08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3996)

9. mál, grunnskóli

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ef menn vænta þess, að ég haldi þriggja eða fjögurra klukkutíma ræðu, þá verða menn fyrir vonbrigðum. Það er ekki ætlun mín. Ég hef haft mikla ánægju af því að starfa í menntmn. þessarar hv. d. í allan vetur. Við héldum fundi tvisvar í viku allan veturinn og skiluðum svo sameiginlegu nál. um málið, að vísu með fyrirvörum nm. um einstök atriði. Ég held, að það verði varla undan því kvartað í menntmn. þessarar d., að þar hafi ekki verið sýnd víðsýni og samstarfsvilji, enda hef ég ekki orðið var við þær kvartanir.

Ég tel, að málið hafi, þegar það var nú í þriðja sinn fyrir Alþ., fengið rækilega meðferð í vetur í þessari d. og einmitt allar skoðanir verið teknar til greina við rækilegar umr. um málið hér í d., og síðan afgreiddum við það að þessu mikla starfi loknu. Málið fór til hv. Ed., þar sem mér sýnist, að það hafi líka fengið rækilega skoðun og á því hafi verið gerðar ýmsar breyt., flestar, að ég hygg, nokkuð til bóta. Þegar Alþ.- hefur því fjallað um þetta stóra og mikla mál, setningu nýrrar skólalöggjafar, þá tel ég, að vel hafi verið að þessu verki unnið. Og ég þakka ekkert síður andstæðingum málsins fyrir það, að þeir hafa vakið athygli á ýmsum þörfum atriðum, sem laga þurfti. Þeir eiga þakkir skildar fyrir það. Ég undrast það heldur ekkert á síðasta degi þings, þótt íþróttamenn í málþófi láti til sín taka, og þeir hafa gert það af góðri íþrótt. Líklegast eru þeir nú orðnir methafar í þinginu um langar ræður, og þeir hafa gert það nokkuð skemmtilega, það verð ég að játa. En ég þarf enga aths. við þetta að gera, einkum þegar þeir hafa tekið það skýrt fram, að þetta málþóf var ekki eiginlega tengt þessu máli. Það var vegna þess atburðar, sem hér á að ske á eftir, og undir það tek ég með þeim, að það er ástæða til þess að hreyfa andmælum gegn slíku í einhverju formi.

Við skiljum því hér við þetta mál sáttir að kalla, að ég hygg. Þó að mönnum stykki bros hér áðan, þegar hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson sagði, að það væri tekið fram í þessu frv. meðal margs annars minna þarfs, að kennarar skyldu kenna og nemendur skyldu læra, á það virkilega heima í skólalöggjöf.

Ég hef þessi orð ekki fleiri. Ef það er ekki annað og veigameira, sem menn hafa á móti þessu frv., heldur en það sé tekið fram, að nemendur skuli læra og kennarar kenna, þá er ekki margt óþarft í þessu frv. (SvH: Ég nefndi ýmislegt fleira.) Já, þú gast um fleira, einkanlega frá 1847. En það er nú liðin tíð.

Ég held, að við getum þá sagt amen eftir efninu. Ný skólalöggjöf verður afgreidd frá Alþingi innan stundar.