18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hér eru til umr, tvö mál, skýrsla ríkisstj, í sambandi við nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu, svo og till. til þál. varðandi þetta efni. Hæstv, iðnrh. hefur í ræðu sinni gert grein fyrir meginatriðum þeirrar skýrslu, sem hér liggur fyrir, og rakið ýmis efnisatriði úr þeirri skýrslu, bæði frá verkfræðilegu sjónarmiði svo og frá sjónarmiði fjármögnunar þessara framkvæmda. Ég hef haft tækifæri til þess að líta yfir þessa skýrslu og hún er í marga staði mjög fróðleg, en ég vil segja í sambandi við það, sem hæstv. ráðh, sagði sjálfur, að hún er seint fram komin af hans hálfu, enda sagði hæstv. ráðh. í sinni ræðu, að það var ekki fyrr en á s.l. hausti, þegar sýnt var, hver þróun yrði í olíumálum, að hann fékk áhuga á þessu mikla máli, sem hér er um að ræða, og gerði ráðstafanir til þess, að þessi skýrsla yrði samin. Þetta kemur okkur þm, ekki á óvart, því að eins og hann orðaði það í ræðu sinni, hafa verið fluttar fjölmargar till. á Alþ. um þessi mál, sem sýna áhuga þm. á málinu. Þegar hann svo lauk ræðu sinni, óskaði hann eftir því, að þm. gerðu grein fyrir mati sínu á þessari till. og þessu mikla máli.

Því er nú til að svara, að það hafa ekki færri en þrjár umr. farið fram á þessu þingi, sem nú er senn komið að lokum, um þessi mikilvægu mál, þ.e. nýtingu jarðvarmans til upphitunar svo og með hvaða hætti hægt er að tryggja öðrum þegnum landsins íslenska orkugjafa til upphitunar á sambærilegu verði við jarðvarmann. Ég undirstrika þetta hér einmitt vegna þess, að ráðh. sjálfur hóf ræðu sína á því að segja þm. frá því, hvenær honum fannst ástæða til þess að taka þessi mál til athugunar í sínu rn.

Ég trúi því ekki, að hæstv, ráðh, hafi þá fyrst, þ.e.a.s. þegar olían snarhækkaði s.l. haust vegna olíustríðsins, gert sér grein fyrir þeirri hagkvæmni, sem er af byggingu og rekstri hitaveitna. Það hefur verið öllum ljóst, sem um þessi mál hafa fjallað, að arðsemi hitaveitna hefur verið mjög mikil. Áður en olíuverðhækkunin átti sér stað, sem virðist hafa ýtt við hæstv. ráðh., var talið, að upphitunarkostnaður með jarðvarma væri ekki nema 40% af kostnaði þeirra, sem orðið hafa að nota olíuna. Sjálfur bjó ráðh, og hefur búið við þessi þægindi hér í höfuðborginni. Hann virtist ekki hafa fylgst með, hvernig stjórnendur Reykjavíkurborgar hafa ár eftir ár tryggt íbúum hennar hagkvæmustu kjör til upphitunar híbýla sinna, nema ráðh. hafi fundist þetta svo sjálfsagt, að hann hafi ekki haft ástæðu til þess að líta til annarra aðila í þessu.m efnum fyrr en sú mikla hækkun varð á olíu, sem hann minntist hér á og staðreynd er, að varð.

Um margra áratuga skeið hafa forustumenn Reykjavíkurborgar lagt á það áherslu að tryggja Reykvíkingum sem hagkvæmasta upphitun húsa með jarðvarma og hafa, eftir því sem þeir hafa haft bolmagn til, mjög gjarnan viljað koma til móts við nágrannabyggðirnar og láta þær njóta þessara framkvæmda líka, þannig að Hitaveita Reykjavíkur gæti í raun og senn orðið hitaveita fyrir þéttbýlissvæðið hér við Faxaflóa. Það hefur ekki heldur staðið á sveitarstjórnum hér í nágrenni Reykjavíkurborgar að vinna að þessum málum, og í samráði við ýmsa þá sérfræðinga, sem um þessi mál fjalla, hefur niðurstaðan fyrir nokkrum árum orðið sú, að talið væri hagkvæmast að bindast samtökum við Hitaveitu Reykjavíkur og njóta þess jarðvarma, sem þá virtist vera orðinn nægur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, til þess að þær byggðir, sem liggja næstar, gætu einnig fengið jarðvarma til notkunar.

