25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Varnar- og öryggismál Íslands eru þau mál, sem þjóðin fylgist hvað best með nú á tímum. Fjöldi manna hefur miklar áhyggjur af þessum málum vegna þess, hvernig ríkisstj. hagar sér. Á föstudagskvöldið var sjónvarpsþáttur, þar sem rætt var um varnarmálin, og þar voru hv. 5. þm. Reykv. og hæstv. iðnrh. spurðir um ýmislegt í þessu sambandi. Ég hef heyrt það á mörgum, að áhyggjur manna hafi vaxið mjög við það, að hæstv. iðnrh. tók sér fyrir hendur að tala í umboði ríkisstj. um þessi mál og túlka málin einhliða frá sínu sjónarmiði, og menn fengu það á tilfinninguna, að hæstv. iðnrh. réði öllu í utanríkismálum Íslands. Það er þess vegna ekki furða, þótt þjóðin hafi áhyggjur af slíku, vegna þess að hæstv. iðnrh. og hans flokkur eru sama sinnis núna og ævinlega, síðan þessi flokkur varð til í landinu. Þegar rætt er um varnar- og öryggismál Íslands, þá er þessi flokkur alltaf sama sinnis. Ég minnist 30. mars 1949, þegar gengið var frá inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, þegar grjóthríðin var hér á gluggum alþingishússins. Þá var hiti í málunum. Það var vegna þess, að það var verið að tryggja öryggi þjóðarinnar með inngöngu í Atlantshafsbandalagið. En menn voru úti á gangstéttunum og hávaði hér í þingsölunum, vegna þess að þetta var gert. Enn deila Íslendingar á Alþ. um það, hvort Ísland eigi að hafa varnir eða hvort það eigi að vera varnarlaust. Hæstv. ríkisstj. hefur orðið sammála um að gera landið varnarlaust.

Það er einn ljós punktur í þessu máli, og hann er sá, sem hæstv. forsrh. benti á hér áðan. Þessu máli verður ráðið til úrslita hér á hv. Alþ. Við skulum vona, að sú gæfa fylgi íslensku þjóðinni, að Alþ. hafi vit fyrir ríkisstj., og það mun mörgum létta, þegar hugsað er til þess, að Alþ. Íslendinga hefur úrslitavaldið.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að það væri varla tímabært að ræða þetta mál hér í hv. Alþ., það gæti spillt fyrir ferð hæstv. utanrrh. til Washington, sem nú ætti að fara að gera erfiða samninga við Bandaríkin. Þetta er hreinn misskilningur. Það er nauðsynlegt fyrir hæstv. utanrrh. að vita um það, hver vilji Alþingis er í þessu efni, og kynna sér, hver vilji þjóðarinnar er í þessu máli. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að alþm. eru bundnir við samvisku sína og sannfæringu. En það er eigi að síður hollt fyrir alþm. að kynna sér vilja þjóðarinnar og taka nokkurt mið af því, sem er þjóðarvilji. Ég tel víst, að hæstv. forsrh. vill gera það. Ég vil ekki gera lítið úr undirskriftasöfnun Varins lands. 55 þús. Íslendingar hafa látið skoðun sína í ljós. Það bendir til þess, að mikill meiri hl. þjóðarinnar vill hafa Ísland varið.

Hæstv, iðnrh. sagði í sjónvarpsþættinum: Meðan her er í landinu, er landið ekki sjálfstætt. Slíka fullyrðingu hefur þessi hæstv. ráðh. og skoðanabræður hans oft látið sér um munn fara. Þetta er vitanlega fullyrðing, sem ekki stenst. Hér er varnarlið samkv. samningum við Ísland, - samningum, sem hæstv. iðnrh. var áðan að hrósa og lesa upp úr. Samningurinn kveður svo á, að Íslendingar ráði þessum málum, ráði því, hvort varnarlið er í landinu eða ekki. Ef varnarliðið eða herinn væri hér gegn okkar vilja, þá bryti það í bága við sjálfstæði okkar. Ætlar hæstv. iðnrh, að halda því fram, að Vestur-Þýskaland og önnur Vestur-Evrópuríki, sem eru með amerískt varnarlið í landinu, séu ekki sjálfstæð ríki? Er það skerðing á sjálfstæði Vestur-Þýskalands, Bretlands og fleiri Vestur-Evrópulanda, sem hafa amerískt varnarlið, að það er þar? Það kemur engum til hugar. Hæstv. iðnrh. hefur oft farið með fullyrðingar út í bláinn, sem ekki standast.

