03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

295. mál, vegalög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég skal strax taka það fram, að ég er fyllilega samþykkur þessum frv., sem hér hafa verið lögð fram um vegamálin, og ég ætla ekki að fara að ræða þau neitt almennt hér. En mig langar þó til að vekja athygli á örfáum atriðum í sambandi við það mál, sem hér er til umr., sem mér finnast athyglisverð og ástæða væri til að hnika aðeins til.

Ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að það hafi verið til mikils baga, að Vegasjóður hefur ekki verið verðtryggður, ef svo mætti segja. Sýsluvegasjóðirnir eru hins vegar verðtryggðir að miklu leyti, því að framlög til sýsluveganna fara eftir kaupgjaldi í landinu þá og þá. En megintekjustofn Vegasjóðsins hefur verið bundinn í krónutölu, og af því hefur leitt, að á þeim árum, þegar vegáætlun er ekki endurskoðuð, hefur jafnan myndast halli, — auðvitað er hann því meiri, þegar meiri sveiflur eru til hækkunar á verðlagi almennt.

Nú eru í þessum frv. um tekjuöflunina, fjáröflun Vegasjóðs, ákvæði í 8. gr. um það, að verðtryggja megintekjustofninn að nokkru eða heimila ráðherra að hækka hann tilsvarandi við aðrar hækkanir. Ég fagna þessu ákvæði sem viðleitni í rétta átt til þess að tryggja Vegasjóðinn, þannig að hann geti staðið við sitt. En mér finnst þó, að hér sé ekki nægilega hreint gengið til verks. Ég tel, að það væri ástæða til þess að setja inn í 10. gr. l., sem fjallað er um í 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir, ákvæði um það hreinlega, að árlega skuli endurskoða allar tölur um tekjur og gjöld samkv. vegáætlun. Þessi grein, 10. gr. l., mælir fyrir um það í 1. mgr., að vegamálastjóri semur till. að vegáætlun o. s. frv. Og í 2. mgr. segir, að eftir að vegáætlun hafi gilt í 2 ár, skuli samin ný áætlun fyrir 4 næstu ár, þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi áætlun fyrir a.m.k. 2 ár. Ég tel eðlilegt, að hér bætist við 3. mgr. eitthvað á þessa leið:

„Árlega skal endurskoða allar tölur um tekjur og gjöld samkv. vegáætlun“.

Það er ekki raunhæft að haga þessu á annan veg, og þá ætti að taka það ákveðið fram í lögum.

Þá vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því, að vegir að flugvöllum verða nú teknir inn í vegakerfið. Ég held, að það hafi verið fyrir mistök, að þeir voru utan við, þegar síðustu vegalög voru sett. En af hverju sem það var, þá voru þeir ekki með þá. En nú er lagt til að taka þá inn, annars vegar með heimild til þess að taka í tölu landsbrauta vegi að flugvöllum utan kaupstaða, þar sem reglubundið áætlunarflug hefur verið starfrækt samkv. leyfi samgrn. í eitt ár eða lengur, og hins vegar, að það sé heimilt að taka vegi að sjúkraflugvöllum í tölu sýsluvega. Ég er ekki alveg viss um, hvort hér er nægilega skýrt greint á milli. Það er rekið tvenns konar áætlunarflug í landinu, annars vegar flug með stórum flugvélum út frá Reykjavík á fjölmarga flugvelli og hins vegar áætlunarflug með póst og farþega út frá stærri völlunum. Ég tel alveg tvímælalaust, að þeir vellir, sem njóta áætlunar flugpóstvélanna, eigi að heyra undir landsbrautirnar. Ég get nefnt eitt dæmi um aðstæður, þar sem að mínum dómi væri mjög óeðlilegt annað en flugvallarvegur kæmi undir landsbrautir. Það er verið að byggja flugvöll í Seyðisfirði. Hann er eina 7–8 km frá kaupstaðnum. Sú leið liggur hins vegar í gegnum Seyðisfjarðarhrepp og það væri mjög óeðlilegt, að það kæmi í hlut sýslunnar að annast lagningu, viðhald og snjómokstur þess vegar, sem fyrst og fremst er notaður fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. — Ég get ekki séð, að hér þurfi að standa „reglubundið áætlunarflug“. Mér finnst þetta tvítekning, og ég held, að ef hér kæmi bara „reglubundið flug“, þá væru tekin af öll tvímæli um þetta.

