23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

426. mál, kaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þessar umr. Það er kominn tími til, að þessi mál séu rædd hér á hv. Alþ., og hefði mátt gera fyrr og meira en þér gefst tilefni til.

Ég skal fúslega játa, að það endurkaupakerfi, sem sett var á með lögum, að mig minnir fyrir tveimur árum, hefur orðið til nokkurra bóta og stærri fyrirtæki ýmis, sem annast fyrst og fremst útflutning, hafa fengið þessi lán í gegnum endurkaupakerfið. En mér er líka kunnugt um, að fjölmörg smærri fyrirtæki, sem eru að framleiða til útflutnings, hafa ekki með nokkru móti getað komist undir þetta kerfi af hvaða ástæðum sem það annars kann að vera. Og svo er náttúrlega stóra spurningin um þann fjölda smærri fyrirtækja, sem framleiða fyrir innlendan markað. Þau þurfa vissulega, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að komast undir þetta kerfi líka. Það er nákvæmlega jafnáríðandi að framleiða fyrir innlendan markað, á meðan sá markaður er til, og spara þannig gjaldeyri eins og hitt að flytja út. Og mér finnst, að það þurfi að færa þessar reglur í miklu fastari farveg en enn hefur tekist þrátt fyrir nokkurn árangur.

Það kemur í ljós, eins og allir hv. þm, hafa raunar alltaf vitað, að iðnaðurinn er settur sem einhvers konar 2. flokks atvinnuvegur í landinu, og þó að það hafi verið talað mikið um, að nú skyldi þetta réttlætt og lagfært allt saman, hefur það hvergi nærri nálgast það, að það hafi tekist. En þetta ranglæti verður að lagfæra, ef iðnaðurinn á ekki beinlínis að detta út sem atvinnugrein.