15.11.1973
Neðri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Fsp. hv. 7. þm. Reykv. mun ég leitast við að svara og tel þá rétt að rekja í nokkrum orðum aðdraganda þess ástands, sem nú hefur skapast.

Lög um Fiskvinnsluskóla eru frá 15. apríl 1971. Skólanefnd var komið á fót í júlímánuði það ár og skólastjóri settur. Tók skólinn til starfa þá um haustið, er þriggja ára skóli með hugsanlegri tveggja ára viðbót og á að útskrifa fyrstu nemendur sína árið 1974. Fyrstu tvö árin var skólinn í bráðabirgðahúsnæði að Skúlagötu 4, á þessu ári hefur skólinn fengið húsnæði að Trönuhrauni 8 í Hafnarfirði, og er það húsnæði talið henta vel starfsemi skólans.

31. okt. kom skólastjóri Fiskvinnsluskólans, Sigurður Haraldsson, formaður skólanefndar, Guðmundur Magnússon prófessor, og Guðlaugur Hannesson gerlafræðingur, skólanefndarmaður, í menntmrn. og skýrðu frá því, að sjútvrn. eða Fiskmat ríkisins í umboði þess hefði birt svofellda auglýsingu í Ríkisútvarpinu 26. okt.:

„Tilkynning frá Fiskmati ríkisins um námskeið.

Fiskiðnaðarnámskeið sjútvrn. um mats- og gæðaeftirlit á frystum og ferskum fiski og í hreinlætistækni við fiskvinnslu verður haldið í Reykjavík og hefst um miðjan nóv., ef næg þátttaka kemur fram. Þeir, sem óska eftir að sækja námskeiðið, skulu útfylla umsókn á þar til gerð eyðublöð, sem er að fá á skrifstofu Fiskmats ríkisins í Reykjavík og hjá yfirfiskmatsmönnum úti á landi. Eyðublöðin bera með sér, hvaða upplýsinga og gagna er óskað af umsækjendum. Umsóknir þurfa að hafa borist skrifstofu Fiskmats ríkisins eigi síðar en 7. nóv., en eftir þann tíma verður umsækjanda tilkynnt nánar um ákvarðanir í þessu sambandi.

Fiskmat ríkisins“.

Skólastjóri og skólanefndarmenn skýrðu frá því, að nemendur Fiskvinnsluskólans væru mjög áhyggjufullir vegna þessa boðaða námskeiðs, þar sem í 3. gr. l. nr. 55 frá 1971, um Fiskvinnsluskóla, segir svo:

„Skólinn skal starfrækja námskeið fyrir starfsfólk í ýmsum greinum fiskiðnaðarins, og miði þau einkum að því að veita þeim starfsmönnum fiskiðjuvera, er vinna við móttöku og verkun sjávarafla, hagnýta fræðslu um meðferð og vinnslu aflans. Námskeið þessi skulu haldin í verstöðum landsins, eftir því sem við verður komið.“

Fiskmat ríkisins hefur haldið hliðstæð námskeið áður, síðast árið 1971. En með setningu l. um Fiskvinnsluskóla töldu menn eðlilegt, að námskeiðshaldi Fiskmatsins væri lokið og námskeið á þessu sviði mundu verða á vegum Fiskvinnsluskólans, eins og 3. gr. l. um skólann mælir fyrir um. Nú hefur það hins vegar gerst, að sjútvrn. eða Fiskmat ríkisins í samráði við það hyggst efna til námskeiðs, eins og að framan greinir, án alls samráðs við Fiskvinnsluskólann. Ef þörf er fyrir slíkt námskeið, ber tvímælalaust samkv. gildandi l. um Fiskvinnsluskóla að fela honum námskeiðshaldið, en forráðamönnum skólans hafa engar óskir borist um það, hvorki frá sjútvrn., Fiskmati ríkisins né öðrum. Skýring á því hins vegar, að skólinn hefur ekki af sjálfsdáðum efnt til námskeiða hingað til, er sú, að kröftunum hefur verið beint að því að koma skólanum sjálfum á fastan grundvöll. Hann hefur að undanförnu, eins og áður segir, verið í bráðabirgðahúsnæði og búið við þröngan húsakost, en nú er búið að ráða bót á því með húsnæði því, sem fengist hefur í Hafnarfirði.

