02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4092 í B-deild Alþingistíðinda. (3710)

Almennar stjórnmálaumræður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Bjarni Guðnason, minntist á gömlu flokkana að vanda, rétt eins og allt gamalt sé af hinu illa og allt nýtt hljóti að vera af hinu góða, meira að segja hans eigin pólitíska afsprengi, sem er þó ekki skriðið úr egginu. Hv. þm. á að vita það, að góð vin batna með aldrinum. Þessu er eins varið með góða stjórnmálaflokka.

Hæstv. menntmrh, var að minnast á landhelgismálið, og hefur ekkert heyrst til hans áður í þessu mesta lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Hann hefur sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir, að um bráðabirgðasamkomulagið við Breta var svo viðtæk óánægja hér á Alþ. í öllum flokkum nema flokki menntmrh., að ekki var hægt að búast við öðru en að einhverjir greiddu atkv. gegn þessum samningi, þegar svo margir gengu nauðugir til þess leiks að gjalda honum jákvæði.

Hæstv. menntmrh, var að tala um skuttogara og þakka sjálfum sér og ríkisstj. Aukning fiskiskipaflotans hefur lengst af gengið í bylgjum og varð sú mesta, sem nokkru sinni hefur orðið, á árunum 1959–1962, þegar aukning á fiskiskipum yfir 100 rúmlestir nam í rúmlestatölu 140% á þrem árum. Þetta voru verk viðreisnarinnar. Og hún hóf aðgerðir í skuttogarakaupum. Þakka skyldi núv. ríkisstj., þó að hún hindraði ekki þá þróun, sem hafin var, Nóg er nú samt.

Aldrei hefur nokkur ríkisstj. sest í valdastóla á Íslandi með meira brauki og bramli en núv. ríkisstj. Stjórnarflokkarnir gerðu með sér málefnasamning, sem frægur er að endemum, en er nú ekki þess virði, að til hans sé vitnað. Með slíku samstarfi, sem stofnað var til, hlaut alltaf að koma til vandræða. Það kann að vera, að þessum flokkum sé ekki alls varnað í samvinnu við sér betri og traustari menn. En í innbyrðis samvinnu þessara stjórnmálaflokka draga þeir fram hina verstu eiginleika hver annars. En hverjum gat komið til hugar, að stjórnarsamstarfið hefði slíkar skelfilegar afleiðingar, sem allir mega nú sjá? Satt að segja héldu menn, að ríkisstj. mundi fullnægja einhverjum lágmarkskröfum, sem gera verður til hvaða ríkisstj, sem er. En vonbrigðin í þeim efnum eru algjör, og ég tala nú ekki um hjá því fólki, sem studdi þessa flokka til valda í síðustu alþingiskosningum.

Ríkisstj. gróf sér gröf með því að lofa öllum öllu. Það kann að geta gengið að lofa öllum einhverju innan ákveðinna marka og lofa einhverjum takmörkuðum hópi manna öllu, en það er útilokað að gera allt fyrir alla og það á sama tíma. En núv. ríkisstj. hefur hagað sér til orðs og æðis sem þetta væri mögulegt. Í þessu felst hennar höfuðsynd. Í þessu felst það lýðskrum og ábyrgðarleysi, sem engan samjöfnuð á í íslenskri stjórnmálasögu.

Það er frumskylda hverrar ríkisstj, að stjórna. Það er hlutverk ríkisstj. að veita forustu, veita leiðsögu og aðhald. Núv. ríkisstj. hefur brugðist þessum skyldum sínum í algleymi lýðskrumsins. Hún hefur kastað beislinu fram af sér. Það er þetta ástand, sem hefur nú magnað alla veikleika í þjóðfélagsuppbyggingu okkar og þjóðlífi. Gegndarlaust kapplaup um lífsgæðin og skefjalaus kröfugerð tröllríður þjóðfélagi voru. Brenglað gildismat leiðir út í ófæru í leitinni að hégóma og hismi. Afleiðingarnar blasa við. Það er hrun fram undan. Á næsta leiti blasir við stöðvun atvinnuveganna, ef ekkert er að gert. Og á meðan Róm brennur, gamnar ríkisstj. sér við varnar- og öryggismál landsins í hráskinnsleik valdabaráttunnar innan veggja stjórnarráðsins, og til að bæta gráu ofan á svart skirrist þessi ólánsstjórn ekki við að gerast dragbítur á aðgerðir til að ná fullum yfirráðum yfir fiskimiðum landgrunnsins út í 200 mílur.

