27.03.1974
Neðri deild: 91. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

46. mál, jarðalög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs undir umr. um þetta mál s.l. fimmtudag, er hæstv. landbrh. var að flytja ræðu sína, sem átti að vera svarræða, að mér skildist, til mín og hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóns Þórðarsonar.

Vegna þess, hver dráttur hefur orðið á framhaldi þessarar umr., skal ég ekki lengja hana mjög, en víkja örfáum orðum að þeim fáu efnisatriðum, sem fram komu í ræðu hæstv. ráðh. Hæstv. landbrh. hélt sér fast við það, að mál þetta væri vandlega undirbúið og hefði hlotið meðmæli og samþykki forustusveitar landbúnaðarins, hinna ýmsu félagssamtaka á vegum landbúnaðarins, Búnaðarþings, Stéttarsambands bænda og kjörmannafunda. Þetta er rétt, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu. En fram hjá því verður ekki gengið, að sumir þeir menn, sem á fyrri stigum þessa máls mæltu með samþykkt þess, hafa nú við nánari athugun skipt um skoðun og mæla með því, að frv. verði vísað frá, og það tekið til gagngerðrar endurskoðunar og það á grundvelli verulega veigamikilla atriða. Fram hjá þessu atriði komst hæstv. ráðh. ekki og hafði einungis um það þau orð, að hann felldi sig illa við, að ýmsir þeir menn, sem um málið hefðu fjallað á Búnaðarþingi og hjá Stéttarsambandi bænda, skyldu nú leggja fram breyttar umsagnir. Hæstv. ráðh. vill sem sagt heldur halda þessu máli til streitu í upphaflegu formi en að taka til greina ábendingar frá sumum helstu forvígismönnum landbúnaðarins um að taka málið upp að nýju til ítarlegrar endurskoðunar. Ég hlýt að líta svo á, að í þessu felist mjög óeðlileg og vafasöm afstaða hjá hæstv. ráðh. Ég hefði haldið, að hann vildi heldur hafa það, sem sannara reynist, en svo virðist ekki vera miðað við þetta. Ég tel, að þegar þeir menn, sem um þetta mál hafa fjallað í sérstökum n. bændasamtakanna, breyti svo um afstöðu eins og hér hefur komið fram, þá beri að taka það til athugunar að nýju.

Hæstv. ráðh. taldi, að Húnvetningar væru undarlega sinnaðir menn, og virtist það grundvallað á því, að ég vitnaði í umsögn Landeigendafélags A.- Húnavatnssýslu. Ég hefði nú haldið af kynnum mínum við hæstv. landbrh., að hann þekkti Húnvetninga nokkuð, og með hliðsjón af því, að honum varð tíðrætt um hin pólitísku gleraugu, sem hann taldi að sett hefðu verið upp á nef þeirra manna, sem um þetta mál hafa fjallað nú á seinni stigum, þá vil ég algerlega vísa þeim heim til föðurhúsanna, að forustumenn bænda í Húnavatnssýslu eða annars staðar hafi byggt umsagnir sínar á pólitískum sjónarmiðum. Hæstv. ráðherra er auðvitað velkomið að bera fram getsakir í minn garð og annarra þeirra hér á hv. Alþ., sem svarað geta fyrir sig og vísað slíkum getsökum til baka. Hins vegar tel ég, að hann hefði ekki átt að láta sér sæma að bera fram getsakir í garð fjarstaddra manna, ýmissa forustumanna bænda í héruðum um land allt, sem látið hafa frá sér fara sterkar athugasemdir og mótmæli gegn þessu frv. og getsakir um, að þau væru sprottin af pólitískum toga. Ég teldi það viðkunnanlegt, ef hæstv. ráðh. drægi allar slíkar getsakir til baka og bæðist afsökunar á slíkum málflutningi.

