24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3905 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

191. mál, málflytjendur

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði ásamt 3 hv. þm. öðrum úr allshn. flutt till. við 2. umr., sem var tekin aftur til 3 umr. til þess að reyna að ná samstöðu um meginefni hennar.

Það kom í ljós við umr. um þetta mál, að ýmsir þm. voru fylgjandi því meginatriði, að komið yrði á fót lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk eða réttarhjálp, eins og hún hefur oft verið nefnd. Upphaflega till. gerði hins vegar ráð fyrir ýmsum atriðum, sem ollu ágreiningi. Skoðanir voru t.d. skiptar um það, hvort slík réttarhjálp ætti að vera á vegum Háskóla Íslands eða einhvers annars aðila. Það voru einnig skiptar skoðanir um það, hvort slík réttaraðstoð ætti að ná til sjálfs málflutningsins fyrir dómi eða hvort reglur um gjafsókn og gjafvörn, sem fyrir hendi eru, væru nægilegar. Ég mat aðstöðuna þannig, að ekki væri rétt eða heppilegt málsins vegna, að till. yrði felld hér á hv. Alþ. og vegna slíks ágreinings væri þannig komið í veg fyrir eða tafin sú nauðsynlega þjónusta, sem hér verður að koma.

Það hefur farið svo, að allshn. þessarar hv. d, varð sammála um meginefni þess að festa í lög, að nú þegar yrðu gerðar ráðstafanir til þess að koma á fót réttarhjálp. Við höfum því umorðað till., og hún er nú borin fram af n. allri. Hún hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Dómsmrn. skal gera ráðstafanir til þess, að athugaðar verði leiðir til þess að koma á fót lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk óháðri gjaldskrá Lögmannafélags Íslands“

Ég hygg, að numin hafi verið á brott öll minni háttar atriði, sem ágreiningi gætu valdið, í þessari hv. d. Samkv. þessari till. er það á valdi dómsmrn. að athuga þær leiðir, sem heppilegastar kunna að vera, og geta þeir hv. þm., sem áhuga hafa á þessu máli, haft áhrif þar á og komið þar á framfæri sjónarmíðum sínum.

Ég legg áherslu á, að þessi till. er fram borin til þess, að þetta mikla nauðsynjamál fyrir efnalítið fólk verði ekki alveg drepið hér í þinginu. Það væri ekki sanngjarnt að segja, að allir flm. fyrri till. væru ánægðir með að hafa dregið talsvert í land. Það hefði verið æskilegt að fá samþykkta till., sem hefði hreinlega bundið í lög þessa þjónustu, til þess að unnt væri að koma henni á fót nú þegar. Afstaða okkar réðst alls ekki af því, að við teldum, að fyrri till. hefði verið vanhugsuð, eins og hv. 4. þm. Vesturl. virtist halda, þegar hann talaði við 2. umr. þessa máls. Fyrir okkur vakir það eitt að afla þessu nauðsynjamáli sem mests fylgis. Það er því í þjónustu málstaðarins eins, sem við höfum farið þessa leið, og við væntum þess, að þessi hv. þd. geti fylgt allshn. að máli í þessu efni.