12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Þorvaldur Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú langt liðið nætur, svo að ég ætla að vera stuttorður. Ég vona, að hv. alþm. misvirði það ekki við mig.

Það var engu öðru líkara en við værum komnir á framboðsfund í Vestfjarðakjördæmi undir ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann sagði okkur, að hann væri nú búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að hann ætlaði að fylgja samkomulaginu við Breta, sem hér er til umr. En hann hefur fengið mikinn taugaskjálfta af einhverjum ástæðum, um leið og hann komst að þessari niðurstöðu. Það sýndi öll ræða hans. Og hann sagði náttúrlega margar markleysur. Ég ætla ekki að hirða um það að fara að svara þeim. Í raun og veru kom svo til ekkert nýtt fram, sem ekki hefur verið þaulrætt hér í umr. í allan dag og í nótt fram að þessu.

En það er næstum, að manni fallist hendur, þegar maður heyrir fullyrðingar eins og þær, sem þessi hv. þm. lét sér um munn fara, þegar hann sagði, að við hv. 2. þm. Vestf. gengjum svo langt jafnvel að halda því fram, að samningurinn 1961 hafi verið hagstæðari fyrir Vestfirðinga en samningurinn nú. Ég þarf ekki að segja það, hvers vegna slíkar fullyrðingar eru fjarstæða, það er svo augljóst mál. Og mig undrar líka fákunnátta þessa hv. þm. um atvinnuhætti og aðstæður á Vestfjörðum, þegar hann hneykslast á því, að ég hefði sagt, að tímabilið sept.–okt. væri lakasti lokunartíminn fyrir Vestfjarðahólfið. Ég sagði: sennilega lakasti. En ég hneykslast á því, þegar þessi hv. þm, telur þetta fjarstæðu. Það er eins og hann viti ekki neitt um fiskigöngur fyrir Vestfjörðum.

Ég hirði ekki að svara marklausu dangli þessa hv. þm. í garð okkar hv. 2. þm. Vestf. Við stöndum jafnréttir fyrir því.

En fyrst ég er staðinn hér upp, er kannske ekki úr vegi að segja nokkur orð í tilefni af hinni lubbalegu ræðu, sem hv. 3. þm. Vestf. hélt hér í kvöld. Og þó er kannske ekki gustuk að gera slíkt, eftir að hv. 2. þm. Vestf. hefur svo kirfilega lagt hann til.

Þessi maður, hv. 3. þm. Vestf., hafði mörg orð um það hvílík óhæfa það væri, að utanrmn. hefði skilað tveim nál. og klofnað, eins og hann orðaði það, í þessu máli. Þetta hljómar einkennilega úr munni hvers sem er, en sérstaklega þegar þetta kemur úr munni hv. 3. þm. Vestf., sem allt klýfur, sem hann kemur nálægt. Þessi maður hefur verið formaður í þrem stjórnmálaflokkum og hefur klofið þá alla. Það er sama, hve einingin er lítil, hann skal hafa það af að kljúfa. Hann hneykslast nú á því, að utanrmn. hafi klofnað í þessu máli. Hvers konar tal er þetta? Auðvitað er þetta ekki svaravert. Við brosum allir að þessu. Það er líka hægt að brosa að mörgu fleiru, sem þessi hv. þm. sagði í ræðu sinni í kvöld, en ég ætla að hlífa honum við því.

En það var margt furðulegt, sem hann sagði. Hann er eini alþm., sem er ánægður fullkomlega með samninginn, sem nú liggur fyrir. Allir aðrir ræðumenn hafa bent á galla eða sagt, að auðvitað hefðu þeir viljað, að samningurinn væri betri. Og það eru orð hæstv. forsrh. sjálfs. En hv. 3. þm. Vestf. er harðánægður og hann hafði þá smekkvísi til að bera að leggja sérstaka áherslu á þá skoðun sína, að hann teldi öryggi í því, að breskt skip verði kallað til, þegar varðskip stendur landhelgisbrjót að verki. Hann telur sérstakt öryggi í því, ef við deilum löggæsluvaldi okkar með öðrum þjóðum. Þetta minnir mig á hina ömurlegu staðreynd, þegar þessi hv. alþm. varð á sínum tíma frægur að endemum fyrir andóf sitt og baráttu gegn því, að við tækjum að fullu og öllu öll mál okkar í eigin hendur með lýðveldisstofnuninni á sínum tíma.

Já, þessi hv. þm. er óútreiknanlegur. Og þó er hann kannske á vissan hátt alltaf samur við sig. Síðla kvölds 6. mars 1961 voru hér á hv. Alþ. umr, um þáltill um lausn fiskveiðideilunnar þá við Breta. Þá kom hann upp í þennan ræðustól til þess að halda ræðu. En menn vildu ekki hlusta á hann, töldu það ekki ómaksins vert, svo að þingbekkir voru hér auðir. Þá heimtaði hann af forseta Sþ., að mönnum yrði smalað hér í þinghúsinu til þess að hlýða á hann. Enginn vildi koma til þess að hlýða á hann. En hv. þm. sagði: Ég byrja ekki að tala, fyrr en einhverjir koma inn. — En engir vildu koma inn, svo að úr þessu varð mesti vandi. Þrisvar sinnum var þingfundi frestað til þess að reyna að koma vitinu fyrir þennan hv. þm. — Þrisvar sinnum, en það tókst ekki. Hann stóð eins og staður klár hér í þessum ræðustól og bifaðist ekki, fyrr en það varð að slíta umr. og fresta þeim til næsta dags. Þetta var framlag þessa hv. þm. þá til þjóðareiningar. En nú er þetta ekki svona. Nú gerir hv. þm. ekki kröfu til þess, að það sé hlustað á hann. Auðvitað gerir hann það ekki lengur vegna þess, að honum má líka vera orðið ljóst, að það tekur enginn mark á slíkum málflutningi sem hann viðhafði hér fyrr á þessum fundi.