18.04.1974
Sameinað þing: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

299. mál, nýting innlendra orkugjafa

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Þetta eru orðnar alllangar umr., það hefur verið komið víða við og gefið ærið mikið tilefni til þess að taka margt til umr., en ég held, að ég láti það hjá líða að þessu sinni. Ýmsir þættir hafa verið ræddir mjög hér á þingi í vetur, ég sé, ekki ástæðu til að haga orðum mínum þannig, að það þurfi að leiða til langrar umr. áfram um þessa till., allra síst vegna þess, að allir þeir, sem tekið hafa til máls hér, hafa í sjálfu sér lýst stuðningi við till., þó að það hafi að vísu verið með dálítið mismunandi orðafari. Til að mynda var hv. ræðumaður Matthías Á. Mathiesen, — mér fannst ræða hans vera ákaflega ómálefnaleg, eins og hann hefði ekki gefið sér tíma til að lesa þá skýrslu, sem hér er til umr., og þaðan af síður að leggja í það vinnu að draga af henni einhverjar ályktanir. Efni ræðu hans var fyrst og fremst það, að ég hefði fengið snögglega áhuga fyrir því að nýta innlenda orkugjafa tiltekinn dag í haust, það hefði orðið sinnaskipti hjá mér, ég hefði loksins skilið og breytt um stefnu o.s.frv., o.s.frv. Allt er þetta náttúrlega einber fjarstæða. Þetta eru mál, sem við höfum rætt oft og mikið hér á þingi.

Þegar tekin var ákvörðun hér einróma um heimild til virkjunar við Sigöldu og Hrauneyjafossa, flutti ég brtt. við lög um Landsvirkjun þess efnis, að þar var tekið inn sem eitt af markmiðum Landsvirkjunar að stuðla að aukinni húshitun með raforku, og var fallist á þá till., hún var samþykkt hér á þingi. Og í áframhaldi af því var ákveðið, þegar ríkisstj. ákvað af sinni hálfu, að ráðist skyldi í Sigölduvirkjun, að Sigölduvirkjun skyldi m.a. hagnýtt til þess að auka rafhitun á Íslandi. En leiðin til þess, að hægt væri að framkvæma þá stefnu, var að sjálfsögðu að tengja saman orkuveitusvæði, og ég hélt, að allir þm. væru búnir að átta sig á því núna, að ef við ætlum okkur að tryggja, að þeir, sem ekki eiga kost á jarðvarma, geti hitað upp híbýli sín með raforku, þá verður slík samtenging að eiga sér stað. Ég hélt, að allir þm. skildu þetta nú orðið. Þess vegna hafa mér komið á óvart ýmsar aths., sem hér hafa verið hafðar uppi og virðast vera leifar frá þeim árum, þegar hv. þm. virtust ekki skilja þessa grundvallarstaðreynd. Við getum ekki nýtt raforkuna frá Sigölduvirkjun til húshitunar eða annarra þarfa um allt land án þess að tengja saman ~orkuveitusvæðin. Á sama hátt er slík samtenging forsenda fyrir því, að hægt sé að ráðast í stórvirkjun á Norðurlandi, eins og Alþ. hefur nú heimilað, þ.e.a.s. Kröfluvirkjun. Forsenda fyrir því, að hægt sé að ráðast í slíka stórvirkjun fyrir norðan, 55 mw. virkjun, er einmitt samtenging, að hægt sé að nýta þá orku á stærra svæði en þeim einangraða bletti, sem þar er í kringum Laxárvirkjun.

Þetta held ég, að séu grundvallarstaðreyndir, og að þessu hefur einmitt verið unnið í tíð núv. ríkisstj. Ég hygg, að sagan eigi eftir að kveða upp þann dóm, að á þessu sviði hafi verið starfað af framsýni. Það er nú þannig með allar framkvæmdir á þessu sviði, að þær taka langan tíma, það verður að vinna hluti í ár, sem kannske koma ekki að gagni fyrr en eftir nokkur ár í viðbót, og þá skiptir máli, að menn skilji samhengi hlutanna, að menn átti sig á því, hvað eru forsendur þess, að hægt sé að framkvæma verkið.

