20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

113. mál, skipulag ferðamála

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. samgn., skrifuðum við hv. 6. þm. Suðurl. undir álít n, með fyrirvara. Fyrirvari okkar byggðist í fyrsta lagi á því, að við erum ekki að öllu leyti sammála þeim till., sem fluttar eru á þskj. 451, enda þótt við séum að sumu leyti efnislega sammála því, sem fram kemur í till. En hins vegar höfum við valið þann kostinn að flytja á sérstöku þskj, brtt. við frv., sem ekki náðist samstaða um innan n.

Svo sem kunnugt er, þá lá þetta sama frv. einnig fyrir síðasta þingi, en náði þá ekki að hljóta afgreiðslu. Málið var þá borið fram í Nd., og sendi samgn. Nd. málið þá til umsagnar ýmissa aðila. Þessar umsagnir, sem Alþingi bárust á síðasta þingi, voru uppistaðan í þeim umsögnum, sem n. hafði nú til hliðsjónar við athugun sína á málinu, að undanskilinni allítarlegri umsögn, sem n. barst eftir s.l. áramót frá náttúruverndarráði, eins og hv. frsm. n. hefur þegar gert grein fyrir. Meðal þeirra aðila, sem umsagnir sendu um málið, var ferðamálaráð. Það sendi allmikið álit í s.l. aprílmánuði, árið 1973, en gat þess í lok grg. sinnar, að það teldi, að málið þyrfti endurskoðunar við og að gera yrði á frv. ýmsar breytingar, en þeir mundu síðar leggja fram sínar brtt.

Þessar till. ferðamálaráðs bárust hins vegar aldrei skriflegar frá ráðinu, en þess í stað mætti hjá n. nokkur hluti ráðsins og ræddi um einstaka þætti frv. Ferðamálaráð segist vera n. þeirri, er frv. samdi, sammála um, að það orki mjög tvímælis, hvort rétt sé, að hin nýja stofnun haldi áfram þeim almenna ferðaskrifstofurekstri, sem Ferðaskrifstofa ríkisins heldur nú uppi, en leggur þó til, að svo verði gert, og byggir þær till. á því, að ferðaskrifstofureksturinn muni leggja grundvöll að fjárhagslegri afkomu hinnar nýju stofnunar. Um þessa skoðun n., hvað viðkemur arðvænlegum rekstri, munu vera skiptar skoðanir, og eftir þeim upplýsingum, sem forstöðumaður Ferðaskrifstofu ríkisins yaf samgn., er hann mætti á fundi n., er ekki óeðlilegt, að menn efist um þann fjárhagslega möguleika, sem ferðaskrifstofureksturinn á að tryggja í sambandi við Ferðamálastofnunina.

Forstöðumaðurinn upplýsti sem sagt, að fjárhagur Ferðaskrifstofunnar væri mjög bágborinn, enda hefur verið um verulegan hallarekstur að ræða hjá stofnuninni.

Ég gat þess áðan, að ferðamálaráð hefði ekki gefið nýjar umsagnir um málið eða athugasemdir við frv., sem hér liggur fyrir, eins og það gaf þó fyrirheit um, þegar það skilaði sínu áliti eða umsögn um málið í aprílmánuði 1973. Hins vegar berst nú á borð hv. þingmanna stutt bréf frá ferðamálaráði, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ferðamálaráð leyfir sér hér með að vekja athygli hv. samgn. Ed. Alþingis á brtt. herra alþm. Ragnars Arnalds á þskj. 420 um frv. til l. um skipulag ferðamála, sem nú er til meðferðar á Alþingi. Mál það, sem rætt er um á tilvitnuðu þskj., er að áliti ferðamálaráðs mikilvæg og nauðsynleg breyting við frv. til laga við skipulag ferðamála. Það er samdóma álit ferðamálaráðs að samþykkja beri framangreinda brtt. herra alþm. Ragnars Arnalds. Ferðamálaráð hefur til athugunar aðrar brtt., sem fram hafa komið í samgn. Margar þeirra eru athyglisverðar að dómi ferðamálaráðs. Ferðamálaráðið mun væntanlega vilja segja álit sitt á þeim síðar.“