Þá vildi ég aðeins minnast á ákvæðin um sýsluvegina. Það er hér gert ráð fyrir að auka verkefni sýsluvegasjóðanna nokkuð, og það er einnig gert ráð fyrir því bæði í 5. og 6. gr. frv. að auka tekjur sýsluvegasjóðanna. Ég veit ekki, hvort það er gott að áætla þetta nákvæmlega, enda held ég, að það liggi ekki fyrir nákvæm áætlun um það, og ég held, að það sé ekki hægt að sannreyna, hvort tekjuaukinn mæti væntanlegri aukningu gjalda. Ég gæti trúað því, að hann gerði ekki mikið meira. En ég er þeirrar skoðunar, að hér þurfi meira að koma til. Ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, því að það hafa komið fram áskoranir frá sýslunefndum, m.a. á Austurlandi, í þá átt að auka tekjur sýsluvegasjóðanna og þá alveg án tillits til nýrra verkefna, heldur til þess að leysa þokkalega af hendi þau verkefni, sem fyrir eru. Ég tel, að það væri ástæða til þess að ganga örlitið lengra í því að auka tekjur sýsluvegasjóðanna, t.d. með því einfaldlega að hækka grunninn úr 3 dagvinnustundum upp í 4 dagvinnustundir, eins og lagt hefur verið til í ályktun a.m.k. frá einhverjum sýslunefndum. Það kemur fram í ályktun sýslunefndar Suður-Múlasýslu, að það hafi víðar komið fram einmitt þessi hugmynd.

Þá er annað atriði í sambandi við sýsluvegasjóðina, sem ég vil vekja athygli á. Það er um skiptingu ríkisframlagsins til sýslnanna. Ákvæði um það er að finna í 28. gr. vegalaganna. Þar segir svo:

„Vegamálastjóri annast skiptingu á framlagi ríkissjóðs samkv. 1. mgr. eftir reglugerð, sem ráðh. setur. Skal framlag til sýslu aldrei vera lægra en helmingur þess, er hún lagði til sýsluvegasjóðs það ár, sem ríkisframlagíð miðast við. Að öðru leyti skal við skiptingu ríkisframlags aðallega miðað við notkun á lengd þeirra sýsluvega í hverri sýslu, sem falla undir a-c-lið 19. gr., en jafnframt skal þó höfð hliðsjón af því, hve mikill hluti þeirra vega er lagður, ruddur eða ekki akfær.“

Ég tel, að eins og nú er komið a.m.k., sé ekki tekið nægilega mikið tillit til ástands veganna, ástands sýsluveganna. Það er eðlilegt, að mikið tillit sé tekið til lengdar og notkunar, eins og lagagr. gerir ráð fyrir. Það er eðlilegt, að reglu gerðin geri það. En ég tel ástæðu til að endur skoða þetta, og ég tel, að það hefði átt að breyta þessari lagagr. á þá leið, að þegar búið er að taka fram, að sýsla skuli aldrei fá lægra en helming þess, er hún lagði fram til sýsluvegasjóðs það ár, sem ríkisframlagið miðast við, þá hefði ég haldið, að væri eðlilegt að setja ákvæði á þessa leið í stað þess, sem ég áðan las:

„Að öðru leyti skal við skiptingu ríkisframlags miðað við notkun og lengd sýsluvega í hverri sýslu og hve mikill hluti þeirra vega er lagður, ruddur eða ekki akfær.“

Það er, eftir því sem ég best veit, orðinn ákaflega mikill munur á ástandi sýsluvega í þeim sýslum annars vegar, sem hafa stysta sýsluvegi og kannske um leið flest fólk, því að í reglugerðinni er tekið tillit til fólksfjölda að nokkru, og hins vegar í þeim sýslum, sem hafa vegina lengsta og kannske í sumum tilvikum hvað fæsta íbúa miðað við vegalengdina.

Ég geri ráð fyrir því, að ég leggi fram brtt. um flest þessara atriða, sem ég hef hér vikið að. Ég hef ekki gengið frá þeim enn þá, en vildi þó vekja athygli á þessum atriðum nú við 1. umr. málsins.