26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3127 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

258. mál, búseta á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti, Þessi till., sem hér er til umræðu, fjallar um stuðning við búsetu á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, og eru flm. 10. hv. þm. af Norður- og Austurlandi, en till. hljóðar þannig og skýrir sig best sjálf:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að treyst verði til frambúðar búseta á Hólsfjöllum í Norður-Þingeyjarsýslu og Efra-Fjalli í Norður-Múlasýslu. Er ríkisstj. heimilt að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir í þessu sambandi. Skal hún m.a. beita sér fyrir því, að við gerð landshlutaáætlana þeirra, sem unnið er að fyrir Norður-Þingeyjarsýslu og Austurland, verði sérstaklega fjallað um úrræði til lausnar byggðavanda Hólsfjalla og Efra-Fjalls.“

Eins og fram kemur í mjög ýtarlegri greinargerð og fylgiskjölum, sem þessari till. fylgir, vofir sú hætta yfir byggð á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, að hún fari í eyði á næstu árum, ef ekki er alveg sérstaklega að gert. Það háttar nú þannig um búsetu og byggð á þessum slóðum, þ.e.a.s. á Hólsfjöllum, sem eru sérstakur hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu, og svo á Efra-Fjalli sem kallað er, að í Fjallahreppi er búið á fjórum bæjum og þar eru 26 íbúar, en í Möðrudal og Víðidal. sem eru tveir byggðir bæir á Efra-Fjalli, búa samtals 5 manns. Þannig hefur verið nú undanfarin ár og áratug, að fólki hefur fækkað ákaflega mikið á þessum slóðum. Býli hafa fallið úr byggð, t.d. á Hólsfjöllum, og ekki annað sýnna heldur en viðnámsþróttur þessara byggða sé mjög þverrandi.

Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál, að það á sér vissan aðdraganda hér í þinginu. Þannig var, að á Búnaðarþingi, sem lauk störfum fyrir um það bil þremur vikum eða svo, var fjallað um þetta mál, flutt um það till. af tveimur búnaðarþingsfulltrúum af Norður- og Austurlandi, og sú till. þeirra fékk þá afgreiðslu, sem fram kemur í fskj. með þessari till. okkar tímenninganna. Þar kemur það fram, að Búnaðarþing ályktar í þá átt, að beint er áskorun á Landnám ríkisins að hlutast til um, að treyst verði til framhúðar byggð á Hólsfjöllum ásamt Möðrudal og Víðidal. Ályktunin er að vísu nokkru lengri, en ég sé ekki ástæðu til að rekja hana öllu meira. En ég veit, að hv. þm, allir eru mjög vel kunnugir á þessum slóðum, því að ólíklegt er, að til sé sá maður hér í þinginu og raunar fáir fullvaxta Íslendingar, sem ekki þekkja nokkuð aðstæður á þessum slóðum og vita, hvað við er átt, þegar rætt er um byggðina á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, því að allir, sem fara þjóðveg milli Austur- og Norðurlands, fara um á þessum slóðum. Þeir fara um hlað t.d. á Grímsstöðum á Fjöllum og raunar Víðidal einnig og ekki síst um Möðrudal.

Það kemur fram í grg. fyrir þessari till. og í fskj. með henni, að ef svo illa tækist til, að byggð félli með öllu niður á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, þá yrði ekkert byggt ból á þeirri löngu leið, sem liggur úr Mývatnssveit austur á Jökuldal, og er óhætt að fullyrða, að það yrði langsamlega lengsta leið milli byggða eftir þjóðvegi á Íslandi nú. Þetta er ein meginástæðan til þess, að við höfum flutt þetta mál, að við viljum benda á, hvað í húfi er, ef litið er á þetta beinlínis frá þjóðhagslegu sjónarmiði og frá sjónarmiði samfélagsins í heild, að samgönguöryggi í landinu sé stórlega stefnt í voða, ef til þess kæmi, að byggð félli þarna niður. En vissulega kemur líka margt fleira til, að ástæða er til þess að hyggja að búsetunni í Fjallabyggðunum á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, því að það er sannleikur, að þó að þessar byggðir liggi nokkuð langt frá sjó og frá öðrum byggðum, þá er víst, að það er mjög gott undir bú á þessum jörðum. Það er sérlega gott undir sauðfjárbú á þessum jörðum og er raunar landsþekkt. Möðrudalur t.d. er þjóðkunn bújörð. Þó að þar hafi því miður dregist mikið saman búskapur á síðari árum af ýmsum sökum, þá er þess að minnast, að það er ekki langt síðan í Möðrudal var búið kannske einna best á öllu Íslandi. Og sama er að segja um Hólsfjöllin. Þar er ekki síður gott undir sauðfjárbú, og verður fé óvíða vænna á landinu en þar. Það er því full ástæða til þess af öðrum sökum en samgönguöryggismálum, að byggð haldist á þessum slóðum. Það hefur líka búskapargildi.

