08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., fjallar um það, að Alþ. veiti ríkisstj. heimild að ganga frá bráðabirgðasamkomulagi við ríkisstjórn Bretlands um veiðar breskra togara í samræmi við orðsendingu, sem prentuð er með ályktun á þskj. 100.

Í ályktun Alþ., frá 15. febr. 1972 segir, að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál. sem skapast vegna útfærslunnar.

Ríkisstj. hefur síðan hafið viðræður við bresku ríkisstj. um takmörkun á veiðum breskra togara hér við land. Af hálfu Breta var á það fallist, að veiðarnar skyldu takmarkaðar, enda þótt þeir séu ekki reiðubúnir til að viðurkenna lögmæti útfærslunnar og hafi vísað því atriði til Alþjóðadómstólsins. Ýmsar aðferðir til takmörkunar voru ræddar, og töldu Bretar eðlilegast, að takmörkun kæmi fram í ákvörðun hámarksafla eða fjölda veiðidaga þeirra á Íslandsmiðum. Af hálfu Íslands var hins vegar lögð áhersla á, að takmörkunin kæmi fram í fjölda, stærð og gerð veiðiskipa, ákvörðun friðunarsvæða og bátasvæða, svo og lokun svæða til skiptis kringum landið.

Eftir langvarandi samningaviðræður fór forsrh. til London til viðræðna við breska forsrh., og var þar og í framhaldsviðræðum samkv. samþykkt ríkisstj. þrautreynt, hversu langt málum yrði þokað til samkomulags. Í framhaldi af þeim viðræðum liggur nú fyrir, að samkomulag geti tekist svo sem segir í hjálögðu fskj. Er þar um að ræða útilokun breskra frystiskipa og verksmiðjuskipa og fækkun annarra skipa. Jafngildir þessi skerðing 25% niðurskurði á fjölda breskra veiðiskipa á Íslandsmiðum, miðað við samsetningu flotans á árinu 1971, en 36% minnkun að tonnatölu. Þá er og miðað við lokun þýðingarmikilla bátasvæða og friðunarsvæða og loks lokun svæða til skiptis umhverfis landið. Við ákvörðun ofangreindra skerðinga var miðað við, að Bretar hefðu möguleika á að ná 130 þús. tonnum á ársgrundvelli. Er það mat sérfróðra manna, að líklegt sé, að verið geti um 110–130 þús. tonna afla að ræða.

Með samkomulagi þessu yrði endir bundinn á það hættuástand, sem undanfarið hefur verið á Íslandsmiðum. Með till. þessari fer ríkisstj. fram á heimild Alþ. til þess, að gengið verði frá málum svo sem segir í fskj.

Þessi samningur, sem hér er lagður fyrir Alþ. í formi heimildar ríkisstj., er í 7 liðum. Eins og ég hef áður vikið að, er það í fyrsta lagi, að draga skuli að mun úr fjölda breskra togara, sem veiða í ís og sækja á svæðið, þannig að 15 af stærstu togurunum og 15 aðrir togarar, miðað við upplýsingar um fjölda skipa að veiðum árið 1971, séu útilokaðir og verði því í togaraflotanum eigi fleiri en 68 skip yfir 180 fet að lengd og 71 skip minna en 180 fet, enda stundi engir frystitogarar eða verksmiðjuskip veiðar á svæðinu.

Í öðru lagi segir, að breskir togarar muni ekki stunda veiðar á friðunarsvæðum, sem nánar eru tiltekin, þ. e. a. s. fyrir Norðvesturlandi allt árið á afmörkuðu svæði, sem sést á korti, sem fylgir með, fyrir Suðurlandi á tímabilinu 20. mars til 20. apríl á afmörkuðu svæði og fyrir Norðausturlandi á tímabilinu 1. apríl til 1. júní á svæði, sem einnig er afmarkað á meðfylgjandi korti.

Í þriðja lagi segir, að breskir togarar muni ekki stunda veiðar á tilteknum bátasvæðum, nánar tiltekið fyrir Vestfjörðum á svæði, sem þar er teiknað inn á kort, fyrir Austfjörðum á svæði, sem einnig er teiknað inn á kort, og fyrir Norðurlandi á svæði, sem afmarkast af línu, sem dregin er á korti.

Í fjórða lagi er í samkomulagi þessu gert ráð fyrir því að skipta miðunum umhverfis landið í 6 hólf og sé eitt þeirra lokað breskum togurum í senn, þannig að ávallt sé eitt hólf lokað. Þessi hólf eru fyrir Vestfjörðum, og það verður lokað í september og október, fyrir Suðvesturlandi verður lokað nóv. og des., fyrir Suðurlandi verður lokað maí og júní, fyrir Suðausturlandi verður lokað jan. og febr., fyrir Norðausturlandi verður lokað júlí og ágúst og fyrir Norðurlandi verður lokað mars og apríl.

Í fimmta lagi segir, að tilhögun sú, sem sett er fram í tölul. 2–4 hér að ofan á þskj., sé sýnd á meðfylgjandi korti, eins og ég hef leyft mér að vísa til til þess að spara hér upplestur.

Í sjötta lagi segir, að aðilar komi sér saman um lista yfir þau skip, sem veiðar megi stunda samkv. bráðabirgðasamkomulagi þessu. Ríkisstj. Íslands mun ekki hindra veiðar þessara skipa umhverfis Ísland, meðan þau fara eftir ákvæðum bráðabirgðasamkomulagsins. Sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, getur íslenskt varðskip stöðvað það, en skal kveðja til breskt aðstoðarskip, sem næst er, til að sannreyna málsatvik. Togari, sem rofið hefur samkomulagið, verður strikaður út af listanum. Þessi listi er enn ekki tilbúinn af hálfu Breta, en samkomulagið verður ekki undirritað fyrr en hann liggur fyrir.

Um refsingu í þessu atriði vísa ég til þess, sem dómsmrh., hæstv. forsrh., mun segja hér síðar.

Í sjöunda lagi er svo í þessu samkomulagi gert ráð fyrir því, að það gildi í tvö ár frá undirritun þess og hafi brottfall þess ekki áhrif á lagaskoðanir aðila varðandi efnisatriði deilunnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Málið er það kunnugt þm., að ég tel, að ég mundi aðeins tefja tíma hv. Alþ. með því að fara að ræða það í einstökum atriðum. En ég tel, að þetta samkomulag sé mjög vel viðunandi eftir öllum atvikum, og vonast til, að það fái góðar undirtektir hv. alþm.

Ég legg svo til, að þáltill. verði vísað til hv. utanrmn.