03.05.1974
Neðri deild: 119. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3764)

337. mál, jafnvægi í efnahagsmálum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er rétt að taka það fram strax, að þó að þetta frv. sé lagt fram sem stjfrv., hafa stjórnarflokkarnir áskilið sér að hafa óbundnar hendur um einstök atriði þess. Það er engan veginn óþekkt, að svo sé.

Ég tel hvorki rétt né heppilegt á þessu stigi að gera að umræðuefni ummæli þau, sem Vestfirðingagoðinn, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, lét falla hér í útvarpsumr. í gærkvöldi, og að mér vissu óbeint. Ég tel mál þetta stærra og brýnna en svo, að rétt sé að eyða orðum í karp um aukaatriði. Gögn öll um gang og afgreiðslu þessa máls hef ég í höndum og legg þau e.t.v. einhvern tíma seinna á borðið. En stjfrv. er þetta, og sá ráðh., sem vill firra sig ábyrgð á flutningi þess, hefur þrátt fyrir orðsendingu og bókanir á elleftu stundu aðeins eitt úrræði.

Ég hef áður kynnt forustumönnum stjórnarandstöðunnar meginefni þessa frv. og get e.t.v. þess vegna farið fljótar yfir sögu en ella í framsöguræðu, og þyrfti 1. umr. þess vegna e.t.v. ekki að vera mjög löng, þó að auðvitað sé eðlilegt, að menn þurfi að ræða þetta mál, án þess að þar sé nokkur takmörkun á gerð. En það vil ég segja, að þrátt fyrir það, þó að málið hafi áður verið kynnt stjórnarandstöðunni eða forustumönnum hennar, þá tel ég æskilegt og vil skora á hv. alþm. að gefa sér gott tóm til að kynna sér málið, áður en þeir á þessu stigi gefa um það nokkrar bindandi og óafturkallanlegar yfirlýsingar og lýsa þannig afstöðu sinni til þess.

Efni frv. hefur verið með viðræðum kynnt aðilum vinnumarkaðarins, bæði af hálfu hagrannsóknastjóra og eins með formlegri hætti. Þriggja manna ráðherranefnd, sem í eiga sæti ráðh. Lúðvík Jósepsson, Halldór E. Sigurðsson og Magnús T. Ólafsson, þar sem Björn Jónsson er nú sjúkur, hefur rætt við launþegasamtökin, þ.e.a.s. Alþýðusambandið, BSRB og Bandalag háskólamanna og mun halda þeim viðræðum áfram, auk þess sem ég hef óformlega rætt lítillega áður við forustumenn í Alþýðusambandinu. Þá hef ég og átt viðræður um þetta mál við samtök bænda og Vinnuveitendasambandið eða fyrirsvarsmenn þess. Hér er aðeins um að ræða viðræður, en ekki neins konar samninga, — viðræður til kynningar og til að fá ábendingar, en alls ekki til þess að fá samþykki þessara aðila til þeirra aðgerða, sem hér er um að ræða.

Það er ríkisstj. og Alþ. og fyrst og fremst Alþ., sem á og verður að taka ákvarðanir um þessi efni og bera á þeim ábyrgð, án þess að geta skotið sér á bak við aðra. Þeir, sem telja þetta úrlausnarefni, sem hér liggur fyrir, svo brýnt, að nú í svipinn sé ekki tími til kosninga, og ég er því algerlega sammála, ættu a.m.k. að sjá og játa, að nú er ekki tími til samningaþófs, svo að vikum skiptir, sem því miður væru lítil líkindi til, að leiddu til beinna samninga, bæði þegar litið er til fenginnar reynslu og eðlis málsins.

Það hefur vissulega verið haft og er haft samband og samstarf, vil ég segja, við aðila vinnumarkaðarins. Og ég tel, að í þessu efni hafi síst af öllu verið brotið gegn ákvæðum málefnasamningsins. Í málefnasamningnum segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Hún (þ.e. ríkisstj.) mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“ Ég skýt því inn, að ég játa hreinskilnislega, að þetta hefur ekki tekist, en síðan segir: „Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti. Til að ná þessu marki vill stjórnin hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekendur um ráðstafanir í efnahagsmálum“

Ég tel, að við samningu þessa frv. hafi verið fylgt þeirri meginreglu, sem þarna er sett. Frv. þetta er um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Það er um vissar tímabundnar bráðabirgðaráðstafanir til lausnar á aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum. Fljótt á litið getur það hljómað sem eins konar öfugmæli að tala um efnahagsvanda, a.m.k. í eyrum manna, sem ekki hafa heildaryfirsýn yfir þjóðarbúskapinn, en líta aðeins á það, sem næst þeim er í augnablikinu. Það er staðreynd, að hér á landi er nú almennari velmegun og almennt betri lífskjör en áður hafa þekkst, og það er einnig staðreynd, að Íslendingar eru í því efni í fremstu röð þjóða. Atvinnulíf stendur með blóma, atvinna er óvenjulega mikil og atvinnuöryggi er sem næst því hámarki, sem menn geta búist við að ná. Samt er við efnahagsvandamál að glíma: verðbólguna, þ.e. hinn öra verðbólguvöxt, sem ógnar sjálfum forsendum velmegunarinnar, sjálfum atvinnurekstrinum, atvinnunni og atvinnuörygginu, og teygir rætur sínar í ýmsar áttir og grefur undan hornsteinum heilbrigðs þjóðarbúskapar og stofnar framtíðaröryggi atvinnulífsins og framförum í hættu, ef ekki verður í tæka tíð brugðist við á réttan hátt.

Fyrir þessu vandamáli, verðbólguvandanum, gerði ég nokkra grein í útvarpsumr. í gærkvöld. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það hér, en vísa til þess, sem ég þá sagði. Þó vil ég aðeins leyfa mér að vitna til eftirfarandi ummæla minna, sem m.a. skýra í stuttu máli ástæðurnar fyrir nauðsyn þess, að þetta frv. er flutt.

Ég vil fyrst nefna orð mín um nýgerða kjarasamninga, og má þó enginn skilja það svo, að þar sé að finna einu ástæðu vandans, heldur eina af mörgum, — alls ekki, að þar sé að finna einu ástæðu vandans, heldur eina af mörgum. En ég sagði:

„Í hinum almennu kjarasamningum í febr. og þá ekki síður í þeim, sem síðan hafa verið gerðir, hefur verið samíð um mun meiri launahækkanir en skynsamlegt var samkv. útreikningum og spám hagrannsóknadeildar. Í þeim hefur verið farið út fyrir þau mörk, sem samrýmanleg voru væntanlegri greiðslugetu flestra atvinnugreina. Í þeim virðist ekki heldur hafa tekist að draga úr launamismun, þ.e. að lyfta hinum lægri launum meir en hinum hærri, en það var sú stefna, sem Alþýðusambandið hafði mótað mjög skýrt í samþykktum sínum, áður en gengið var til kjarasamninga, og það er markmið, sem ríkisstj. vildi stefna að og byggt var á í samningum við opinbera starfsmenn. Niðurstaðan virðist í mörgum tilfellum hafa orðið sú, að launabilið hafi verulega breikkað þrátt fyrir skýrar stefnuyfirlýsingar launþegasamtakanna.“

