05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh, fyrir grg. hans hér og hæstv. forseta Sþ. fyrir að hafa orðið við beiðni okkar að taka mál þetta á dagskrá. Við teljum, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að nauðsynlegt sé, að þingheimi og þjóð allri sé gert kunnugt um það, svo að við megum draga nokkurn lærdóm af þeim mistökum, sem orðið hafa.

Hæstv, forsrh. skýrði þessar leyfisveitingar og réttlætti þær annars vegar með því, að hér væri um algjörar undantekningar og undanþágur að ræða, sem, að því er manni skildist, yrðu ekki endurteknar, og hins vegar með því, að hér væri í raun og veru ekki um mjög frábrugðna þjónustu að ræða við erlend fiskiskip, hvað snertir austur-þýska togara að þessu sinni. Hvort tveggja getur ekki staðist. Það getur ekki verið unnt að leggja áherslu á, að hér sé um hrein undantekningartilfelli að ræða, eins og hann sagði, að leyfi ríkisstj. væri bundið við, og halda um leið fram, að hér væri ekki um frábrugðna meðferð þjónustu við erlenda togara að ræða.

Varðandi það atriði, hvort hér sé um frábrugðna þjónustu að ræða við erlend fiskiskip, miðað við venju, vil ég minna á, að sú regla gildir varðandi þjónustu við erlenda togara þ.á m. breska togara, að togarar fé hér ekki vistir eða olíu nema sem nægja til heimsiglingar, og áhafnaskipti eiga sér ekki stað hér á landi í heilu lagi, heldur er þar í mesta falli um það að tefla, að menn koma hér, einstakir áhafnameðlimir, til þess að leysa aðra af, sem veikst hafa eða þurfa að fara heim, áður en veiðiferð lýkur. Þessir áhafnameðlimir annarra erlendra togara ferðast með venjulegum farþegaflugvélum, og út af fyrir sig getur vel verið, að við gætum ekki komið í veg fyrir slík skipti að því er austurþýska togara snertir.

Þá vildi ég taka fram, að ólíku er saman að jafna, þegar minnst er á áhafnaskipti á íslenskum fiskiskipum í Norðursjó, og þessu, vegna þess að þar er sömuleiðis um það að ræða, að þeir ferðast með venjulegum farþegaflugvélum og áætlunarflugvélum og ferðast til lands, þar sem íslensku fiskiskipin landa, þ.e. í Danmörku.

Þá sagði hæstv. forsrh., að hann gerði ekki mun á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. En samt sem áður er staðreyndin sú samkv. upplýsingum hans sjálfs, að hann gerði mun á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Leyfi íslenskra stjórnvalda var í upphafi bundið við Reykjavíkurflugvöll, og þegar austur-þýsk stjórnvöld óskuðu eftir breyt. þar á til að fá að lenda á Keflavíkurflugvelli, þá var þeirri beiðni í annarri umferð synjað og austur-þýskum stjórnvöldum sagt, að þau yrðu að binda sig við Reykjavíkurflugvöll. Það var ekki fyrr en í þriðju umferð, að hæstv, forsrh, gaf eftir og leyfði lendingu á Keflavíkurflugvelli. Hann sjálfur hefur gert þarna greinarmun á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli.

Ég tel auðvitað sjálfsagt, að Keflavíkurflugvöllur sé alþjóðaflugvöllur opinn flugsamgöngum, en lendingarleyfi eru almennt bundin samningum milli ríkisstjórna, sem áskilja gagnkvæman rétt. Meira að segja hafa Íslendingar verið svo varkárir, — ég hygg ég fari rétt með í þeim efnum, — að í samningum við Spánverja t.d. hafa Íslendingar ekki talið það réttlæta lendingarrétt spánskra flugvéla, þótt íslenskar flugvélar fari margar hópferðir til Spánar með farþega þangað.

Því er hér um afbrigðilega meðferð að ræða, hvort heldur litið er á fyrri þjónustu við erlend fiskiskip eða fyrri reglur, er gilda um lendingarleyfi á Íslandi. Hér er tekinn upp nýr háttur.