Hæstv. ríkisstj. vill gera landið varnarlaust. Það er mikið auðnuleysi og sakleysi, sem sækir á suma hæstv. ráðh., sem í eðli sínu vilja, að Ísland sé í vestrænni samvinnu, að þeir skuli vinna svo mikið til að þóknast samráðh. sínum, sem stefna í allt aðra átt, og virðast jafnvel vilja fórna sjálfstæði Íslands og öryggi. Það er vonandi, að hæstv. ráðh. skoði hug sinn betur og átti sig á þeim skyldum, sem á þeim hvíla sem forsvarsmönnum Íslands.

Einn hæstv. ráðh. var spurður að því, hvað fælist í þessum till. ríkisstj. Það má enginn vopnaður maður vera á vellinum, enginn hermaður, aðeins tæknimenn. Hann var spurður að því, þessi ráðh., hvernig það væri, ef óvinaflugvél kæmi með mönnum, sem vildu taka völlinn, hvort það mætti þá snúast til varnar. Nei, það má alls ekki. Íslendingar eiga nú á seinni hluta 20, aldar að vera varnarlausir, eins og þegar Jörundur hundadagakonungur kom og tók landið. Það er þetta, sem hæstv, ríkisstj. stefnir að að gera, og það er ekki hægt að hugsa sér aumara ástand en það að mega ekki og geta ekki snúist til varnar, hvað sem gerist. Við höfum ekki innlendan her. Það þýðir þess vegna ekki að jafna því saman, sem hér á að verða með till. ríkisstj., við það, sem er í Danmörku og Noregi, eins og hæstv. forsrh, gerði áðan. Hæstv. forsrh. gleymir því, að í Danmörku og Noregi er tiltölulega fjölmennt herlið, fjölmennt lið undir vopnum til þess að verjast fyrstu árás. Ísland verður sennilega eina sjálfstæða ríkið í veröldinni, sem engar varnir á að hafa. Og hvað skyldi Ísland verða lengi frjálst og fullvalda án varna í þessum kalda og stríðandi heimi, sem við búum í? Erum við ekki að bjóða hættunni heim með þessu? Ég held, að það sé nauðsynlegt, að við athugum þessi mál rækilega. Ég er sannfærður um það, að allir hv. alþm. vilja hæstv. utanrrh. vel. en ég held, að það væri best fyrir hann, áður en hann fer til Bandaríkjanna, að kynna sér rækilega, hvort meirihl. er á Alþ. fyrir þeim till., sem hann er með. Ef hann kæmist að raun um, að meirihl. Alþ. væri á móti þessum drögum, sem hann á að hafa í vasanum eða í töskunni, þá gæti hæstv. ráðh. sparað sér ferðalagið.

Hv. 2, þm. Reykn. talaði hér áðan og talaði skýrt. Það var enginn vandi að skilja hans orð. Hann segir, að þessi samningsuppdrög, þetta samningsuppkast feli í sér fullkomið varnarleysi, og hann vill ekki sýna það ábyrgðarleysi að ljá því atkv. Hv. 2. þm. Reykn. segir enn fremur, að hann hafi aldrei gefið drengskaparloforð um það að fylgja málefnasamningnum að því leyti að láta varnarliðið fara og gera landið varnarlaust. Einn hv. þm. úr stjórnarliðinu, framsóknarmaður, hefur sagt það í margra manna áheyrn, að hann hafi verið heima að búi sínu, þegar gengið var frá samningnum, og bann beri þess vegna alls enga ábyrgð á honum, ekki aðeins þessu eina atriði, heldur á sáttmálanum öllum. Það eru þá a.m.k. tveir hv. framsóknarmenn, sem ekki bera ábyrgð á þessu atriði, og fer þá að nálgast það, að það sé ljóst, hvað meiri hl. Alþ. vill. Ég held, að það sé alveg sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir hæstv, ríkisstj. og ekki síst fyrir þá hæstv. ráðh., sem talið hefur verið, að vildu vestræna samvinnu og vildu í reynd hafa varnir á Íslandi, að lesa fræðin betur og kynna sér ýmis atriði.

