14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árnason:

Herra forseti. Hér er að sjálfsögðu um frv. að ræða, sem er í beinu framhaldi af afgreiðslu þess bráðabirgðasamkomulags, sem gert hefur verið við Breta og þegar er búið að undirrita. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar um þau viðurlög, sem hér er ákveðið að eigi að koma varðandi hugsanleg brot breskra togara, að það geti varla verið um þyngri viðurlög að ræða en þetta. Það er mitt mat, að það sé ekki hægt að hafa þyngri viðurlög en þetta, að hann sé þar með útilokaður frá fiskveiðum hér við Íslandsstrendur. Hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða að sjálfsögðu, sem gildir aðeins samningstímabilið, þessi tvö ár.

Það, sem ég vil gera að umræðuefni í sambandi við þetta mál, er, hvernig staðið er að því að ákvarða sekt þess, sem í hlut á. Þetta mál var rætt allítarlega undir afgreiðslu bráðabirgðasamkomulagsins, sem nú hefur nýlega farið fram hér á Alþ., og það voru almennt gerðar aths. við það af þm. að hafa þann hátt á, sem gert er ráð fyrir í samkomulaginu, að íslenskt varðskip þurfi að tilkynna bresku eftirlitsskipi og fá það til að sannreyna, hvort sökudólgurinn er brotlegur eða ekki. Ég fyrir mitt leyti álít, að það sé stórgalli á þessu samkomulagi, að það skyldi vera þannig ákveðið, í stað þess að það væri heimild fyrir sökudólginn eða breska togarann, sem staðinn væri að ólöglegum fiskveiðum í landhelgi, hann hefði rétt til þess að fá breskt eftirlitsskip til þess að sannreyna ef hann sjálfur vildi halda því fram, að hann væri rangindum beittur. Það hefði verið óneitanlega betra að hafa þann hátt á í sambandi við þetta, úr því að á annað borð þurfti að gangast undir þetta í samkomulaginu. Hitt var að sjálfsögðu eðlilegast, að það væri úrskurður varðskipsins, sem réði í þessum efnum, en síðan gætu aðilar sótt sitt mál og varið fyrir íslenskum sjódómi, eins og gerist og gengur. Ég sé ekki, að það hafi verið ástæða til þess frekar í þessu sambandi að taka upp þetta samkomulag að heimila Bretum þannig aðstöðu til þess að taka þátt í þessu, varðandi mælingar varðskipanna, heldur en hefur verið í sambandi við það, þegar landhelgisbrjótur hefur verið staðinn að ólöglegum veiðum, því að vitanlega hefur það alltaf verið þannig, að sökudólgurinn hefur haft aðstöðu til þess að láta gæta réttar síns, þegar sjódómur eða íslensk lögregla hefur tekið málið til afgreiðslu og meðferðar.

Það er þetta, sem ég vildi taka fram í sambandi við þetta lagafrv., sem hér er til umr., en ég endurtek, að ég tel, að það, sem hér er kveðið á um þá sekt, sem viðkomandi á að hljóta samkv. þessu bráðabirgðaákvæði, þá sé það út af fyrir sig, að það sé ekki hægt að koma við þyngri dómi á landhelgisbrjótana heldur en hér er lagt til og ákveðið um, að þeir skuli missa öll réttindi til fiskveiða hér við land.