04.04.1974
Neðri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð hjá mér við þessa umr. Ég er að sjálfsögðu stuðningsmaður 1, gr. frv. um, að það verði unnið að því að draga úr áhrifum verðhækkana á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis með ráðstöfun á tekjum af 1% gjaldi, sem lagt er á söluskattsstofn, enda greiddi ég atkv. með samþykkt þeirra laga.

Varðandi 2. gr. höfum við heyrt hér efasemdir hjá ýmsum ræðumönnum um, að með henni verði réttlætinu náð, og það hafa komið fram óskir um, að allt verði þetta skoðað betur, Ég lýsi yfir andstöðu minni við gr., eins og hún er. Ég fullyrði, að það náist ekki það réttlæti, sem ég efast ekki um, að allir vilja ná. Og ég efast ekkert um, að hæstv. ráðh. vill ná réttlæti, En ég er sannfærður um, að það næst ekki með þeim hætti, sem hér er ráðgerður.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði varðandi eldra fólkið. Það liggur í augum uppi, að það verður harðar úti en ýmsir aðrir borgarar, ef farið er eftir þessari reglu. Ég tel, að eina ráðið til þess að ná réttlæti í þessu sé að greiða niður olíuna, og ég hef ekki sannfærst um, að á því séu svo miklir erfiðleikar sem sagt hefur verið.

Vegna þess að hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, er ekki hér lengur á fundi vil ég leiðrétta það, sem kom fram í ræðu hæstv, ráðh. áður í umr., að hann hefði viljað afhenda olíufélögunum þetta fé. Það mun hann ekki hafa viljað, heldur átti hann við það, að auðvitað yrði þetta fé greitt olíufélögunum eftir á miðað við sölu.

Ég held, að það hefði verið og sá ástæða til að gera nýja áætlun, athuga hvað raunverulega er mikið fé þarna til ráðstöfunar. Það hefur komið fram í máli manna, að ef þetta væru 750 millj., þá gerði það ekki betur en duga til þess að greiða niður hitunarkostnað við íbúðarhúsnæði. Ef þetta eru hærri upphæðir, 900 millj. t.d., ætti að vera hægt að taka iðnaðarhúsnæði með og jafnvel fleira og þar með verða auðveldara að greiða niður olíuna.

Ég er einnig andvígur þeirri aðferð, sem hugsuð er til þess að afla þeirra upplýsinga, sem þarf, til þess að þessi niðurgreiðsla geti átt sér stað. Það er ætlast til, að sveitarstjórnir geri viðskrn, grein fyrir fjölda þeirra íbúa í viðkomandi sveitarfélagi, sem búa við olíuupphitun. Það er einnig gert ráð fyrir því, að tekjum af þessu gjaldi skuli úthlutað fyrir milligöngu sveitarfélaga í samræmi við ákvæði 2. gr. Ég dreg í efa, að menn geri sér grein fyrir, hvaða verk þarna er um að ræða fyrir sveitarfélögin. Þau hafa ekki þessar upplýsingar á reiðum höndum, hve margir íbúar búi við olíukyndingu, og ég satt að segja sé ekki í fljótu bragði, hvernig þau eiga að afla sér þessara upplýsinga, nema þá með mikilli fyrirhöfn. Og þessa fyrirhöfn á að leggja á sveitarfélögin einfaldlega með því að skikka þau til þess með lagaþvingunum. Þetta tel ég ámælisvert. Ég tek undir það með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að þetta frv. verði sent til umsagnar Stéttarsambands bænda og Sambands ísl. sveitarfélaga. Slíkt er alger nauðsyn, að þessir aðilar fái að tjá sig um þetta mál.

Ég vil aðeins, fyrst ég var að minnast á 3. gr. benda á, að það er talað þarna um „skal úthlutað fyrir milligöngu bæjar- og sveitarfélaga“. Mér finnst satt að segja, að svona lagað eigi Alþ. ekki að senda frá sér, vegna þess að það er til eitt orð yfir þetta, og það er orðið sveitarfélög. Þarf því ekkert að tala um bæjar- og sveitarfélög. Þetta eru nú sjálfsagt mistök, en engu að síður ástæða til að laga það.

Ég vil einnig leiðrétta annað, sem mun hafa komið fram í máli hæstv, ráðh, varðandi það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði. Það mun hafa komið fram í ræðu ráðh., að sjálfstæðismenn hafi verið að tefja þetta mál. Það er ekki rétt. Sjálfstæðismenn hafa ekkert tafið þetta, siður en svo. — Hins vegar munu hafa liðið 3 vikur, frá því að síðasti fundurinn var haldinn í rn, og þar til þetta frv. var lagt fram. Og ég get varla ímyndað mér, að slíkt hafi gerst fyrir áhrif frá sjálfstæðismönnum.

Varðandi það annars, hvernig á að afla upplýsinga, ef þetta frv. verður að l. óbreytt, þá er til aðili í landinu, sem hefur talsvert af þessum upplýsingum undir höndum. Það er Fasteignamat ríkisins. Þær upplýsingar eru að vísu ekki nægilegar, vegna þess að að þeim málum hefur ekki verið unnið nægjanlega nú á allra síðustu árum. Það hefur staðið á því allt of lengi, að frv. um fasteignaskrá fengi afgreiðslu hér í þinginu. Það var ekki lagt fram fyrr en á þessu þingi, átti auðvitað að gerast löngu fyrr, og ef fasteignamatið hefði verið starfrækt eins og það eðlilega átti að gera, þá hefði verið auðvelt að fá allar þessar upplýsingar á örskömmum tíma og hefði ekki þurft að ætla sveitarfélögunum að afla þeirra. — Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umr.