06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

359. mál, rafvæðing sveitanna

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. frá hv. alþm. Vilhjálmi Hjálmarssyni vil ég fyrst fara nokkrum orðum um málið í heild.

Í málefnasamningi ríkisstj. segir, að ljúka eigi innan 3 ára rafvæðingu allra þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið að fái raforku frá samveitum. Hinum, sem tryggja verður raforku með einkavatnsaflsstöðvum eða dísilstöðvum, verði veitt aukin opinber aðstoð.

Í samræmi við þetta gerði iðnrn. í samvinnu við Orkustofnun till. að 3 ára áætlun um lúkningu sveitarafvæðingar, og var sú áætlun samþ. af ríkisstj. í sept. 1971. Þá var talið, að um 930 bújarðir í sveitum væru utan samveitna. Um 730 höfðu rafmagn frá mótorstöðvum eða einkavatnsaflsstöðvum, en tæplega 200 býli voru órafvædd með öllu. 3 ára áætlunin hafði sem viðmiðun, að ekki væri meira en 3 km meðalfjarlægð á milli býla og að kostnaður við tengingu hvers býlis væri ekki yfir 600 þús. kr. miðað við verðlag ársins 1971. Í ljós kom við könnun, að með meðalfjarlægð 1½–2 km voru ca. 350 býli, meðalfjarlægð 2–3 km um það bil 330 býli, en meira en 3 km um 260 býli.

Á fyrsta ári 3 ára áætlunarinnar voru tengd alls 260 býli, og nam kostnaður tæpum 100 millj. kr. Á árinu 1973, þessu ári, er gert ráð fyrir, að 240 býli verði tengd og kostnaðurinn væntanlega um 140 millj. kr. Á síðasta ári áætlunarinnar verður þá að tengja rúmlega 200 býli, og er kostnaður áætlaður um 160 millj. kr.

Á þessum þremur árum er þannig verið að vinna ákaflega mikið stórvirki, svo mikið stórvirki, að framkvæmdirnar á þessum þremur árum er hægt að bera saman við það, sem gert var áður á heilum aldarfjórðungi. En þegar þessari áætlun lýkur í árslok 1974, er talið, að á landinu séu milli 150 og 160 býli, sem ekki eru tengd samveitum. Könnun, sem var gerð á árinu 1971, sýndi, að á milli 80 og 90 af þessum býlum höfðu mótorrafstöðvar, 27 höfðu vatnsaflsstöðvar og tæplega 50 sveitabýli voru rafmagnslaus. Gera má ráð fyrir, að þessar tölur séu ekki nákvæmar í dag, og kemur þar margt til. Ugglaust eru einhver af þessum afskekktu býlum ekki lengur í ábúð, og auk þess má gera ráð fyrir því, að einhverju af þeim lánum til vatnsaflsstöðva og mótorstöðva, sem veitt hafa verið á þessu tímabili, hafi verið varið til nýbygginga. Það eru 6 lán til vatnsaflsstöðva og 26 lán til mótorrafstöðva.

Hv. fyrirspyrjandi spyr, hvort gerðar hafi verið sérstakar athuganir varðandi rafvæðingu þeirra býla, sem ekki eru á þriggja ára áætluninni. Því er til að svara, að ráðgert er, að slík athugun fari fram á vegum iðnrn. og Orkustofnunar nú í vetur, þannig að henni verði lokið í tæka tíð, áður en kemur að tillögugerð um fjárlög fyrir árið 1975. Í því sambandi verður án efa reynt að gera sér grein fyrir því til hverra félagslegra ráðstafana er unnt að grípa í þeim tilgangi að greiða fyrir rafvæðingu þeirra býla, sem eru nú utan þriggja ára áætlunarinnar, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að í ræðu sinni áðan, og ég hygg, að ég sé honum alveg sammála um þau viðhorf, sem hann lýsti þar. Í þessu sambandi vil ég einnig minna á, að á síðasta þingi var gerð sú breyting á orkul., að rýmkaðar voru heimildir til lána úr Orkusjóði fyrir þau býli, sem vildu koma sér upp mótorrafstöðvum og ekki áttu annarra kosta völ.