessu er þetta frv. flutt.

Félmn. hefur haft frv. til athugunar, og eins og fram kemur í nál. á þskj. 501, leggur n. einróma til, að frv. verði samþ.