Það merkilega gerðist, að þegar þessar umr. hafa átt sér stað og þessi byggðarlög hafa markað sína stefnu í þessum málum og leitað til hæstv. ráðh., þá virtist áhuginn ekki vera allt of mikill í sambandi við þessi mál. A.m.k. voru mjög snemma á þessu þingi, svo og á síðasta þingi bornar fram fsp. til ráðh. til að fá úr því skorið, hvort hann hygðist beita sér fyrir ákveðnum aðgerðum, til þess að Hitaveita Reykjavíkur gæti sinnt þeim verkefnum, sem hún þá hafði möguleika á að gera og vilji var fyrir hendi um hjá nærliggjandi sveitarfélögum. Það var jafnan svo, að þegar fsp, voru teknar til umr., kom sama dag svar frá þeim stjórnvöldum, sem leitað hafði verið til, og ráðh. gat þannig komið hér í ræðustólinn og sagt, að ekki stæði á neinu því, sem um hafði verið beðið af hálfu sveitarstjórnanna, af hálfu Reykjavíkurborgar og af sinni hendi væri ekkert því til fyrirstöðu, að þessar framkvæmdir gætu átt sér stað. Vanalega var það nú þannig, að þessum beiðnum var svarað ekki mörgum vikum, heldur stundum mörgum mánuðum síðar, og forsenda þessara beiðna var gjarnan brostin vegna þeirrar óðaverðbólgu, sem í landinu hefur verið í stjórnartíð hans og fleiri manna, og þar af leiðandi, þegar leyfið var fengið, nægði það stundum ekki til þess, að hægt væri að standa við þá samninga, sem þá þegar höfðu verið gerðir, eða ekki útlit fyrir, að Hitaveita Reykjavíkur treystist til þess að gera samninga á grundvelli þeirra leyfa, sem þá höfðu fengist.

Þar kom s.l. haust, að ráðh. fékk áhuga á málinu, og ég segi: Batnandi manni er best að lifa. En þá verðum við að rifja upp, hvað hér er á ferðinni. Samhliða því, að skýrsla sú, sem ráðh. gerði ítarlega grein fyrir, er til umr. till. frá honum, frá ríkisstj., eins og hann orðaði, um það, með hvaða hætti nefndar framkvæmdir skuli eiga sér stað.

Á þskj. 54 er flutt till. af þremur þm. Alþfl. um úrræði til að minnka olíukaup erlendis frá. Þar er gert ráð fyrir, með hvaða hætti þessum málum verði í framtíðinni farið, og vikið einmitt að þessu atriði, þ.e. hvernig hægt er að nýta innlenda orkugjafa. Á þskj. 150 er till. til þál. frá okkur nokkrum þm. Sjálfstfl., þar sem lagt er til, að hraðað verði rannsóknum og framkvæmdum við nýtingu jarðhita. Og á þskj. 151 er till. frá tveim þm. Sjálfstfl., þar sem sérstaklega er vikið að nýtingu raforku til húshitunar. Þegar þessar till. allar hafa verið hér til umr. og þeim vísað til n., þá kemur fram á seinustu dögum þingsins till. undirbúin af hæstv. iðnrh. um að taka nú þessi mál til athugunar og gera framkvæmdaáætlun, og hann orðaði það í sinni ræðu, að hann ætti ekki von á því, að um þetta mál yrði ágreiningur. Það er síður en svo, að um þetta mál verði einhver ágreiningur. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt, eftir að þær till., sem ég nú hef minnst á, hafa verið hér til umr. á þingi og eru komnar til n., að ráðh. beitti sér fyrir því, að sú n., sem hefur tvær af þessum till. til meðferðar, till., sem ná yfir bæði þau atriði, sem hér er um að ræða, við þá n., að till. yrðu sameinaðar og unnar upp úr þeim till., sem gengi í þá átt, sem hann hér hefur gert grein fyrir í sambandi við skýrsluna, og n, síðan flytti þessa till. Þannig hefði ég talið, að eðlilegur gangur hefði verið á þessu máli, en ekki sá, að hér væri komið með enn eina till. á seinustu dögum þingsins og ætlast til þess, af því að um málið er ekki ágreiningur, þá verði það sú till., sem endanlega verði samþykkt.

Í raun skiptir engu máli, hvaðan till. í þessu stórmáli er komin eða með hvaða hætti hún verður endanlega afgreidd hér á Alþ. Það er ekki ástæða til þess, þegar einn ráðh, kemur hér í ræðustólinn til þess að tala fyrir mikilvægu máli, sem hann hefur varla fengist til þess að hlusta á, þá komi hann með till. sína hér inn og hugsi sér, að það verði skjalið, sem Alþ. samþykki, því að í þessari till. ráðh. er ekkert það, sem ekki liggur fyrir á þskj, þessa þings. Það er að vísu 3. liður till. um fjármögnunarráðstafanirnar. Það atriði er ekki í till. þeirra manna, sem ég vék hér að áðan, sjálfsagt vegna þess að það, sem stendur í till. ráðh., eru svo sjálfsagðir hlutir, að það datt engum hinna í hug að setja það á prent: Alþingi ályktar eftirfarandi: „3. Fjármögnunarráðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lántökum, svo að nægjanlegt fé verði jafnan tiltækt til þessara framkvæmda.“

