03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þetta frv. og rifja þá upp, raunar svipað og síðasti ræðumaður gerði hér, að þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram frv. á sínum tíma haustið 1971 um Framkvæmdastofnun ríkisins, gerðum við í Alþfl. það að skilyrði fyrir stuðningi við frv., að II. kafla þess, 6. gr., yrði breytt þannig, að svonefnd hagrannsóknadeild heyrði beint undir ríkisstj. Var fallist á það og frv. breytt í þetta form.

Hæstv. forsrh. sagði áðan í ræðu sinni, að hér væri raunar um að ræða frv., sem væri staðfesting á því, sem átt hefur sér stað í framkvæmd. Við spáðum þessu í umr., að nauðsynlegt yrði, að hagrannsóknadeild, sem nú á að kalla Þjóðhagsstofnun, fengi sérstakt valdsvið og starfaði óháð, svo að allir bæru traust til þessarar stofnunar. Menn hafa fengíð þá tilfinningu fyrir starfsemi þessarar deildar, að hún sé sanngjörn og störf hennar vel af hendi leyst og rétt, að hún starfi sem óháðast og meti hlutlaust aðstæður efnahagslega og önnur verkefni, sem þessari deild og starfsmönnum þar er falið.

Ég vil aðeins fagna því, að frv. er komið fram. Það er búið að vera undarlega lengi að velkjast fyrir þeim í Nd. Ég held, að efnislega hljóti menn að vera sammála um nauðsynina á því, að hér sé stofnun, sem allir geta treyst, bæði atvinnuveitendur og launþegar og engu síður Alþ. og ríkisvaldið.

Það er mikið talað um það nú í blöðum og öðrum fréttamiðlum, hversu óvenjumikill tími hefur farið í samningagerð og hvernig menn hafa viljað túlka stöðu þjóðarbúsins á misjafna vegu, og er höfuðnauðsyn á því, að við megum treysta þeim gögnum, sem frá þessari stofnun koma um gjaldgetu atvinnuveganna og um launamöguleika almennings í landinu. Ég vil því mjög undirstrika það, að þessi stofnun fái nauðsynlegt svigrúm til þess að afla þeirra gagna, nauðsynlegt starfslið og nauðsynlegan kostnað borinn upp til þess að inna hlutverk sitt sem best af hendi. Hjá því verður ekki komist, ef við eigum að halda meira jafnvægi í búskap okkar en verið hefur undanfarið. Það fer ekkert á milli mála, að nú er slíkt stjórnleysi vegna ýmiss konar klaufaskapar og mistaka í mótun efnahagsstefnu, að þessi mál verður að taka til rækilegri endurskoðunar en verið hefur, og ég vænti þess, að þessi stofnun, sem við erum að setja á fót, — þótt ekki sé neitt gleðiefni út af fyrir sig að vera að fjölga stofnunum endalaust, — sanni gildi sitt og eigi þess vegna fullkomlega tilverurétt.

Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að minnast á, að á sínum tíma svaraði hæstv. forsrh. því til eftir fsp. minni hér í hv. d., að framkvæmd lána úr Byggðasjóði yrði háttað með hliðsjón af þörfum alls landsins, og það er hægt að fletta þessu upp, ef á þarf að halda. Síðan setur stjórn Byggðasjóðs þær reglur, að það verði dregin lína frá Þorlákshöfn þvert í norður og til Akraness og það svæði, sem sunnan og suðvestan fellur, sé vart lánshæft. Þetta tel ég miður farið. Að vísu eru til einstaka undantekningar í þessu tilfelli, en ég mótmæli svona vinnubrögðum mjög ákveðið. — Einnig átel ég það, að öllum alþm. skuli ekki vera send nákvæm grg. um starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar í heild. Það eina, sem ég hef fengið hér á borðið og ekki einu sinni reglulega, er ágrip eða yfirlit yfir vissa efnahagsþætti í þjóðfélaginu. Ég tel, að stofnun eins og Framkvæmdastofnun ríkisins eigi að skila nauðsynlegri skýrslu um starfsemi sína og lánveitingar á borð alþm., og við eigum ekki að þurfa að elta þetta uppi, ef slík skýrsla er gerð. Nú veit ég ekki, hvort slík skýrsla hefur verið gerð, en ég tel það a.m.k. nauðsynlegt, ef svo er ekki, vegna þess að svo mikið fjármagn og svo mikið ákvörðunarvald fer í gegnum þessa stofnun, að það er óhjákvæmilegt fyrir okkur á Alþ. en fá að fylgjast með því efni. En ég vil fagna frv. sem slíku, styð það og mun ekki tefja fyrir framgangi málsins, en það mun koma í þá n., er ég á sæti í.