14.11.1973
Neðri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr., um staðfestingu Alþ. á skilningi hæstv. forsrh. á túlkun eigin samkomulags, hljóta að koma upp aftur nokkrar spurningar, sem komu fram í sambandi við umr. um samkomulagsmálið sjálft hér á Alþ. fyrir skömmu og einmitt í sambandi við hluta þessa máls. Þá var spurt, m. a.: Eftir að Alþ. hefði samþykkt þá lítillækkandi meðferð, sem Landhelgisgæslan, okkar löggæslumenn þurfa nú að hlíta í starfi sínu að kalla á erlenda aðila til þess að staðfesta, hvort þeir hafi gert sín störf rétt, þá koma fram spurningar um það, hvernig framkvæmdin verður á þessu atriði, þegar íslensk varðskip kalla á bresk eftirlitsskip. Á íslenska varðskipið að vera á staðnum og bíða eftir því, að eftirlitsskipið erlenda komi á staðinn? Eru einhver tímatakmörk fyrir því, hve lengi það á að bíða á staðnum? Á að kalla á annað íslenskt varðskip til þess að vernda bauju, sem sett yrði út á staðnum? Má sökudólgurinn fara brott af staðnum og halda áfram veiðum utan þess svæðis, sem bannað er að vera á? Og á íslenska varðskipið að vera á staðnum á meðan? Má breski þrjóturinn fara burt, þótt eftirlitsskipið sé ekki komið, eða á það skip að bíða líka? Og hvaða tími er til þess gefinn? Getur einn togari breskur haldið varðskipi í ómældan tíma á staðnum, meðan breska eftirlitsskipið kemur ekki til mælinga?

Þessar spurningar hljóta að koma upp, þegar verið er að ræða þetta mál, og nú vil ég enn beina þessum fsp. til hæstv. dómsrh. Í sjálfu sér er ég ekki á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga, en ég teldi það rétt allra vegna, fyrst þetta samkomulag hefur verið samþ. með miklum meiri hl. hér á Alþ., að skilningur hæstv. dómsmrh. á þessum atriðum lægi fyrir, áður en frv. þetta fer frá Alþ. sem lög.