29.04.1974
Neðri deild: 113. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

173. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Málin þrjú, sem eru 9., 10. og 11. á dagskránni, eru svo náskyld, að ég mun, ef hæstv. forseti leyfir, mæla fyrir þeim öllum í einu. Þarna er um að ræða frv. um breyt. á lögum um 3 framhaldsskóla: Hótel- og veitingaskóla Íslands, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskóla.

Það er sama atriðið í öllum þessum 1., sem lagt er til að breytist, greinin um, hvernig skólanefnd sé skipuð, og breyt. er í öllum tilvikum hin sama, að nemendur eignist fulltrúa í skólanefnd.

Það hefur á undanförnum árum sífellt farið í vöxt, að fulltrúar nemenda eigi sæti í skólastjórnum eða skólanefndum framhaldsskóla, og í raun og veru eru þessi þrjú frv. borin fram til að fylla þarna í skarð, sem orðið hefur, vegna þess að lögin um þessa skóla hafa ekki komið til endurskoðunar nýlega eða þá að þau hafa ekki verið færð til samræmis við annað, sem á döfinni var, þótt þau séu tiltölulega nýleg, eins og l. um Fiskvinnsluskóla. Þessi breyting á skipun skólanefndar, að nemendur eigi þar fulltrúa, á sérstakan rétt á sér hvað þessa skóla varðar, vegna þess að í þeim öllum er nemendahópurinn að miklum hluta skipaður eldra fólki en sækir ýmsa þá framhaldsskóla, sem þegar eiga nemendafulltrúa í skólastjórn eða skólanefnd.

Ég legg til, herra forseti, að þessum þremur málum verði að umr. lokinni vísað til hæstv. menntmn.