24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3914 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

322. mál, vegáætlun 1974-1977

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í gær, þegar vegáætlunin var til umr., því að segja má, að þegar ný vegáætlun liggur fyrir og skýrsla samgrh. um framkvæmd vegáætlunar liðins árs hefur verið birt, þá gefist tækifæri til að ræða vegamálin í ljósi þeirra staðreynda, sem liggja þá fyrir skjalfest. Þær staðreyndir lýsa nú, að mér sýnist, verra ástandi þessara mála en svörtustu spár bentu til.

Þótt samgöngur á landi séu sá þáttur framkvæmda ríkisins, sem orkar í hvað ríkustum mæli á daglegt líf fólksins í landinu, kemur nú í ljós, að þannig er háttað stjórn efnahagsmála, að um algjört upplausnarástand er að ræða í vegamálum, ekki vegna þess, að hin verklega stjórn þeirra hafi farið úr höndunum, heldur orkar á þau mál af ægiþunga sú óstjórn efnahagsmála hjá hæstv. ríkisstj., sem hagrannsóknadeild ríkisins telur nálgast óðfluga, að leiði til hættuástands fyrir þjóðfélagið í heild.

Allir þekkja það af biturri reynslu, hversu geigvænlegar hækkanir hafa orðið á framfærslu- og framkvæmdakostnaði í tíð núv. hæstv. ríkisstj. En ég ætla, að færri hafi gert sér grein fyrir þeirri staðreynd, sem samanburður á eldri vegáætlun við hina nýju leiðir í ljós, að á 2 árum hefur framkvæmdakostnaður hækkað um því sem næst 100%, og munar þar mestu um hina innlendu verðþenslu, sem rekja má til þeirra kátínuaðgerða, sem fylgdu í kjölfar valdatöku hæstv. ríkisstj. hinn 14. júlí 1971.

Mér virðist, að við endurskoðun á vegáætlun fyrir árin 1974 og 1975 sé leitast við að taka mið af þeim kjarasamningum, sem gerðir voru í vetur, og fundin út sú hækkun framkvæmdavísítölu vegagerðar, sem af þeim leiðir; enda verður ekki af neinu öryggi spáð fram á leið um aðrar verðhækkanir, þ.e. hækkaðan efniskostnað. Sú hækkun, sem hin nýja vegáætlun byggir á um framkvæmdakostnað, er því eingöngu af innlendum toga. M.ö.o. eru þar að verki samstilltir kraftar hæstv. ríkisstj. Hækkun framkvæmdavísitölunnar frá mars 1973 og til mars 1975 er áætluð að vera í vegagerð 89.1%, í viðhaldskostnaði 95.8% og í brúargerð 110.9%. Þessi ókjör leiða til þess, að vegáætlunin gerir ráð fyrir frestun framkvæmda um 900 millj. kr. frá árinu 1974 til 1975, og framkvæmda fyrir tæpar 1300 millj. kr. frá árinu 1975 til 1976. Lengra ná frestunartill. ekki, en gert er ráð fyrir því í framhaldsáætlun að jafna metin með auknu framlagi tír ríkissjóði ásamt lántökum, sem munu nema árið 1977 samtals 1 milljarði 776 millj. kr., og eru lántökurnar stærsti hlutinn í þeirri summu eða sérstök fjáröflun, eins og lántökurnar eru kallaðar í tekjuáætluninni, sem nemur um 1300 millj. kr. hvert ár. 1300 millj. kr. hvert ár áætlunarinnar eða því sem næst 1/3 framkvæmdafjárins mun því verða aflað með lántökum. Þessi niðurstaða um hlutfall milli samtímatekna og lánsfjár til vegaframkvæmda er einnig í æpandi mótsögn við allt tal núv. stjórnarsinna á viðreisnartímanum, þegar ekki var ákvörðuð svo lántaka til vegamála, að ekki kvæðu við briglsyrði um, að vandamálum samtímans væri velt yfir til framtíðarinnar. Það kemur m.a. fram í Þjóðólfi, blaði framsóknarmanna á Suðurlandi, 22. maí 1971, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjur af umferðinni hafa verið notaðar til að bæta fjárhaginn hjá hinu sligaða ríkisapparati, en til vegagerðar tekur Ingólfur lán á lán ofan og veltir þannig áhyggjubyrðinni yfir á þá, sem eiga að erfa landið. Vilt þú, kjósandi góður, styðja mann, sem leggur slíkar skuldir á fólk framtíðarinnar?“