Í haust heyrði skólastjóri Fiskvinnsluskólans ávæning af því, að fyrirhugað mundi að efna til slíks námskeiðs sem áður getur, og sneri hann sér þá til ráðuneytisstjórans í sjútvrn. og lýsti óánægju sinni með þessa fyrirætlan. Ráðuneytisstjórinn ræddi síðan málið við sjútvrh., að því er skólastjóra Fiskvinnsluskólans var tjáð, og lét skólastjóri síðan í té að beiðni sjútvrn. upplýsingar um skólann í bréfi, dags. í sept. 1973. Eftir að sjútvrn. fékk fyrrgreinda skýrslu skólastjóra Fiskvinnsluskólans, var ekkert samband við hann haft, og það næsta, sem skólastjóri heyrir um málið, er auglýsing um fyrirhugað námskeið, sem birt var í Ríkisútvarpinu, eins og áður segir, föstudaginn 26. okt. s. l. Þess má einnig geta, að hvorki sjútvrn. né Fiskmat ríkisins hafa haft samband við menntmrn. um þetta mál.

Forráðamenn og nemendur Fiskvinnsluskólans hafa miklar áhyggjur af, hvaða áhrif þetta námskeiðshald kann að hafa á framtíð skólans, þar sem svo virðist sem þriggja vikna námskeið Fiskmatsins geti veitt svipaða starfsmöguleika og þriggja ára strangt nám í Fiskvinnsluskólanum. Nú er það samt svo, að hvorki er ákveðið í l. um Fiskvinnsluskóla né í sambandi við fyrirhugað námskeið, hver réttindi hvort um sig veitir nemendum. En hætta gæti verið á því, að þeir, sem ljúka þriggja vikna námskeiðinu, eigi leið til matsmannsstarfa og verkstjórnar, fremur en nemendur Fiskvinnsluskólans. Mundi þannig vera búið að binda ýmsar stöður, þegar fyrstu nemendur Fiskvinnsluskólans ljúka sínu þriggja ára námi sumarið 1974.

Vegna þess alvarlega ástands, sem skapaðist við aðgerðir Fiskmatsins og sjútvrn., leituðu fulltrúar nemenda Fiskvinnsluskólans á fund sjútvrh. 31. okt., að því er skólastjóri Fiskvinnsluskólans hefur tjáð menntmrn.

Skólanefnd Fiskvinnsluskólans fjallaði um þetta mál fyrir sitt leyti á fundi 29. okt., og þar ályktaði skólanefndin, að námskeiðið í greinum fiskiðnaðarins eigi samkv. l. skólans að halda á hans vegum og því óeðlilegt, að aðrar ríkisstofnanir haldi slík námskeið. Tilgangur með stofnun skólans var að auka og bæta menntun starfsmanna í fiskiðnaði, en fyrirhugað námskeið sjútvrn. gengur í berhögg við þann tilgang skólans. Skólanefnd telur, að eðlilegt hefði verið að hafa samband við skólann um framangreint námskeið, enda hafði skólastjóri vakið athygli sjútvrn. á því.

