12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Frsm. minni hl. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Þótt það sé orðið nokkuð áliðið, tel ég ekki fært annað en drepa á nokkur atriði, sem fram hafa komið í þeim umr., sem hér hafa farið fram.

Hv. aldursforseti þingsins, Hannibal Valdimarsson, lýsti því yfir og vitnaði í því sambandi til nál. minni hl. utanrmn., að ég hefði skýrt þingheimi frá fylgi Sjálfstfl. við till. þá, sem hér liggur fyrir til umr., án þess að geta um það, að nokkrir þm. Sjálfstfl. hefðu þar um sérstöðu. Hv. þm. vitnaði til nál. með þessum orðum: „Þá viljum við taka fram, að allir þm. Sjálfstfl. hafa viljað leita samkomulags við Breta og koma á friði á miðunum til að bægja frá hættum.“ Síðan hljóp hann yfir nokkrar linur, sem ég tel rétt að lesa hér. „Allir þm. Sjálfstfl. eru þeirrar skoðunar, að unnt hefði verið að ná betri samningum en raun ber vitni, ef betur hefði verið staðið að málum, og nokkrir þeirra telja ágalla samningsins svo mikla, að þeir telja sig ekki geta fallist á hann, eins og hann liggur fyrir.“ Þessar línur sleppti þm. að lesa og hélt síðan áfram að gera grein fyrir, af hverju við nm. og aðrir þm. Sjálfstfl. greiddum samningnum atkv. Ég verð að segja það eins og er, að það eru mér vonbrigði, að þessi hv. þm. og heiðursmaður lætur sér sæma slík vinnubrögð.

Hæstv. iðnrh. hélt hér nokkuð langa ræðu, sem fjallaði um allt annað en þann samning, sem hér er á dagskrá, og von er raunar til þess, að hann sneiði hjá málefnalegum umr. um aðdraganda þeirrar samningagerðar, afstöðu Alþb. og efni samningsins, miðað við þá fortíð, sem hann hefur í þessum málum. Hann talaði helst um það, að í Sjálfstfl. tíðkaðist lokuð stjórnmálastarfsemi gagnstætt því, sem væri í Alþb., þar sem opinn ágreiningur væri lýðum ljós og ekkert við það að athuga. Það væri fróðlegt að sjá á prenti óbreyttar ræður þm. Svövu Jakobsdóttur, Jónasar Árnasonar og Magnúsar Kjartanssonar á flokksstjórnarfundi Alþb. fyrir skömmu, þar sem fjallað var um stóriðjumálin. Það væri líka fróðlegt að fá birtar í Þjóðviljanum frásagnir af þingflokksfundunum í Alþb., þegar verið var að reyna að handjárna þm. til fylgis við þennan samning, sem nú á að fara að greiða atkv. um. Allir vita, að staðhæfing ráðh. á ekki við rök að styðjast.

Þessu er þveröfugt farið um starfshætti Sjálfstfl. og Alþb. við það, sem hann vildi vera láta. Enda voru þeir alveg undrandi, ráðh. Alþb., Magnús Kjartansson sjálfur, undrandi á því, að tvö nál. væru birt með sömu niðurstöðu, eins og á sér stað um nál. meiri hl. og minni hl. utanrmn. Hann vildi auðvitað hafa þetta eins og meirihlutanál. sagði til um, að afgreiða málið með einni linu. Hann þoldi ekki, að málið væri málefnalega rætt og frá efni þess skýrt, annmörkum þess og þeim kostum, sem það hefur einnig til að bera. Þetta er, þegar til kastanna kemur í raun, sannfæring þm. um æskilega starfshætti, og ber ekki vitni um opnar stjórnmálaumr.

Hinn ráðh. Alþb., Lúðvík Jósepsson var líka alveg undrandi á því, að allir sjálfstæðisþm. væru ekki sammála um að greiða samningnum atkv. og menn greiddu atkv. samkv. sannfæringu sinni.

Hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, kvað mig vera hissa á því, að menn gæti greint á. Það er mikill misskilningur. Það, sem ég er ekki eingöngu undrandi yfir, heldur ávíta harðlega, er, að menn tali á móti máli og greiði síðan atkv. með því, að menn greiði ekki atkv. samkv. sannfæringu sinni.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, og hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, töldu enga þjóðareiningu hafa verið rofna með kosningabaráttu þáv. stjórnarandstöðuflokka í landhelgismálinu. Ég vil minna á, að á þingi 1969–1970 var skipuð n. af þáv. forsrh. Bjarna Benediktssyni með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna til að leita samstöðu um næsta skref, sem stigið væri í landhelgismálinu. Það var viðreisnarstjórnin, sem átti frumkvæði að aðgerðum í landhelgismálinu þá, og það var sú n., sem klofnaði um, hvert næsta skref skyldi verða, og það var sá klofningur, sem um var deilt í kosningunum. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að við Íslendingar værum betur staddir nú í dag, ef farið hefði verið eftir tillögu sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna. Ekki meir um það, en nú vík ég að samningunum 1961 og því, sem þarf að leiðrétta í því sambandi.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson sagði, að það hefði ekki verið hægt að færa út landhelgina nema losa sig við samninginn, og hæstv. forsrh. sagði, að uppsögn samningsins hefði verið samþ. með atkv. allra þm., 60 talsins. Þetta er algerlega rangt. Þm. Sjálfstfl. stóðu ekki að uppsögn samningsins. Fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. tóku það fram, að þeir litu ekki á þál. sem uppsögn samningsins, og tóku það enn fremur skýrt fram, að það væri á ábyrgð ríkisstj., ef hún á grundvelli þál. segði samningnum upp. Það voru ekki ráð Sjálfstfl. Þvert á móti taldi Sjálfstfl. þá og telur nú illa farið, að samningnum var sagt upp. Sannleikurinn er sá, að það er ekkert afsal á réttindum að eiga þess kost að skjóta deilumálum sínum fyrir dómstól. Ef menn eiga í deilum, þá er ekki hægt að leysa þær deilur nema í 1. lagi, með samningum, í 2. lagi með dómsúrskurði og í 3. lagi með valdbeitingu.

Hvað er það, sem menn hafa rekið sig á í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar bæði 1958 og 1972? Það er staðreynd, að útfærslan var í hvorugt skiptið virk, fyrr en samið var með deiluaðilum um lausn deilunnar. Það var gert 1961 með samningnum þá, og það er verið að gera slíkt hið sama nú, með þeim samningi, sem hér er til umræðu.

Hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson var á öndverðum meiði við hæstv. forsrh., sem taldi, að við sjálfstæðismenn hefðum staðið að uppsögn samningsins frá 1961. Hann sagði þvert á móti, að sjálfstæðismenn hefðu staðið gegn uppsögninni, og aldrei þessu vant, þá hefur hæstv. sjútvrh. á réttu að standa. Hann vitnaði nokkuð í Alþjóðadómstólinn, og greinargerð dómstólsins fyrir bráðabirgðaleiðbeiningu, er dómstóllinn kvað upp í ágústmánuði 1972, og las upp málsástæður, sem teknar voru úr skjölum og málflutningi Breta. Þetta kallar maður nú að reka erindi Breta á Íslandi. Sannleikurinn er sá, að við Íslendingar getum sjálfum okkur um kennt, og sérstaklega núv. ríkisstj., að við fluttum ekki mál okkar þá fyrir Alþjóðadómstólnum, vegna þess að allar líkur hefðu þá bent til þess, að leiðbeining dómstólsins hefði fallið á aðra lund en raun bar vitni.

