27.03.1974
Neðri deild: 91. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

289. mál, lántökuheimild fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 596 er frv. til l. um lántökuheimild fyrir ríkissjóð, og er það frv. það, sem ég boðaði hér í gær, að fram yrði lagt í dag, vegna kaupa á bréfum vegna endurnýjunar á húsum í Vestmannaeyjum. Sem lánamál ríkissjóðs er þetta ekki nema að forminu til, því að 1. gr. frv. heimilar ríkissjóði að gefa út skuldabréf fyrir 600 millj. kr., en skuldabréfin, sem eru gefin út samkv. l. þessum, má ríkissjóður einungis selja Viðlagasjóði og skulu þau vera óframseljanleg. Lánsfé það, sem aflað er með sölu ríkisskuldabréfa þessara, skal lagt inn á sérstakan reikning ríkissjóðs við Seðlabankann vegna skuldbindinga Viðlagasjóðs.

Það, sem hér er um að ræða, er, eins og ég sagði frá í gær, í fyrsta lagi það, að tilgangur með þessu lagafrv. er að reyna að tryggja það, svo sem auðið er, að það fjármagn, sem út er greitt vegna húsa þeirra, sem urðu eldi og hrauni að bráð í Vestmannaeyjum, festist með verðtryggingu þessari og verði notað eingöngu til þess að byggja hús í Vestmannaeyjum. Það er ótti forráðamanna Vestmannaeyjakaupstaðar, að ef þetta fé fær að leika lausum hala, þá festist það í húsum hér eða annars staðar hjá þeim aðilum, sem geta breytt þessum peningum strax í húsnæði. En til þess að hamla gegn þessu á að verðtryggja þessa fjármuni, og mun þessi verðtrygging að sjálfsögðu kosta ríkissjóð einhverja fjárhæð, áður en lýkur, og er ekki hægt á þessu stigi að segja fyrir um það, um hve mikla fjárhæð þar gæti verið að ræða. En að dómi ríkisstj. var niðurstaðan, að réttmætt væri að leggja til, að þessi háttur yrði á hafður sem framlag til þess að endurreisa byggð í Vestmannaeyjum. Innlánstími og önnur kjör skulu ákveðin af fjmrh. að fenginni umsögn stjórnar Viðlagasjóðs og Seðlabanka Íslands. Er gert ráð fyrir því, að þeir Vestmanneyingar, sem hafa fengið bætur sínar greiddar að hluta til, geti átt kost á því að festa þau í þessum bréfum fram til 1. maí, en lengur ekki.

Þetta frv. skýrir sig að öðru leyti sjálft. Það hefur tvíþættan tilgang: Í fyrsta lagi, sem er aðalatriði málsins, að reyna að tryggja það, að hús verði reist í Vestmannaeyjum fyrir þá fjármuni, sem útborguninni nemur og er talið, að eina tryggingin, sem hægt sé að veita í því, sé verðtrygging, svo að fjármunirnir rýrni ekki á biðtímanum. Þeir verða svo ekki greiddir út, fyrr en vottorð um fokhelt húsnæði byggt í Vestmannaeyjum liggur fyrir. Þá kemur fyrsta greiðsla á þessu fé. Í öðru lagi hefur þetta þau áhrif, að það spornar gegn því, að þetta fé hafi nú þegar áhrif á húsnæðismarkaðinum og auki spennu á þessu svæði.

Þar sem þetta mál hefur dregist af þeim ástæðum, sem ég greindi frá í gær, og næstu bætur verða greiddar út 1. n.m., verð ég að leyfa mér að fara fram á það við hv. d., af því að ég vona, að alger samstaða sé um málið, ég hef áður rætt það við þá aðila, sem ekki standa að ríkisstj., — að þetta mál fái að sigla hraðbyri í gegnum d. og það svo, að hv. fjh.- og viðskn. geti skilað áliti fyrir fund á morgun og það tekið þá aftur fyrir, og þyrfti að afgreiða það sem lög á morgun vegna undirbúnings málsins, sem reyndar er þegar hafinn. Ég treysti því, að svo geti orðið, og leyfi mér, herra forseti, að leggja til. að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.