Ég verð nú að segja það, að ég er í fyrsta lagi dálitið undrandi yfir slíku bréfi sem þessu frá ferðamálaráði, að það skuli koma núna, að þeir eru enn þá að velta fyrir sér að taka afstöðu til afgreiðslu málsins, og ég veit satt að segja ekki, hvað á að gera með þetta ráð, að vera að þvælast með í íslenskri löggjöf ráð, sem ekki getur tekið afstöðu um það mál. sem hér liggur fyrir. Ferðamálaráð gaf um það fyrirheit í aprílmánuði s.l., að það mundi gera viðbótarathugasemdir skriflega. Það hefur ekki tekist enn í dag að koma því í verk. En um þessa till. hv. þm. Ragnars Arnalds vil ég segja það, að ég tel, að efnislega eigi hún fullan rétt á sér, og ég er henni sammála. Mér er einnig kunnugt um það, að hæstv. menntmrh. hefur hlutast til um það í sambandi við þessi mál á undanförnum árum, að það yrði tekið tillit til þess, sem í þessari till. felst, þegar teiknaðir hafa verið nýir skólar, enda er það sjálfsagt mál. En ég tel, að þessi till. eigi alls ekki heima við þessa löggjöf. Hún á heima við skólakostnaðarlögin og hvergi annars staðar, enda er það allt annað rn., sem hefur með byggingu skólanna að gera, heldur en samgrn., og þess vegna tel ég, að hv. þm. ætti að draga þessa till. hér til baka, en flytja hana á ný sem brtt. þá við skólakostnaðarl., og þar á hún fullan rétt á sér. Ég er efnislega samþykkur till. og tel, að við eigum að stefna að því að framkvæma það, sem í till. felst.

Ég vil þá gera grein fyrir þeim till., sem við hv. 6. þm. Sunnl. flytjum. Eins og fram kemur, leggjum við til, að ferðamálaráð verði lagt niður í þeirri mynd, sem það er, og teljum óeðlilegt, að slík samstarfsnefnd sé lögboðin, eftir að Ferðamálastofnunin hefur fengið sína stjórn, eins og hér er lagt til. Þá er það skoðun okkar, að Ferðaskrifstofu ríkisins eigi að reka sem sjálfstæða stofnun á jafnréttisgrundvelli við aðra sambærilega starfsemi og hún eigi ekki að njóta annarra forréttinda en þeirra, sem felast í því að hafa forgang að farmiðasölu, sem til fellur af hendi þess opinbera. Þá erum við einnig sammála ferðamálaráði um það, að ekki er fyrir hendi annar aðili en Ferðaskrifstofa ríkisins, sem frekar ætti að hafa á hendi rekstur sumargistihúsanna, sem rekin hafa verið á undanförnum sumrum í húsnæði heimavistarskólanna. Það fer saman, að hér er hagnýtt húsnæði á þeim tíma, sem það annars stæði autt og skilaði því engum arði, og hins vegar séð fyrir þeirri miklu eftirspurn, sem um er að ræða á gistiaðstöðu eða hótelplássi fyrir innlenda og erlenda ferðamenn yfir sumartímann. Það eru fyrst og fremst þessir tveir þættir ferðamálanna, sem brtt. okkar eru byggðar á.

Varðandi 1. brtt., sem n. flytur sameiginlega, hef ég engar aths. að gera. Þar var n. sammála, og hefur hv. 5. þm. Austf., frsm. n., gert grein fyrir þeirri till. 1. brtt. okkar er hins vegar við 4. gr., og hún er shlj. brtt. n. að öðru leyti en því, að í stað þess, að ferðamálaráð tilnefndi tvo menn í stjórn Ferðamálastofnunarinnar, leggjum við til, að það sé ferðamálaþingið, sem tilnefni umrædda fulltrúa. Okkur finnst það í alla staði eðlilegt með tilliti til þess, að fullvíst má telja, að þeir aðilar skipi ferðamálaþing með atkvæðisrétti, sem hafa mestra hagsmuna að gæta varðandi ferðamálin í heild, og er ekki óeðlilegt, að það komi í hlut þess að tilnefna þá nm., sem hér um ræðir, og það án tillits til þess, hvort ferðamálaráð verður lagt niður eða ekki. Ég tel. að það skipti ekki öllu máli í þessum efnum, en tel hins vegar tvímælalaust, að það sé ferðamálaþingið, þar sem saman eru komnir þeir aðilar, sem hafa mestra hagsmuna að gæta í þessum efnum, það séu þeir, sem eiga að tilnefna þessa menn, en ekki ferðamálaráðið, enda þótt því auðnist lengri lífdagar.

