24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3924 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

130. mál, veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan þéttbýlissvæða

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj, 641 ber með sér, hefur fjvn. fjallað um till. til þál. um veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan þéttbýlissvæða og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar.

Það hefur viðgengist um nokkurt skeið að veita fé á fjárl. til þess að halda uppi gistiaðstöðu fyrir ferðamenn á ýmsum ferðaleiðum að vetrarlagi. Lengst af hefur verið um lágar fjárhæðir að ræða til hvers aðila um sig. Þær hafa nú farið hækkandi vegna þeirrar vitneskju, sem fjvn. hefur talið sig hafa um það, að rekstraraðstaða margra þessara veitingamanna hafi farið versnandi hin síðari ár. Í grg, með till. kemur sú skoðun einnig fram, að rekstrarkostnaður við þessa þjónustustarfsemi hafi vaxið mjög og af ýmsum sökum, t.d. vegna styttingar vinnutímans, sem óhjákvæmilega leiddi af sér Fjölgun starfsfólks. Þá hafa kröfur um aðstöðu og aðbúnað ferðafólk farið vaxandi, svo sem eðlilegt má telja í tímans rás. Og síðast, en ekki síst hafa afskipti opinberra aðila að þessum málum m.a. komið fram í því að veita harðnandi samkeppni á þessu sviði með því að opna sem víðast ríkisrekin gistihús bestu sumarmánuðina, þegar ferðamannastraumurinn er mestur og rekstraraðstaðan best. Er það í samræmi við þá skoðun, að alla áherslu heri að leggja á þann tímá ársins, sem útlendingar leggja hingað tíðast leið sína. Afleiðingin er sú, að ýmsir þeir, sem lagt hafa kapp á að auka og bæta þessa mikilvægu þjónustu og halda henni uppi allt árið, ná ekki þeim tekjum út úr rekstri sumarsins, sem dygði til að vega upp hallarekstur vetrarins. Yfir vofir, verði ekki úr bætt, að þeir kunni að neyðast til að loka yfir veturinn, þegar síst má án þjónustu þeirra vera. Má rekja mörg dæmi þess, hver nauðsyn er slíkrar þjónustu fyrir ferðamenn, sem þurfa að brjótast í misjafnri færð í hrakviðrum vetrarins yfir hina ýmsu fjallvegi landsins eða setjast um kyrrt og komast hvergi, stundum dögum saman. Getur þá jafnvel riðið á lífi manna, hvar áningarstað er að finna.

Mörg rök virðast því mæla með því, að mál þessi verði nú tekin til gagngerðrar athugunar í heild, eins og lagt er til með till. Hér er um vandamál að ræða, sem snertir ekki einvörðungu veitingamennina og hinn takmarkaða fjölda vetrargesta. Það er einnig mál, sem ástæða sýnist til, að þjóðfélagið sem heild gefi vaxandi gaum.

Þeir aðilar, sem fengu till. þessa til umsagnar, mæltu með því, að till. yrði samþykkt, þ.e. ferðamálaráð, Vegagerð ríkisins og Samband veitinga- og gistihúsaeigenda. Allir töldu þeir þörf á, að athugun á stöðu þessara aðila færi fram, og á grundvelli þeirrar niðurstöðu skyldi n. gera till. um .samræmdar aðgerðir til úrbóta á vanda þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um till. þessa að svo komnu máli, en ég vísa til ræðu flm. till. við 1. umr, og grg, með henni. Ég árétta það að lokum, að fjvn. mælir einróma með því, að till. verði samþykkt óbreytt.