Sumir hafa látið þau orð falla, að þessi þáltill. væri í rauninni óþörf. Menn hafa sagt jafnvel, að hún væri sýndarmennska, auglýsingastarfsemi og einnig að hún væri meinlaus. Ég held, að menn átti sig ekki vel á því, hvað er um að ræða í þessu sambandi. Ef ég hefði haft áhuga á því að hafa uppi einhverja sýndarmennsku eða auglýsingastarfsemi í þessu sambandi, þá hefði verið mikill hægðarleikur fyrir mig í haust að setjast niður og semja eina þáltill., það er ákaflega auðgert, eins og þm. vita, og þarf ekki að verja til þess ævinlega miklum störfum. En ég hafði annan hátt á. Ég fól Orkustofnun í samvinnu við tiltekna verkfræðiskrifstofu í Reykjavík að gera drög að áætlun um það, hvernig ætti að halda á málum til þess að nýta innlenda orkugjafa í stað erlendra. Og ég lagði síðan þessa skýrslu fram hér, svo að allir þm. ættu þess kost að kynnast þeim staðreyndum, sem okkar reyndustu menn telja tiltækar núna, — það er eftir að kanna margt á þessu sviði enn þá, — og í kjölfar þess bar ég svo fram þessa þáltill. Ástæðan til þess er sú, að ég tel, að það sé nauðsynlegt, að Alþ. geri um þetta alveg fastmótaða áætlun fram í tímann, þar sem menn setja sér tiltekin árviss verkefni, og að tryggja fjármagn til þeirra verkefna. Ég tel, að við alþm. verðum að vinna að þessu verki alveg á hliðstæðan hátt og við vinnum t.d. að vegáætlun. Og mér finnst það vera mjög eðlileg vinnubrögð, að Alþ. taki fullan þátt í þessu, það sé ekki sagt, að þetta geti ráðh. séð um í sínu rn. og tilkynnt svo Alþ. um einhver málalok, heldur verði Alþ. að vinna að þessu ásamt ríkisstj. hverju sinni. Þetta er líka það stórt verkefni, eins og ég sagði áðan, það þarf svo mikið fjármagn til þessara framkvæmda og vinnuafl og tækjabúnað, að það verður að tengja þetta við aðrar áætlanir um verklegar framkvæmdir, og verðum þarna örugglega að vera menn til þess að velja og hafna, raða hlutunum upp eftir því, hvað við teljum brýnast o.s.frv. Og þetta eru verkefni, sem Alþ. verður að vinna að, og ég skil hreinlega ekki það sjónarmið, að menn séu að gagnrýna það, að slík áætlun verði samin og lögð fyrir Alþ. og Alþ. vinni síðan að framkvæmd hennar. Mér finnst það vera eðlileg, þingræðisleg vinnubrögð.

Annars ætlaði ég fyrst og fremst að svara í örstuttu máli fsp., sem beint hefur verið til mín.

