07.05.1974
Efri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4239 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 828, legg ég til. að þessu máli sé vísað til hæstv. ríkisstj. Áhrif brbl. hafa þegar komið í ljós, og að því leyti til var rétt frá sagt hjá frsm. meiri hl., að deilan stendur fyrst og fremst um þann hátt, sem tekinn er upp við innheimtu þessa skatts, sem eru alveg ný vinnubrögð. Hæstv. sjútvrh. undirstrikaði í framsöguræðu fyrir frv., að hann vildi fara varlega í slíka átt, og gaf það raunverulega í skyn, að hér væri um einstakt tilfelli að ræða. Engu að síður ætla ég að fjalla nokkru nánar um þetta mál.

Við verðákvörðun á almennu fiskverði um s.l. áramót urðu miklar umr. um, hvernig mæta skyldi hækkun á olíukostnaði til báta og togara. Vitað var, að rekstur þeirra fiskiskipa, er stunda holfiskveiðar, var erfiður og afkoma hinna nýju togara var erfið. Í viðræðum forustumanna fyrir togaraútgerð við sjútvrn. kom fram, að eina vonin til þess að bæta úr þessum vandræðum, eins og á stæði, væri bundin þeirri hugmynd að hirða mikið á annað hundrað millj. sérstaklega af loðnuflotanum handa togurunum. Heildarupphæðin átti að vera miklu hærri, en bátaflotinn fá sinn skammt til baka í því efni. Sjútvrh. taldi hagnaðinn á loðnuveiðunum svo mikinn, að með einhverju móti yrði að koma í veg fyrir, að hann rynni óskiptur til þeirra, er sköpuðu verðmætin. Engin úrræði voru til fyrir togarana á því heimili, og handhægast var að hremma hluta af þessum ímyndaða stórgróða og bjarga þar með hinum nýja togaraflota. Eftir mikil fundarhöld fengu menn vísbendingu um það, að ef ekki yrði fallist á fyrirhugað skattgjald, mundi því meira tekið af loðnuverðmætinu og sett inn í verðjöfnunarsjóðinn. Formælendur togaranna og minni bátanna áttu því ekki um neitt annað að velja en að samþ. að standa að skattlagningunni innan sinna samtaka og fara inn á algjörlega nýjar brautir til aðstoðar vissum þætti fiskveiða. Í áratugi hefur sú regla gilt, að skattlagningin er almenn og greiða allir sitt pund, hver eftir aflamagni. Enginn hefur mótmælt þessu. Það hefði ekki heldur verið gert nú, þó að langmest hefði komið eðlilega frá loðnuflotanum, ef þeirri grundvallarreglu hefði verið fylgt, að hver sá, er njóta skyldi úthlutunar af skattgjaldinu, tæki fyrir fram á sig kvöðina og greiddi þá í samræmi við aflamagn, svo sem gert er í öllum tilfellum við aðrar veiðar og myndun annarra sjóða.

Á þetta var ekki fallist frá hendi ráðh. og hið nýja skattform knúið í gegn með hótunum um aðra ráðstöfun hliðstæðrar upphæðar, ef aðilar kæmu sér ekki saman. Þetta hafði sín áhrif, og á sérstökum fundi innan samtakanna og fiskiskipaflotans var skattgjaldið samþ. með nokkrum meiri hl. Togaramenn lögðu þar með þá kvöð á allt aðra aðila að greiða til þeirra nokkuð yfir 100 millj. kr., ef vel tækist til með verkun og sölu, á sama tíma og ríkisstj. hafði alls engin úrræði til lausnar vanda togaraflotans.

Það er skoðun undirritaðs, að hér sé um að ræða brot á venjulegum skattheimtureglum og einnig gangi þessi skattheimta gegn grundvallarhugmynd stjórnarskrárinnar um, að skattheimta skuli vera í almenningsþágu og innheimt almennt, en ekki af ákveðnum hópi manna, eins og hér er gert, eða 12–13 hundruð mönnum, sem eru á þessum flota. Útgerðin fær til baka verulegan hluta handa sér, svo að ég reikna ekki með öðru en tilfærslu á því fjármagni, sem hún er að mynda, varðandi bátaflotann. Fyrir hann var reiknað með miklum afla, og uppgripahagnaði loðnubátanna og áhafna þeirra. Var varla um annað meira rætt lengi í blöðum og útvarpi og sjónvarpi en hvað loðnuvertíðin mundi gefa mikið af sér fyrir þá, sem að vertíðinni stæðu, og fyrir þjóðarbúið í heild.

