07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4235 í B-deild Alþingistíðinda. (3817)

431. mál, réttarstaða tjónaþola

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. og dómsmrh. fyrir svör hans. Mér þykir vænt um, að mál þetta er þegar í athugun. Að sjálfsögðu er hér um viðamikið og yfirgripsmikið mál að ræða, og ég vildi vekja sérstaka athygli á því, að nauðsynlegt er, að fleiri atriði, eins og ég drap á áðan,verði athuguð, svo sem um skaða vegna mengunar, sem má setja í beint samband við flugumferðina. Mér þykir vænt um að heyra, að þetta mál er á athugunarstigi, og vona, að því verði hraðað sem mest, vegna þess að hér er um mál að ræða, þar sem maður veit aldrei, hvenær nauðsyn sé, að ákvarðanir séu teknar.

Það er ekki að neita því, að viss svæði í nágrenni flugvallanna eru í mikilli hættu og þess vegna er íbúum þessara svæða mikið í mun að fá að vita, hvað gerist, og að þeirra hagur sé tryggður sem best sem allra fyrst.