24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3944 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

311. mál, skipulag vísindarannsókna

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 686 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um endurskoðun á skipulagi vísindarannsókna. Eins og segir í grg, þessarar till. sýndist mér nauðsynlegt að vekja athygli á nauðsyn slíkrar endurskoðunar, sérstaklega eftir að fram er komið á þingi frv. til I. um Iðntæknistofnun Íslands. Í þessu frv. er gert ráð fyrir endurskipulagi vissra rannsóknastofnana í þágu atvinnuveganna, tveggja þeirra stofnana, sem falla undir lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965, þ.e.a.s. Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Rannsóknastofnunar iðnaðarins. Gert er ráð fyrir því að sameina þessar stofnanir í eina stofnun og jafnframt Iðnþróunarstofnun Íslands. Er gert ráð fyrir því, að þessi nýja stofnun nefnist Iðntæknistofnun Íslands.

Það er ekki ætlun mín hér að ræða um það frv., það hefur þegar verið rætt við 1, umr. í Nd., en ég vil aðeins vekja athygli á því, að með þessu frv. er gert ráð fyrir allróttækum breyt. á skipulagi fyrst og fremst rannsókna í þágu atvinnuveganna. En það er skoðun mín, að erfitt sé að hreyfa skipulagi þessarar starfsemi að því leyti, sem viðkemur þessum tveimur rannsóknastofnunum, án þess að líta á heildina. Því sýnist mér varla hjá því komist, að skipulag vísindarannsókna verði skoðað viðtækar en aðeins með þeim breyt., sem gert er ráð fyrir í fyrrnefndu frv.

Raunar vil ég taka það fram, að það er skoðun mín, að skipulag vísindarannsókna þurfi stöðugt að vera í endurskoðun. Gera verður þá kröfu til vísindastarfseminnar, að hún sé í fararbroddi tækniþróunar. Lög og skipulag starfseminnar er að vísu aðeins ytri rammi hennar og hæfileikar hennar fara að sjálfsögðu fyrst og fremst eftir því, hvaða menn eru þar starfandi, en engu að síður er sá rammi, sem l. skapa, mikilvæg ytri umbeið fyrir þessa starfsemi.

Það skipulag, sem vísindastarfsemi býr við í dag og varðar rannsóknir í þágu atvinnuveganna, er mótað af l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965. Það frv. var samið af n., sem skipuð var og kjörin á Alþ., atvinnumálanefnd ríkisins. Sú n. fékk m.a. það hlutverk að lita á skipulag rannsókna í þágu atvinnuveganna og samdi það frv., sem lagt var til grundvallar fyrrnefndum lögum um ranasóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965. Með því frv. voru gerðar allvíðtækar breyt. á því skipulagi, sem áður var. Beindust þessar breyt, fyrst og fremst að því að auka tengsl vísindastarfseminnar við viðkomandi atvinnugrein og skapa þessum atvinnugreinum þannig aukin áhrif á stjórn og skipulag viðkomandi rannsókna. Með þessum l. varð jafnframt lögð niður Atvinnudeild háskólans, sem áður skiptist í nokkrar deildir, landbúnaðardeild, fiskideild, — iðnaðardeild og byggingadeild, en jafnframt settar á fót fjórar rannsóknastofnanir. Einnig náðu l. til þeirrar fimmtu, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Lög um Rannsóknaráð ríkisins voru jafnframt endurskoðuð og þeim breytt mjög verulega.

En allt frá því að þessi lög voru sett, hafa verið uppi raddir um enn víðtækari breyt., sem eðlilegt er, eins og ég rakti áðan, þegar um er að ræða starfsemi eins og vísindastarfsemina. Hefur verið litið á ýmsar till., sem fram hafa komið um þetta efni. Fyrst og fremst hafa þær verið skoðaðar á vegum Rannsóknaráðs ríkisins. Rannsóknaráð setti nefnd í að athuga þetta mál. Í henni sat framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins ásamt fulltrúum vísindamanna og forstjóra rannsóknastofnana í þágu atvinnuveganna. N. vann mikið starf, en varð ekki sammála í niðurstöðum sínum, og komu fram þrjú nál. Það er skemmst frá því að segja að við umr. um þessi nál. hjá Rannsóknaráði ríkisins varð niðurstaðan sú, að gera ekki ráð fyrir breyt. á því stigi. Þetta var fyrir um það bil tveimur árum. En kröfur um ýmsar breyt. hafa verið háværar, m.a. frá atvinnuvegunum, ekki síst iðnaðinum, sem hefur talið, að hann hafi ekki þau not af iðnaðarrannsóknum, sem vera ber, og ekki þau áhrif á stjórn stofnunarinnar, sem nauðsynleg eru til þess að starfsemi hennar sé sem mest í þágu íslensks iðnaðar. Ég nefni þetta sem dæmi og til stuðnings við það, sem ég sagði áðan, að ýmsar kröfur hafa komið fram um endurskoðun á skipulagi vísindarannsókna, og má raunar segja, að það frv., sem þegar hefur verið lagt fram um Iðntæknistofnun Íslands, sé af þeim rótum runnið.

Ég ætla ekki að hafa um þetta lengra mál. Ég held, að sú staðreynd, að frv. er fram komið, tali sínu máli um það, að kröfur eru uppi um endurskoðun á skipulagi vísindarannsókna. Ég held, að þeir, sem skoða það frv., muni gera sér grein fyrir því, að varla verður hjá því komist að gera e.t.v. svipaðar breyt. á skipulagi annarra vísindarannsókna, og ég hygg, að þeir, sem þessi mál þekkja, geri sér jafnframt grein fyrir því, sem ég færi til rökstuðnings í grg, með þessari till., að vísindarannsóknir þurfa að vera nokkuð stöðugt í endurskoðun. Þær eru ákaflega mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap og efnahagslífi einnar þjóðar og því eðlilegt, að Alþ. láti þau mál til sín taka annað slagið, eins og þingið hefur gert áður.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til allshn.