Það er rétt, að heildaraflinn í tonnum talið var meiri en áður eða alls 462 þús. tonn rúmlega með þátttöku 136 skipa. Meðaltal á skip er því 3402 tonn nákvæmlega reiknað. Nánari skipting aflans á skipin er þannig, að 33 skip fá minna en 1000 tonn. Þetta eru að vísu lítil skip, sem byrja flest í fyrsta skipti, en aflinn er ekki meiri en þetta. 24 skip eru með afla 1–2 þús. tonn, 19 skip með 2–3 þús. tonn, 22 skip með 3–5 þús. tonn og 20 skip með 5–6 þús. tonn, sem er auðvitað allgóður afli, þegar komið er yfir 5 þús. tonn. 18 skip eru með 6 þús. tonn og meira. en þar er verulegur mismunur á upp í toppinn, hvernig þetta aflamagn skiptist.

Það er athyglisvert við þessa aflaskiptingu, að 76 skip eru með minni afla en nemur meðaltalinu. Þessi skip eru með rekstur, sem hvergi nærri skilar góðri útkomu, hvorki fyrir útgerðina né áhöfnina. Mörg þau aflaminni eru með minna en 2000 tonn, eða 57 skip. Margir hverjir hafa ekki aflað fyrir framlögðum kostnaði, þar sem skip byrjuðu í fyrsta skipti og um nokkra fjárfestingu var að ræða, en sama, framlagður kostnaður er það mikill, að þessi skip eiga í verulegum vandræðum nú. Sjá menn á því, hversu fráleitt er að leggja fyrir fram sérstakt skattgjald á þessi skip, sem renna á til hjálpar allt öðrum aðila.

Á vertíðinni 1973 var aflinn 441 þús. tonn með þátttöku 92 skipa. Þau fengu að meðaltali þá 4800 tonn á skip eða 1400 tonnum meira á hvert skip. Þrátt fyrir stórhækkað verð nú mun afkoma fjölda skipa vera miklum mun lakari en á s.l. ári. Það, sem gerir flesta ruglaða og setur allt á annan endann í ofsjónum yfir miklum hagnaði á loðnuveiðunum, er afli 20 efstu skipanna fyrst og fremst, sem er vissulega mikill og skilar miklu til viðkomandi aðila og einnig í þjóðarbúið. Það er gömul saga og ný, að mið er tekið af toppnum og umr. snúast síðan um, hvað mikið hann gefur í aðra hönd, en heildinni eru ekki gerð nein viðhlítandi skil. Vegna þessarar skynvillu verður raunin sú, að sífellt basl er við sjávarsíðuna og raunsæ heildarlausn fæst ekki fram fyrir atvinnugreinarnar sem heild. Eru menn nú einmitt að súpa seyðið af því í dag, sem hefur jafnvel valdið falli hæstv. ríkisstj.

Hjá nágrannaþjóðum okkar eru miklir aflamenn heiðraðir með viðurkenningu fyrir dugnað sinn, en hér þykir hlýða að hundelta þá og öfunda af tekjum þeirra. Þessir menn eru þó að mati undirritaðs í slíkum sérflokki, að vert væri að móta skattalöggjöf þeim til hvatningar við veiðar, en ekki að hrekja þá í land vegna ofsköttunar. Það á öllum að vera ljóst, að lítt stoðar að hafa nýjar og góðar fleytur með duglausa skipstjóra og stjórnendur um borð.

Það er athyglisvert við þessa skattheimtu, að enginn þorir að viðurkenna sig sem hugmyndafræðing að henni, og ber ráðh. það af sér, en hins vegar segja forsvarsmenn þiggjenda, að þaðan sé hún samt komin eða úr rn. hæstv. ráðh.

Ráðh. sagði í umr. um málið, að hann væri í hópi þeirra manna, er varlega vildu fara í þessu efni. Ég dreg það persónulega ekki í efa, að svo sé. En því þá ekki að vinna að heildarlausn og koma með till., sem duga mega lengur en í 5–6 mánuði og eru ekki byggðar á vægast sagt hæpinni forsendu. Að slíkum till. viljum við í Alþfl. standa og finna með því lausn á rekstrarvandræðum togaraflotans. Það má ekki koma til þess, að þessi þýðingarmiklu skip stöðvist vegna úrræðaleysis hæstv. sjútvrh. í dag.

Nú er komið í ljós, að þessi mikli ímyndaði hagnaður af loðnuveiðunum ætlar að reynast minni en gert var ráð fyrir. Í síðustu sölu, sem ég hef heyrt um, er verðið í dollurum 6.50 pr. eggjahvítueiningu komið í erlenda höfn, í stað 9 til rúmlega 10 dollara áður, en alls voru seld um 17 þús. tonn, þegar þessi ákvörðun um skiptaverð var tekin upp úr áramótum.