Ég vil enn fremur nefna eftirfarandi orð úr útvarpsræðu minni frá í gær:

„Það er nú augljóst, að þær sveiflur í efnahagsmálum, sem fram undan virtust í árslok 1973, verða miklu sneggri og hastarlegri en þá var búist við. Í fyrsta lagi er fram komin lækkun á verðlagi frystra fiskafurða í Bandaríkjunum og á fiskmjöli. Í öðru lagi virðist nú líklegast, að hið geysiháa olíuverðlag haldist fram eftir árinu. Í þriðja lagi fer almennt innflutningsverðlag hækkandi. Og síðast, en ekki síst fela hinir nýju fram það, sem atvinnuvegirnir geta staðið undir að óbreyttu verðlagi á afurðum þeirra, hvað þá við lækkandi markaðsverð. Með þessum samningum er stefnt í alvarlegan halla á viðskiptum við útlönd. Að gerðum þessum samningum og að óbreyttum framkvæmda- og útlánaáformum fara þjóðarútgjöldin að öllu óbreyttu langt fram úr því, sem þjóðartekjur og eðlilegur innflutningur fjármagns leyfir. Það er því augljóst mál, að ef ekkert er að gert, blasir við háskaleg verðbólguþróun til viðbótar þeirri, sem orðin er, sem stefnir atvinnuöryggi landsmanna, lánstrausti þjóðarinnar erlendis og áframhaldandi framförum og hagvexti á komandi árum í hættu. Víðtækar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu og til þess að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum eru því óumflýjanlegar að mínum dómi, ef koma á í veg fyrir taprekstur atvinnufyrirtækja, stöðvun í einstökum atvinnugreinum og samdrátt í atvinnu.“

Efnahagsvandi sá, sem við er að fást og lýst er í grg., sem fylgír með frv. þessu, er margþættur, þó að hann sé sprottinn af einni aðalrót, þ.e.a.s. verðbólgunni og hinum öra verðbólguvexti. Hann er svo margþættur, að hann verður ekki leystur nema með róttækum alhliða ráðstöfunum. Í þeim þarf að leggja áherslu á að stöðva sjálfvirkar víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds. Lækka framkvæmdafyrirætlanir og útgjöld hins opinbera og einkaaðila. Auka þarf aðhald í peningamálum, draga úr útlánum og freista þess að auka sparnað með öllum tiltækum ráðum. Jafnframt getur reynst nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að tryggja rekstrarafkomu atvinnuveganna. Þannig er brýn þörf nú á samstilltum aðgerðum á sviði launamála, verðlagsmála, ríkisfjármála, peninga- og lánamála og gengismála. Undirbúningur og framkvæmd svo víðtækra jafnvægisráðstafana í efnahagsmálum hlýtur að taka nokkuð langan tíma. Einkum er mikilvægt að ná almennu samkomulagi um launa- og verðlagsmálastefnu, sem til frambúðar getur samrýmst jafnvægi í efnahagsmálum.

Það hættuástand, sem nú hefur skapast í efnahagsmálum eða öllu heldur er þó fram undan og stafar af hinni ört vaxandi verðbólgu, kallar hins vegar á tafarlausar aðgerðir, aðgerðir, sem ekki þola hið og er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að skapa svigrúm fyrir undirbúning varanlegra úrræða og koma í veg fyrir alvarlegar truflanir í atvinnulífinu. Þó er áríðandi, að þessar bráðabirgðaráðstafanir taki til sem flestra sviða efnahagsmála og séu þannig valdar og samræmdar, að varanlegri úrræði í næsta áfanga við lausn efnahagsvandans geti eftir nánari athugun tengst þeim með eðlilegum hætti.

Helstu atriði þeirra efnahagsráðstafana, sem felast í frv. þessu og að er stefnt í fyrsta áfanga, eru þessi:

1. öflugt viðnám gegn verðhækkunum á hvers konar vöru og þjónustu og þ.á m. á húsaleigu, verðhemlun á þessum atriðum fram yfir 30. nóv. 1974, svo og eftir atvikum verðlækkun, sbr. síðustu mgr. i. gr. frv.

2. Binding kaupgreiðsluvísitölu fram yfir 30. nóv. 1974 eða réttara sagt frestun á hækkun kaupgreiðsluvísitölu fram yfir 30. nóv. 1974. Í því sambandi er þó rétt að benda á þá undantekningarheimild, sem er að finna í 2. mgr. 4. gr. frv., þar sem segir: „Þó er ríkisstj. heimilt að ákveða, að greiða skuli hærri verðlagsuppbót en segir í 1. mgr. á grunnlaun, sem lægri eru en 36 þús. kr. á mánuði, fyrir fulla dagvinnu miðað við kaupgreiðsluvísitölu 1. des. 1973 sama sem 100. Slík verðlagsuppbót yrði ákveðin sem föst krónutala, en ekki sem hlutfall af launum.

3. Binding launaliðar verðlagsgrundvallar búvöru fram yfir 30. nóv. 1974 og sérstakt aðhald að verðákvörðun á búvöru, svo sem nánar segir í 5. gr.

4. Sérstakt aðhald að fiskverðsákvörðunum fram yfir 30. nóv. þetta ár, eftir því sem nánar segir í 6. gr. frv.

5. Frestun fram yfir 30. nóv. 1974 á gildistöku allra grunnlaunahækkana umfram 20% í fyrsta áfanga nýgerðra kjarasamninga. Það tekur þó ekki til láglauna samkv. nánari skilgreiningu í þeirri gr., sem um það fjallar, þ.e.a.s. 30 þús. kr. mánaðargrunnlauna miðað við fulla dagvinnu. En um það eru fyllri ákvæði í 7. gr.

6. Hækkun útgjalda ríkissjóðs til niðurgreiðslna vöruverðs frá fjárl., bæði samkv. 2. gr. og 9. gr. frv.

7. Hækkun árlegra fjölskyldubóta frá áætlun fjárl. úr 12 þús. kr. í 15 þús. kr., sem er í reyndinni núgildandi bótahæð, sbr. 3. gr.

8. Lækkun ríkisútgjalda, bæði lögboðinna og annarra, frá því, sem í fjárl. segir, um allt að 1500 millj. kr., til þess fyrst og fremst að kosta hækkun niðurgreiðslna og fjölskyldubóta.

9. Álagning 4% skyldusparnaðar á skattgjaldstekjur tekjuskattsskyldra manna 1974 umfram 400 þús. kr., er svo eiga að endurgreiðast á 2–5 árum með vöxtum og verðtryggingu, svo sem nánar segir í 10. gr. Þeir, sem þennan skyldusparnað eiga að reiða af hendi, eiga því ekki að búa við nein ókjör, því að um þann skyldusparnað á það einnig að gilda, að hann á að njóta sama skattfrelsis og annar skyldusparnaður.

10. Skuldbinding innlánsstofnana lífeyrissjóða, Atvinnuleysistryggingasjóðs og líftryggingafélaga til kaupa á skuldabréfum Framkvæmdasjóðs eða ríkissjóðs fyrir a.m.k. 15% ráðstöfunarfjár, sbr. 13. gr. Í þessu felast a.m.k þrjár breytingar frá því, sem átt hefur sér stað í reyndinni hingað til. Í fyrsta lagi er þessi skylda lögfest, en hún hefur hingað til byggst á samningum. Í öðru lagi hefur þessi skylda hingað til aðeins náð til banka. Og í þriðja lagi er fjárhæðin, sem þetta tekur til, hækkuð úr 10% í 15%.

