01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sjálfstæðismenn voru andvígir lagasetningu um Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeir gagnrýndu allan þann málatilbúnað og þau pólitísku afskipti, sem m.a. var ætlað að hafa í sambandi við hagrannsóknir á vegum ríkisins. Áætlað var að setja hagrannsóknir undir pólitíska stjórn, andstætt því, sem verið hafði í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Við beitum okkur því fyrir því að fá fram breytingu á frv., og náðist fram nokkur leiðrétting þar á. Með frv. þessu hefur ríkisstj. fallist að öllu leyti á sjónarmið okkar, er hún leggur til við Alþ., að sett verði á stofn sérstök stofnun, sem fari með hagrannsóknir á vegum ríkisins án pólitískrar stjórnar, og sá starfsþáttur verði klofinn frá Framkvæmdastofnun ríkisins.

Við sjálfstæðismenn munum ekki í sambandi við þetta frv. gera till. um frekari breytingar á l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en viljum taka það fram, að við teljum fulla ástæðu til að taka þau lög til heildarendurskoðunar, og það þarf að gera fyrr en seinna.

Um leið og við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. styðjum þetta frv., eins og fram kemur í nál. á þskj. 595, leggjum við til á þskj. 611 ásamt tveimur öðrum nm., að gerð verði á frv. sú breyting, að hin fyrirhugaða stofnun verði ekki aðeins ríkisstj. til ráðuneytis, heldur og Alþingi, og stofnunin veiti alþm. og n. Alþ. upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Þá leggjum við til, að nafni stofnunarinnar verði breytt í Þjóðhagsstofnun, en okkur finnst það mun betra en það, er frv. gerir ráð fyrir.

Hv. 7. þm. Reykv., einn af flm. brtt., gerði grein fyrir þeim hér áðan, og sé því ekki ástæðu til frekari umr.