15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

46. mál, jarðalög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að byrja mál mitt á því að þakka þær undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið hér í hv. d., og vona, að það spái góðu, að það komi út úr d. betra en það fór til hennar, því að vafalaust má betrumbæta það frá því, er það var lagt fram, enda þótt ég áliti, að það hafi verið vel unnið, sem ekki er að undra, þar sem fengnir voru til þess hinir færustu menn. Yfirleitt hefur frv. verið lagt fram eins og þeir og þeir aðilar aðrir, eins og Búnaðarþing og Stéttarsamband bænda, hafa lagt til, að gert yrði. Af hálfu landbrn. hafa ekki verið gerðar þær breytingar, sem hafi ekki fallið saman við tillögugerð þessara aðila. Ég mun því ekki fara að fara hér út í neinar kappræður í sambandi við það, sem fram hefur komið í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hér hafa talað. Ég vil aðeins gefa skýringar á því, hvernig ég skil sum atriði, sem þar var drepið á, og snúa mér þá fyrst að ræðu hv. 6. þm. Sunnl., Steinþórs Gestssonar.

Hann benti á það, að honum fyndist ekki, hvað skipulagsmál varðaði, að tekið væri nóg tillit til sveitarstjórna við tillögugerð þar að lútandi frá hendi byggðaráðs, Ég lít svo á, að í 2. tölulið í 6. gr. frv. sé nú tekið fram eða þar komi ábending um, það, í hvaða átt byggðaráðin eigi að stefna sínum tillögum, þegar þau gera till. um skipulagsmál. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stuðla að skipulagi í dreifbýli, m. a. með ábendingum og tillögugerð til sveitarstjórna. Ég sé ekki annað en að hér sé verið að benda til þess, sem á að fylgja eftir í þessu frv., þó að það sé ekki tekið fram í einstökum gr. þess. Það er sveitastjórnin, sem á að fá þessa tillögugerð. Og eðlilegasti mátinn finnst mér vera sá, að samráð sé haft bæði við Búnaðarfélagið og sveitarstjórn viðkomandi byggðarlags um þau skipulagsatriði, sem þarna verður um fjallað.

Hv. 6. þm. Sunnl. taldi, að um þetta væri ekki nógu ákveðin ákvæði, og að hans dómi var ekki heldur nógu ákveðið, hvernig með skyldi fara skipulag í sambandi við sumarbústaði. Mér sýnist, ef hv. n. finnst, að svo sé, að hér þurfi að vera ákveðnari fyrirmæli en þarna kemur fram, þá sé auðvelt að leysa það. En ég skil atriðin þannig, að það sé samstarfið á milli byggðaráðanna, sveitarstjórnanna, Búnaðarfélagsins, náttúruverndarnefnda, sem eigi að ráða um niðurstöður skipulagsgerðartillögum.

Þá er það rétt hjá hv. 6. þm. Sunnl., að auðvitað er ólíku saman að jafna um fólksfjölda hjá okkur hér í sýslufélögunum eða lénunum og fylkjum í Noregi og Svíþjóð. En það má margt um okkar þjóðfélag segja, og ef við ætluðum að miða við það, þá mundi vera auðvelt að halda því fram, að 200 þús. manna þjóð gæti ekki heldur verið sjálfstæð þjóð. Þess vegna verðum við að halda okkur við það sem er, og við byggjum okkar skipulag á því, að 200 þús. manns hafa hér sjálfstætt þjóðfélag og reyna að fylgja eftir kröfum tímans eins og stórþjóðirnar gera í verulegu mæli.