Hv. þm. Lárus Jónsson spurði, hvort í þeim tölum, sem nefndar væru í skýrslunni, væri reiknað með því verðjöfnunargjaldi, sem gert er ráð fyrir í frv., sem nú liggur fyrir þingi. Það er ekki gert. En meiningin með því gjaldi er, eins og menn vita, að þeir, sem búa við erfiðastar aðstæður í raforkumálum, þurfi ekki að taka á sig mjög mikla raforkuhækkun, heldur verði þessum vanda jafnað niður á þjóðina alla, eins og við höfum gert fram til þessa. Við höfum ekki talið, að hægt væri að láta strjálbýlið bera uppi þann vanda, sem fylgir hinni ákaflega mikilvægu starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins, heldur að þeir, sem í þéttbýlinu búa og búa við betri aðstæður, verði að leggja eitthvað fram til að jafna þessa aðstöðu.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson var að bera saman stefnu núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. í sambandi við raforkumál og taldi, að núv. ríkisstj. væri aðeins að halda áfram stefnu fyrrv. ríkisstj., þar hefði ekki verið mótuð nein ný stefna, í tíð viðreisnarstjórnarinnar hefði virkjun vatnsafls margfaldast og dreifing orkunnar einnig. Þarna hefur samt orðið um ákaflega veigamikla stefnubreytingu að ræða. Viðreisnarstjórnin var þeirrar skoðunar, að við gætum ekki ráðist í stórar virkjanir á Íslandi nema með því móti að heimila um leið, að erlend fyrirtæki stofnuð á Íslandi orkufrekan iðnað, sem keypti raforku af þessum virkjunum. Þannig var farið að með Búrfellsvirkjun, og helmingur af þeirri raforku, sem nú er framleidd í landinu, rennur til hennar á ákaflega lágu verði, — verði, sem á svo að standa óbreytt í 25 ár. Það var einnig um það talað af fyrrv. ríkisstj., að það yrði ekki unnt að ráðast í Sigölduvirkjun eða Hrauneyjafossavirkjun án þess að tengja það við einhver hliðstæð erlend fyrirtæki.

Það er rangt hjá hv. þm. Ingólfi Jónssyni, að ég hafi hér á þingi staðið gegn stórum virkjunarframkvæmdum. Þessar framkvæmdir hafa allar verið samþ. einróma hér á þingi. Hins vegar taldi ég þessa stefnu algjörlega ranga. Ég taldi, að við ættum að ráðast í stórar virkjanir til þess að efla íslenskt atvinnulíf, til þess að vera aflgjafi úti um allt land. Ástæðan til þess, að ég flutti á sínum tíma þá till. í sambandi við heimild til virkjunar við Sigöldu og Hrauneyjafossa, að það yrði bætt við heimild einnig til smærri virkjunar, 20 mw. virkjunar, var sú, að þáv. orkumrh. taldi, að það væri ekki hægt að ráðast í þessar stóru virkjanir án þess að gera um leið samning við eitthvert erlent fyrirtæki, og ég taldi því öruggara að hafa til vara þarna einhverja virkjun, sem heimilt væri að gripa til, ef viðreisnarstjórnin fyndi ekki þennan viðsemjanda, sem hún var að tala um.

Núv. ríkisstj. ákvað að ráðast í Sigölduvirkjun án allra slíkra tengsla við nokkurn erlendan aðila, og í staðinn ákvað hún að nýta orkuna, að orkan yrði tiltæk sem allra flestum landsmönnum, einmitt með því að tengja saman orkuveitusvæðin.

Á þennan hátt hefur verið unnið að þessum málum. Það hefur verið unnið meira að framkvæmdum í raforkumálum í tíð núv. ríkisstj. en nokkurn tíma áður, það hefur verið varið til þeirra meiri fjármunum, það hefur verið unnið að fleiri stórvirkjum í senn en nokkurn tíma fyrr í okkar sögu. Samt er ég þeirrar skoðunar, að þetta sé aðeins byrjunin, einmitt sú þáltill., sem hér er til umr., er til sannindamerkis um það, að við verðum þarna að geta ráðist í miklu stærri verkefni en við höfum gert til þessa.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson spurði, hvernig á því stæði, að ekki hefði verið enn flutt frv. um járnblendiverksmiðju, sem unnið hefði verið að nú að undanförnu. Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur sérstök n. unnið að þessu verkefni nú um tveggja ára skeið og vel það og skilaði niðurstöðum af sinni hálfu fyrir nokkrum mánuðum. Þegar þessar umr. hófust, var ástæðan til þess m.a. sú, að við vildum kanna, hvort Sigölduvirkjun gæti skilað hagkvæmara raforkuverði með því að geta selt orku til orkufrekrar verksmiðju heldur en með því að miðast eingöngu við innlendan markað, sem menn töldu þá, að mundi aukast tiltölulega hægt. Var talið þá, að þarna yrði afgangsraforka, sem innlendur markaður yrði ekki fyrir um 8 ára skeið eða svo. Hins vegar var þessum könnunum hagað þannig, að þarna yrði um íslenskt fyrirtæki að ræða. Það var ekki um það að ræða og það kom ekki til mála, að þarna yrði heimilað að stofna erlent fyrirtæki. Það var algjör forsenda af okkar hálfu, að þarna yrði um íslenskt fyrirtæki að ræða, sem Íslendingar ættu að verulegum meiri hluta til og heyrði í einu og öllu undir íslensk lög, og að sjálfsögðu var talið óhjákvæmilegt að taka inn í þann samning ákvæði um breyt. á raforkuverði, um endurskoðun á því í sambandi við breyttar aðstæður, í stað þess að gera samning með bundnu raforkuverði í 25 ár, eins og viðreisnarstjórnin gerði sællar minningar og ég hygg, að enginn þm. muni í hjarta sínu geta talið, að hafi verið skynsamlegar aðgerðir, eins og nú er komið.