Í hinu margumrædda samkomulagi togaramanna við ráðh. s.l. áramót var gengið út frá því, að afkomugrundvelli togaranna yrði ekki raskað seinni hluta ársins, miðað við fyrri hluta. Nú verður ekki lengur unnt að njóta peninganna frá loðnunni, og verða þá góð ráð dýr hjá hæstv. ráðh. Það er staðreynd, að sú hugmynd er uppi hjá hæstv. ríkisstj. að festa allt fiskverð til áramóta, þrátt fyrir kauphækkun milli 20 og 40% á vinnuafli fyrir þessi skip og þjónustu einnig. Og olían heldur áfram að hækka. Hvernig ríkisstj. hugsar sér að tryggja togurunum áfram sömu skilyrði til rekstrar, eins og marglofað hefur verið og margendurtekið, er mér ekki ljóst og kannske engum ljóst í dag, miðað við síðustu atburði. Forsvarsmenn togaranna hafa margsagt opinberlega, að það sé aðeins spurning um stuttan tíma, hvenær þeir verði að stöðva skipin, ef ekki kemur til aðstoð í einni eða annarri mynd. 29. apríl var mynduð sérstök n. á vegum togaramanna með fulltrúum frá öllum landshlutum til þess að ræða vanda togaraflotans sérstaklega við sjútvrh. og knýja á lausn innan skamms.

Ráðh. skipaði 5. des. s.l. 4 menn til þess að kanna rekstur skuttogaranna á árinu 1973. Þessi n. skilaði frá sér áliti um miðjan mars s.l., en ekkert hefur gerst í málinu. Þar kemur fram, svo að ekki verður um villst, að verulegir örðugleikar eru fram undan hjá togurunum og tilgangslaust að hopa undan miklu lengur. Sumt af því, sem n. leggur til. er nothæft til úrbóta, annað alls ekki.

Grundvallaratriðið er, eins og undirritaður margtók fram við 1. umr. um frv., að koma sér niður á lausn, sem vari lengur en í 5–6 mánuði, og tryggja með því, að togararnir geti starfað eðlilega. Sú lausn verður ekki bundin við, að 12–13 hundruð menn séu sérskattlagðir, heldur verður þjóðin öll að sameinast um að tryggja togurunum sómasamlegan rekstur. Mikilvægi þeirra er ekki bundið við vissa staði eða viss frystihús, þeir skapa allri þjóðinni betri lífskjör.

Í ljósi þessara staðreynda leggur undirritaður til, að frv. verði vísað til ríkisstj. Það fjármagn, sem inn hefur komið í gegnum skattinn vegna útgáfu brbl., verði sem hluti af heildarlausn fyrir allan fiskiskipaflota landsmanna, og þar með verði rekstur bátanna sem togarana tryggður sómasamlega út árið 1974.

Herra forseti. Ég vildi nú fá að vita um það, hvort hæstv. sjútvrh. er bundinn mikið í hinni d., vegna þess að þetta er þannig mál, að það er varla hægt að halda áfram framsögu eða tala fyrir nál., nema hæstv. ráðh. sé viðlátinn. (Forseti: Hæstv. ráðh. er í dyrunum.) Það er ágætt, að hæstv. ráðh. er kominn hér inn, vegna þess að þetta mál er þannig vaxið, að ég vildi fjalla um það nokkuð meira.

Það kemur fram, að hæstv. ríkisstj. hefur lofað því að tryggja togurunum sams konar rekstraraðstöðu út þetta ár og tryggð var á yfirstandandi vetrarvertíð. En forsenda þessa skatts þá var sú, að handhægt væri að ná stórri fjárupphæð í gegnum loðnuna. Nú hefur forsendan mjög breyst til hins verra. Það gat auðvitað enginn séð fyrir fram, hvorki hæstv. ríkisstj., sjútvrh. né aðrir. En þó ætla ég, að áhrifa hans gæti nokkuð við sölu á mjöli, og fullyrða sumir og þ. á. m. ein verksmiðja í hans umdæmi, að rn, hans hafi komið í veg fyrir, að sú verksmiðja hafi getað selt allt að 2000 tonn af mjöli á 10 dollara, en hún eigi nú völ á því að selja sama magn á rúma 6 dollara. Ef rétt er frá skýrt, þýðir þetta beint tjón, mér sýnist a.m.k. á þriðja tug milljóna, fyrir þessa verksmiðju.