Fyrirkomulagið við skipun þessara byggðaráða kom hv. þm. inn á, og einnig kom það fram í ræðu hv. þm. Helga Seljan, að hann taldi, að ekki væri rétt, að sýslunefndir kysu í þetta ráð, þar sem þær væru það veldi, sem sennilega væri nú að ganga sér til húðar. Nú skal ég engu um það spá, hvernig það gerist, að sú breyting verði á, þó að nokkuð hafi verið um það rætt að breyta því skipulagi og megi með réttu segja, að það sé víða orðið nokkuð úrelt. Hér er hins vegar, að minni hyggju, sýslunefndin látin koma fram sem sveitarstjórnaraðili. Það er líka lögð nú kvöð á sýslusjóðina að greiða 1/4 af kostnaði við byggðaráð, og þá er eðlilegt, að þeir eigi að hafa þar ráð líka, en ekki bara kostnað. Ef ætti að breyta þessu, hefði mér litist langbest á þá breytingu, að tveir mennirnir, þ. e. búnaðarsambandsmaðurinn og sá, sem væri skipaður af rn., væru fastir í þessu, hins vegar gæti þar komið inn frá viðkomandi sveitarfélagi 3. aðilinn, þegar um málið væri fjallað í því byggðarlagi. Ég er ekki að segja, að þessi aðferð þurfi að vera betri, en mér fyndist, að það væri raunverulega eina breytingin, sem gæti verið hugsanleg, ef ætti að fella sýslurnar út. Það verður að segja eins og er, að það getur hljómað mjög illa. Ég álít t. d., að sýslunefnd Árnessýslu hafi leyst mjög vel og myndarlega ákvörðun sína um daginn í sambandi við það deilumál, sem kom upp á Selfossi, með því að skjóta því heim til Selfyssinga sjálfra. Ég tel það miklu hyggilegra en að fulltrúi úr Grafningnum eða Þingvallasveit, Hreppunum og hvaðan það er nú, sem þeir eru, úr þeim ágætu sveitum, hefði farið að fjalla sérstaklega um málefni Selfoss, eins og var í þessu tilfelli. Þess vegna fyndist mér, að það væri atriði, sem hv. n. gæti skoðað, hvort henni litist á, að betur mætti fara. Ég segi fyrir mig, að frá mínum bæjardyrum séð skiptir mestu máli, ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona að verði, að það verði sem best úr garði gert og komi sem best frá þinginu, en ekki, að það sé hangið í einhverjum formsatriðum, sem kannske skipta ekki verulegu máli.

Þá gat hv. 6. þm. Sunnl. þess, að framlagið til Jarðasjóðs ríkisins væri lítið, eða hækkun þess væri lítil, miðað við þau verkefni, sem sjóðurinn ætti að inna af hendi. Það er svo með fleiri hækkanir í sambandi við fjárlagaafgreiðslur, að mönnum finnst lítið, þegar þeir taka eitt og eitt mál, þótt það hækki um 100%, eins og gert er ráð fyrir í þessu tilfelli. Hins vegar þegar summan er lögð saman, þá er þetta orðin veruleg hækkun. Ég verð nú að segja það, að mér finnst, að 100% hækkun í einu stökki sé verulega mikið, jafnvel þótt ég viðurkenni, að það sé ekki víst, að það nægi til þeirra verkefna, sem á að vinna að. Það er út af fyrir sig, að það getur verið rétt, að það þurfi meira til, og mér finnst, að síðari tímar geti þá leyst það verkefni.

Þá gerði hv. þm. einnig athugasemd við umfjöllun byggðaráðs, þegar ríkissjóður ráðstafaði fasteignum. Ég lít svo á, að þær ráðstafanir ríkissjóðs á fasteignum mundu vera bundnar fyrst og fremst við Forkaupsrétt þess, sem á jörðinni sæti, því að það væri hæpið, að ríkissjóður léti landið eða jörðina af hendi, nema annaðhvort til þess, sem á forkaupsréttinn, eða til sveitarfélagsins. Af þeirri ástæðu tel ég, að þetta sé þannig orðað, að það sé hugsað út á þeirri forsendu.

Þá gerði hv. þm. einnig athugasemd við það, að halda eftir náma- og hitaréttindum og vatnsréttindum. Þetta er út af fyrir sig atriði, sem ríkissjóður hefur yfirleitt gert. Það hefur ekki verið talið fært að láta af hendi jörð með slíkum réttindum eins og jarðhita umfram það, sem þarf að nota til jarðarinnar, eða t. d. raforkuréttindum, sem gæti verið, að þyrfti að nýta í almenningsþágu, eða ef um námuréttindi væri að ræða. Það er hins vegar ekki verið með þessu að taka það af viðkomandi jörð, ef þessi hlunnindi eru eingöngu nýtanleg á jörðinni sjálfri, heldur er bara um það að ræða, þegar þetta er orðið meira magn en svo og gæti þurft að nýta það í þágu almennings.

