29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4002 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

331. mál, þjónustustarfsemi

(Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var samíð af sérstakri n., sem viðskrn. skipaði, en í þessari n. áttu sæti Arnmundur Backman lögfræðingur, sem var form. n., Björn Baldursson framkvstj. og Gylfi Knudsen fulltrúi í viðskrn.

Meginefni þessa frv. er að ákveða, að viðskrn. geti sett reglugerðir um skyldur og réttindi varðandi atvinnurekstur á þjónustusviði. Það kemur einna skýrast fram með því að víkja að efni 2., 3. og reyndar 4. gr. frv., en í 2. gr. segir orðrétt:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja, eftir því sem tök eru á: 1. Að neytendur í landinu eigi völ á sem bestri þjónustu. 2. Að þeir aðilar, sem fást við atvinnurekstur á sviði þjónustu, geti uppfyllt þær skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu.“ Og í 3. gr. segir: „Hver einstaklingur, sem fullnægir eftirgreindum skilyrðum, hefur rétt til þess að stunda atvinnurekstur á sviði þjónustu: 1. Er heimilisfastur á Íslandi og hefur verið það síðasta árið. 2. Er fjárráða og hefur forræði á búi sínu. 3. Fullnægir að öðru leyti þeim skilyrðum, sem sett eru eða setta kunna að verða lögum samkvæmt eða í reglugerðum til þess að mega reka starfsemina.“

Síðan er viðskrh. veitt heimild til að setja ákvæði í reglugerð um atvinnurekstur á sviði þjónustu.

Á það er bent í grg. frv. og í skýrslu þeirrar n., sem vann að samningu þess, að nú eru í lögum ýmis ákvæði um skyldur og réttindi varðandi margvíslegan atvinnurekstur í landinu og þjónustu, en hins vegar er enn ekki að finna nein ákvæði í lögum varðandi skyldur og réttindi um fjölmargar þjónustugreinar. Hefur mjög borið á því við þá starfsemi, sem rekin er á vegum neytendasamtaka, og hefur verið farið fram á, að lög yrðu sett, sem gætu tryggt neytendur betur en nú á sér stað í sambandi við viðskipti við slíka aðila.

Ég hygg, að hér sé um mjög nauðsynlegt mál að ræða. En með þessu frv., ef það yrði að lögum, er aðeins stigið fyrsta skrefið. Síðan er ætlast til þess að fikra sig áfram í áttina, setja reglugerð um eina greinina af annarri, eftir því sem nauðsynlegt er, og setja þar ákvæði um almennar skyldur og réttindi þeirra, sem hér eiga hlut að máli.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mái hér við 1. umr. frekar en ég hef gert. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. til athugunar.