Ég spyr: Hvenær förum við í fjármögnunarráðstafanir öðruvísi en að til þess sé innlent fjármagn eða erlend ráðstöfun? Við vildum mjög gjarnan, að alltaf væri nægjanlegt fjármagn tiltækt til framkvæmdanna. Hér er um svo sjálfsagða hluti að ræða, að þeir, sem flutt hafa þáltill. hér fyrr á þessu þingi, töldu ekki ástæðu til þess að setja það í sínar till. Ef hins vegar ráðh. hefði talið það vera hið eina, sem á milli bar, ef hann hefði beitt sér fyrir þessu máli í allshn., þá hefði verið sjálfsagt að taka inn þessa málsgr., eins og hún þarna er komin, sem nánast, eins og ég sagði áðan, segir ekki neitt.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðh., að hann gat þess, að viðræður hefðu átt sér stað milli hans og borgarstjórans í Reykjavík um gang þessara mála. Hann hefur vonandi áttað sig á því, að 23. nóv., en þann dag gefur hann Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen fyrirmæli um könnunina, stendur hann í bréfaskriftum við borgarstjórann í Reykjavík með hnýfilyrðum í sambandi við beiðni þá, sem frá borgarstjórninni hafi borist til réttra yfirvalda, til þess að hægt væri að hefja framkvæmdir, gera samninga og hefja framkvæmdir í sambandi við hitaveitu hér í nágrannabyggðarlögum. Það er ekki fyrr en í febrúarmánuði, sem leyfið fékkst í fyrsta lagi til hækkunar gjaldskrár Reykjavíkurborgar, en það er kunnugt, að vegna þeirra lána, sem Hitaveitan hefur fengið á erlendum vettvangi, verður hún að skila 7% arðsemi, og þannig var málum ekki komið fyrr en í febrúar, og voru þeir þá þegar orðnir á eftir vegna þess dráttar, sem átt hafði sér stað. Enn fremur hafði Hitaveita Reykjavíkur þá eða borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hennar hönd óskað eftir erlendri lántöku til þess að hefjast handa, en svar við því fékkst ekki heldur fyrr en í febrúarmánuði s.l. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann sé í þann veginn að ljúka máli sínu, því að ella vildi ég biðja hann að gera hlé á ræðunni?) Ég geri ekki ráð fyrir, herra forseti, að ég eigi eftir margar mínútur, þannig að ég kysi heldur að ljúka þessum orðum mínum.

Það var í febrúar, sem heimild fékkst til erlendrar lántöku, til þess að hægt væri að hefjast handa um framkvæmdir í nágrannabyggðarlögunum. Þannig hafði þetta þá dregist í tæpa tvo mánuði, frá því að beiðni ráðh. til verkfræðiskrifstofunnar var send, þ.e.a.s. daginn, sem ráðh. fékk áhuga fyrir málinu. Verður að sjálfsögðu minnst 23. nóv. 1973 sem þess dags, sem núv, hæstv. iðnrh, fékk áhuga á hitaveitumálum, fékk áhuga á því að nota innlenda orkugjafa til upphitunar híbýla á Íslandi.

Ég held, að það sé miklu snjallara fyrir hæstv. ráðh. að halda áfram þeim starfsaðferðum, sem hann sagðist hafa upp tekið þ.e. að ræða við borgarstjórann í Reykjavík, ræða við borgaryfirvöld Reykjavíkur um þessi mál. Það er þaðan, sem frumkvæðið í þessum málum hefur komið, og ég held, að það sé miklu vænlegra fyrir íbúa þessa lands, að ráðh. ræði við borgaryfirvöld Reykjavíkur, í stað þess að hann sendi þeim bréf með ýmsum hnýfilyrðum, eins og hann gerði þann dag, sem hann fékk áhuga á hitaveitumálum. Það er gott, að hann hefur breytt um starfsaðferðir, eins og það er gott, að hann virðist nú hafa breytt um stefnu í þessu máli,

Ég ætla ekki að fjölyrða meir um málið. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að enda þótt hæstv, iðnrh. hafi ekki talið ástæðu til þess að vekja máls á þessu þýðingarmikla máli á Alþ. fyrr en nú, þegar senn er að ljúka þriðja þingi, sem hann situr í ráðherrastól, þá hafa fjölmargir þm. á öllum þeim þingum, sem liðin eru, frá því að hann tók við sínu embætti komið með þetta mál inn í sali Alþingis til þess að vekja athygli yfirvaldanna, stjórnvaldanna á málinu, vegna þess að hér er mikið hagsmunamál vegna landsins. Menn hafa komið hér úr öllum stjórnmálaflokkum og vakið athygli á þessu máli, og vonandi kemur nú, þegar ráðh, virðist loksins vera búinn að fá áhuga á málinu, einhver skriður af hans hendi í sambandi við framkvæmdir. En sveitarstjórnirnar hér á þéttbýlissvæðinu hafa gert allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að hrinda þessum mikilvægu málum í framkvæmd og hafi þær þökk fyrir.