14.11.1973
Neðri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort þessu frv. verður vísað til n., mér skilst, að það eigi að hraða því svo mikið, en mig langaði til að fá ofurlitlar upplýsingar viðvíkjandi þessu.

Það er talað um, að ef skip verður brotlegt samkv. þessum samningi, sem gerður hefur verið milli Bretlands og Íslands, þ. e. á þessu leyfða veiðisvæði á milli 12 og 50 mílna, þá missi það réttinn til að veiða samkv. samningnum. En það er ekki talað um, hvort nokkur önnur viðurlög liggi við, hvort það er hægt að fara með skipið til hafnar og sekta það eins og venjulegan landhelgisbrjót. Það er ekki tekið fram hér. Ég veit ekki, hvernig það er, hvort Bretar hafa viðurkennt, að það væri leyfilegt. Þeir hafa eigi viðurkennt þessa landhelgi hjá okkur.

Annað er það, að ekkert er talað um það, ef togari endurtekur brotið, sem ekkert er ólíklegt, að hann geri, því að sá, sem brýtur einu sinni, heldur sennilega áfram að veiða, skipinu verður ekki lagt, og hann getur orðið brotlegur í annað skipti og þriðja skipti, og hvaða viðurlög eiga að liggja við því, ef það kemur fyrir? Að sjálfsögðu er heimilt að sekta hann samkv. viðurkenndum reglum, ef hann fer inn fyrir 12 mílurnar, en mér er ekki alveg ljóst, hvort íslenskri löggæslu er heimilt að fara með hann í land og sekta hann eins og venjulegan landhelgisbrjót, ef hann brýtur þetta og eins ef um endurtekin brot er að ræða.