20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

259. mál, skattkerfisbreyting

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar þessi skattkerfisbreyting er hér til umr. og þetta dæmi gert upp, þá er það eins og fyrri daginn, að stjórn og stjórnarandstaða komast ekki að neinni niðurstöðu, hvorki í þessum umr, né málinu í heild, vegna þess að menn nota mismunandi tölur og mismunandi forsendur. Eftir langvinnar deilur vilja menn gjarnan missa sjónar af meginatriði málsins, og afleiðingin verður nú sem fyrr sú, að almenningur á erfitt með að gera sér grein fyrir réttu og röngu í þessu máli. Ég mun ekki gera enn eina tilraunina til þess að bera saman tölur og útkomu þessa reikningsdæmis, sem hér er til meðferðar, en tek undir málflutning og röksemdir síðasta hv. ræðumanns, hv. 5. þm. Reykv., Gunnars Thoroddsens. Ég tek aðeins fram, að ég er eins og aðrir sjálfstæðismenn fylgjandi þeirri kerfisbreytingu, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. þeirri kerfisbreytingu að taka upp óbeina skatta í stað beinna, að skattleggja eyðslu manna, en ekki tekjur. Auðvitað eru á því fyrirkomulagi bæði kostir og gallar, en ég met kostina mun meir, og ég tel, að með hinum svokallaða neikvæða tekjuskatti, eða viðurkenningarskatti, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, séu leyst, a.m.k. að einhverju leyti, þau vandamál, sem söluskattur hefur í för með sér gagnvart láglaunuðu fólki. Afstaða mín til frv., eins og það lá fyrir upphaflega, var hins vegar sú, að ég vil ekki, að þessi kerfisbreyting leiði til aukinna skatta, þegar á heildina er litið, og vil ekki, að ríkisstj, hagnist á breytingunni á kostnað skattgreiðenda. Þetta er mergurinn málsins. Það á að draga úr skattpíningu, en ekki að auka bana.

Nú velta menn fyrir sér og velta á milli sín, hvort hækka eigi söluskattinn um 4 eða 5%–stig, rétt eins og það skipti ekki mjög miklu máli, þegar á heildina er litið. En þess er að gæta, að 1% stig er hvorki meira né minna en 800 millj. kr. og ég tel, að þjóðin eigi heimtingu á því, að þingið veiti viðnám, reyni að afstýra því, að þrátt fyrir svona kerfisbreyt. leiði það til hækkunar á sköttum.

Sjálfstfl. og stjórnarandstaðan fram að þessu hafa haldið því fram, að 4%-stig til viðbótar leiddu til aukinna skattahækkana, hækkaðra skatta, og meðan svo er, þá er mér lífsins ómögulegt að greiða atkv. með slíku frv. Alþfl. hefur hins vegar tekið þá ákvörðun, sem nú hefur komið fram í þessum umr., að fylgja frv., þegar það gerir ráð fyrir 4% hækkun. Það var mat þm. Alþfl., að 31/2%-stig dygðu til að mæta tekjuskattslækkun frv. Nú hafa þeir fallist á 4% stig, sem þýðir auðvitað það, að Alþfl. leggur blessun sína yfir hækkaða skatta, samkv. sínum eigin útreikningum. Yfirlýsing varðandi niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum skipti auðvitað engu máli, þegar skattdæmið sjálft er gert upp. Það tilheyrir almennum efnahagsráðstöfunum, og er hluti af þeim efnahagsvanda, sem blasir við og ríkisstj. verður að takast á við, en við erum í þessu máli að tala um skatta, hvort sem þeir eru beinir eða óbeinir, og við verðum að reikna það dæmi út sjálfstætt. Og þá var það niðurstaða allra stjórnarandstöðufl., að 4%-stig væri of hátt, og með því að leggja blessun sina yfir þá hækkun núna er Alþfl. raunverulega að leggja blessun sína yfir það, að ríkisstj. fái aukna skatta í sína sjóði.