Þá svaraði hæstv. sjútvrh. fsp. minni vegna ummæla hans á fundi flokksstjórnar Alþb., þar sem hann taldi m. a. hættulegt að flytja mál okkar fyrir Alþjóðadómstólnum, vegna þess að Alþjóðadómstóllinn hefði í fórum sínum yfirlýsingar frá háttsettum mönnum úr okkar röðum, sem væru okkur síður en svo hagstæðar um það, hvað væru lög í þessum efnum. Ég spurði hann, hverjir þessir háttsettu menn væru, og svarið var, að það væri Hans G. Andersen, ráðunautur allra ríkisstjórna, frá því að undirbúningur hófst um setningu landgrunnslaganna, sem væri þessi háttsetti maður. Hann notaði að vísu í ræðunni „háttsettir menn“ í fleirtölu, en gat aðeins um þennan eina ágæta sérfræðing okkar í landhelgismálinu, sem hefði gefið þær upplýsingar, sem Alþjóðadómstóllinn gæti notað gegn okkur og okkar hagsmunum. Hans G. Andersen átti að hafa sagt, að alþjóðalög væru fyrir hendi, sem miðuðust við 12 mílur. En hann gat ekki um það, að á þessum sama fundi, sem mun hafa verið haldinn 1. des. 1970, gat Hans G. Andersen um, að það væri ör þróun í þessum efnum og mætti búast við því, að á undirbúningsfundi Hafréttarráðstefnunnar, sem þá var ákveðinn, og á Hafréttarráðstefnunni sjálfri mundi þetta taka stórstígum breytingum okkur í vil, þannig að við gætum notfært okkur þá þróun til þess að færa út landhelgina. Hér er illa farið að ráði sínu af hálfu hæstv. sjútvrh., og spurningin er, hvernig í ósköpunum hann getur fallist á, að slíkur maður, sem færir andstæðingum okkar vopn í hendur, þannig að við þorum ekki að bera upp málstað okkar fyrir dámstóli, er áfram í þjónustu ríkisins sem aðalráðunautur núv. ríkisstj. í landhelgismálinu. Ég er ekkert undrandi yfir því, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur óskað eftir starfskröftum Hans G. Andersens í þessum málum. Sannleikurinn er sá, að hann hefur lagt á ráðin, alltaf þegar vel hefur tekist til. og hann hefur bætt úr verstu axarsköftunum, þegar verr hefur tekist til hjá stjórnarvöldum, eins og því miður eru dæmi til hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Það kom fram bæði í máli hæstv. sjútvrh. og hv. 1. þm. Austf. reyndar, að þeir voru þeirrar skoðunar, að engin alþjóðalög væru fyrir hendi um landhelgina. Spurningin er: Á að túlka þetta á þá lund, að við séum að brjóta rétt á öðrum með því að færa út landhelgina, eða á að túlka þetta þannig, að engin lög banni okkur að færa út landhelgina? Ég vil fremur leggja þeim þá túlkun í hug, að það séu engin alþjóðalög, sem banni okkur útfærsluna, og ef svo er, þá ætti enginn alþjóðadómstóll heldur að geta dæmt slíka útfærslu ógilda.

Hæstv. sjútvrh. er vanur því að brigsla okkur sjálfstæðismönnum um landráð og telja okkur mikla úrtölumenn. Við kippum okkur ekki upp við slíkar nafngiftir. En hann er farinn að velja samstarfsmönnum sínum slíkar nafngiftir einnig, og yfirlæti hans og steigurlæti er gengið út í miklar öfgar. Reyndar var það hálfgerð afsökunarræða, sem hann flutti á fundi flokksstjórnar Alþb., þegar hann rakti sögu landhelgismálsins. Þar kom líka fram, hver var hetjan í sögu landhelgismálsins og hverjir þeir voru, sem sátu á svikráðum eða hikuðu, eins og hann orðaði það gjarnan. Hann segir á fjórum stöðum í þessari ræðu með stuttu millibili, í fyrsta þætti: „Þegar á þessu stigi kom í ljós nokkurt hik hjá sumum aðilum í ríkisstj. um það, hvort rétt væri að taka þessa ákvörðun, en það tókst að fá hana fram.“ Í öðrum þætti: „Nokkur deila þróaðist um þetta, og nokkurt hik kom á samstarfsaðila okkar, en það varð ofan á, það sem við lögðum til“. Í þriðja þætti: „Stundum varð nokkurt hik á fulltrúum Framsóknar, en forsrh. tók af skarið og studdi okkar sjónarmið“. Og í fjórða þætti: „Varð okkar stefna ofan á þrátt fyrir andóf hjá forustumönnum gömlu viðreisnarflokkanna og nokkurt hik hjá vissum aðilum innan samstarfsflokka ríkisstj.“ Það er nú meira hikið hjá samstarfsflokkum Alþb. í ríkisstj. En það er ekki hik, það er stefnufesta hjá hæstv. sjútvrh. Það er von, að hann gleypi það með glöðu geði, og yrði mjög upp með sér, þegar hann var nefndur „súperstar Jósepsson“ á opinberum fundi hér um daginn.