Það er tvennt, sem vekur athygli í því sambandi: annars vegar, að það er brotið í bága við fyrri stefnu að veita erlendum fiskiskipum aðeins lágmarksþjónustu á Íslandi. Það er ekki afsökun í þessu sambandi að austur-þýskir verksmiðjutogarar fiski ekki á Íslandsmiðum, Í fyrsta lagi vitum við ekki og höfum ekki aðstöðu til að fylgjast með, á hvaða miðum þessir togarar fiska í raun. Í öðru lagi er ljóst, að þessir togarar fiska alla vega á norðurslóðum og á fiskimiðum, þar sem við höfum hagsmuni af, Íslendingar, að sókn sé takmörkuð á. Og í þriðja lagi er sú skýring, að þessir togarar veiði við Norður-Noreg, Kanada og Bandaríkin, til þess fallin, að við hugleiðum, hvort það verði þakkað af hálfu þessara þjóða, að við auðveldum aukna sókn á þeirra fiskimið, einmitt þegar á það er litið, að við byggjum töluvert á fylgi a.m.k. Noregs og Kanada við stefnu okkar á komandi hafréttarráðstefnu. Því er það ljóst, að hér er farið að andstætt hagsmunum Íslands hvað fiskveiðimál snertir.

Hins vegar langaði mig til þess að nefna, að hér er einnig um að ræða vitnisburð um aukinn þrýsting frá austantjaldslöndunum á Ísland og Íslendinga. Fyrr í vetur voru veitt leyfi til lendingar sovéskra flugvéla í tengslum við heimsókn Brésnevs til Kúbu. Það hafa farið fram 36 slíkar lendingar á Keflavíkurflugvelli. Það skal tekið fram, að þessi leyfi voru bundin því skilyrði, að ekki væri um hernaðarflugvélar að ræða, heldur svokallaðar „civil“ flugvélar, eins og hæstv. forsrh. komst að orði. En það er engu að síður þannig háttað um lendingar þessara flugvéla, að þegar þær eru komnar á Keflavíkurflugvöll. má enginn koma nálægt þeim, ekki einu sinni íslenskír starfsmenn Keflavíkurflugvallar, og við vitum ekkert, hvað þessar flugvélar hafa inni að halda. Ég tel nauðsynlegt, að við Íslendingar fylgjumst með ferðum erlendra flugvéla um land okkar og vitum, hvað þessar flugvélar hafa að flytja, þær sem hafa lendingarleyfi á Íslandi.

Það var spurt um það á fundi utanrmn., hvaða reglur giltu að þessu leyti í nágrannalöndunum. Þær munu vera mjög mismunandi. En það er vaxandi áhugi fyrir því, að reglur séu settar, sem áskilja lendingarlandi rétt til þess að skoða flugvélarnar, m.a. vegna hættu á hryðjuverkum og slíku. Mér finnst sjálfsagt, að slíkar reglur séu settar hér á landi, og hæstv. forsrh. tók undir það á fundi utanrmn. í morgun. Ég skildi orð hans svo, að hann mundi sjá svo um, að slík skoðun færi fram, t.d. að því er þessar flugvélar snertir.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál, en vil þó taka fram, að hér er um alvarlegt mál að ræða og við gerðum kröfu um það, að þessi leyfi yrðu afturkölluð. Hæstv. forsrh. taldi það ekki gerlegt, málið væri svo langt komið, en alla vega ættum við að vera sammála um það að veita ekki ný leyfi.

Ég vil að lokum henda á til að sýna, hve Austur-Þjóðverjar virðast hafa tekið það sem gefið mál, að þeir fengju þetta leyfi, en það er í raun og veru óvirðing við íslensk stjórnvöld, að leyfið er gefið út af íslenskum stjórnvöldum 2. apríl. en þegar 27. mars eða 5 eða 6 dögum áður en leyfið er veitt tilkynna Austur-Þjóðverjar komu skips á Reykjavíkurhöfn og komu flugvéla þrisvar sinnum á Keflavíkurflugvöll til þess að koma í kring þessum skiptum á áhöfnum. Það sýnist því vera tekið sem gefið mál, að farið sé að óskum austur-þýskra stjórnvalda hjá ríkisstj.

Ég vonast til þess, að hæstv, ríkisstj. verði á verði og endurtaki ekki þessi mistök. Mál þetta minnir óneitanlega á svipaða ásókn af hendi Þýskalands Hitlers fyrir síðasta stríð, og þá báru íslensk stjórnvöld gæfu til að vera á verði, Ég vænti þess, að svo verði í framtíðinni, þótt þeim hafi orðið þessi alvarlegu mistök á nú.