11. Skuldbinding lífeyrissjóða til að kaupa skuldabréf ríkissjóðs, Byggingarsjóðs ríkisins eða Framkvæmdasjóðs fyrir alls 35% ráðstöfunarfjár, og er þá skuldbinding samkv. næsta lið á undan með talin. En hingað til hefur það verið svo, að samkv. samningum, sem gerðir hafa verið við lífeyrissjóðina, hafa þeir lagt til um 20% ráðstöfunarfjár. En um þetta eru sérstaklega nánari fyrirmæli í 16. gr. og svo ákvæði um þær nánari reglur, sem gert er ráð fyrir, að fjmrh. setji um þessi efni í 16. gr. frv.

En þó að það séu ekki nein ákvæði um það í þessu frv., er gert ráð fyrir, að frekari ráðstafanir komi til, þ.e.a.s. ráðstafanir, sem auk þeirra, sem taldar eru í þessu frv., þarf að gera og ríkisstj. og Seðlabanki munu beita sér fyrir, en hægt er að gera án löggjafar. Eru þær þessar:

1. Endurskoðun lánskjara allra lánastofnana í landinu, og verði stefnt að einhvers konar verðtryggingu allra útlána fjárfestingarlánasjóða eftir nánari tilteknum reglum. Í þessu liggur það, að svigrúm er til að ákveða, með hverjum hætti verðtryggingu þessari verður fyrir komið, hvort hún tekur til lánsins í heild eða hluta þess, við hvaða vísitölu verður miðað o.s.frv. Það er sem sagt ekki um það að ræða, að þarna sé bundið neitt sérstaklega við byggingarvísitölu, og geta fleiri vísitölur vitaskuld komið til álita.

2. Samkomulag við viðskiptabankana um 22% hámarksaukningu útlána á árinu 1974.

3. Samkomulag við viðskiptabankana um, að nettóskuldir þeirra erlendis aukist ekki á árinu 1974 miðað við meðaltal ársins 1973.

4. Sett verður hámark fyrir nýjum erlendum lántökum á árinu 1974 og að því stefnt, að skuldaaukning erlendis fari ekki yfir 5500 millj. kr. á árinu 1974 miðað við núgildandi gengi. Þar er að vísu um allháa fjárhæð að ræða, en vitaskuld skiptir það öllu máli í þessu sambandi, vegna hvers er stofnað til erlendra skulda, þannig að það er fávísin ein að líta á upphæðina eina einangraða út af fyrir sig.

5. Fylgt verður áfram sveigjanlegri gengisstefnu sem þætti í heildarstjórn efnahagsmála til þess að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega. Þó er ekki gert ráð fyrir neinum stórfelldum breytingum í því efni, ef frv. þetta verður að lögum. Ég vil gjarnan endurtaka þetta, vegna þess að það hefur borið á því að undanförnu í bönkunum, að sótt hafi verið eftir gjaldeyri og alveg áreiðanlega af ótta við það, að yfirvofandi væri eða á næsta leiti einhver sérstök breyting á gengi. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir neinum stórfelldum breytingum á gengismálum, ef þetta frv. verður að lögum.

Þeim ráðstöfunum, sem frv. kveður á um, er fyrst og fremst, eins og áður er sagt, ætlað að skapa nauðsynlegt svigrúm til undirbúnings frekari aðgerða. Það er mikilvægt, að þetta svigrúm verði notað til þess að leita varanlegra úrræða á sviði launa- og verðlagsmála og opinberra fjármála og peningamála til þess að brjóta verðbólguhugsunarháttinn á bak aftur. Meðal mikilvægra atriða, sem athuga þarf í því sambandi, eru nýjar aðferðir við gerð kjarasamninga með það fyrir augum að tryggja sanngjörn launahlutföll á öllum vinnumarkaðinum og koma í veg fyrir launakapphlaup á milli stétta, jafnframt því sem sniðnir væru varanlega vankantar af núgildandi kerfi vísitölubindingar launa.

Annað atriði, sem taka þyrfti til rækilegrar athugunar, er almenn verðtrygging hvers konar fjárskuldbindinga eða einhver ákveðin tengsl almennra vaxtakjara við verðbreytingar, ef slíkar breytingar gætu í senn aukið sparnað, tryggt fjármagn til æskilegra framfara, dregið úr spákaupmennsku og verndað raungildi sparifjár og lífeyris þeirra, sem minna mega sín. Jafnframt þessu þyrfti að koma á umbótum á sviði peninga- og lánamála og opinberra fjármála til þess að tryggja styrka, samræmda og á næstu missirum hæfilega aðhaldssama stjórn á þessum sviðum.

Svo gagngerar breytingar sem hér er rætt um kalla á m.a. endurskoðun á skattmeðferð verðhækkunarhagnaðar og vaxta og krefjast víðtækrar athuganir og samræmingar og þar með samvinnu aðila á mörgum sviðum efnahagslífsins, ekki aðeins þeirra, sem venjulega eru kallaðir aðilar vinnumarkaðarins.

Hér hafa aðeins verið nefnd fáein atriði, sem gætu orðið hluti af síðari áfanga jafnvægisaðgerða í efnahagsmálum. Nánari athugun mun efalaust leiða í ljós fjölmargt annað, sem taka þarf á. Vel má og vera, að þörf verði róttækari aðgerða en felast í fyrsta áfanganum til þess að tryggja örugga atvinnu og lífskjör og farsælar framfarir í landinu á næstu árum. Þann fyrirvara vil ég hafa á.

Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að meta af nákvæmni áhrif þeirra viðnámsaðgerða, sem felast í þessu frv., og þeirra annarra ráðstafana, sem ég hef nefnt, á efnahagsframvindu næstu mánaða. Bæði er það vegna þess, að sumar aðgerðanna eru í formi heimilda, sem ekki er fullráðið, hvernig verða notaðar, og eins af því að samanburðargrundvöllurinn, efnahagsframvindan án aðgerða, eins og hann er settur fram í álitsgerð sérfræðinga, sem fylgir með þessu frv., er auðvitað og getur alltaf verið umdeilanlegur, byggður á spám í ýmsum efnum og óvissum atriðum, og hjá því verður ekki komist. En hitt þarf ekki að efa, að þar sé frómt frá sagt og eftir bestu vitund þeirra sérfræðinga, sem þar um hafa fjallað. Þess má t.d. geta, að í grg., sem fylgir með, hefur ekki verið reiknað með verðhækkunaráhrifum stuðningsaðgerða við atvinnuvegina, sem nauðsynlegar yrðu og óhjákvæmilegar í einhverju öðru formi, ef ekki yrði nú spyrnt við fæti með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Til þess að gefa hugmynd um mikilvægi aðgerðanna miðað við, að þeim verði heitt til fulls, má nefna fimm atriði:

1. Þróun verðlags og framfærslukostnaðar.

2. Þróun kauptaxta og kaupmáttar.