Það er minnt á það í þessari till. okkar, að verið sé að vinna að gerð landshlutaáætlana fyrir Norður-Þingeyjarsýslu og fyrir Austurland, en að þessum áætlunum er unnið á vegum Framkvæmdastofnunarinnar. Við bendum á það, flm., að það sé eðlilegt, þegar fjallað er sérstaklega um þetta mál, sem við erum að ræða hér í dag, um að styðja búsetu á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli, þá er eðlilegt að minna á það, að þessi mál verði sérstaklega tekin til skoðunar í sambandi við gerð landshlutaáætlananna fyrir þessa landshluta, Norður-Þingeyjarsýslu og Austurland, enda eru þessir staðir hluti af því svæði, sem þarna á að gera áætlanir um.

Það er að vísu ekki möguleiki á því fyrir mig nú að fara ítarlega út í það, hvað hægt væri að gera í þessu sambandi. En ég vil þó segja almennt um þetta, að eðlilegast er að koma til móts við þann vilja, sem fyrir hendi er um að búa áfram á þessum jörðum. Ég þori ekki að segja um það, hvernig það er á bæjunum á Efra-Fjalli, þar er ég minna kunnugur, en því er ég vel kunnugur, að á Hólsfjallabæjum, einkum á Grímsstaðatorfunni, er mjög mikill áhugi á því að viðhalda byggðinni. Þar er búið og vel búið enn, en bændur þar gerast nú að vísu nokkuð aldraðir. Hins vegar er víst, að ungir menn þaðan upprunnir hafa í huga að setjast þar að og vilja búa þar um sig til frambúðar, bæði með því að stunda þar búskap og raunar önnur störf, iðnaðarstörf og þjónustustörf, sem þeir kunna fyrir sér í. En óneitanlega eru vissir annmarkar á því fyrir ungt fólk að setjast þarna að. Það er erfitt að afla ýmissa nútímaþæginda, og vetrareinangrun er vissulega mikil. Þess vegna er það eitt af því fyrsta, sem því dettur í hug að gera þurfi, þ.e. að auðvelda þeim, sem þarna vilja búa, að afla sér nútímaþæginda á sem auðveldastan hátt og einnig að leysa sem best samgöngumálin.

Herra forseti. Ég hef nú skýrt hér í örfáum orðum það, sem fyrir okkur vakir með flutningi þessa máls. Það skiptir ekki ákaflega miklu máli, hvað mikið ég segi um þetta nú hér í hv. Alþingi. Hins vegar skiptir það afar miklu máli, hvernig viðtökur málið fær hjá þeirri nefnd, sem kæmi til með að fjalla um það hér í þinginu, og síðan, hvaða lokaviðtökur málið fær hér í hv. þingi, þegar að því kemur að afgreiða það endanlega. Grg. fyrir till. er ítarleg, og fskj., sem henni fylgja, lýsa ekki síður vel því, sem við höfum í huga með flutningi þessa máls. Ég vísa því til grg. og fskj.. um það, sem frekar mætti segja til stuðnings þessu máli.

Mér skilst, herra forseti, að það hafi verið ákveðið að hafa tvær umr. um þetta mál, og þá sýnist eðlilegast, að málið gangi til fjvn., og vil ég gera það að till. minni.