Var einhver að segja, að ég hefði ofmælt í lýsingu minni á ástandinu í dag? Við höfum þeirra eigin orð til lýsingar á ástandi efnahagsmálanna. Er hægt t.d. að draga upp dekkri mynd af ástandinu en hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur gert síðustu daga hér í þingsölum, í hljóðvarpi og sjónvarpi? Hefur ekki Hannibal Valdimarsson sagt, að 1. júní n.k. skelli yfir slík flóðalda dýrtíðar, að við ekkert verði ráðið, nema til aðgerða komi strax. Það liggur svo mikið við að mati þessa hv. þm., að hann lýsir því yfir, að ríkisstj. drýgi hinn mesta glæp með því að sitja, eftir að hún hefur gert sér grein fyrir, að hún er ófær um að leysa vandann. Það dugi ekki minna en að segja glæp. Og hverjum dettur í hug, að ríkisstj. sé fær um að leysa vandann?

En nú er ríkisstj. og ófögnuður hennar í einskis manns ábyrgð frekar en Hannibals Valdimarssonar. Í síðustu alþingiskosningum gaf þessi maður sig út sem krossferðarriddara í baráttunni gegn kommúnismanum á Íslandi. Út á þennan málstað tókst Hannibal að afla sér og samtökum sínum fylgis. Þannig fékk hann aðstöðu til að gera myndun þessarar ríkisstj. mögulega og lyfta kommúnistum í valdastólana. Ekki hefur í aðra tíð verið beitt grófari og blygðunarlausari svikum og blekkingum. Höfuðpaurinn Hannibal langar nú til að leika hlutverk hins iðrandi syndara og fara í fótspor vinar síns og félaga, hv. þm. Bjarna Guðnasonar. Vel gæti ég unnt honum þess hlutskiptis, að hann mannaði sig nú upp í það að leggja lóð sitt á vogarskálarnar til þess að losna við þá ríkisstj., sem hann sjálfur kom á laggirnar. Þar með ætti Hannibal að vera úr sögu þessari, sögu íslenskra stjórnmála.

Í dag hefur ríkisstj. lagt fram á Alþ. till. sínar um nýjar efnahagsráðstafanir. Hér orkar flest tvímælis, sem lagt er til, enda er um bráðabirgðaráðstafanir einar að ræða, eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. áðan. Hæstv. forsrh. sagði, að markmiðið með efnahagstill. þessum væri að gefa ríkisstj. svigrúm til varanlegra aðgerða. Hafa menn ekki heyrt þetta áður? Haustið 1971 var talað um svigrúm, þegar svokölluð verðstöðvun var þá framlengd. Það var talað um svigrúm, þegar verðstöðvun var framlengd um áramótin 1971–1972. Enn var talað um svigrúm, þegar gefin voru út brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir í júlí 1972. Enn var talað um svigrúm, þegar gengislækkunin var gerð í des. 1972. Og enn er hæstv, forsrh, á biðilsbuxunum og biður nú um svigrúm.

En nú er nóg komið hæstv. forsrh. Það er fullreynt, að núv. ríkisstj. getur ekki gert neinar ráðstafanir í efnahagsmálunum nema til bráðabirgða. Allar aðgerðir ríkisstj, hafa því verið fálmkenndar og haldlausar, en mesta velgengni í aflabrögðum og viðskiptakjörum, sem þjóðin hefur nokkru sinni búið við, hefur afstýrt því, að ekki hefur fyrir löngu rekið í það strand, sem nú er við að fást.