3. Afkomu atvinnuvega.

4. Peninga- og lánamarkað.

5. Viðskipta- og greiðslujöfnuð.

Vegna þess, hve langt er á árið liðið, hafa viðnámsaðgerðirnar að sjálfsögðu ekki full áhrif á útkomu þessa árs í heild. En til þess að gera grein fyrir áhrifum þeirra á heilu ári má líta til talna um stöðuna á næstliðnu hausti, sem gefa mynd af þeirri undirstöðu, sem aðgerðirnar gætu lagt að framvindu efnahagsmála í jafnvægisátt á næstu misserum. Þá er það fyrst þróun verðlags og framfærslukostnaðar. Án nokkurra aðgerða stefnir í 40–50% meðalhækkun verðlags og framfærslukostnaðar á árinu 1974. Þessi verðbólguhraði væri enn meiri í lok ársins. Með aðgerðum er reiknað með 35–40% meðalhækkun verðlags á árinu 1974. Þessi tala gefur þó ekki fullnægjandi hugmynd um árangurinn, því að í árslok væri verðbólguhraðinn orðinn mun minni og kominn niður fyrir 30% á ári og stefndi til lækkunar, ef aðgerðirnar stæðu eitthvað áfram eða aðrar lausnir væru þá fundnar, sem gætu skilað svipuðum árangri. Sem sagt, í stað stigmögnunar verðbólgu í yfir 50% á ári væri stefnt að því að vinna hagkerfið niður í hóflegar verðbreytingar á árinu 1975. Hér væri um mikinn ávinning að ræða.

Í öðru lagi er það svo þróun kauptaxta og kaupmáttar. Að óbreyttri þróun kauplags og verðlags eru horfur á a.m.k. 60% meðalhækkun kauptaxta á þessu ári og rúmlega 42% hækkun framfærslukostnaðar, eins og í grg. segir, Það þarf náttúrlega ekkert annað en nefna þessar tölur, 60% meðalhækkun kauptaxta og rúmlega 42% hækkun framfærslukostnaðar, til þess að mönnum sé og verði það ljóst, að svona stökk getur engin þjóð tekið. Þó að hækkunin á kauptaxta væri þessi, 60%, er kaupmætti kauptaxta stefnt í um nálægt 12% aukningu, sem er, verð ég því miður að segja, langt umfram efni, eins og sakir standa í dag. Sé hins vegar miðað víð, að kauptaxtar hækki ekki frekar en orðið er fyrr en í lok ársins, verða þeir að meðaltali um 45% hærri á þessu ári en á s.l. ári. Það virðist nú býsna há upphæð, býsna mikið stökk á einu ári. En þannig ykist kaupmáttur kauptaxta um 4–5% að meðaltali á árinu, ef viðnámsaðgerðunum yrði beitt til fulls. Leiðinleg staðreynd að horfast í augu við, en best að hafa ekki sömu aðferð og strúturinn: að stinga höfðinu í sandinn. En ég undirstrika, að þetta er miðað við það, að viðnámsaðgerðunum yrði beitt til fulls. En þarna verður t.d., þegar ætti að líta á stöðu launþega út af fyrir sig, að athuga og reikna með hinum auknu niðurgreiðslum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og ekki er varlegt að fara með miklar tölur um á þessu stigi, en gætu kannske, ef allt það fé fengist, sem þar er gert ráð fyrir, og væri að fullu notað, numið — til þess að vera ekki of nákvæmur 6–8 stigum kannske, og jafnframt verður svo auðvitað að hafa í huga þá heimild, sem er í 2. mgr. 4. gr. til greiðslu sérstakrar verðlagsuppbótar á þau laun, sem kölluð eru lág laun. Þar er sem sagt um heimild að ræða, sem engin ákvörðun liggur fyrir um, hvernig yrði notuð, en hún gæti náttúrlega verið notuð þannig, að þar kæmi veruleg uppbót á þessi laun láglaunamanna, þannig að þá gæti dæmið staðið þannig, að það væri ekki um umtalsverðar fórnir að ræða, sem það láglaunafólk tæki á sig með vísitölubindingu. En þó endurtek ég, að það fer auðvitað algerlega eftir því, hvernig þessari heimild er beitt. Kaupmáttur ráðstöfunartekna og þar með einkaneysla ykist nokkru meira en gert var ráð fyrir um kaupmátt kauptaxta, eða um 7–8%, vegna áhrifa skattkerfisbreytingarinnar frá því í mars s.l. Þó að hér sé ekki eins hátt stefnt og vikið var að, þegar nefnd var 12% kaupmáttaraukning, þá held ég, að það sé ekki ofmælt, að samt sé hátt stefnt, því að lífskjör hér á landi í fyrra voru á hátindi og eru það enn. Við lok ársins væri með viðnámsaðgerðum að því stefnt að freista þess að halda þessum kaupmætti.

Þá er það í þriðja lagi atvinnuástand. Flestar greinar sjávarútvegs eiga nú þegar við talsverðan rekstrarvanda að etja, einkum þó frystiiðnaðurinn. Nefndi ég um það tölur í ræðu minni í gær, sem ég endurtek ekki. Sama gildir einnig um útflutningsiðnað og sennilega um ýmsar greinar heimamarkaðsiðnaðar, sem eiga í samkeppni við innfluttar vörur. Til þess að leysa vanda þessara atvinnugreina þarf því sérstakar aðgerðir. Viðnámsaðgerðum í fyrsta áfanga er fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir truflanir í útflutningsgreinum, sem annars væru fyrirsjáanlegar og gætu raunar náð til fleiri atvinnugreina. Enn fremur er þeim ætlað að tryggja fullt atvinnuöryggi og koma í veg fyrir, að gengi krónunnar þurfi að siga verulega, því að slík þróun mundi fela í sér alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þróun atvinnulífs og félagslegt réttlæti tekju- og eignaskiptingar. Það þekkja menn af reynslunni.

Þá er það í fjórða lagi peninga- og lánamarkaður. Á vettvangi peninga- og fjármála kemur verðbólguþróunin fram í mikilli fjárvöntun til útlána og opinberra framkvæmda, sem metin er í grg. sérfræðinganna a.m.k. 2000 millj. kr. Í frv. er annars vegar með skyldusparnaði einstaklinga og kröfu um verðbréfakaup lánastofnana stefnt að a.m.k. 1000 millj. kr. viðbótarfjáröflun innanlands á árinu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að endurskoða öll lánskjör fjárfestingarlánasjóða og taka þá m.a. til athugunar að taka upp einhvers konar verðtryggingu útlána í því skyni að draga úr eftirspurn, sem óneitanlega á að verulegu leyti rætur að rekja til víðleitni manna að hagnast á verðbólgunni, það skulum við hreinskilningslega játa.

Ljóst er, að þrátt fyrir þá fjáröflun, sem frv. gerir ráð fyrir, verður alltaf helmingur fjáröflunarvandans enn óleystur, og verður því nauðsynlegt að vinna enn að nokkrum niðurskurði útgjalda- og útlánafyrirætlana á næstu vikum. Utan við ramma þessa frv. eru einnig peningalegar ráðstafanir, svo sem takmörkun á útlánaaukningu bankanna, aðhald um aukningu erlendra skulda, breyting lánskjara, sem nauðsynlegar eru til þess að hemja þá eftirspurnaraukningu, einkum í formi fjárfestingar, sem er ein meginorsök vaxandi viðskiptahalla. Án slíkra aðgerða má búast við, að áhrif viðnámsaðgerðanna á viðskiptajöfnuðinn, sem metin eru 1500 millj. kr. á árinu, muni ekki koma fram nema að litlu leyti.

