07.05.1974
Efri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4249 í B-deild Alþingistíðinda. (3833)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. þetta er í rauninni flutt til þess að staðfesta með formlegum hætti þá stöðu, sem hagrannsóknadeildin hefur með starfi sínu áunnið sér. Það felur í sér nokkra skipulagsbreytingu, sem stefnir að því að efla hagrannsóknir og auka yfirsýn yfir viðburði, er varða landsins hag. Það er og staðreynd, að verkefni deildarinnar er einkum það að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins og vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum. Almenn upplýsingaþjónusta á sviði efnahagsmála er afar umfangsmikið og að miklu leyti sjálfstætt verkefni, sem er óháð annarri starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Þess vegna er talið æskilegt, að almenn hagrannsóknastarfsemi hafi svo óháða stöðu sem kostur er.

Þetta frv. var til umr. í Nd. og var afgr. þaðan með nokkrum breyt. Fjh.- og viðskn. þessarar d. ræddi þetta frv., og ég tel rétt að geta þess nú þegar, að nál. 2, minni hl. fjh.- og viðskn., sem leggur til, að frv. verði samþ. ætti raunar að hafa verið undirritað af tveim fulltrúum Sjálfstfl., sem ekki gátu verið viðstaddir á nefndarfundinum, en tjáðu sig samþykka þessari málsmeðferð. Þeir voru Halldór Blöndal og Geir Hallgrímsson.

Breyt., sem frv. tók í Nd., voru þessar: Í fyrirsögn frv. var orðinu „Hagrannsóknastofnun“ breytt í orðið „Þjóðhagsstofnun“. Í 1. gr. frv., þar sem segir: „að vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum“ í frv. upphaflega, kom í meðförum Nd.: „ríkisstj, og Alþingi“. Síðan kom sama breyt. í 2. gr., að „Hagrannsóknastofnun“ breytist í „Þjóðhagsstofnun,“ og í 1. gr. einnig, að aftan við síðari mgr. bætist orðið „hagrannsóknastjóri“, — að forstöðumaður stofnunarinnar nefnist hagrannsóknastjóri. Í öðru lagi breyttist 2. gr., að á eftir 4. tölul. komi nýr tölul., sem varð 5. tölul.: „að láta alþm. og Alþ. í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.“

Eins og frv. kom frá Nd., mælir 2. minni hl. að viðbættum þeim Halldóri Blöndal og Geir Hallgrímssyni með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.