Eins og ég sagði áðan, var þessi athugun við það miðuð að kanna, hvort það væri hagkvæmt vegna raforkuverðs frá Sigölduvirkjun að koma upp slíkri verksmiðju með þessum forsendum, sem ég var að tala um áðan. Þessar forsendur hafa breyst, einmitt vegna þess, sem gerst hefur í olíumálum. Það er nú ljóst, að eftirspurnin eftir raforku frá okkar innlenda markaði verður miklu örari en reiknað var með fyrir nokkrum árum og markaður okkar kann að geta kallað á alla orkuna frá Sigöldu á tiltölulega fáum árum. En það er önnur hlið á þessu máli. Hún er sú, að við eigum ákaflega miklar orkulindir, við eigum orkulindir í vatnsföllum okkar og í hverum okkar, og við verðum að sjálfsögðu að vera menn til þess að nýta þessar orkulindir til þess að efla efnahagskerfi okkar og atvinnulíf og geta flutt út þessa orku í formi vöru. Þetta getum við því aðeins gert og tryggt sjálfstæði okkar, að það verði íslensk fyrirtæki, sem þetta gera. En til þess að taka ákvörðun um járnblendiverksmiðjuna t.d. þarf um leið að taka ákvörðun um að flýta næstu stórvirkjun af þeim ástæðum, sem ég var að geta um hér áðan. Þetta samhengi verður að kanna til hlítar, því að auðvitað má ekki til þess koma, að þarna rekist á hagsmunir hins almenna markaðar á Íslandi, hinar eðlilegu kröfur fólks um allt Ísland að fá næga raforku og hins vegar nauðsyn fyrirtækis, sem við stofnuðum til framleiðslu til útflutnings. Þarna má ekki verða um neinn árekstur að ræða, og þess vegna verður að athuga þessa hluti gaumgæfilega í samhengi hvorn við annan. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög auðvelt að halda þannig á málum, að þarna þurfi ekki að að verða um neinn slíkan árekstur að ræða, og ég tel, að þau samningsdrög, sem gerð hafa verið, séu þess eðlis í öllum meginatriðum, að þessi framkvæmd geti orðið okkur Íslendingum hagkvæm.