Sjútvrn. óskaði eftir því við forráðamenn Fiskvinnsluskólans, að þeir kæmu til fundar við ráðuneytismenn og aðila frá Fiskmati ríkisins 12. nóv. s. l. Óskuðu forsvarsmenn skólans eftir fundi með ráðuneytismönnum fyrir þennan fund. Voru sjónarmið skólanefndar þar kynnt og eftirfarandi samþykkt frá fundi hennar 9. nóv.:

„Skólanefnd Fiskvinnsluskólans telur, að nýlega auglýst námskeið á vegum Fiskmats ríkisins eigi að vera á vegum skólans, svo og önnur námskeið af þessu tagi í framtíðinni. Sömuleiðis fer skólanefndin fram á það við hlutaðeigandi rn., að endurskoðuð verði lög og reglugerðir, sem snerta menntun og starfsréttindi í fiskiðnaði, með tilliti til laga Fiskvinnsluskólans, stofnunar hans og tilgangs.“

Ályktun þessi var send menntmrn. og sjútvrn. Umræddan fund í sjútvrn. sátu af hálfu Fiskvinnsluskólans skólastjóri og formaður skólanefndar. Lýstu þeir því yfir, að þeir litu á fundinn sem kynningarfund. Af hálfu rn. var því lýst yfir, að umrætt námskeið yrði haldið. Aðilar Fiskvinnsluskólans létu þá skoðun í ljós, að e. t. v. væri of seint að afturkalla auglýst námskeið á vegum Fiskmats ríkisins. Öll slík námskeið yrðu þó á vegum skólans í framtíðinni.

Yrði skólinn að hafa frumkvæðið varðandi framkvæmdina, en þetta útilokaði ekki samvinnu við aðrar stofnanir, eins og fiskmat ríkisins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sölusamtökin o. fl. Með því móti yrði yfirumsjón með menntuninni á einni hendi, og væri þörf sérstakra námskeiða til að fullnægja þörfum fiskiðnaðarins, gæti skólinn gengist fyrir slíkum námskeiðum. Það segir sig sjálft, segir í yfirlýsingu frá skólastjórn og skólanefnd Fiskvinnsluskólans, að fiskvinnsluskólinn getur hvorki yfirtekið né gengið inn í námskeið Fiskmats ríkisins með nokkurra daga fyrirvara, ef það á að vera annað en nafnið tómt.

Ef unnt á að vera að tala um einhverja niðurstöðu á fundinum, var það sérstaklega tekið fram af hálfu aðila Fiskvinnsluskólans, að þeir skyldu gera till. um skipan þessara mála í framtíðinni. Fiskmat ríkisins ætlaði að gera slíkt hið sama. Af hálfu rn. var því lýst yfir, að það mundi beita sér fyrir breytingu á reglugerðum varðandi starfsréttindin.

Þess má geta, að 54 nemendur samtals eru nú í Fiskvinnsluskólanum, 18 á fyrsta námsári, 11 á öðru námsári og 25 á þriðja námsári, og eiga þessir 25 að ljúka prófi í vor. Þess er því skammt að bíða, að 25 nemendur Fiskvinnsluskólans komi til starfa.

Nú hafa aðgerðir Fiskmatsins haft í för með sér, að nemendur Fiskvinnsluskólans telja hag sinn algerlega fyrir borð borinn og hafa í gær hætt námi, þ. e. a. s. nemendur 1. og 2. bekkjar skólans. Sést af þessu, í hvert óefni er komið vegna fyrirhugaðs námskeiðshalds.

Í framhaldi af þessu vil ég geta þess, að ég hef í dag ritað sjútvrn. eftirfarandi bréf: „Auglýsing, sem Fiskmat ríkisins hefur birt um fiskiðnaðarnámskeið sjútvrn., hefur valdið miklum erfiðleikum í starfi Fiskvinnsluskólans, sem starfar samkv. l. nr. 55 frá 1971. Telja forráðamenn skólans og nemendur, að með námskeiði þessu sé farið inn á verksvið skólans, og telja með öllu óviðunandi, að þriggja vikna námskeið kunni að leiða til sömu eða svipaðra starfsmöguleika eða starfsréttinda og þriggja ára nám í Fiskvinnsluskólanum. Menntmrn. mælist því eindregið til þess, að sjútvrn. hætti við fyrirhugað námskeið og leiti samstarfs við menntmrn. og Fiskvinnsluskólann um námskeiðshald á þessu sviði, ef nauðsyn þykir bera til að halda slíkt námskeið.“