Ég lagði til á sínum tíma, að þetta gjald yrði tekið að ákveðnu marki. Hvort við staðnæmumst við 200 eða 300 milljónir, það var ekki meginatriðið, en ég lagði til, að við sameinuðumst um það að taka upp í þetta einnig frá Verðjöfnunarsjóði og breyta l. um Verðjöfnunarsjóð, vegna þess að forsenda þess sjóðs hlýtur alveg eins að geta gilt fyrir svona stórkostlegar sveiflur á verði olíu og veiðarfæra, sem skapa þá rekstrarerfiðleika, sem togaraflotinn og bátaflotinn eiga við að etja nú. Það var ekki tekið undir þá hugmynd af hæstv. ráðh., en mér segir svo hugur um, að margir muni renna augum í þennan sjóð í dag, og ég tel það eðlilegt. Það hefði verið miklu eðlilegra að ræða þetta í rólegheitum í tæka tíð op fá um það breiða samstöðu þeirra aðila, sem standa að þessari sjóðmyndun, og tryggja með því lausn fyrir togaraflotann og bátaflotann út árið, heldur en að stofna til leiðindatogstreitu innbyrðis í sjávarútveginum út af þessari skattheimtu.

Togaraskýrsla, sem send er frá þessari n., sem ég gat um hér áðan, var send hæstv, ráðh. um miðjan mars s.l. Ég hef séð þessa skýrslu, við fengum hana á einum nefndarfundi, og er sumt jákvætt, sem hún leggur til, annað alls ekki. T.d. tel ég ekki viðunandi að leggja til sem númer eitt, að vanskilaskuldum þessara miklu aflaskipa, sem togaraflotinn er, sé safnað saman og búinn til 15 ára lánamöguleiki. Það er engin lausn í sjálfu sér. Lausnin hlýtur að vera að búa svo um hnútana, að þessi skip geti við ríkjandi aðstæður staðið í skilum, bæði varðandi stofnlánasjóðina og varðandi sínar áhafnir, en ekki að safna saman miklum hala og fá honum svo með vissra ára millibili breytt í langt lán. Þeir menn, sem starfa við slíka útgerð, gefast upp á því að vera forsvarsmenn slíks rekstrar. Það loðir alltaf við, að þetta séu eintómir vanskilamenn og ómögulegt að vera hjá þessu fólki. Sérstaklega eru það litlu staðirnir úti um land, sem hafa lítið fjármagn úr að spila, sem lenda fyrst og fremst í vandræðum við slíka rekstrarörðugleika.

Það fer ekki á milli mála, miðað við það nál., sem þessi sérstaka togaranefnd hefur látið fara frá sér, að þessir aðilar líta mjög alvarlegum augum á ástandið. Ég veit ekki, hvort n. hefur komist á fund hæstv. ráðh., en nm. hafa ályktað í bréfi, sem ég hef fengið ljósrit af og er mjög stutt. Með leyfi hæstv, forseta vildi ég aðeins vítna í það örstutt. Þar segir, að ekki megi dragast lengur að gera raunhæfar ráðstafanir. Og við þetta bætist: „Veruleg óvissa er um verð á gasolíu til fiskiskipa eftir 1. júní n.k., en fram til þess tíma er hún greidd niður með fé, sem aflað er með sérstöku útflutningsgjaldi á loðnuafurðum.“ — Þeir vilja fá að vita, hvað er fram undan, sem eðlilegt er. Og það eru ekki aðeins togaramenn, sem hafa farið fram á það núna að fá að vita, hvað er fram undan, heldur hafa bátamenn líka látið heyra frá sér og segja möguleika sína mjög slæma á næstu mánuðum. Það er því alveg augljóst mál, að til einhverra ráðstafana verður að grípa.

Það óvænta pólitíska ástand, sem komið er upp í dag, er einmitt að hluta vegna þessara erfiðleika hjá bátaflotanum. Það var fyrir fram talað um mikinn gróða af loðnuafurðum, a.m.k. hreinar 800 millj. kr. að áliti spekinga, löngu áður en loðnan var veidd, löngu áður en sala á 2/3 hluta aflans átti sér stað. Það var búið að bóka það og ganga frá því, að þetta hlyti að verða svona, það væri alveg pottþétt staðreynd, og allt var byggt á þessu. Það hefði verið gaman, ef hlutirnir hefðu gengið svona vel. Þá hefði hæstv. ríkisstj. ekki verið í neinum vanda í dag, og menn hefðu verið mun bjartsýnni en nú gerist á þessum góðu vordögum. En raunin varð bara ekki sú. Það er nú einu sinni svona á Íslandi, að hlutirnir verða ekki alltaf eins og menn óska eftir, bæði varðandi veðurfar og afla.

