08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (3914)

9. mál, grunnskóli

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þrátt fyrir hótanir síðasta hv. ræðumanns um frekara málþóf, ef ég stend upp aftur, sé ég mig tilneyddan til að gera það. Reyndar er ekki ætlun mín að eyða orðum á hann í þessu sambandi. Ég ætla að svara því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, en hann er ekki staddur hér, og ég vil óska eftir því, að hann verði sóttur. Já, ég sé, að hv. þm. er kominn í salinn.

Ég sagðist vilja leiðrétta í örfáum orðum það, sem mér fannst hv. 2. þm. Reykv. fara rangt með í sambandi við ummæli mín hér áðan. Ég sagði ekki, að það hafi verið samkomulag um það, að þessum umr. yrði lokið fyrir hádegi. Ég sagði, að mér hefði skilist, að það væri samkomulag um það, og ef það hefur ekki verið, þá hefur það verið minn misskilningur. En ég óttast, að fleiri hafi verið haldnir þeim misskilningi. Þetta vil ég leiðrétta, og ég er að sjálfsögðu best fær um það sjálfur að meta, hvernig ég skildi þetta. Ég tók þátt í þessum umr. í gærkvöld að nokkru, og ég fyrir mitt leyti taldi að um þetta væri samkomulag, en það hefur þá verið misskilningur.

En ég vil jafnframt greina frá því út af þessu, að ég hef fallist á, að brtt. á þskj. 864, sem þegar er búið að samþ. um hverfin, gangi til baka, á þeirri forsendu, að um það sé samkomulag, að þetta mál nái fram að ganga í dag. Ég vona, að það sé ekki misskilningur. Ef það er misskilningur, vildi ég gjarnan fá það leiðrétt.