Þá er það loks í fimmta og síðasta lagi viðskipta- og greiðslujöfnuður. Annað megineinkenni efnahagsvandans er vaxandi halli á viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd. Þannig gæti nú stefnt samkv. áliti sérfræðinganna í um 8000 millj. kr. viðskiptahalla á árinu, ef ekki yrði að gert og gæti það falið í sér allt að helmingsminnkun gjaldeyrisforðans, eins og hann var um síðustu áramót, en þá var hann reyndar meiri en nokkru sinni fyrr. Áhrif efnahagsráðstafana frv. á viðskiptajöfnuð ársins í ár hljóta að takmarkast af því, hve langt er á árið liðið, en innflutningur hefur verið afar mikill á fyrstu mánuðum ársins. Lauslegar áætlanir um áhrif frv. benda þó til þess, að innflutningur vöru og þjónustu gæti orðið um 1200 –1500 millj. kr. minni en ella og viðskiptahalli því nálægt 6500 millj. kr. að öllu öðru óbreyttu. Hér er þó um mun meiri umskipti að ræða á síðari hluta ársins en framangreindar tölur gefa til kynna. Á heilu ári gætu þessar ráðstafanir falið í sér bætta viðskiptastöðu út á við um 2500 millj. kr. miðað við núgildandi gengi.

Um þjóðarframleiðsluna og þjóðartekjurnar er þetta að segja: Við upphaf ársins var reiknað með því, að aukning þjóðarframleiðslu gæti orðið um 4–5% að magni á árinu, en vegna rýrnandi viðskiptakjara var reiknað með minni aukningu þjóðartekna eða 3–4%. Við endurskoðun þjóðhagsspár að afloknum kjarasamningum var talið, að þessi hugmynd um aukningu þjóðarframleiðslu gæti staðist, en hins vegar að rýrnun viðskiptakjara yrði meiri og aukning þjóðartekna því minni eða e.t.v. um 2%. Afar lausleg hugmynd um þjóðhagshorfur ársins að teknu tilliti til áhrifa viðnámsaðgerðanna bendir til þess, að þjóðarframleiðslan muni aukast nokkru minna en áður var spáð eða um 3–4%. Kæmi þetta fram í minni framleiðsluaukningu á síðari hluta ársins en áður var gert ráð fyrir. Að óbreyttum horfum um útflutnings- og innflutningsverðlag mun rýrnun viðskiptakjara valda því, að þjóðartekjur verði ívið minni en reiknað var með og aukningin því líklega tæp 2% á árinu. Þjóðarútgjöld stefna hins vegar í 5–6% aukningu frá fyrra ári. Þótt hér sé um minni framleiðsluaukningu að ræða en verið hefur á undanförnum árum, má telja, að hún nægi til að tryggja áfram viðunandi atvinnuástand. En eins og nú horfir um verðlags- og kaupgjaldsþróun innanlands og verðlagsþróun útflutningsafurða, væri ótruflaður rekstur atvinnuveganna hvergi nærri tryggður, ef ekkert yrði að gert.

Eins og ég hef þegar tekið fram, leysa þær aðgerðir eða ráðstafanir, sem ákvæði er að finna um í þessu frv., ekki allan þann vanda, sem við er að glíma. Fyrir utan það koma til sérstök aðkallandi vandamál, sem líta verður á jafnframt og hafa í huga. En þær efnahagsráðstafanir, sem frv. felur í sér, eru settar fram sem fyrsti áfangi jafnvægisaðgerða í efnahagsmálum. En það er sem sagt sýnt, að í þeim efnahagsráðstöfunum felst ekki fullnaðarúrlausn ýmissa sérstakra vandamála, sem snúast verður gegn á næstu vikum. Hér er einkum um fjögur atriði að ræða, sem ítarlega er fjallað um í grg. með frv.:

1. Staða útflutningsatvinnuveganna og þá sérstaklega frystiiðnaðarins, eins og ástatt er í dag.

2. Staða fiskiflotans, m.a. vegna olíuvandamálsins.

3. Fjármögnunarvandamálin og erlendar lántökur.

4. Tæp staða ríkissjóðs.

Jafnvel þótt tækist um sinn að stöðva víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags og koma á virkri verðlagshemlun, virðist engu að síður stefna í verulegan taprekstur frystiiðnaðarins miðað við ríkjandi markaðsverð að óbreyttu gengi, eins og ég gerði grein fyrir í gær og nánar er vikið að í grg. með frv. Sama gildir um fiskiskipaflotann við ríkjandi rekstrarskilyrði, en þar gæti, ef ekki yrði að gert, orðið um verulegan taprekstur að ræða, jafnvel án tillits til olíukostnaðarvandamálsins, sem ekki hefur verið leyst nema til eins árs, í ár. Hér er því við að glíma vandamál, sem enn væru að nokkru óleyst þrátt fyrir hin almennu áhrif kaupgjalds- og verðlagsaðgerða fyrsta áfanga efnahagsaðgerða. Við þessum vanda gæti þurft að snúast, bæði með almennum ráðstöfunum á sviði gengismála og sérstökum ráðstöfunum, t.d. með endurskoðun verðjöfnunarskilyrða. Fyrir lok júnímánaðar þarf einnig að taka ákvörðun um ráðstöfun vegna olíuvandamáls fiskiskipaflotans, þar sem sýnt er, að olíuverðhækkunin hefur reynst varanleg, en ekki tímabundin, eins og menn gerðu sér vonir um við upphaf ársins, og 5% loðnugjaldið í olíuniðurgreiðslu til fiskiskipa gefur minna af sér en vonir stóðu til.

Þrátt fyrir þær stórtæku ráðstafanir til lausnar hinum almenna fjáröflunarvanda, sem beitt yrði í fyrsta áfanga, yrði hann að nokkru óleystur og enn gætti fjárvöntunar til opinberra framkvæmda og útlána fjárfestingarlánasjóða miðað við núverandi áform. Enn fremur er greinilega stefnt í meiri skuldaaukningu við útlönd en skynsamlegt getur talist. Þessi mál kalla á frekari athugun og úrræði á næstu vikum og hef ég minnst á þau í máli mínu hér að framan, og ríkisstj. og Seðlabanki yrðu að taka þau til athugunar og snúast við þeim.

