19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

95. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, á sér alllangan aðdraganda: Fyrrv. landlæknir, Sigurður Sigurðsson, lagði til við þáv. heilbrrh., Eggert G. Þorsteinsson, með bréfi 13. nóv. 1969, að tekin yrðu til endurskoðunar lög um fóstureyðingar, afkynjanir og vananir, þ. e. a. s. annars vegar lög nr. 38 frá 28. jan. 1935 og hins vegar lög nr. 16 frá 13. jan. 1938. Það var reynsla þáv. landlæknis af framkvæmd l., sem olli því, að hann taldi þessarar endurskoðunar þörf. Í samræmi við þetta skipaði ráðh. n, hinn 5. mars 1970 til að endurskoða þessi lög, og voru í n. Pétur Jakobsson prófessor, formaður, Tómas Helgason prófessor og Sigurður Samúelsson prófessor.

Nokkur gagnrýni kom fram á þessa nefndarskipun, ekki síst frá konum, sem töldu að vísu, að þetta væru hinir mætustu menn og ekki skorti neitt á um þekkingu þeirra, en þeim þótti að vonum eðlilegt, að kona eða konur ættu aðild að n., sem fjallaði um þessi mál. og þessi afstaða breyttist smátt og smátt. Í jan. 1971 óskaði Sigurður Samúelsson prófessor eftir því að verða leystur undan starfi í n., og var þá skipuð í hans sæti Guðrún Erlendsdóttir hrl., og haustið 1971 skipaði ég Vilborgu Harðardóttur blaðamann í n., þannig að jafnt yrði þar karla og kvenna. Svava Stefánsdóttir félagsráðgjafi var ráðin ritari og starfsmaður n. frá 1. jan. 1971.

N. vann starf sitt mjög rækilega, safnaði ýmsum gögnum og lét starfsmann sinn framkvæma ýmsar athuganir á framkvæmd núgildandi löggjafar. N. skilaði af sér störfum á síðasta vori og lagði þá fram það frv., sem hér liggur fyrir, til heilbrn. ásamt nál. og grg., sem rn. gaf út í júní 1973 til almennrar kynningar. Öllum alþm., svo og fjölmiðlum og mörgum fleiri aðilum var sent þetta rit á s. l. sumri. Óskaði ég sérstaklega eftir því við fjölmiðla, að þeir kynntu efni frv. og stuðluðu jafnframt að sem víðtækustum umr., vegna þess að ég tel þetta mál þess eðlis, að nauðsynlegt sé, að um það fari fram umr. meðal landsmanna allra, svo að þeir geti haft áhrif á afgreiðslu málsins.

Þau lög, sem n. var falið að endurskoða, voru annars vegar l. nr. 38 frá 1935, um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, og lög nr. 16 frá 1938, um að heimila í viðeigandi tilvikum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt. Fyrir setningu l. nr. 38 frá 1935 voru ekki til í íslenskri löggjöf nein lagaákvæði, sem heimiluðu læknum fóstureyðingar, jafnvel þótt lífi eða heilsu konu væri hætta búin af barnsburði. Samkv. ákvæðum hegningarl. frá 1869 varðaði það móðurina og hlutdeildarmenn hennar allt að 8 ára hegningarvinnu að eyða burði. Þótt engin sérákvæði væri að finna í l., var samt sem áður almennt viðurkennt fyrir setningu l. frá 1935, að læknum væri heimilt og skylt að framkvæma þessa aðgerð í lífsnauðsyn mæðranna. Var þar stuðst við kenninguna um svokallaðan neyðarrétt í almennum hegningarlögum, þ. e. að verkið skyldi vítalaust, ef ekki væri annað úrræði til bjargar.