Þetta var nú þá. En ég segi: Þá var ekki ástæða til að spyrja slíkra spurninga. En núna, þegar hæstv. ríkisstj. hefur með stjórnleysi raskað svo hrapallega jafnvægi tekjuöflunar Vegasjóðs og framkvæmdamagns Vegagerðar eins og raun ber vitni og ég hef í stuttu máli leitast við að draga fram, þá og þá fyrst er ástæða til að spyrja, og skyldi þá stjórnarliðið beina þeim spurningum inn í eigin raðir, en ekki til annarra. — Þetta segi ég vegna þess, að mér er í minni umr. um vegáætlun vorið 1971, en það ár var ráðgert að efna til sérstakra og aukinna framkvæmda í hraðbrautum og að kippa áfram einstökum áföngum úti á landi, svo sem Djúpvegi, Heydalsvegi, Norðurlandsvegi um Langadal, Ólafsfjarðarvegi, svo að nokkuð sé nefnt, og mun sú fjármögnun hafa numið við það 1/5 hluta framkvæmdafjárins árið 1971 og um 18% árið 1972. Þá sagði minni hl. fjvn. þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst er, að fé það, er til vegagerðar er ætlað, er allt of lítið, og hjá því verður ekki komist að hækka tekjur Vegasjóðs verulega á næsta ári, ekki síst til framkvæmda í landsbrautum og þjóðbrautum. Þá munu greiðslur vegna lána til vegagerðar segja til sín í ríkara mæli með ári hverju, þó að hjá því verði komist á næstu árum, að gengisbreyting verði gerð, svo sem var á kjörtímabilinu frá 1967–1971. Ef slík holskefla ætti aftur að ganga yfir íslenska efnahagslífið á næstu 4 árum sem þeim síðustu, þá er hugsunin um afkomu Vegasjóðs ógnvekjandi.

Ljóst er, að aukið fé til Vegasjóðs verður að sækja til ríkissjóðs af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur nú frá umferðinni, enda eðlilegt, að svo verði gert, þar sem ríkissjóður hafði a.m.k. um 800 millj. kr. í tekjur af umferðinni á árinu 1970 umfram þær tekjur, er til Vegasjóðs gengu. Það er einnig ljóst, að nú verður ekki haldið lengur áfram á þeirri braut að hækka skatta á umferðinni, þar sem hvort tveggja er, að skattar eru orðnir það háir, að þeir geta dregið úr sölu t.d. á bensíni, og hitt, að þeir munu nú orðnir jafnháir og jafnvel hærri en í nágrannalöndum okkar, ef samanburður er gerður við almennt kaupgjald í þeim löndum og hér. Enn fremur virðist ekki hægt að halda svo háum aðflutningsgjöldum á bifreiðum sem nú er gert, eftir að tekjur ríkissjóðs af rekstri þeirra eru orðnar jafnháar og nú er.

Brýna nauðsyn ber til að marka ákveðna stefnu um framkvæmdir í vegagerð, t.d. um það, hvort á að hverfa frá okkar ófullkomnu vegum til fullkominna hraðbrauta eða hvort þar á að verða um millistig að ræða.

Minni hl. fjvn. vill að lokum leggja áherslu á þetta:

1. Vegasjóður verður að fá auknar tekjur á næsta ári, og þær verða að koma frá þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður nýtur nú af umferðinni.

2. Marka verður ákveðna stefnu um vegaframkvæmdir, þ.e. uppbyggingu vegakerfisins umhverfis landið, um leiðir, er fara á byggðarlaga á milli og með hvaða hætti við eigum að nálgast fullkomnar hraðbrautir. Mestu máli skiptir þó að dómi minni hl. fjvn., að efnahagsstefnu þjóðarinnar verði breytt og þar skapist festa, svo að gengi og framkvæmdamáttur gjaldmiðilsins haldist. Að öðrum kosti er ekki útlit fyrir, að hlutur vegaframkvæmda verði fyrirferðarmikill í íslensku þjóðlífi á næstu árum.“

Þetta segja þeir vísu menn á Alþ. 3. apríl 1971, Halldór E. Sigurðsson, Geir Gunnarsson, Ingvar Gíslason og Ágúst Þorvaldsson.

Eftir þessa hugvekju hefði maður getað ætlað, að nú hefði orðið veruleg stefnubreyting á. Sú stefna um fjármögnun Vegasjóðs, sem birtist í þessu minnihlutaáliti frá 1971, átti þó ekki langa lífdaga, sem sjá má af því, sem ég hef rakið hér um hlutfall lánsfjár framkvæmda til vegagerðar, sem hækkað hefur stórlega, þrátt fyrir þá stefnumörkun, sem hæstv. núv. fjmrh. hafði vorið 1971. Og þegar það kemur til að auki, að þessir hv. þm. reyndu að telja mönnum trú um, að með stjórn hinna vinnandi stétta mundi verða stefnubreyting um skattheimtu í þessu skyni: þá yrðu lækkuð innflutningsgjöld á bifreiðum, — ætli svo hafi verið gert? — tekjur ríkissjóðs af umferðinni skyldu í vaxandi mæli ganga til uppbyggingar vegakerfisins, — ætli það hafi líka verið farið eftir því? — Ég ætla ekki að fara að hafa uppi hér neinar tölur til þess að skýra þetta frekar. Ég held, að það sé hverjum manni ljóst, sem litur yfir vegáætlanir þessa árs og fyrri ára.

En ég tel, þegar menn hafa gengið svo gjörsamlega á svig við þau fyrirheit, sem þeir hafa gefið, eins og stjórnarsinnar hafa nú gert, þá sé mál til komið, að þeirra áhrifum linni á þátt vegamála á Íslandi og þeir viki fyrir nýjum mönnum og betur starfandi.