Eins og ég hef reyndar áður tekið fram, má skoða frv. þetta sem fyrsta áfanga af þremur í jafnvægisáætlun fyrir þjóðarbúskapinn. Ráðstafanir fyrsta áfangans kæmu nær allar þegar til framkvæmda. Verkefni annars áfangans eru lausn þeirra aðkallandi vandamála, sem lýst var hér að framan og ráðstafanir frv. leysa ekki til fulls. Hér eru rekstrarvandamál sjávarútvegsins mikilvægust, og er eðlilegt, að unnið verði að þeim jafnhliða fiskverðsákvörðun á næstu vikum. Þá þarf að ákveða fyrir mitt ár, hvernig snúast skuli við þeim mikla vanda fyrir fiskiskipaflotann, sem hið háa olíuverðlag í heiminum felur í sér. Verkefni þessa annars áfanga þarf þannig að inna af hendi á næstu 2–3 mánuðum, og mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að það geti tekist. Þriðji áfangi áætlunarinnar verður síðan mótun framtíðarstefnu í efnahagsmálum. Að henni þarf að vinna, meðan ákvæði viðnámsfrv. gilda, ef að lögum verða. Ég drap hér að framan á nokkur atriði, sem helst koma þar til greina. Að þessu sinni verður ekki rætt nánar um einstök atriði þess lokaáfanga, en til þess að okkur auðnist að ná föstum tökum á stjórn efnahagsmála, er ljóst, að kveðja þarf til samráðs við Alþ. eða ríkisstj. aðila vinnumarkaðarins, því að það er ekki síst á þeirra vettvangi, sem umbóta er þörf. Til þess að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um raunhæfa og styrka stefnu í efnahagsmálum í framtíðinni hyggst ríkisstj. óska eftir áframhaldandi formlegum viðræðum við samtök launþega og vinnuveitenda um þetta efni og þá sérstaklega þegar þetta frv. hefur verið samþykkt, þannig að sýnt sé, við hvað er að búa og að hverju er hægt að stefna.

Ég ætla ekki til viðbótar því, sem ég hef þegar sagt, að fara ítarlega út í einstakar gr. þessa frv. Með því fylgja svo ítarlegar skýringar, að til þeirra nægir að vísa. Ég vil þó aðeins víkja nokkrum orðum að vissum atriðum í sambandi við viðnámsaðgerðir 1. og 7. gr. og þá að nokkru leyti með hliðsjón af eða tilliti til framtíðarinnar.

Það má segja sjálfsagt um ákvæði 1., 2. og 3. gr., að þar sé um að tefla hefðbundin verðstöðvunarákvæði. Þar má segja, að út af fyrir sig sé lítið farið út fyrir það svið aðgerða, sem ríkið hefur áður beitt til viðnáms gegn verðhækkunum.

Hins vegar er ljóst, að sérstakt verðlagsaðhald, sbr. 1. gr., hefur jafnan reynst haldlítið eitt sér, bæði vegna þess, að án eftirspurnar- og launaaðhalds hlýtur verðlagsaðhald að bresta, og eins vegna þess, að framkvæmdavaldið er beinlínis veikt á þessu sviði. Þó er hér í þessum gr. –eða 1. gr. — um vissa útfærslu að ræða, eins og ég sagði áður. Ljóst er, að hún tekur til húsaleigu, en hingað til hefur það svifið í lausu lofti og enginn aðili verið til, sem hefur þóst eiga að hafa eftirlit með húsaleigu. En í gr. eru tekin af öll tvímæli um það. Við vitum, að það, sem brunnið hefur ekki hvað síst á fólki, er hækkandi húsaleiga, og ber því brýna nauðsyn til að stemma stigu þar við. Enn fremur er það nýmæli, að það er heimild til þess að ákveða verðlækkun á vörum. En ýmsar þær aðgerðir aðrar, sem er að finna í frv., geta gefið tilefni til þess, að teknar séu til endurskoðunar þær verðlagsákvarðanir, sem ákveðnar hafa verið, vegna þess að þær leiða til lækkunar í ýmsum þjónustugreinum, og verður þá að endurmeta það verð, sem ákveðið hefur verið, t.d. á útseldri vinnu.

Í 4. og 7. gr. er farið með lagaákvæðum inn á svið samninga um kaup og kjör. Ástæðurnar til þessarar íhlutunar eru raktar í aths. við þessar gr. og koma fram í almennri grg. Þar ber í stuttu máli tvennt til: í fyrsta lagi, að almenn kauphækkun í rammasamningi ASÍ og vinnuveitenda hafi verið óhóflega mikil og meiri en ráðlegt var samkv. fyrirliggjandi spám, og í öðru lagi, að eftirkaupin eftir þessa samninga hafa magnast upp í launakapphlaup á milli stétta, þannig að lægst launuðu stéttirnar bera skarðan hlut frá borði. Þessi þróun ber því vitni, að verkalýðshreyfingin er í senn, ef svo mætti segja, sterk og veik. Þessi þróun ber því vitni, að verkalýðshreyfingin er sterk í þeim skilningi, að hún getur komið fram vilja sínum við ákvörðun peningakaups — ég vil segja nálega hverju sinni. En hún er veik í þeim skilningi, að hún hefur ekki reynst þess megnug í þetta skipti a.m.k. að móta og framkvæma samræmda, hófsama tekjustefnu, sem var þó yfirlýst markmið hennar. Launasamningarnir að undanförnu eru gott dæmi þess og jafnframt sérstaklega ástæða þeirra till., sem um er að ræða í 4. og 7. gr., sem hér eru fluttar.

Það er e.t.v. ástæða til þess að segja aðeins örfá orð um 7. gr., sem gerir ráð fyrir því, að frestað sé þeim grunnkaupshækkunum, sem samið hefur verið um umfram 20%. Það má vel vera, að þetta komi mönnum ókunnuglega fyrir sjónir, og þarna verður sjálfsagt sagt, að farið sé með óvenjulegum hætti inn á svið kaup- og kjarasamninga. Ég verð að segja, að þessi gr. er ekki ættuð frá mér. En því betur sem ég hef skoðað hana, þeim mun sannfærðari er ég orðinn um réttmæti hennar, að í henni felst réttlæti í stað þess ranglætis, sem komið hefur verið á með ýmsum þeirra kjarasamninga, sem hafa verið gerðir, þannig að ég get fyllilega tileinkað mér þá hugsun, sem hún byggist á. Ég væri út af fyrir sig stoltur af því að gangast við faðerni að því. Hitt er eitthvert það ómannlegasta, sem hendir menn, ef þeir vilja sverja fyrir faðerni afkvæma sinna.

En er þá 7. gr. í raun og veru óvenjuleg? Ég leit aðeins lauslega yfir það, — mjög lauslega, hve oft löggjafinn hefði á árabilinu frá 1939 til dagsins í dag gripið inn í kaup- og kjarasamninga með ákvæðum um vísitölu, með ákvæðum um kaupbindingu, með ákvæðum um gerðardóma og dómnefndir í kaupgjaldsmálum, með dýrtíðarráðstöfunum, með vísitölubindingu, með vísitölubanni o.s.frv. eða með lögum, sem með einum eða öðrum hætti snerta kaupgjaldsmál og samninga, sem gerðir hafa verið, og mér taldist til, að tala þeirra laga væri rúmlega 30 eða nánar tiltekið 34. Þó get ég ekki ábyrgst það, því að ég hafði ekki tíma til að fara svo nákvæmlega yfir þetta. En þó hygg ég, að það skakki ekki miklu. Auðvitað er vísitala einn þáttur kjarasamninga, og það er í sjálfu sér enginn eðlismunur á verðlagsuppbót og grunnlaunum, alveg sams konar í eðli sínu, og löggjafinn hefur gert það oftar en einu sinni að fara þannig inn í vísitölumálin að mismuna mönnum, setja þrep í vísitöluna. Það hefur oft verið talað um að undanförnu, að það þyrfti að setja þak á vísitölu, það væri réttlætismál. En ég get ekki séð muninn á því í sjálfu sér að setja þak á vísitölu og setja þak á launahækkanir, sem eiga að eiga sér stað í einu stökki. Það er alveg sama eðlis. En það má vel vera, að þeir verði margir, sem bera umhyggju fyrir þeim mönnum, sem hafa haft þá aðstöðu að knýja fram sér til handa mun meiri kjarabætur og kauphækkanir en aðrir almennir launþegar, þeir sem minna mega sin í þjóðfélaginu og ættu frekar á aðstoð þjóðfélagsins að halda. Það má vel vera, að þeir séu margir, sem þora ekki að taka á þessum málum með þessum hætti. Og þá vil ég segja það strax, að ég er til viðræðu um að sleppa þessari 7. gr. út úr frv. til samkomulags, ef hún verður mönnum sá þyrnir í augum, að strandaði á.