Það skiptir miklu máli, þegar menn eru að tala um heildaraflamagn, með hvaða tilkostnaði og með hve miklum fjölda manna því aflamagni er náð. Þegar 136 skip afla mjög svipað og 92 skip gerðu á s.l. ári, þá er augljóst mál, að afkoma stórs hluta flotans, eins og ég rakti hér áðan, er mjög slæm og sumir hverjir í algeru ráðleysi, sem fóru á loðnuveiðar. Það sjónarmið hefur jafnvel komið upp meðal útvegsmanna sjálfra, að ekki væri rétt að leyfa frjálsar veiðar á loðnu fremur en er gert í mörgum öðrum atvinnugreinum. Það yrði að binda þær við einhverja lágmarksstærð á skipum.

En afkoma verksmiðjanna er einnig mjög misjöfn. Sumir höfðu selt fyrir fram og voru þess vegna hólpnir. Mér er t.d. sagt, að verksmiðja, sem hæstv. ráðh. þekkir hvað best til í hans heimabyggð, sé það vel stæð núna, að hún láni mönnum í stórum stíl til að kaupa jafnvel bíla og báta, einkaaðilum. En það er nú kannske fleira í pokahorninu í því sambandi en hrein, góð rekstrarafkoma.

Margir hafa talað mikið um fyrirkomulag á sölu á loðnumjölinu. Ég hefði talið eðlilegast, að það væru frjáls samtök þeirra manna, sem fara með þessa sölu. Þetta eru svo stórar tölur, að það er varla hægt að una því, að einn og einn maður geti haft slík áhrif, hvort sem hann tekur ákvörðun um sölu eða ekki, að það velti á tugum eða jafnvel hundruðum milljóna kr. fyrir þjóðarbúið. Í öðrum greinum sjávarútvegsins, flestum hverjum og öllum þeim stærstu, eru frjáls samtök um sölu og sameiginleg stjórn, sem fer með yfirstjórn alls útboðs, en í mjölinu eru margir, 15 aðilar, stundum færri, stundum fleiri, sem eru að bjóða sama magn til sölu. Úr þessu verður oft mikill glundroði og margs konar verð hefur komið upp, sérstaklega þegar verðið er fallandi. Þá er þetta kerfi óþolandi að mínu mati. — Hér vildi ég einnig bæta úr, og ég trúi varla öðru en hæstv. ráðh, hafi líka áhuga á því, að þetta kæmist í fastara form. Ef þetta þras í kringum þetta skattform yrði til þess að stuðla að betri skipulagningu í sölumálum, þó að rn. hafi auðvitað úrslitavald og úrslitaáhrif í því efni, þá teldi ég þess virði að nudda nokkuð í þessu fyrirkomulagi.

Hvað verður nú til lausnar þessum mikla vanda. Það liggur alls ekkert fyrir, þar sem hæstv. ríkisstj. er fallin vegna þess frv., sem nefnt hefur verið viðnám við verðbólgu, og enginn veit hvernig til tekst um stjórnarmyndun. Þess vegna er ekki hægt að spá neinu um úrræði. En það er augljóst mál, að hver sem framvindan verður, þá verður að leita nýrra úrræða, bæði fyrir togaraflotann, bátaflotann, og síldveiðiflotann, vegna þess að loðnuskatturinn hrekkur hvergi nærri til. Og þá sannast það, sem ég hélt fram við 1. umr., að betra hefði verið að reikna ekki að öllu leyti fyrir fram með svo góðri niðurstöðu, að ekki þyrfti að hugleiða eilítið fram í tímann og hvernig til tækist, þegar kæmi að 1. júní.

Það er alveg gjörsamlega óhugsandi, að bátaflotinn geti unað við óbreytt fiskverð. Ef það væri, þá þyrfti að skera niður verulega, svo að næmi stórum %-hluta, verðlag á allri þjónustu og kaupi. Það er alveg óhugsandi annað. Olían heldur áfram að hækka nokkuð, þó ekki eins mikið og um tíma. Verðlag á sjávarafurðum hefur nokkuð fallið, sérstaklega á blokkinni, en minna eða ekki á öðrum afurðum. Á saltfisknum hefur verið verðhækkun og einnig nokkur á skreiðinni. Lýsið stendur vel, svo að það er ekki raunverulega þetta, sem ræður úrslitum um þennan vanda, ekki einhliða. Það er fyrst og fremst verðþróunin innanlands og að hluta á olíu og veiðarfærum gagnvart rekstrarliðum, sem koma erlendis frá. Þetta skattgjald, sem var hugsað að gefa í heild nálægt 250–300 millj. kr., hefur reynst nokkur hjálparhella, en nægir hvergi til. Þess vegna tók ég þá afstöðu gagnvart frv., þar sem það hefur borið þegar árangur, að líta á þetta sem hluta af heildarskattheimtu til lausnar þess vanda, sem fram undan væri. Og ég tel það alveg rökrétt og vildi standa að því, ef aðstæður leyfðu, að breyta Verðjöfnunarsjóðnum og hann kæmi inn í með vissa forsendu fyrir þátttöku í olíukostnaði og veiðarfærakostnaði.