Þá koma brtt. við 6. gr. Er þar fyrst brtt. okkar við 1. tölul., sem við leggjum til, að orðist þannig, með leyfi forseta: „Að efla og styrkja starfsemi ferðamálafélaga og vinna að undirbúningi árlegs ferðamálaþings“ Hér er breytingin m.a. fólgin í því að fella niður, að Ferðamálastofnunin eigi að aðstoða ferðamálaráð við dagleg störf. Það er álit allra nm., að enda þótt ferðamálaráð yrði ekki lagt niður, þá kæmi ekki til mála, að það hefði með höndum nokkuð það, sem kallast gæti dagleg störf. Þá kemur það fram í þessari till., að við teljum, að það sé í verkahring stjórnar Ferðamálastofnunarinnar að hafa á hendi undirbúning að hinu árlega ferðamálaþingi. Ég tel, að eftir að þessari yfirstjórn ferðamála, sem er Ferðamálastofnun Íslands, hefur verið komið á, þá hljóti þetta verkefni að koma í hlut þeirrar stofnunar. Við leggjum til, að kaflinn Sölustarfsemi verði felldur niður úr frv. Er það í samræmi við það álit okkar, að Ferðaskrifstofa ríkisins eigi að starfa áfram sem sjálfstæð stofnun og það sé verkefni hennar og annarra slíkra að hafa sölustarfsemina á hendi. Hins vegar leggjum við til, að í kaflann Þjónustustarfsemi komi nýr tölul., sem verði 8. tölul., og er það að mestu leyti óbreyttur 1. tölul. í kaflanum Sölustarfsemi að öðru leyti en því, að niður falla orðin „með eigin ferðum“. Er það í samræmi við það, sem ég hef áður sagt.

Þá er loks síðasta brtt. okkar við þennan kafla. Lagt er til, að á eftir 6. gr. komi ný gr., sem orðist svo:

„Stjórn Ferðamálastofnunar Íslands skal árlega gera fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og senda samgn, svo snemma, að fylgt geti fjárlagafrv. til Alþ.“

Það er mitt álit, að hvort sem Ferðamálastofnunin hefur sjálf með höndum ferðaskrifstofurekstur eða ekki, þá verði vart hjá því komist að veita henni nokkurt fé árlega í fjárl. til að halda uppi nauðsynlegri landkynningarstarfsemi. Ég hef áður að því vikið, hvað forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins upplýsti um fjárhagsafkomu Ferðaskrifstofunnar, sem þó hefur allverulegar tekjur tryggðar með samningi sínum við Íslenskan markað á Keflavikurflugvelli. Hitt tel ég sjálfsagt, að þessi stofnun eins og aðrar ríkisstofnanir geri sína fjárhagsáætlun og sendi hana til viðkomandi rn. op að slík fjárhagsáætlun liggi þá það tímanlega fyrir, að bægt sé að taka tillit til hennar við afgreiðslu fjárl.

Við III. kaflann, Um ferðamálafélög, ferðamálaþing og ferðamálaráð, hefur fallið niður till. okkar um breytingu um fyrirsögn kaflans, þar sem við leggjum til, að orðin „og ferðamálaráð“ falli niður.

8. gr. frv. leggjum við til, að orðist svo: „Ferðamálaþing skal halda eigi síðar en í septembermánuði ár hvert. Ráðh. ákveður með reglugerð, að fengnum till. frá stjórn Ferðamálastofnunar Íslands, hvaða aðilar, samtök og stofnanir, er hagsmuna hafa að gæta, hafa rétt til að senda fulltrúa á ferðamálaþingið, svo og hverjir hafa rétt til að sitja þingið án atkvæðisréttar. Hlutverk ferðamálaþings er að fjalla um ferðamál og þróun þeirra og gera till. um þau, miðað við heildarstefnu laga þessara.“

Efnislega er hér ekki um mikla breytingu að ræða. Þó vil ég taka það fram, að enda þótt ráðh. ákveði með reglugerð, hverjir hafi rétt til að sitja ferðamálaþing með atkvæðisrétti, og það er hér einnig lagt til. þá er það síst verra fyrir viðkomandi ráðh., að hann fái ábendingar frá Ferðamálastofnuninni hér um, áður en hann tekur sína ákvörðun. Það kom fram í viðræðum, sem við áttum við þá, sem hér eiga hagsmuna að gæta, að sept. væri í síðasta lagi sú tímatakmörkun, sem miða ætti við varðandi þinghaldið, og það er með tilliti til þess, sem orðalagið veitir meira svigrúm, eins og hér er lagt til, það er eigi síðar en í septemberlok.