Efni l. nr. 38 frá 1935 er í meginatriðum það, að í fyrsta lagi er lækni skylt, ef hættulegt er fyrir konu vegna sjúkdóms að vera barnshafandi og ala barn, að vara hana við og láta henni í té leiðbeiningar til að koma í veg fyrir, að hún verði barnshafandi. Öðrum en læknum er bannað að hafa þessar leiðbeiningar með höndum. Í öðru lagi er lækni heimilt, ef heilbrigðisnauðsyn krefur, að gera konu ófrjóa, ef hún óskar þess, og hann má taka tillit til félagslegra ástæðna við mat á þessari aðgerð. Í þriðja lagi er fóstureyðing heimil lækni, ef augljóst þykir, að konu sé mikil hætta búin, ef hún á að gagna svo lengi með, að barn geti fæðst og haldið lífi. Við þetta mat má taka tillit til félagslegra aðstæðna, þ. e. a. s. til þess, ef konan hefur alið mörg börn með stuttu millibili, ef stutt er frá síðasta barnsburði, ef bágar heimilisástæður eru vegna ómegðar, fátæktar eða heilsuleysis annarra á heimilinu. Félagslegar ástæður einar út af fyrir sig eru ekki nægileg ástæða fyrir fóstureyðingu samkv. gildandi l. Heilbrigðisástæður verða ævinlega að vera fyrir hendi sem aðalástæða.

Þess má geta, að þegar l. voru sett árið 1935, var Ísland fyrsta landið í heimi, sem tók slík ákvæði inn í löggjöf, þ. e. að til viðbótar læknisfræðilegum ástæðum, ef einar út af fyrir sig væru ekki nægilegar, mætti taka tillit til félagslegra ástæðna við ákvörðun á fóstureyðingu. L. frá 1935 voru því um margt frjálslegri og víðsýnni en löggjöf nágrannaþjóðanna á þeim tíma. Efni 1. nr. 16 frá 1938 er eftirfarandi:

Þar er í fyrsta lagi fjallað um afkynjanir, en með afkynjun er átt við það, þegar kynkirtlar eru numdir burt í þeim tilgangi að svipta viðkomandi óeðlilegum kynhvötum, einkum ef þeir eru taldir geta valdið glæpum. — Í öðru lagi er fjallað um vananir, en þar er um að ræða aðgerðir til að gera viðkomandi ófrjóan, en breyta ekki eðli hans að öðru leyti. Tilgangur vananaaðgerða er tvenns konar: að koma í veg fyrir fæðingu gallaðs afkvæmis og í annan stað að létta fávitum og sjúklingum lífsbaráttu án tillits til þess, hvort um sé að ræða erfðir. — Í þriðja lagi fjalla l. frá 1938 um fóstureyðingar, en þær eru heimilar samkv. þessum l., og miðast þá fóstureyðingin fyrst og fremst við ástand afkvæmisins, þ. e. ef hætta er á, að það sé vanskapað eða skaddað. Þá heimila l. einnig fóstureyðingu, ef um nauðgun hefur verið að ræða.

Reglur um framkvæmd þessara tvennra laga hafa verið mjög mismunandi. Annars vegar eru reglur um framkvæmd fóstureyðingarlaga þannig, að þær hafa heimilað fóstureyðingu, ef rökstudd grg. tveggja lækna um nauðsyn aðgerðarinnar hefur legið fyrir, og annar þeirra hefur orðið að vera yfirlæknir þess sjúkrahúss, þar sem aðgerðin var fyrirhuguð. Hins vegar er framkvæmd l. nr. 16 frá 1938 þannig, að viðkomandi hefur óskað eftir aðgerðinni sjálfur og lagt fram gögn þar að lútandi, þ. e. a. s. umsókn og læknisvottorð. Þessi gögn hafa síðan gengið til n. þriggja sérfróðra manna, sem hafa átt að vera landlækni til aðstoðar við framkvæmd l., en landlæknir hefur að því loknu gefið út fyrir hönd sína og n. leyfi til aðgerðar, hafi hún verið samþ. — Það ætti að vera augljóst af þessari frásögn, að þessi tvenn lög hafa skarast í nokkrum tilvikum, og endurskoðunarn. hefur talið eðlilegt að sameina ákvæði l. beggja í einn lagabálk. og það er frv. að þeim lagabálki, sem hér liggur nú fyrir til umr.

Það frv., sem hér liggur fyrir, skiptist í fjóra kafla, en þeir eru: ráðgjöf og fræðsla, um fóstureyðingar, um ófrjósemisaðgerðir og loks almenn ákvæði. Ég mun nú ræða hvern kafla um sig lítillega og vík þá fyrst að ráðgjöf og fræðslu.