Stjórnarsinnar hafa að undanförnu rætt um óábyrga stjórnarandstöðu, og í Þjóðviljanum á dögunum, 17. mars s.l. mátti lesa eftirfarandi klausu, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarandstöðufl., sem kenna sig við sjálfstæði, alþýðu og frjálslyndi, en þeir hafa sem kunnugt er til samans stöðvunarvald í annarri d. þingsins, tóku skyndilega hamskiptum og lýstu því yfir, að það skyldi aldrei verða, að ríkisstj. fengi tækifæri til að tryggja verkafólki þær hagsbætur, sem um hafði verið samið, frekar skyldi núv. skattkerfi standa, það skattkerfi, sem þeir höfðu varla nógu sterk orð til að lýsa, hve hábölvað væri.“

Nú er það mál út af fyrir sig, sem er ágæt viðurkenning og rétt að það komi hér fram, að það er út af fyrir sig ánægjulegt, að stjórnarsinnar og málgögn þeirra viðurkenni, að breyt. á þeim skattalögum, sem núv. hæstv. ríkisstj. leiddi yfir þjóðina, sé til hagsbóta fyrir verkafólkið. En hitt er mjög ómaklegt og algjörlega rangt að halda því fram, að stjórnarandstaðan sé með aðstöðu sinni hér á þingi — og sjálfstfl. í þessari umr. — að koma í veg fyrir það, að verkafólk fái hagsbætur. Það verður aldrei nógsamlega ítrekað, að afstaða sjálfstfl. byggist á því, að þessar breyt. eigi sér stað, án þess að skattar hækki. Og meðan annað er ekki sannað fyrir mér eða öðrum hv. þm, sjálfstfl., þá að sjálfsögðu greiðum við ekki atkv. með skattkerfisbreyt., vegna þess að það er varla, og alls ekki, til hagsbóta fyrir verkafólkið að fá hækkaða skatta, hvort sem þeir heita beinir eða óbeinir.

Ég kem í þessu sambandi aftur að því, sem ég ræddi hér nokkuð um á dögunum, varðandi 1% söluskattshækkun vegna hækkunar á olíuverði. Þær röksemdir, sem ég flutti þá, eiga enn við nú í þessu máli. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að hún ætlaði sér að halda verðbólgunni í skefjum. Hún hefur lofað því að lækka og jafnvel afnema söluskatt af almennum nauðsynjavörum, sbr. málefnasamning hennar. Og hún hefur lýst því yfir, að hún hyggðist beita öðrum efnahagsaðgerðum, en fyrri ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. hefur brugðist í öllum þessum atriðum, hún hefur svikið þessi fyrirheit. Og þegar stefna einnar ríkisstj. hefur brugðist svo gjörsamlega og leitt til slíks glundroða og öngþveitis sem nú blasir við, þá er ætlast til þess, að stjórnarandstaðan hlaupi til og leysi vandamálið með hæstv. ríkisstj. Vitaskuld er ástandið í dag algjörlega á ábyrgð núv. ríkisstj. Það er hennar að leysa málið. Hún vildi fara aðrar leiðir en fyrri stjórn og núv. stjórnarandstaða, og þá verður hún að sjálfsögðu að taka afleiðingunum af því og leysa það sjálf. Ef hún getur það ekki og verður að leita á náðir annarra, stjórnarandstöðu, eða einhverra annarra, þá á hún miklu frekar að segja af sér.

Hvað sem segja má um þetta frv. og þá kerfisbreyt., sem það felur í sér, er það óhagganleg og óbifanleg staðreynd, að frv. gerir ekki minnstu tilraun til þess að leysa efnahagsvandann, til þess að dreifa sköttunum réttlátar eða til þess að lækka söluskattinn, þvert á móti. Og hæstv. fjmrh. hefur margoft sagt það, að hann hafi fallist á þessa kerfisbreyt. vegna þess, að þar kæmi kr. á móti kr. Og auðvitað er þá bein ályktun af þeim orðum hans sú, að um leið og hann hefur lækkað tekjuskattana, þá er hann að fá inn í sinn ríkissjóð jafnmikla upphæð í söluskatti, og það getur ekki nokkur maður, það er a.m.k. eftir að sannfæra mig um það, að slíkt sé hagstætt, þegar kemur kr. fyrir kr. Menn geta ekki í öðru orðinu sagt, að þeir séu að lækka skattana, og í hinu orðinu sagt, að þeir vilji fá kr. fyrir kr.