Ég er hv. þm. alveg sammála um, að það beri að láta fylgja jörðunum yfirleitt það, sem þeim fylgir, eins og venjuleg hlunnindi og annað því um líkt. Ég tel mjög fráleitt að aðskilja þetta frá jörð og eigi ekki að gera, en þegar um er að ræða verðmæti, sem gæti þurft að nota vegna almennings, eins og malartekjur vegna vegagerðar, vatnsréttindi vegna raforku og jarðhita vegna varmaveitu eða hitaveitu í nágrenni, þá sé um annað mál að ræða.

Það er alveg rétt hjá hv. 6. þm. Sunnl., að það verður auðvitað að gæta varúðar við, hvað langt á að ganga í því að halda verði í skefjum. Það kom einnig fram hjá hv. þm, Helga Seljan, að bændur hafa yfirleitt fengið of lítið verð fyrir sínar jarðir, heldur en hið gagnstæða. Á þessu hefur orðið veruleg breyting nú upp á síðkastið. Og það, sem er megintilgangur þessa frv., er að tryggja landið fyrst og fremst til landbúnaðar. Þess vegna getur verið nauðsynlegt að setja á þær takmarkanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og nágrannar okkar, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, hafa allir talið sér það hina mestu nauðsyn að setja takmarkanir á slíkar sölur. Meira að segja er það svo í Noregi, að það er engin skylda á ríkinu að kaupa jarðirnar, þó að það synji viðkomandi bónda um að selja, af því að því þykir verðið of hátt. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að keypt verði, og þá er um mat að ræða. Það er ákveðið, að matsmennirnir séu tilnefndir einn af Hæstarétti, annar af Stéttarsambandi bænda og þriðji af landbúnrn. og sá, sem sé tilnefndur af Hæstarétti, sé formaður nefndarinnar.

Ég held, að það orki ekki tvímælis, að það sé reynt að stilla hér mjög í hóf til þess að ná því takmarki, sem er aðalatriði frv., að halda jörð í ábúð og koma í veg fyrir brask með jarðir og halda uppi skipulegri nýtingu á jörðum fyrst og fremst og landi, bæði til búskapar og eins til útivistar og sumarbústaða. Frv. er þannig, að gegnum allt gengur að reyna að ná þessu takmarki, og ég vona, að við athugun muni menn sannfærast um, að það er stefnt með hófsemi í þá átt, og ef betur má fara, þá takist að lagfæra það.

Það er alveg rétt hjá hv. 6. þm. Sunnl., að það ber nauðsyn til að setja inn í lög einhver ákvæði um það, hvaða þekkingu menn þyrftu til að bera til þess að stunda búskap. Það er enginn vafi á því, að svo fjölbreyttur atvinnurekstur sem búskapur er verður ekki rekinn alveg án þekkingar, þegar farið er að setja í lög ákvæði um þekkingu á flestum öðrum sviðum. Og það hlýtur að koma að því fyrr en seinna, að slíkt ákvæði komi í lög.

Ég skal svo ekki orðlengja fleira um það, sem hv. 6. þm. Sunnl. drap hér á, og vona ég, að ég hafi haft hans vinnulag að fara að þessu með hófsemi.

Út af því, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði áðan um óðalsréttinn og muninn á venjulegum bændum og óðalsbændum, þá er ég af Írum kominn skv. hans skýringu, — þá er ég ekki viss um, að ég kunni vel skil á því. Hitt veit ég, að ákvæðið um ættaróðul og óðalsjarðir hefur orðið mörgum til trafala í raun og veru og á margan hátt orðið til þess, að jarðir hafa ekki verið nýttar á eðlilegan hátt, og eigendur margra jarða, sem eitt sinn voru undir þetta ákvæði settar, hafa óskað eftir því að losa sig undan þessum réttindum. En þeir eru svo orðhagir á Austurlandi, að ég treysti mér ekki í það, og ætla nú að enda þessi orð mín með sögu, sem ég heyrði af einum sýslunefndarmanni, sem byrjaði ræðu sína á því að segja, þegar hann kom í ræðustólinn: Ég ætla nú að hugsa um þetta mál, en hef ekki haft tíma til þess, — svo flutti hann sína ræðu, og þá varð öðrum að orði, sem einnig var sýslunefndarmaður og sat úti í sal:

„Skyldi ég eiga að leggja honum lið

eða lofa honum bara að mala?

Hann ætlaði að hugsa, en hætti við

og hélt svo áfram að tala.“

Og ég ætla að ljúka máli mínu með þessu.