19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

113. mál, skipulag ferðamála

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð við 1. umr. hér í hv. d. Það er ábending til hæstv. ráðh. og þeirrar n., sem málið fær til meðferðar, sem ég vil koma á framfæri.

Frv. var breytt talsvert í Ed. Þar voru margar brtt, samþykktar, og ég tel, að sumar þeirra a.m.k. séu til nokkurra bóta. Ég tel að vísu, að það sé ekki ástæða til að afgreiða frv. eins og það er, það sé hreinn misskilningur, þegar því er haldið fram, að með því að gera þetta frv. að lögum verði greitt fyrir ferðamálum í landinu. Það er hreinn misskilningur. Þó að þetta frv. verði að lögum, greiðir það ekki fyrir ferðamálunum. Það er ekki aflað fjár til ferðamálanna með þessu frv. eða greitt fyrir því á neinn hátt. En ef það á að verða að lögum, þrátt fyrir það að ég telji það gagnslítið, þá tel ég alveg nauðsynlegt að fella úr frv. það, sem kallað er Ferðamálastofnun. Það er gert ráð fyrir því, að ferðamálaráð haldi áfram að starfa, og er sjálfsagt, að það geri það. Ferðamálaráð hefur starfað vel, og ferðamálaráð er sú stofnun í landinu, sem hefur kostað lítið, en afrekað mikið á undanförnum árum. En að hafa ferðamálaráð og setja upp ferðamálastofnun líka, sem hlýtur að kosta talsvert fé, það vil ég biðja hæstv. ráðh. og þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga. Það er nóg komið af því hér á landi nú að setja upp stofnun á stofnun ofan, óþarfar stofnanir, sem kosta mikið fé, sem greiða ekki fyrir því, að hlutirnir gangi vel og greiðlega, heldur auka kostnað. Það er alltaf verið að auka yfirbygginguna í þessu landi í hinum ýmsu starfsgreinum, og það verður að stöðvast hér við og reyna að draga úr óþarfaeyðslu. Ég mælist til þess, að hæstv. ráðh. endurskoði þetta. Það getur ekki verið neitt til framdráttar ferðamálum í landinu að fara að setja upp ferðamálastofnun við hliðina á ferðamálaráðinu.

Ferðaskrifstofa ríkisins starfar áfram undir forustu dugnaðarmanns, sem er flestum kunnugari ferðamálum í landinu, og ég efast ekkert um, að hann fetar í fótspor fyrirrennara síns og heldur uppi landkynningu af dugnaði og árvekni. Til þess að geta rekið Edduhótelin, eins og hér var minnst á áðan, þarf Ferðaskrifstofa ríkisins vitanlega að fá starfsgrundvöll, og það væri vitanlega miklu betra að eyða því fjármagni, sem mundi fara í ferðamálastofnunina til einhverra raunhæfra aðgerða, til þess að hægt væri að halda uppi starfsemi í þágu ferðamálanna á raunhæfan hátt.

Það, sem hefur verið talið þessu frv. til gildis m.a., er, að þar eru ákvæði um verndun landsins, umgengnisverndun, og um útilokun mengunar og misnotkunar landsins og því um líkt. Ég sé ekki, að það geri neitt tjón, þó að þetta sé fest í lögum um skipulag ferðamála. En allt er þetta í lögunum. Stjórnvöld hafa heimildir til þess að grípa inn í samkv. lögum, sem nú eru í gildi, og þess vegna er ekki nauðsynlegt að lögfesta þetta að nýju með þessu frv., en eins og ég sagði, það kemur ekki að sök.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, fyrr en þá við 2. umr. í hv. d., en ég vildi aðeins nota tækifærið til þess að koma þessum athugasemdum á framfæri í von um, að þær verði teknar til greina.