Hæstv. ráðherra er það kunnugt, að hér á hv. Alþ. hafa setið menn og sitja, sem eru fulltrúar Húnvetninga, og ég hygg, að hann hafi kynnst því í sínum flokki og öðrum flokkum, að þeir hafa ekki alltaf látið hnýta á sig pólitíska hnappheldu, sem þeir hafa ekki haft dug í sér til þess að smeygja sér úr. Auk þess veit ég til þess, að hæstv. ráðh. þekkir Húnvetninga einnig frá fleiri stofnunum, heldur en hv. Alþingi.

Hæstv. ráðherra ítrekaði það, að sá vandi, sem við væri að etja í sambandi við eignarráð á landi og ábúð jarða, væri mikill, og úr því hefur ekki verið dregið hér af þeim, sem mælt hafa gegn þessu frv. Hæstv. ráðh. talaði um, að það þyrfti að verjast því, að fjármagnið yrði notað til þess að kaupa upp landbúnaðarlandið, og það mætti jafnvel búast við því, að landið lenti með þessum hætti í höndum erlendra manna. Ég undraðist nokkuð, þegar þetta kom fram í ræðu hæstv. ráðh., vegna þess að ég leit svo á, að hann hlyti að vita, að fyrir því er ekki heimild í íslenskum lögum að selja útlendingum land á Íslandi. Allt frá árinu 1919 hefur það verið skilyrði til þess, að einstaklingar eignuðust land, að þeir væru búsettir hér á landi. Og með l. frá 1966 var það enn fremur í lög fært, að þeir skyldu hafa íslenskan ríkisborgararétt, sem ættu kost á því að eignast landskika á Íslandi. Þetta hafði ég haldið, að hæstv. ráðh, vissi og kæmi ekki fram með slíkar athugasemdir.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að ég og aðrir, sem höfum gagnrýnt þetta frv., mundum snúa, eins og hann kallaði það, frá villu okkar vegar í því efni við nánari umhugsun. Þetta er algjör fjarstæða, vegna þess að það kemur hvarvetna fram, þar sem menn skoða þetta mál nánar, þá koma gallar þess æ meira í ljós. Þessa megingalla ræddi ég í minni fyrri ræðu í síðustu viku og skal ekki endurtaka það, nema sérstakt tilefni gefist til. En það er fásinna að bera okkur það á brýn, að við ræðum þetta mál út frá pólitísku sjónarmiði, þegar um slíkt mál er að ræða, sem varðar hag og heill þeirrar stéttar, sem ég a.m.k. telst til. Ég andmæli því mjög sterklega, að það hafi verið sett á nef okkar nokkur pólitísk gleraugu. Hins vegar vil ég beina því til hæstv. ráðh., að ég tel, að svo kunni að fara, að hann muni hafa ærið að starfa, ef hann ætlar sér að binda svo hin pólitísku gleraugu á nef allra þeirra stuðningsmanna hæstv. ríkisstj., sem setu eiga hér á hv. Alþ., að þeir fáist til að styðja þetta frv. í því formi, sem það er.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Það liggur fyrir, að málið gengur til þeirrar þn., sem ég á sæti í. Til þess gefst væntanlega tækifæri að taka frv. til ítarlegrar skoðunar og láta koma fram nánari athugasemdir við það en ég hef gert, bæði hér og einkanlega þó í minni fyrri ræðu á fimmtudaginn var, og mun ég því ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. — En ég ítreka það, að frv. þetta er svo stórgallað, að alls ekki er réttlætislegt, að það verði afgreitt í þeirri mynd, sem það er. Kemur hvort tveggja til, að það nær ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað að ná, og sú lausn, sem það býður, er með engu móti viðunandi fyrir þá, sem við eiga að búa, vegna þess að hún felur það í sér, að takmörkuð eru stórkostlega réttindi einnar stéttar þjóðfélagsins, miðað við það, sem aðrar stéttir eiga við að búa, og slíka lausn vil ég með engu móti fallast á.