06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

365. mál, verkfallsréttur opinberra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. þau skýru svör, sem hann gaf við þessari fsp. En eins og lesa mátti út úr ræðu hans, liggur fyrir í fyrsta lagi, að síðan samningsréttarlögin voru sett í apríl s. l., hefur ekki, svo að teljandi sé a. m. k., verið af hálfu n. unnið að áframhaldandi rannsókn þessa máls. En með því álít ég, að á vissan hátt séu svikin þau fyrirheit, sem hafa verið gefin opinberum starfsmönnum í þessu sambandi.

Í öðru lagi kemur það fram hjá hæstv. fjmrh., að innan ríkisstj. er ekki samstaða um að veita opinberum starfsmönnum þann rétt, sem þeim var heitið í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Í samtökum opinberra starfsmanna hefur, svo langt sem ég veit, ævinlega verið litið á það sem sjálfsagðan rétt opinberra starfsmanna, að ekki sé gengið á rétt þeirra í sambandi við launakjör og annað því um líkt, eins og verið hefur, og að þeir fái að hafa sömu aðstöðu og aðrir til þess að semja um laun sín og kjör. Það hefur komið fram, síðan þessi ríkisstj. tók við völdum, að opinberir starfsmenn þurfa á því að halda að hafa einhverja svipu á ríkisvaldið, þannig að ríkisvaldið verði þá viðmælandi og níðist ekki á þeim, eftir því sem því kann að detta í hug í það og það skiptið. Ég vek athygli á því, að í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, hæstv. forsrh., er talað um sjálfvirk tengsl á milli launasamninga opinberra starfsmanna og annars launafólks. Þótt svo sé að orði komist í málefnasamningnum, fer því víðs fjarri, að ríkisstj. hafi litið svo á í des. 1971, að um einhver sjálfvirk tengsl hafi verið þar að ræða, og hafnaði hún algerlega öllum kröfum opinberra starfsmanna um, að slíkt væri viðurkennt. 14. gr. kjarasamningal., málskotsgr. til kjaradóms, hefur reynst opinberum starfsmönnum afskaplega haldlítil vegna margs konar fyrirvara, sem felast í lögunum. Opinberir starfsmenn líta nánast svo á sem kjaradómur í þessu tilfelli sé algerlega gagnslaus.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að opinberum starfsmönnum er nauðsynlegt að hafa betri aðstöðu, einhvers konar rétt til þess að knýja ríkisvaldið til viðræðna, t. d. í sambandi við vísitölumálið. En sá háttur hefur verið hafður á að ekki hefur einu sinni verið rætt við opinbera starfsmenn um það, hvernig og hvort eigi að breyta vísitölugrundvellinum. Opinberum starfsmönnum er hins vegar ætlað að una kjörum sínum þannig, að þau breytist í samræmi við vísitöluna, þótt þeir eigi ekki að fá að fylgjast með því né hafa tillögurétt um það, hvernig vísitölugrundvellinum sé beitt. Til þess að gera ríkisstj. viðmælandi við opinbera starfsmenn í þessu efni þarf áreiðanlega á því að halda, að opinberir starfsmenn hafi verkfallsrétt eða eitthvað því um líkt.

Ég vil að lokum aðeins ítreka þakkir mínar til fjmrh. Það kom fram, eins og ég bjóst við raunar, að ríkisstj. er ekki reiðubúin til þess að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt núna, þegar hún ætlar að semja við opinbera starfsmenn. Það má vera, að þeir menn, sem standa að þessu stjórnarsamstarfi, verði reiðubúnir til þess einhvern tíma síðar, þegar einhverjir aðrir eiga að semja við opinbera starfsmenn, að leggja til verkfallsréttinn, en þeir eru það ekki núna.

Ég sé, að hæstv. iðnrh. hlær. Það getur vel verið, að hann hafi nú þegar uppi á prjónunum ráðagerðir um að skjóta sér úr ríkisstj. og ætli þá að standa þar, sem ég stend nú, og bera fram einhverjar slíkar till. A. m. k. hefur það heyrst, að hann sé farinn að ókyrrast í stólnum. En hann kann vel við sig, eins og sést á því, að hann vill ekki sleppa völdunum, og það getur dregist, að hann standi upp.

Ég efast ekki um, að opinberir starfsmenn muni fylgjast vel með því og taka eftir því, hvað gerist í þessum málum, og skora á ríkisstj. að verða við þeim sjálfsögðu tilmælum og standa við sín fyrirheit um, að opinherir starfsmenn fái raunverulegan samningsrétt, þegar þeir semja innan sérgreinafélaganna á fyrri hluta næsta árs. En núna er tækifærið að sýna, hvað ríkisstj. vill gera í þessu efni. Samkv. kjarasamningal. eiga samningar að standa langt fram á næsta ár, svo að tíminn er nægur til þess að semja frv.