Hins vegar tel ég algerlega fráleitt að leggja jafnstórt mál fyrir Alþingi, þegar svo stutt er eftir af þingtímanum og nú er. Ég hef áður gagnrýnt það, þegar reynt hefur verið að hraða stórmálum af þessu tagi í gegnum Alþingi. Ég tel, að hér sé um að ræða mál af því tagi, að það þurfi að athuga það gaumgæfilega, ekki aðeins af alþm., heldur einnig af landsmönnum, og að það verði að fjalla um það á tiltölulega rúmum tíma. Ég teldi hins vegar eðlilegt, að þetta mál yrði lagt fyrir þingið þegar á næsta hausti. Það er auk þess staðreynd, að eins og ástandið er hér á þingi nú, er ekki sérlega fýsilegt að leggja fram mál af nokkru tagi, vegna þess að stjórnarandstaðan tekur æðioft þá afstöðu að líta ekki á málin eins og efni standa til, heldur veltir því fyrir sér, hvort hægt sé að bregðast við þeim þannig, að það geti orðið til þess að setja fót fyrir ríkisstj. Þannig hefur verið tekið á einu stórmáli af öðru á undanförnum mánuðum, og meðan stjórnarandstæðingar eru í slíku skapi, er dálitið erfitt að leggja mál fyrir hér í fullri alvöru, vegna þess að viðbrögðin mótast æðioft af fullkomnu alvöruleysi.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson kom víða við, eins og ég sagði áðan. Hann vék að málum iðnaðarins almennt, og hann talaði um algjört skipbrot í efnahagsmálum í öðru orðinu, í hinu orðinu talaði hann um mesta góðæri, sem komið hefði á Íslandi. Þetta tal um mesta góðæri á Íslandi, mér hefur fundist það dálítið fróðlegt. Seinasta ár á Íslandi var eldgosár. Ég hygg, að það hafi aldrei komið fyrir áður í sögu Íslands, að menn gefi eldgosári það eftirmæli, að það sé eitthvert mesta góðæri í sögu þjóðarinnar. Eldgosár hafa ævinlega verið talin hallærisár, erfiðleikaár. Og halda menn, að ástæðan fyrir því, að hægt sé að tala um, að þetta sé góðæri, sé ekki á neinn hátt tengd stjórnarstefnunni í landinu? Það væri míkill misskilningur að halda það. Ég vil biðja menn að bera saman ástandið, sem hefur verið í landinu núna undanfarin 3 ár, og ástandið eins og það var hér á árunum 1968 og 1969, þegar þúsundir manna flýðu land, þegar svo var ástatt, að ýmsir helstu atvinnuvegir okkar höfðu verið gjörsamlega afræktir, atvinnutæki voru orðin gömul og úrelt, og framleiðsla okkar hreinlega dróst saman vegna skorts á endurnýjun atvinnuveganna. Það, sem gerst hefur, eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, var það, að hér hafa hin heilbrigðu öfl þjóðarinnar hreinlega verið leyst úr læðingi. Okkar vandi núna er fyrst og fremst velmegunarvandinn. Við reyndum að ráðast í allt of mikið í senn, framkvæma sem allra mest á sem allra skemmstum tíma, og við kunnum okkur ekki heldur hóf í óskum okkar um síaukna einkaneyslu á grundvelli þessarar miklu framkvæmdagleði. Það er þetta, sem eru erfiðleikar okkar. Þetta eru velmegunarvandamál, og í sjálfu sér er ekki erfitt verk að leysa þessi vandamál. Menn verða eitthvað á sig að leggja eins og ævinlega. En að bera þetta ástand saman við ástandið eins og það var undir lok viðreisnarstjórnarinnar, það er eins og að bera saman svart og hvítt. Ég held, að við höfum fulla ástæðu til mikillar bjartsýni, einmitt á meðan við erum menn til þess að hagnýta okkur framkvæmdagleði þjóðarinnar og trú hennar á mátt sinn og megin, trú hennar á, að hún geti leyst sín vandamál og styrkt sjálfstæði sitt án þess að þurfa að tengjast stærri heildum eða afsala sér efnahagslegum völdum til erlendra aðila.