Ég fékk um það örugga vitneskju fyrir helgina, að loðnunót, sem kostaði í norskum kr. 222 þús. útleyst í jan. hér heima, kostar nú, nákvæmlega sams konar nót frá Noregi, 365 þús. nokkrar kr. Það er hátt í 3 millj. kr. hækkun aðeins á þessu eina stykki til bátsins, svo það var ekkert óeðlilegt, þegar menn vissu um þessa hækkun á næloninu og öllu tilheyrandi í kringum veiðarfærin, að menn hugleiddu það að koma á móti þessu með því að leggja eitthvað til hliðar, ekki aðeins bara fyrir olíunni einni eða fyrir tímabundinni verðhækkun á olíunni, heldur hugleiða, hvort bátaflotinn, sem skapar svona mikil verðmæti, hefur einhverja möguleika á því að endurnýja sín veiðarfæri. Það er það aumasta, sem til er, og það þekkir hæstv. ráðh. allra manna best, að vonlaust er að gera út nema hafa góð veiðarfæri. Það er ábyggilega sama og fyrir vélina að hafa olíuna.

Hér er því mikið vandamál á ferðinni, og kannske finnst honum, að ég sé of smámunalegur, að ég sé að pexa um hluti, sem skipta litlu máli í öllum þessum mikla vanda, og ég sé að deila á hann um of með minni smámunasemi. En ég lagði á það mikla áherslu strax við 1. umr., fyrst ráðh. taldi sig í hópi þeirra manna, sem vildu fara varlega, — ég dreg það ekki í efa, — með þetta skattform, að við reyndum að finna lausn á breiðari grundvelli. Ég hef ekkert heyrt um slíkt og ekki fengið undirtektir við slíkri hugmynd af nokkru minnsta tagi. Úrræði togaranefndanna eru með þeim hætti sum hver, að ég get alls ekki fallist á þau undir neinum kringumstæðum. Önnur eru góð og rökrétt. En margt þarf að athuga í þessari skýrslu, og sumt þarf að athuga miklu nánar, sem skýrslan her ekki með sér, að hafi verið athugað um.

Ég hef það eftir viðtali við mann frá Austurlandi í s.l. viku, að rekstraraðstaða frystihússins og hins nýja skuttogara hjá þeim sé orðin það erfið, að hann taldi, að innan mánaðar stöðvaðist allt, ef ekki yrði úr bætt. Við ræddum nokkuð um þetta skattgjald. Auðvitað taldi hann rökrétt, að það hefði verið tekið á sínum tíma, vegna þess að annars hefði gróðinn orðið allt of mikill í loðnunni. Og það var allt í lagi, það var samþ. með nokkrum meiri hl. að fallast á það. En hann margviðurkenndi líka, að það væri rökrétt, að Verðjöfnunarsjóður gripi inn í vissu hlutfalli vegna verðbreytinga á veiðarfærum og olíu.

En það þarf fleira til. Ég minntist líka á það, að sú kvöð að borga 10 plús 10% af brúttóafla til stofnlána sjóðanna væri of mikið, og það reynist líka næstum öllum togurunum um megn. Þessi skýrsla togaranefndar ber með sér, að tap á togara getur verið frá 8–16 millj. kr. eftir aðstæðum og heppni í sölu erlendis og heppni með veiðarfærakostnað. Þetta er lágmarkið, sem skýrslan segir, að muni eiga sér stað. Niðurstaðan gæti orðið mun verri, og á hún þá við minni togarana. Það er augljóst mál, að rekstur hinna stærri togara er mun þrengri og erfiðari. Það er því um verulega stórar upphæðir að ræða, sem þarf að laga eða færa til, til þess að tryggja togaraútgerðinni sömu rekstrarskilyrði og giltu á s.l. vertíð, sem er að ljúka núna og lofað var af hæstv, ríkisstj. Það er því um verulega stórar tölur að ræða í því sambandi. Þær eru það stórar að mínu mati, að þrátt fyrir þennan skatt þrátt fyrir breytingar á Verðjöfnunarsjóði til hjálpar með olíukostnað og veiðarfærakostnað, tel ég það ekki nægja og þurfi að huga að öðrum úrræðum, eins og umrædd togaranefnd bendir á.