Aldrei hefur verið augljósara en nú, að bráðabirgðaráðstafanir koma að engu haldi. Nú duga ekki lengur vettlingatökin. Það, sem nú ríður á, er að taka upp samræmda stjórn efnahagsmálanna, þar sem allir þættir þeirra eru teknir til meðferðar og yfirsýn yfir þá höfð. Það verður að mæta þeim mikla vanda, sem þjóðarbúinu er búinn af sveiflum íslensks efnahagslífs, sem eiga ekki síst rót sína að rekja til verðsveiflna og aflasveiflna í sjávarútvegi. Efla verður verðjöfnunarsjóð sjávarafurða, sem stofnaður var í tíð viðreisnarstjórnarinnar, en núv. stjórn hefur rýrt, þrátt fyrir stórkostlega verðhækkun sjávarafurða. Það verður að draga úr sveiflum efnahagslífsins með því að renna fleiri stoðum undir atvinnuvegi okkar, efla útflutning iðnaðarvara og leggja áherslu á stóriðju og ekki síður annan iðnað. Það verður að setja nýja vinnulöggjöf til að tryggja betri vinnufrið, skipulegri vinnubrögð við sáttagerð og samninga aðila vinnumarkaðarins. Það ástand, sem nú ríkir í þessum málum og menn horfa á daglega, er óþolandi fyrir launþega, vinnuveitendur og þjóðina í heild. Það verður að afnema núv. vísitölukerfi, sem er orðið í höndum ríkisstj. einungis tæki til að blekkja og skerða hlut launþega með ýmsum hætti. Það verður að gera ráðstafanir til varnar gegn því, að menn geti hagnast á verðbólgu á kostnað sparifjáreigenda í landinu, svo sem með því að vísitölubinda öll stofnlán, hverju nafni sem þau nefnast, svo að sama gangi yfir alla. Það þarf að gera uppskurð á almannatryggingakerfinu. Hætta verður fjáraustri til þeirra, sem ekki eru hjálpar þurfi. Efla þarf aðstoðina til þeirra, sem hennar eru verðir vegna elli, sjúkleika og annarra ósjálfráðra orsaka. Það þarf að gjörbreyta stefnunni í stjórn ríkisfjármála, sem er meginvaldur þenslunnar á vinnumarkaðinum og þar með verðbólgunnar í landinu. En halda menn, að það sé von til þess, að ríkisstj., sem hefur nær þrefaldað ríkisútgjöldin á 3 árum, geri nokkurt umtalsvert til úrbóta í þeim efnum? Það kemur víst engum til hugar í alvöru. En samt er það svo, að það er einmitt þetta, sem þarf að gera. Það þarf að ráðast til atlögu við þessi vandamál. sem ég hef hér drepið á, og mörg fleiri.

Almenningur í landinu gerir sér grein fyrir þessu, og ég vil bæta við: hvar í flokki sem menn standa. Þegar í harðbakkann slær, er mönnum ekki sama um velferð sína og framtíð, hvað sem líður stjórnmálaskoðunum. Engir hugsandi menn eru svo fastreyrðir á flokksklafa, að þeir láti þjónustu við ímyndaða flokkshagsmuni aftra sér við björgunarstörf. — Og nú þarf sannarlega að bjarga, — bjarga úr vanda þeim, sem þjóðin er komin í, bjarga frá skelfingum þeim, sem fram undan eru, ef ekki er brugðið rétt við. Þess vegna er það almenn krafa, að breyting verði á stjórnarháttum þegar í stað.

Mönnum rennur það til rifja að horfa upp á niðurlægingu ríkisstj. Íslands þessa dagana. Ósannindabrigsl ráðh. og forustumanna stjórnarflokkanna hvers í annars garð, að ógleymdu öllu karpinu um fundargerðarbókun á valdataflinu í stjórnarráðinu, — þetta er ekki skopleikur, þetta er harmleikur.

Nú er svo komið, að ríkisstj. getur ekkert gert, jafnvel þó að hún hefði till. fram að færa þess eðlis, að leyst gætu vandann. Ríkisstj, hefur ekkert traust lengur. Ríkisstj., sem hefur glatað trausti þjóðarinnar, hefur glatað möguleikunum til að stjórna, — slík ríkisstj. er vanmegnug til alls nema segja af sér. Þá þjónustu ber nú ríkisstj. að veita þjóðinni með því að segja af sér strax. Fólkið í landinu vill ríkisstj. burt, burt með ríkisstj.

Góðir sjálfstæðismenn um land allt. Á þessum alvörutímum beinast sjónir og vonir alþjóðar til flokks okkar, Sjálfstfl. Sjálfstfl. er eina aflið í þjóðfélagi okkar, sem getur bjargað. Sjálfstæðismenn verum viðbúnir. Það gerum við best með því að efla styrk okkar og atgervi. Fram undan eru orrustur: Sveitarstjórnarkosningar í þessum mánuði, alþingiskosningar á næsta leiti. Heilir hildar til, heilir hildi frá, sjálfstæðismenn.