Nú er ég kominn út í það, sem ég ætlaði að varast, almennar hugleiðingar, sem ærin tilefni hafa verið gefin til hér í dag. En það er rétt, að ég svari hér fsp., sem hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín um það, hvaða stefnu ætti að taka í húshitunarmálum á þeim stöðum, þar sem raforkuframleiðsla er ekki nægileg. Það er alveg rétt hjá hv. þm., þetta er mikið vandamál, það hefur verið ákaflega mikil eftirsókn í raforku til húshitunar viða um land. Ef ég man rétt, jókst raforkusala frá Rafmagnsveitum ríkisins á Austurlandi t.d. um 27% á árinu 1972. Þessi eftirsókn í raforku hefur að sjálfsögðu aukist núna, eftir að olíuverðið hækkaði. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að brúa bilið á þann hátt að heimila rafhitun húsa, þar sem ekki líður allt of langur tími, þangað til hægt sé að gera sér vonir um að fá raforku frá vatnsaflsverum eða varmaveituorkuverum. Ef þarna er ekki um allt of langan tíma að ræða, ef aðeins er um að ræða eitt eða tvö ár eða eitthvað þess háttar, þá held ég, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt, að menn geti byggt hús sín á þessum forsendum, og ef litið er yfir lengra tímabil. þá muni þetta borga sig þjóðhagslega. Og ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að halda þannig á málum að loka ekki fyrir það, að hægt sé að selja raforku, þó að einhver tími liði, þangað til tiltæk er ódýr raforka frá innlendum orkugjöfum. En þetta er stefna, sem eflaust verður dálítið erfitt að framkvæma. Hún kemur til með að kosta nokkra fjármuni, og ég tel, að það sé eitt af þeim verkefnum, sem þarf að kanna í sambandi við þessa áætlunargerð, sem ég er að ræða um, hvernig á þessum málum eigi að halda.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að ummælum, sem fallið hafa um það, að ég hafi verið eitthvað neikvæður í samskiptum mínum við Hitaveitu Reykjavíkur í sambandi við nágrannabyggðirnar og hitaveituframkvæmdir í nágrannabyggðum Reykjavíkur, eins og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen komst að orði áðan. Þetta er fjarri öllu sanni. Hitaveita Reykjavíkur hefur fengið ákaflega góða fyrirgreiðslu til þess að ráðast í þessi verkefni, og mér hefur stundum fundist, að Hitaveita Reykjavíkur hafi ekki komið fram við nágrannabyggðirnar af þeirri samvinnulipurð, sem eðlileg hefði þó átt að vera. En sú lausn, sem Hitaveitan fékk á þessum vanda sínum, þ.e.a.s. hvernig hún ætti að fjármagna framkvæmdirnar í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðahreppi, var, að Hitaveitunni var gert kleift að fjármagna þetta að meiri hluta til af eigin fé. Þessar framkvæmdir kosta rúml. 16 hundruð millj., og af eigin fé Hitaveitu Reykjavíkur og af heimtaugagjöldum eiga að fást 871 millj. kr., en Hitaveitan þarf aðeins að taka 755 millj. kr. að láni. Við ráðumst í miklar framkvæmdir, Íslendingar, og ætlum okkur oft ekki af. En ég hygg, að það séu ákaflega fáir aðilar í landinu, sem eiga tök á því að fjármagna framkvæmdir sínar á þennan hátt. Ég er hræddur um, að langflestir þeir aðilar, sem vilja ráðast í þjóðnýtar framkvæmdir, verði að sætta sig við það að taka miklu meiri hluta að láni heldur en Hitaveita Reykjavíkur gerir í þessu tilviki. Menn geta deilt um, hvort þetta sé rétt stefna eða ekki, en hitt er staðreynd, sem enginn getur borið á móti, að þarna hefur Hitaveita Reykjavíkur fengið svo góða fyrirgreiðslu, að ég hygg, að hliðstæður verði naumast fundnar.

Ég vil svo þakka þm. fyrir góðar undirtektir við till. almennt. Ég tel, að það skipti ákaflega miklu máli, að um þær ráðagerðir, sem við verðum með, og þær áætlanir, sem við semjum, verði sem allra víðtækust samstaða, að menn eyði ekki orku sinni í hvers konar deilur og þvarg, sem oft verður til þess að tefja framkvæmdir, jafnvel þótt allur vilji sé fyrir því að láta þær ganga hratt, og ég held, að samstaðan um þetta efni að nýta innlenda orkugjafa í stað erlendra eigi að vera svo mikil, að við eigum að geta hlíft okkur og þjóðinni við því að nota þessi mál sem pólitískt bitbein.