Að sjálfsögðu koma hér við sögu margir fleiri þættir en ég hef hér vikið að. En launaákvörðunaraðferðin er svo mikilvæg, að hún hlýtur að koma til endurskoðunar við ríkjandi aðstæður. Með frv. er lagt til að lögbinda um sinn tiltekna þætti launaákvörðunar og fela ríkisstj. og lögskipaðri dómnefnd sérstakt vald í þessum efnum. Ég neita því ekki, að þetta eru út af fyrir sig afdrifamikil spor, en þar er gengið í spor, sem margir hafa áður stigið, en er kannske fennt í og menn minnast ekki mikið lengur. Ég tel, að ríkisstj. beri skylda til að lýsa ákveðinni stefnu, jafnvel í þessum viðkvæmu málum, og það geri ég hiklaust, hvort sem hún veldur mér vinsældum eða óvinsældum. Um það hugsa ég ekki neitt, en geri það, sem ég tel rétt, og þess vegna tel ég vera um réttlætismál að ræða að því er varðar 7. gr. Um vísitöluna má lengi deila, en þar er nauðsyn á ferðinni, auk þess sem ég hef talið og margtekið fram, að ég tel útreikning vísitölunnar á margan hátt ákaflega óeðlilegan og alls ekki gefa þá niðurstöðu, sem hún ætti að stefna að.

Ég tel enn fremur, að ríkisstj. á hverjum tíma geti ekki skorast undan því að axla ábyrgðina á framkvæmd þeirrar stefnu, sem hún ákveður. Í þessu tilfelli hefur hún ekki til þess aðra leið, eins og nú standa sakir og þörfin er aðkallandi, en lögfestingu. Hinu er svo ekki að leyna, og það er mér ljúft að taka fram og vildi gjarnan vinna að því eftir mætti, að sennilega væri þetta framkvæmdavald best komið hjá miðstjórnarvaldi sjálfra samtaka vinnumarkaðarins. Mörg þeirra vandamála í launamálum, sem við eigum við að glíma um þessar mundir, eru til komin vegna þess, að miðstjórnarvald þessara aðila er veikt, of veikt. Einstakir hópar launþega fara sínu fram með verkfallshótun eða með fullri samstöðu stundum, því miður, við vinnuveitendur, þar sem viða skortir á, að í öllum greinum togist á andstæðir hagsmunir við launasamningaborðið. Ég tel, að vel þurfi að huga að þeirri leið, bæði í bráð og lengd, að hin frjálsu samtök vinnumarkaðarins komi sér upp nýjum samráðs- og samþykktaraðferðum. T.d. verð ég að segja það, að mér finnst ekkert fráleitt að hugsa sér, að verkföll einstakra félaga væru blátt áfram óheimil, nema þau hlytu samþykki verkfallsráðs launþegasamtakanna sjálfra, þar sem engir aðrir ættu fulltrúa. Einnig mætti hugsa sér sambærilega meðferð fyrir gildistöku sérsamninga í kjölfar rammasamnings o.s.frv., þannig að valdið í þessum efnum væri miklu meir og með allt öðrum hætti en nú er lagt í hendur ábyrgs aðila, miðstjórnar launþegasamtakanna. Allar breytingar af þessu tagi eru eðli málsins samkv. tímafrekar og hljóta að byggjast á almennum skilningi á nauðsyn samræmdrar tekjustefnu, skilningi þeirra aðila sjálfra, sem hér eiga hlut að máli. En ég held, að réttlætisvitund og jafnréttisvitund þessarar þjóðar hnigi í þessa átt.

Ríkisstj., sem um þessar mundir er sögð ekki eiga eftir langa lífdaga, mun samt á þeim tíma, sem henni þó auðnast að tóra þrátt fyrir allar hrakspár, leggja allt kapp á að fá heildarsamtök launþega til samvinnu um þessi mál. Og ég vil alveg sérstaklega endurtaka og undirstrika, að það væri langbest og æskilegast að mínum dómi, að miðstjórnarvald launþegasamtakanna gæti komið í staðinn fyrir ríkisvaldið við framkvæmd 4. og 7. gr. í þessu frv. En forsendur þess eru ekki til staðar í bili, því að þessi aðsteðjandi vandi kallar á tafarlaus úrræði og það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að menn geta ekki vikið sér undan þeim vanda og verða að leysa þann vanda, ef þeir vilja halda áfram að lifa við sæmileg kjör í þessu landi. Og það er að mínum dómi alveg óhjákvæmilegt, að ríkisstj.. geri á ábyrgan hátt grein fyrir afstöðu sinni til þessara mikilvægu mála og taki afleiðingunum af því að fullu, og það hef ég hér reynt að gera fyrir mitt leyti. Það er vissulega mikilvægt, eins og á stendur, að næstu dagar og vikur verði notaðar vel til þess að kanna, hvaða leiðir eru færar til samstöðu Alþingis, ríkisvaldsins og samtaka vinnumarkaðarins til þess að varðveita atvinnuöryggið í landinu og óskert þau góðu lífskjör, sem þjóðin nýtur, og tryggja jafnframt réttláta tekjuskiptingu, því að eins og ég vék að áðan, þá hef ég þá trú og sannfæringu, að jafnréttisvitundin sé svo samgróin íslenskri þjóð, að hún þoli ekki annað til lengdar en það sé fylgt og sýnt réttlæti í þeim efnum.

Það er sjálfsagt, að einhver saklaus sál gæti nú spurt: Hvers vegna er nú verið að gera allt þetta veður út af verðbólgu? Höfum við ekki lengi haft verðbólgu í þessu landi? Hefur okkur ekki vegnað vel? Höfum við ekki lifað vel? Hafa ekki margir byggt upp á verðbólguna? Hafa ekki margir framkvæmt upp á verðbólguna? Jú, því er ekki að neita, að það er rétt. Og því skyldu menn þá ekki spyrja: Má þá ekki láta þetta rúlla áfram og breyta bara genginu á gjaldmiðlinum, eftir því sem á þarf að halda? Er það ekki einföld leið? Hvers vegna er mikilvægt að vera að hamla gegn verðbólgu hér á landi? Og það er mála sannast, að verðbólga í skefjum innan hæfilegra takmarka þarf ekki að gera skaða. Hún getur verið eðlilegur fylgifiskur framfara í þjóðfélaginu. En það eru viss mörk fyrir því, hve verðbólgan má vaxa ört, og ég er sannfærður um, að stórfelldar sveiflur í því efni, sem hafa í för með sér geysilegt verðlag og margs konar röskun í þjóðfélaginu, eru af hinu illa og við þær aðstæður verður ekki byggt upp traust efnahagslíf í landinu.