En það má halda áfram og spyrja: Hefur hæstv. sjútvrh. byrjað að hika? Hann sagði í ræðu sinni, niðurlaginu, eitthvað á þá leið, að hann vildi helst halda átökunum áfram. Það komu síðan ekki nema tvær eða þrjár setningar, þar til hann sagði: „Besti kosturinn er að gera þennan samning.“ Það er von, að það verði um einhvers konar geðklofa að ræða hjá mönnum, sem eru settir í þá spennitreyju og ganga í gegnum þá eldraun, eins og hæstv. iðnrh. sagði, að Alþb.-menn hefðu gengið í gegnum síðustu þrengingardaga. Og því get ég vel skilið það, að hæstv. sjútvrh. er svona fljótur að skipta um skoðun. Í einni setningunni vill hann helst halda átökunum áfram, en í næstu setningu er besti kosturinn að gera þennan samning.

Vegna hvers er besti kosturinn að gera þennan samning að áliti hæstv. sjútvrh? Jú, hann rökstuddi það, besti kosturinn er að gera þennan samning, vegna þess að Bretar veiða nú meira en helminginn af öllum þorskum á Íslandsmiðum. Nú verð ég að minna hæstv. sjútvrh. á það, að hann nefndi mig málpípu Breta fyrir þá sök, að ég hafði sagt, að þeim liði vel hér á miðunum eftir útfærsluna, þeir fiskuðu mikið og útfærslan hefði að þessu leyti mistekist. Af þessum sökum var ég málpípa Breta. Látum það vera. Ég er sennilega kominn í sæmilega góðan félagsskap að áliti hæstv. sjútvrh. í fyrsta lagi er í félagsskapnum hæstv. forsrh., sem sagði í umr. á fimmtudaginn var, að það væri ekki hægt að draga í efa, að Bretar hefðu fiskað fyrstu 12 mánuði eftir útfærsluna í 50 mílur 160–170 þús. tonn af fiski. Þegar meðalafli Breta s. l. 10 ár fyrir útfærsluna er 184 þús. tonn, er ekki af miklu að státa varðandi árangur af útfærslunni í 50 mílur fyrsta árið. Hæstv. forsrh. er þannig orðinn málpípa Breta. En það er önnur málpípa Breta hér í þessum sal eða sú þriðja, og það er, að því er virðist, hæstv. sjútvrh. sjálfur, Lúðvík Jósepsson, sem rökstyður það, að besti kosturinn sé að gera þennan samning, með því að Bretar veiði meira en helming af öllum þorski hér á Íslandsmiðum. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. Það er þess vegna, sem við hljótum að leysa þessa deilu með þessum samningi. Því er ég honum sammála.

Ég vonast til þess, að þeir annmarkar og óneitanlega miklu gallar, sem eru á þeim samningi, sem nú mun væntanlega verða gerður, ef dæma má af undirtektum hv. alþm., verði ekki eins alvarlegir og þeir gætu verið, og að samningurinn leiði til þess, að friður ríki á fiskimiðunum, og nýta megi þennan frið til þess að undirbúa nýja sókn Íslendinga í landhelgismálinu og tryggja okkur 200 mílna fiskveiðilögsögu.