Hv. 2. þm. Reykn, sagði hér áðan, að það hafi ekki enn verið kannað, á hvern hátt vörnum Íslands verður best við komið, eða aðeins að litlu leyti kannað. En er það ekki frumskilyrði til þess að geta fengið vit í þessi mál, að málið sé kannað, að það sé ekki fálmað út í loftið, án þess að hugsað sé um, hvað Íslandi er fyrir bestu? Ég hef einhvers staðar sagt það, að ég teldi mig vita, hvar hjartað slær hjá hæstv. utanrrh. Ég hef talið míg vita, að hann vildi vel í þessum málum. Ég segi því: Það er raunalegt, ef til þess kemur, að hæstv. utanrrh. verði ýtt til þess að gera það illa, sem hann vill ekki gera. Ég ann hæstv. utanrrh, betra hlutskiptis.

Þegar við erum að ræða um þessi mál, verðum við að hafa það í huga, hvað er Íslandi fyrir bestu. Við verðum að hafa hagsmuni Íslands fyrir augum. Það nægir ekki, að við getum náð samkomulagi við Bandaríkjamenn, ef það fullnægir ekki hagsmunum Íslands. Það má vel vera, að Bandaríkjamenn geti fallist á þessar till. og þeir hugsi sem svo: Við skulum láta varnarliðið fara á næstu tveimur árum. Við verðum að athuga, hvort ekki er unnt að koma upp varnarstöðvum í Skotlandi og Grænlandi, og það verður athugað, hvort það fullnægir ekki okkar þörfum, vörnum Bandaríkjanna. — En hvernig erum við þá settir, Íslendingar, ef Bandaríkjamenn taka þannig á málunum? Ég held, að okkar hlutur verði þá ekki tryggður. Ég held, að það nægi okkur ekki að vera í NATO, ef við viljum ekki lána land undir varnarstöð, sem tryggir varnarmátt bandalagsins. Ég held, að ef við hrekjum varnarstöðina í burtu, verði litið á okkur sem aukaaðila í þessum félagsskap. Ég held, að við stefnum Íslandi þá í þá hættu, að við getum orðið austan tjalds, áður en við vitum.

Hæstv. iðnrh. minntist hér áðan á Írland og ástandið þar og vildi gefa í skyn, að ef við ræddum þessi mál, þá værum við að kljúfa þjóðina í tvo andstæða hópa og það gæti valdið því, að örlög okkar yrðu eitthvað svipuð og Írlands. Þannig mátti skilja orð ráðh. Þessi samanburður dugir ekki, vegna þess að hann er ekki dreginn fram á viðeigandi og sams konar forsendum. En það var eftirtektarvert, að hæstv. ráðh, minntist ekki á Eystrasaltsríkin eða önnur Austur-Evrópuríki, sem hafa fengið helsið á sig og losna sennilega seint eða aldrei undan því.

Ég geri ráð fyrir því, að ég sé farinn að níðast nokkuð á ræðutímanum. En hæstv. forseti hefur verið frjálslyndur í þessum umr. og ekki bundið sig bókstaflega við þingsköpin. Þá fyrirgefst mér það eins og öðrum, sem hér hafa talað, þótt ég hafi orðið nokkru langorðari en beinlínis er leyfilegt samkv. þingsköpum. Ég get látið máli mínu að mestu lokið, en ég vildi nota tækifærið til þess að minna hér á nokkur atriði, sem ég hef nefnt, og ég vil fullvissa hæstv. utanrrh. um, að þótt ég og aðrir sjálfstæðismenn tölum í þessu máli, þá er það ekki gert til þess að spilla fyrir ferð hæstv. ráðh. Víð viljum, að það fari fram endurskoðun á varnarsamningnum, en við viljum, að samningurinn verði endurnýjaður í því formi, að öryggis Íslands sé gætt, eftir því sem verða má. Við teljum það fullkomið ábyrgðarleysi að láta varnarliðið fara, eins og enn er ástatt í heimsmálum, og gera landið varnarlaust. Við teljum það hjal út í bláinn, alveg marklaust, þegar það er fullyrt, að nú séu þeir friðartímar, að við þurfum ekkert að hugsa um okkar varnir eða öryggi Það er langt frá því að nú séu friðartímar. Það er alltaf verið að berjast einhvers staðar á hnettinum, það er alltaf verið að framleiða fullkomnari og fullkomnari vopn, og valdabaráttan í heiminum er ekkert síðri nú en hún hefur verið. Við verðum sjálfra okkar vegna, vegna þessarar kynslóðar og framtíðarinnar að gera skyldu okkar og gæta öryggis Íslands. Sagan verður skráð hér eftir eins og hingað til. Hæstv. ríkisstj. hefur brugðist. En hún á þess kost að endurskoða afstöðu sína og bæta að nokkru fyrir þær misgerðir, sem hún nú hefur gert.