Við heyrum það í pólitískum umr. héðan frá Alþ., að það er oft deilt um það, hverjum sé framfarirnar að þakka, og það hafa orðið miklar framfarir hér á landi á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Þar kemur margt til greina. En ég hugsa samt, að þegar menn sleppa öllum pólitískum gyllingum, þá verði flestir að játa, að hagvöxtur á Íslandi hefur að mjög miklu leyti átt rætur að rekja til framfara í fiskveiðitækni og bættra aflabragða og raunar sérstaklega hagstæðrar þróunar viðskiptakjara á síðustu árum. Þar er sannleikurinn sá, að verðbólgan hefur ekki komið í veg fyrir, að við nýttum þessi tækifæri til framfara. En hún hefur ekki stuðlað að því, að þessar framfarir ættu sér stað. Það má leiða að því miklar líkur, að verðbólgan og þær efnahagsaðstæður, sem henni fylgja, hafi torveldað aðrar efnahagsframfarir og hagvöxt, sem styðst við gott skipulag atvinnufyrirtækja og hagkvæma þróun atvinnuvega, með því að hún ruglar m.a. allt skynsamlegt arðsemismat og áætlunargerð til langs tíma innan fyrirtækja sem utan. Þetta á jafnt við um þróun okkar hefðbundnu atvinnuvega: sjávarútvegs, fiskiðnaðar og landbúnaðar, og stofnun nýrra atvinnu greina, sem hagkvæmar gætu reynst. Þess vegna er sannleikurinn sá, þegar hann er allur sagður, að verðbólgan er þrátt fyrir allt íhaldssamt afl í þjóðfélaginu. Hún er íhaldssamt afl í þeim skilningi, að hún stuðlar að því að skorða hagkerfið og framvinduna í troðnum brautum og torveldar breytingar og framfarir, sem ekki hyggjast á beitingu nýrrar tækni í þeim greinum, sem við þekkjum og höfum stundað. Hér kemur sjálfsagt margt fleira til greina, sem ástæða væri til að skoða á verðbólgutímum og ef talað er um verðbólgu og þá líka þær sveiflur í þjóðarbúinu, sem hafa farið út í öfgar, ýmist af innri eða ytri ástæðum, orku þjóðarinnar eytt í allt of ríkum mæli til þess að stríða stöðugt við vandamál líðandi stundar, sem ekki tengjast framförum í okkar þjóðarbúskap, þegar horft er til lengri framtíðar. Þetta á við um þjóðina alla: Alþ., ríkisstj., stjórnmálaflokka, hagsmunasamtök og síðast, en ekki síst nær hvert mannsbarn í landinu, sem veltir því helst fyrir sér, hvernig það fái sér best borgið í kapphlaupinu við verðbólguna, eða sem kannske er meira um vert, sveiflur í hraða hennar. Í þessu felst í senn sóun á líðandi stund og fórn frambúðarhagsmuna. Þetta m.a. eru ástæður til þess, að það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að ná tökum á verðbólguþróuninni og halda henni innan skynsamlegra takmarka. En það má segja, að verðbólguþróunin hafi sett svipmót sitt á efnahagslífið hér á landi í hálfan fjórða áratug, þannig að hér er ekki um neitt nýtt fyrirbæri að ræða. Við þurfum að freista þess að draga úr sveiflunum, sem eru aflvaki og driffjöður þessarar þróunar.

Reynsla okkar er um sumt, — það skulum við hreinskilnislega játa, — sama marki brennd og margra nýfrjálsra þjóða. Fullt sjálfstæði og frelsi er ekki ígildi fullrar sjálfsstjórnar. Á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum gildir það, að ekki er nóg að gera garð í kringum garðinn sinn, heldur verða menn að rækta garðinn sinn upp. Ég held, að þær ráðstafanir, sem er að finna í þessu frv., stefni í þá átt og sérstaklega að þær veiti svigrúm til þess, — svigrúm, sem við þurfum að sameinast um að nota. Við höfum blátt áfram ekki ráð á því að láta sundrung og oft hégómlega valdastreitu koma í veg fyrir, að því markmiði verði náð.

Það er vitað mál, að eins og styrkleika stjórnarflokkanna er háttað í þessari hv. d., hafa þeir ekki einir og óstuddir bolmagn til að koma þessu frv. fram, jafnvel þótt þeir stæðu saman um það sem einn maður. Það er því nauðsynlegt að leita einhvers konar samkomulags um þetta mál, að leita að einhvers konar málamiðlun, án þess að tilgangur frv. fari þar fyrir í súginn. Ég er því reiðubúinn að ræða um að fallast á hugsanlegar breytingar á frv. þessu, enda náist sem áður sá árangur til verðbólguviðnáms og jafnvægis, sem stefnt er að með þeim efnahagsráðstöfunum, sem hér er um að ræða. Það verður hlutverk þeirrar n., sem málið fær hér til meðferðar, að leita slíks samkomulags, og getur hún í því sambandi leitað upplýsinga hjá hagrannsóknastjóra, sem mun fúslega láta henni í té allar þær upplýsingar, sem hann hefur á reiðum höndum um þessi efni, svo og hjá bankastjórum Seðlabankans, sem að sjálfsögðu hafa kannað suma þætti þessara mála sérstaklega. Enn fremur getur hún auðvitað — og er ekki nema sjálfsagt — leitað eftir ábendingum frá aðilum vinnumarkaðarins, sem ríkisstj. mun, eins og ég hef þegar lýst yfir, halda áfram að eiga viðræður við. Efast ég ekki um, að hv. n. muni í þessu efni gera sitt besta. Ég mun auk þess eiga sérstakar viðræður við forustumenn stjórnmálaflokkanna um leiðir til samkomulags um lausn hins aðsteðjandi vanda, sem þjóðarnauðsyn krefst, að brugðist sé við nú í tæka tíð og á réttan hátt.

Ég vona, að allir hv. alþm. geri sér ljósa þá ábyrgð, sem á þeim hvílir. Nú eins og svo oft áður í okkar þjóðarsögu er horft til Alþingis. Þjóðin mun næstu daga fylgjast með því, sem hér gerist, og þjóðin mun á sínum tíma dæma. Og á þeim dómsdegi mun henni ekki efst í huga pexið um orsakir þess vanda, sem við er að glíma, sem raunar liggja ljóst fyrir, heldur hitt, hvernig við honum var brugðist, hvernig á því var tekið að leysa hann. Hún mun muna verkin, en ekki orðin, sem hér verða sögð. Nú er þetta mikilvæga mál lagt í hendur Alþ., þessarar elstu og valdamestu stofnunar íslensku þjóðarinnar. Með afgreiðslu þess skrifar það enn eina blaðsíðuna í langri viðburðarríkri og merkilegri sögu sinni.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og fjh: og viðskn.