08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl. hefur lagt á það megináherslu, að þing og þjóð hefðu samstöðu varðandi sérhvert skref, sem stigið væri í baráttunni fyrir síauknum yfirráðum yfir fiskimiðunum umhverfis landið og rétti þjóðarinnar til þess að hagnýta þau. Alþfl. markaði þá stefnu fyrir síðustu kosningar, að næsta skref Íslendinga í landhelgismálinu ætti að vera útfærsla að 400 m dýpi á landgrunninu, þó hvergi minni útfærsla en 50 mílur. Engu að síður stóð hann að samþykkt Alþingis um 50 mílna fiskveiðilögsögu, enda var eining allra alþm. aðeins möguleg um þá ákvörðun. Alþfl. hefur einhuga stutt ríkisstj. í því að framfylgja þeirri stefnu.

Þingflokkur Alþfl. telur, að vinna eigi að því, að fyrirhuguð alþjóðaráðstefna um hafréttarmál setji alþjóðalög um 200 mílna auðlindalögsögu. Hann mun styðja sérhverja viðleitni, sem miðar í þá átt.

Reynsla sýnir, að sigrar í jafnmikilvægum og víðtækum málum eins og baráttu fyrir stækkun fiskveiðilögsögu vinnast yfirleitt í áföngum. Síðasti fundur fullskipaðrar flokksstjórnar Alþfl., sem haldinn var 20. og 21. okt. s. l., ræddi viðhorfin í landhelgismálinu ítarlega og gerði um þau svofellda ályktun:

„Flokksstjórn Alþfl. ítrekar þá staðföstu stefnu flokksins að vinna að fullnaðarsigri í baráttunni fyrir 50 mílna fiskveiðilandhelginni, svo og að stuðla að 200 mílna auðlindalögsögu.

Flokksstjórnin telur því aðeins rétt að gera bráðabirgðasamninga við Breta og Vestur-Þjóðverja, að með þeim sé tryggt, að sókn þeirra á mið okkar minnki verulega. Þá verður að tryggja friðun uppeldisstöðva og bátamiða fyrir veiðum togara, útiloka verksmiðju- og frystitogara og varðveita umfram allt íslenska lögsögu.

Flokksstjórnin telur, að bráðabirgðasamningur á slíkum grundvelli gæti orðið þýðingarmikill áfangasigur fyrir Íslendinga í landhelgisbaráttunni“.

Nú hefur hæstv. utanrrh. lagt fyrir Alþingi till. til þál., sem heimilar ríkisstj. að gera samning við Breta um rétt þeirra til veiða á svæðinu milli 12 og 50 mílna upp að vissu marki með tilteknum skipum og á vissum svæðum við landið á tilteknum tímum, og er skv. yfirlýsingum ríkisstj. tryggt, að Íslendingar haldi rétti sínum til óskoraðrar lögsögu innan 50 mílna fiskveiðilögsögunnar. Skal samningurinn gilda í 2 ár. Jafnframt er komið fram, að ríkisstj. öll og stuðningsflokkar hennar mæla með slíkri samningsgerð.

Þingflokkur Alþfl. telur, að æskilegt hefði verið, að ýmis ákvæði samningsins hefðu verið öðruvísi en raun ber vitni. Sérstaklega telur hann, að tvö hinna sex hólfa, sem svæðinu á milli 12 og 50 mílna er skipt í, hefðu átt að vera Bretum lokuð samtímis. Þá hefði þingflokkurinn óskað þess, að tímabil þau, sem svæðin eru ýmist lokuð eða opin, hefðu þurft að vera önnur en ákveðin eru í samningunum. Og síðast, en ekki síst telur hann nauðsynlegt, að Íslendingar hefðu haldið rétti sínum til þess að auka friðlýsingu veiðisvæða, en það er eitt brýnasta hagsmunamál íslensks sjávarútvegs og þar með íslensku þjóðarinnar.

Þegar annars vegar er um það að velja, að deilan við Breta haldi áfram með þeim afleiðingum, að breskir togarar stundi veiðar með svipuðum hætti og átt hefur sér stað, stofni mannslífum í hættu og skerði fiskistofna, bæði með of mikilli veiði og þó einkum með veiði ungfisks, og hins vegar, að friðun komist á, þannig að afli Breta minnki verulega og tryggt sé, að þeir haldi sér frá mikilvægustu uppeldisstöðvunum, þá getur þingflokkur Alþfl. fallist á að styðja slíka samningsgerð. Með því móti telur hann hagsmuni Íslendinga betur tryggða en vera mundi, ef deilan héldi áfram. Þessa afstöðu telur þingflokkurinn vera í samræmi við fyrrgreinda ályktun flokksstjórnarinnar.

Þingflokkur Alþfl. telur, að þótt hann hefði kosið samkomulagið öðruvísi en það er í ýmsum atriðum, þá beri að fallast á þá stefnu ríkisstj. að gera slíkan samning, bæði vegna þess, að það tryggi hagsmuni Íslendinga betur en orðið hefði, ef deilan héldi áfram, en einkum þó vegna hins, að þingflokkurinn telur, að í samkomulaginu felist viðurkenning Breta í reynd á rétti Íslendinga til umráða yfir fiskimiðunum umhverfis landið á 50 mílna svæði.

Þótt samkomulagið sé ekki eins og þingflokkur Alþfl. hefði óskað að það væri, mun hann styðja heimild til ríkisstj, um að gera það. Þingflokkurinn telur nauðsynlegt, að sú eining, sem hefur ríkt um meðferð landhelgismálsins á Alþingi, geti haldist, og telur hana styrkja þjóðina í áframhaldandi baráttu hennar.