Á okkur frá viðreisnartímabilinu hefur verið mikið deilt, hvað við sýndum togaramálunum lítinn áhuga, og er það nú aðalglansnúmer hæstv. ríkisstj., hvernig að togarakaupum hefur verið staðið og hversu myndarlega á þeim málum hafi veríð tekið. Þó voru kaup margra þessara togara, sem eru nú komnir til landsins, undirbúin löngu áður, og skal ég ekki fara að skattyrðast um slíkt. Það, sem skiptir meginmáli, er, að allir sameinist um það, að þessi floti, sem er dreifður um allt land og á eftir að skapa þjóðarbúinu svo mikil verðmæti, að við getum lifað hér sómasamlegu lífi og góðu lífi, — þessi togarafloti fái að njóta sín. Annars er lítið gagn að eiga hann.

Þótt hér sé fitjað upp á þessu nýmæli, að segja ákveðnum hópi manna að leggja sérstaklega til hliðar stóra upphæð, þá hefur það enga lausn í för með sér varðandi heildarvandræði þessa skipaflota. Vandræðin eru miklu stærri en það, og vandræðin eru einnig að verulegu leyti heimatilbúin, eins og ég hef drepið á, vegna kostnaðarverðbólgu hér heima. Á sínum tíma hækkaði hæstv. ráðh. fiskverðið með því að fella niður 11% kvöð, sem fiskvinnslustöðvarnar höfðu og gátu með því tekið á sig hærra fiskverð. En þetta hrekkur ekki til, og nú þarf annað að koma í staðinn. Afli hefur veríð lítill, eiginlega ótrúlega lítill, í vetur í heild og viss landssvæði farið mjög illa út úr vertíðinni, svo að þess vegna hafa líka skapast óvæntir erfiðleikar. Hið margumrædda frv. um efnahagsmál ber með sér, að ástandið í þjóðfélaginu er geigvænlegt og ótrúlegt, að slíkt hafi getað átt sér stað. En til þess að gera lítið úr vandanum hafa þeir Alþb.- menn kallað þetta velmegunarvanda, þetta væri bara velmegunarvandi fyrst og fremst. En ef þessi skattheimta er réttlætanleg á ákveðinn hóp sjómanna, því er hún þá ekki réttlætanleg á ákveðinn hóp manna í landi til þess að færa þar á milli manna, sem hafa of hátt kaup við ákveðna þjónustu, sem togaraflotinn verður að kaupa? Það er staðreynd, að múrari leikur sér að því að hafa 85–95 þús. kr. á viku án þess nokkuð að ofbjóða sér við vinnu. Þetta er staðreynd. Uppboðið er slíkt á vinnumarkaðinum, og uppmælingataxtinn gefur manninum þessa möguleika, þ.e. sama kaup og skipstjóri á togara hefur sem lágmarkskauptryggingu. Auðvitað afla sumir vel og hafa margfalt kaup, en þeir standa þó fyrir sínu, eins og ég drap hér á áðan. Og því ekki að skattleggja uppmælingahópinn og færa þannig á milli? Það eru alveg sömu rök til þess að gera það og hér er gert alveg hiklaust, ef menn belja þetta skattheimtuform vera réttlætanlegt, sem ég dreg persónulega í efa að sé rétt eða sanngjarnt, — alls ekki sanngjarnt og ekki réttlætanlegt miðað við stjórnarskrá.

