13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gera eftirfarandi grein fyrir atkv. mínu í þessu máli: Vegna þess, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á samningaumleitunum við Breta um bráðabirgðalausn í fiskveiðideilunni, tel ég, eins og málin hafa þróast, útilokað, að um sé að tefla á næstunni aðra og hagkvæmari samninga en hér er leitað heimildar Alþ. til að gera. Hér er því í raun að mínu mati um að ræða val milli þess, hvort samið skuli við Breta á þeim grundvelli, sem hér liggur fyrir, eða að óbreytt hættuástand ríki á miðunum, sókn Breta fari jafnvel vaxandi og útilokað verði að koma í veg fyrir smáfiskadráp með eftirliti veiðarfæra, eins og verið hefur frá upphafi deilunnar. Þrátt fyrir margvíslega og verulega annmarka samkomulagsins vel ég því að svo komnu máli þann kost að fara samningaleiðina og segi já.