03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er mjög í tísku um þessar mundir að leysa vandamál í sambandi við vegagerð og fjárútvegun til hennar með útgáfu happdrættisskuldabréfa eða í öllu falli er mjög í tísku að koma með hugmyndir fram um þá leið. Þessi patentlausn, sem nú virðist eiga sér æ fleiri fylgismenn, virðist vera við það miðuð, að hægt sé að leysa fjárhagsvandræði Vegasjóðs með þessum sérstaka hætti.

Ég held hins vegar, að flestum sé ljóst, að þessi patentlausn er fremur grunnhyggin, ef í stórum stíl er, því að hér er að sjálfsögðu ekki um neitt annað að ræða heldur en ávísun á framtíðina, og þessa ávísun verður að borga fyrr eða síðar. Þessi ávísun er býsna dýr, vegna þess að í þessum tilvikum er um að ræða vísitölu- eða verðtryggingu lánsins, ásamt vöxtum, þannig að fjármagnið, sem tekið er með þessum hætti, verður orðið mjög dýrt, áður en yfir lýkur. Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af því að taka erlend lán í stórum stíl til vegaframkvæmda, en ég verð að játa, að ég er litlu hrifnari af því, að tekin séu innlend lán, sem eru svo kostnaðarsöm, svo sem þessi lán eru. Ég óttast, að að tiltölulega fáum árum liðnum verði Vegasjóður að taka happdrættislán eða gefa út skuldabréf af þessu tagi í stórum stíl til þess eins að standa undir afborgunum af gömlum lánum af þessu tagi og að þessi leið muni lokast fljótlega.

Hitt er annað mál, að það er hugsanlegt að beita þessari aðferð í undantekningartilvikum. Þetta getur verið aðferð, sem á rétt á sér, þegar sérstaklega stendur á, og í slíkum tilvikum er því eðlilegt að styðja mál af þessu tagi.

Hér er um það að ræða, að búið er að leggja mikið fé í vegagerð til hringvegar í Djúpið og henni verður ekki lokið með því fjármagni, sem fyrir hendi er, þannig að haft myndast, og vantar ekki mikið á, að vegurinn komi að gagni. Það er sjónarmið mitt, að úr því að ákveðið var að eyða 100 millj. til að leggja þennan veg, en það var ákveðið fyrir 2 árum, þá sé algjörlega ótækt, að þessi mikla framkvæmd standi um langa hríð ónytjuð, vegna þess að herslumuninn vanti. Þar af leiðir, að ég get vel verið því samþykkur í undantekningartilviki af þessu tagi, að þessi sérstaka aðferð sé notuð. En ég legg á það áherslu, að það hlýtur að vera óhjákvæmilegt fyrir okkur að horfast í augu við veruleikann í þessum efnum og leggja vegi í landinu með því fjármagni, sem við leggjum til hliðar á hverju ári til þeirra nota.

Ég undirritaði nál. með fyrirvara, og sá fyrirvari er í því fólginn, að ég er reiðubúinn að styðja þetta mál í trausti þess að takist að útvega fjármagn til annarra vegaframkvæmda í landinu, sem telja má margar hverjar jafnvel brýnni en þessa vegaframkvæmd. Í því felst þá, að ég styð þetta mál í trausti þess, að stjórnarandstaðan, sem hefur óvenjulega aðstöðu hér á Alþingi, komi ekki í veg fyrir það, að leyst sé úr óhjákvæmilegri fjárþörf Vegasjóðs við væntanlega afgreiðslu þeirra mála, en að því er ekki komið enn.