Ég átti von á því fyrir fram, að fleiri mundu mótmæla þessu sem grundvallaratriði, og reiknaði þá með, að a.m.k. sjálfstæðismenn mundu mótmæla slíku sérstöku formi skattheimtu miðað við grundvallaratriði flokksins. En það eru allt aðrir hagsmunir, sem ráða þeirra afstöðu. Það er sú umsögn togaramanna, að þetta hafi verið óhjákvæmilegt til þess að bjarga þeim, og þess vegna sætta menn sig við að hafa þetta form á, þó að það brjóti raunverulega í bága við þá grundvallarstefnu þessa flokks, að hver einstaklingur fái að njóta sín eins og best hann má. En þegar togaraeigendum er raunverulega stillt upp við vegg og sagt við þá: Þetta er eina úrræðið, — og það er líka sagt við loðnubátaeigendur og forsvarsmenn útvegsmanna: Það er ekkert val um það, ef skatturinn rennur ekki í þennan sjóð, þá fer hann bara í Verðjöfnunarsjóð og þið hafið ekki hugmynd um, hvernig honum verður ráðstafað, og þið hafið ekki hugmynd um, hverjir fá að njóta hans, — þá er ósköp eðlilegt, að, það myndist meiri hl. og jafnvel stór meiri hl. fyrir að fallast á þetta form í skatti. Það er ósköp eðlilegt. Mennirnir hafa ekki um neitt annað að velja til þess að halda skipum sínum gangandi. Þeir eru knúðir til samstöðu um málið innan sinna samtaka. En það er vegna úrræðaleysis eða vegna mikillar stífni, sem fram kemur í rn., og ofsjóna yfir og þeirrar hættu, — eins og hæstv. ráðh. drap á í fyrri ræðu sinni hér um málið, að það væri stórhættulegt og skapaði vandræði í þjóðfélaginn, þennan margumrædda velmegunarvanda, — ef sjómenn hefðu slík uppgrip sem loðnuveiðarnar gætu gefið. En því þá ekki að bjóða þeim að leggja eitthvað af þessu mikla fjármagni, sem þeir skapa þarna, inn á bundinn reikning og verðtryggja það? því þá ekki að bjóða mönnum það? Það hefði verið lausn, sem margir hefðu verið ánægðir með e.t.v. allir, — a.m.k. þeir, sem hafa svo mikla peninga, að það skapar stórkostlegt vandamál í þjóðfélaginu hjá mönnum, sem eru með frumframleiðslu og allt annað byggist á í þjóðfélaginu. Ef þessir menn fá ekki það viðunandi kjör, að þeir hafi áhuga á því að veiða og leggja hart að sér, eins og loðnuveiðarnar krefjast, — en þær eru raunverulega að mörgu leyti hættulegar veiðar, þegar bátar eru knúðir til þess að sigla hringinn í kringum landið að vetrarlagi, — þá er varla hægt annað en hafa kjör manna það góð, að þeir eigi flestir hverjir von í góðum tekjum. En því miður reyndist það svo á þessari vertíð, að um helmingur bátanna skilaði rýrum tekjum, og þeir skiptu tugum, sem öfluðu ekki meira en liðlega upp í kauptrygginguna.

Ég vil vænta þess, að til svona skattheimtu verði ekki gripið framar, .svona einhliða skattheimtu, hvorki fyrir þá, sem á sjónum eru, né þá, sem í landi starfa. Hún er óeðlileg á svona þröngan hóp, hún er raunverulega ekki réttlætanleg frá grundvallarsjónarmiði okkar, þó að hún sé fóðruð með því, að óhjákvæmilegt sé að stöðva ákveðna tekjumyndun hjá ákveðnum hópi manna og ráðstafa þessari upphæð til þess að halda togaraflotanum gangandi fyrst og fremst. Bátaflotinn fær sína peninga til baka að mestu eða öllu leyti, þannig að ég fjalla ekki um þá millifærslu, sem á sér stað varðandi bátaflotann. Ég hef fjallað um það, og gagnrýnin hefur beinst fyrst og fremst að því að hafa ekki togaraútgerðina að hluta, þótt að litlum hluta væri, þátttakanda í þessari skattmyndun. Menn unna því ekki, að hið margreynda og gamla kerfi, sem gilt hefur í sjávarútveginum um sameiginlega skattbyrði, þegar um sjóðsmyndun sé að ræða, þeir ættu að njóta, er illa færu út úr útgerð, — sé ekki viðurkennt í þessu formi, eins og verið hefur um aðra sjóðsmyndun. Gagnrýnin hyggist fyrst og fremst á því. Ég veit, að bæði áhöfn og útgerðaraðilar mundu hafa sætt sig við þetta, e.t.v. sömu upphæð, e.t.v. jafnvel meiri upphæð, ef hún hefði verið lögð á í því formi, að ekki skapaði úlfúð um skattform vegna sjóðsins á milli starfsstétta. En það náðist ekki fram, því miður. En ég hef þó von um það, miðað við orð hæstv. ráðh., að slíkt verði ekki gert aftur, og fyrir það vil ég þakka hreinlega sagt. Hann tók það ótvírætt fram, að hann væri í hópi þeirra manna, sem varlega vildu fara í þessu efni, að ég verð að ætlast til þess, að þetta form verði ekki reynt aftur.

Brbl. hafa haft sín áhrif, skatturinn hefur verið innheimtur, og því legg ég til. herra forseti, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. og umrædd upphæð tekin inn í þá heildarlausn, sem við verðum að reyna að finna, hverjir sem að því standa, á næstu dögum eða vikum. Það verði litið á þessa tölu sem ákveðna innborgun í þeirri heildarlausn, sem bæði bátaflotinn og loðnuveiðaflotinn og togaraflotinn þurfa að fá hjá þeim, er við völd verða á næstu vikum, til þess að svo megi til takast, eins og lofað var á sínum tíma, að ekki komi til röskun á afkomugrundvellinum, hann haldist út árið, eins og reiknað var með, að hann gæti orðið, eða hefur verið á yfirstandandi vertíð.