Ríkisstj. hefur ekki heldur, eins og ég sagði áðan, gert tilraun til þess að leysa neinn efnahagsvanda eða bjóða einhverjar nýjar leiðir við lausn á efnahagsvandanum með þessu frv. Og þar sem allir eru sammála um það, að vandinn sé mestur hjá atvinnurekstrinum í landinu, þá er á sama tíma sem hæstv. forsrh, er að tala um, að nú séu á næsta leiti einhverjar nýjar efnahagsráðstafanir til þess að leysa vanda atvinnurekstrarins, með þessu frv. verið að bæta á vanda atvinnurekstrarins með hækkuðum söluskatti og hækkuðum launaskatti, svo að lítið samræmi er nú í orðum og gerðum.

Þetta ber allt að sama brunni, hér er ekki verið að breyta þeirri skattránsstefnu, sem verið hefur í tíð núv. stjórnar, það er verið að breyta kerfinu, innheimta skatta með öðrum hætti en fyrr, en áfram blasir við, að það eru sömu skattbyrðarnar og jafnmargar kr., sem eiga að koma í ríkissjóðinn, samkv. fullyrðingu hæstv. fjmrh.

Stjórnarandstaðan, eins og fyrr segir, vill gjarnan kerfisbreyt. En það er ekki hægt að fara fram á það við stjórnarandstöðuna, að hún taki undir og samþ. þetta frv. vegna þess að hún vill ekki eingöngu kerfisbreytinguna breytingarinnar vegna, hún vill lækka skatta. Það er hennar stefna. Það eru ekki ábyrg stjórnvöld, sem fyrst hækka skattana, eins og þessi stjórn gerði í upphafi síns stjórnartíma, og koma svo seinna á kjörtímabilinu og segja: Nú ætlum við að lækka skattana gegn því að fá eitthvað annað í staðinn.

Hvaða mynd hefur nú þjóðin af þinginu og ríkisstj., eftir að þetta mál er til lykta leitt? Í stól fjmrh. situr maður, sem hefur predikað það undanfarin ár, hversu söluskattur eða óbeinir skattar væru slæmir, og það er fróðlegt að lesa ræður hæstv. fjmrh., þegar hann sat í stjórnarandstöðu, vegna þess að rauði þráðurinn í öllum þessum ræðum er það, hversu söluskattur er óhagstæður og slæmur skattur. Enda var það tekið upp, sjálfsagt í samræmi við hans vilja og t samræmi við vilja annarra stjórnarsinna, í málefnasamninginn að lækka söluskattinn á nauðsynjavörum. Það var eitt af helstu loforðum þessarar ríkisstj. að lækka söluskattinn (Gripið fram í: Fella hann niður.) Fella hann niður jafnvel. En nú er gerð till. um það að koma honum upp í 18%, enda þótt þeir fallist á það, að hann verði 17%, og er nú varla mikill munur þar á.

Þjóðin hlustaði líka á þennan hæstv. fjmrh. gefa um það mjög afdráttarlausar og skýlausar yfirlýsingar, að frv., eins og það var lagt fram í upphafi, stæði og félli í upphaflegri og óbreyttri mynd, ekkert annað kæmi til greina en 5% hækkun, ella yrði þjóðin að sitja uppi með núgildandi skattalög. Þessa yfirlýsingu hefur hæstv. ráðh. þurft að gleypa. En hitt er líka afar fróðlegt, og sjálfsagt einsdæmi, að hæstv. ráðh. noti sín eigin skattalög sem hótun. Hann stillir stjórnarandstöðunni og þjóðinni upp og segir: Ef þið samþykkið ekki þetta, sem ég er með núna, þá sitjið þið uppi með gömlu skattana mína, sem auðvitað er rétt hjá honum, að eru skattráns- og skattpíningarlög.