Þá leggjum við til, að 9. gr. falli niður, en efni hennar er um verkefni ferðamálaráðs og annað, sem því er tengt.

Við 10. gr. erum við með þá brtt., að það sé stjórn Ferðamálastofnunarinnar, en ekki ferðamálaráð, sem boðar til ferðamálaþings og undirbúi dagskrá þess. Hér er um sömu formsatriði að ræða, sem ég áður hef minnst á, og tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það.

Þá kemur næst till. okkar um Ferðaskrifstofu ríkisins. Við leggjum sem sagt til. að Ferðaskrifstofa ríkisins starfi áfram sem sjálfstæð stofnun á jafnréttisgrundvelli við aðrar ferðaskrifstofur, auk þess sem hún taki að sér það verkefni að starfrækja sumarhótel í heimavistarskólum, eftir því sem um semst við forráðamenn skóla. Ég hygg, að það séu allir á einu máli um, að þessi starfsemi sé hvergi betur komin en á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins, og ef vel tekst til, þá ætti þessi starfsemi ekki að þurfa að vera baggi á Ferðaskrifstofunni. Það er hvort tveggja, að okkur er kunnugt um hinn þrönga fjárhag, sem Ferðaskrifstofa ríkisins á við að búa í dag, og einnig með tilliti til þess, að ríkið sem eignaraðili hlýtur að hafa vissar skyldur um fjárhagslegan stuðning við fyrirtækið, að við leggjum til í fyrsta lagi, að Ferðaskrifstofunni verði veitt nýtt stofnframlag að upphæð allt að 10 millj. kr., og enn fremur verði kveðið á um, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. að láni til viðbótar. Hver svo sem framkvæmdin verður, að ferðaskrifstofureksturinn verði liður í starfsemi Ferðamálastofnunarinnar eða horfið verði að hví að reka Ferðaskrifstofu ríkisins sem sjálfstæða stofnun, þá hygg ég, að ekki verði hjá því komist að veita þá fjárhagslegu fyrirgreiðslu, sem hér er lagt til í þessu skyni.

Við kaflann um Ferðamálasjóð eru nokkrar brtt. Brtt. við 22. gr., sem n. flytur, erum við allir sammála um, og hefur frsm. n. gert grein fyrir henni. Við 26. gr. flytjum við hins vegar nýja brtt., sem er að orðalagi algerlega samhljóða till. n., nema í okkar till. er kveðið á um, að sá maður, sem ráðh. skipi án tilnefningar, skuli vera formaður n. Við teljum það sjálfsagt, að enda þótt þessi n. fari ekki með nein úrslitavöld varðandi lán úr Ferðamálasjóðnum, að úr því það er um þriggja manna n. að ræða, sem á að hafa til athugunar málefni þessa sjóðs, þá hljóti einhver af þessum þremur að vera formaður n., og er þá eðlilegast, að það sé sá maður, sem ráðh. tilnefnir.

Við 32. gr. má segja, að till. n. og okkar brtt. sé efnislega hin sama að undanskildu því, að við fellum niður aðild ferðamálaráðs, svo sem á öðrum stöðum í frv. Annað er það ekki, sem máli skiptir. Ákvæði til bráðabirgða breytist einnig með hliðsjón af sama.

Ég hef þá í stórum dráttum gert grein fyrir þeim brtt., sem við hv. 6. þm. Sunnl. flytjum á þskj. 463. Og ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið. Það er álit flestra, að ég hygg, að enda þótt þeir séu ekki að öllu leyti samþykkir einstökum ákvæðum þessa frv., þá sé sú heildarstefna, sem í frv. felst, spor í rétta átt og til ávinnings fyrir þessa mikilsverðu atvinnugrein.