Ég held, að atburðir síðustu daga varpi ekki einungis ljósi á, að hæstv. ríkisstj. er á undanhaldi, heldur líka hitt, að þetta ástand er algjörlega óviðunandi. Hvort sem það heitir viðreisnarstjórn eða vinstri stjórn, þá leiðir slíkt ástand eins og er hér á þinginu aðeins til glundroða og öngþveitis. Það er ofur eðlilegt, að þm. séu ekki bundnir í flokksklafa, þegar um almenn mál er að ræða, en í slíkum málum sem þessum er auðvitað nauðsynlegt fyrir hverja stjórn að hafa á bak við sig sterkan meiri hluta og ráða ferðinni. Að öðrum kosti verður ekki heil brú í stjórnarfarinu í landinu, eins og kemur á daginn í þessu máli. Hæstv. forsrh, sagði hér á dögunum, að til þess að takast á við efnahagsvandann þyrfti sterka stjórn í þessu landi. Hans vandamál í dag er ekki aðeins, að hann hefur ekki sterka stjórn, hann hefur enga stjórn. Það er engin stjórn í þessu landi, og það er niðurstaðan í þessu máli.

Ég vildi að lokum, herra forseti, víkja að einni gr. þessa frv., þ.e.a.s. 12. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða, að í öllum verslunum, sölu- eða afgreiðslustöðum, þar sem söluskattur er innheimtur, skuli taka upp peningakassa, sem auðvelt sé að stimpla í öll söluskattsskyld viðskipti, þannig að eftirlitsmenn fjmrn. geti gengið úr skugga um, að allur innheimtur söluskattur komi fram. Ráðh. getur sett nánari reglur um framkvæmd á ákvæðum þessarar gr.

Nú er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, að þetta ákvæði sé í frv., og reyndar sýnist mér, að það sé óbreytt frá fyrri l. eða núgildandi l. En nú, þegar það virðist vera orðin almenn ríkjandi stefna að beita óbeinum sköttum, þ.e.a.s. innheimtu söluskatts, sem einnar stærstu tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þá sýnist mér ábyrgð þeirra, sem innheimta þennan söluskatt, fara vaxandi, og meira áríðandi en áður fyrir ríkissjóð og þjóðfélagið, að þar sé haldið um af öryggi og ábyrgð. Hins vegar er það svo, að það er óviðráðandi fyrir þá aðila, sem innheimta söluskattinn, að sitja undir því að þurfa að leggja í mikinn kostnað til þess að innheimta þetta fé fyrir ríkissjóð, og spurningin er þess vegna sú, hvort það sé ekki hugmynd hæstv. ráðh., ef þetta frv. verði að l., að þá verði það ríkissjóður, sem beri kostnað af kaupum á slíkum peningakössum eða yfirleitt beri kostnað af innheimtu söluskattsins. Ég vildi gjarnan fara fram á það, að hæstv. ráðh. lýsti sínum skilningi varðandi þetta atriði. Ég geri frekar ráð fyrir því, það sé skoðun og skilningur á því hjá rn. og hæstv. ráðh., að ríkissjóður beri þennan kostnað. Slík tæki, peningakassar og annað þess háttar, kosta hundruð þúsunda króna, það skiptir milljónum samtals fyrir þessa aðila, sem innheimta féð, og ósanngjarnt að ætlast til þess, að þeir kaupi það á eigin kostnað. Ég vildi þess vegna spyrjast fyrir um þetta hjá hæstv. ráðh. og vona, að hann gefi á því þær skýringar, sem ég er að tala um, ella mundi ég þurfa að bera fram hér skriflega brtt. Ég vona, að til þess þurfi þó ekki að koma.