Till. n. um það efni byggjast á þeirri meginhugsun, að hver einstaklingur eigi að hafa næga þekkingu til þess að geta stjórnað viðkomu sinni.

Hver einstaklingur þurfi að vita og skilja, hvernig þungun á sér stað, og honum eigi að vera ljóst, hvernig beita megi frjóvgunarvörnum. Fóstureyðing sé hins vegar nauðvörn, sem tiltæk verði að vera, ef þungun hefur átt sér stað og framhald meðgöngu eða barnsfæðing leiðir til vandræða, sem ekki verður úr bætt. Fræðsla og ráðgjöf eru í samræmi við þetta sjónarmið algert grundvallaratriði í frv. Sú fræðsla, sem um er að ræða, verður að byrja í skólum skyldufræðslustigs, og ber þar jafnt að fjalla um líkamlega, siðfræðilega og félagsl. þætti. Ábyrgð og hamingja foreldrahlutverks þeirra einstaklinga, sem eru undir það búnir að geta annast börn, á að vera unglingum jafnljóst og þeir erfiðleikar, sem ótímabærar barneignir kalla yfir þá foreldra, sem eru þess vanbúnir að sjá fyrir barni, og ekki síður erfiðleikar þeirra barna, sem þannig eru í heiminn borin.

Í skólakerfi okkar eru nú engar ákveðnar reglur um fræðslu um kynferðismál. Námskrá skyldunámsstigs, sem er frá 1960, leggur engar sérstakar skyldur á herðar kennara í þessum efnum. Það er undir einstökum kennurum komið, hversu langt þeir kjósa að fara út í slík mál. Námskráin ýtir síður en svo undir það viðhorf, að fræðslan sé nauðsynleg og mikilvæg. Þar er sagt, að í 1. og 2. bekk unglingastigs skuli ræða við nemendur um nokkur atriði varðandi kynþroskaskeiðið, en tekið fram, að ekki muni þörf á að eyða mörgum kennslustundum til þessarar fræðslu. Fræðsla um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir frjóvgun liggur yfirleitt ekki á lausu. Þar setja gildandi lög þær hömlur, eins og ég gat um áðan, að læknum einum er heimilt að láta í té leiðbeiningar um takmörkun barneigna. Þessi takmörkun stuðlar að því að halda við hinni almennu og oft furðulega fáfræði, sem ríkir í þessum efnum, ekki síst meðal unglinga. Óræk sönnun fáfræðinnar er sú staðreynd, sem kemur fram í könnun n., að 52% þeirra kvenna, sem fæddu börn hér á landi á árunum 1966–70, voru 16–19 ára Síðasta skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um fjölda fæðinga í Evrópu bendir einnig til þess, að Íslendingar beiti frjóvgunarvörnum í furðu litlum mæli, miðað við almenna menntun og viðhorf þjóðarinnar. Fæðingar á hverja þúsund íbúa voru hér samkv. skýrslunni 21 og aðeins hærri í Albaníu, Írlandi, Rúmeníu og Tyrklandi.

Um hina nauðsynlegu fræðslu og ráðgjöf fjalla fyrstu 5 gr. frv. Þessa ráðgjöf og fræðslu verður að veita undanbragðalaust og búa m. a. svo um hnútana í framkvæmd, að unglingar í framhaldsskólum mæti til viðtals hjá ráðgjafarþjónustunni í upphafi skólagöngu. Með markvissri beitingu þeirrar fræðslu, sem hér um ræðir, á að vera hægt að fækka verulega þeim hópi, sem kemst á það stig að íhuga fóstureyðingu. En einnig þá á ráðgjöf og fræðsla um hugsanlegar aðrar og æskilegri leiðir að geta haft sín áhrif, en um þá fræðslu fjallar 6. gr. frv. Þau áhrif, sem hægt er að hafa á því stigi málsins, takmarkast af þeim úrræðum, sem samfélagið í reynd býður einstæðum mæðrum eða hjónum, sem eru í félagslegum örðugleikum. Þau úrræði eru því miður allt of smá í sniðum enn sem komið er: Ráðgjafarþjónusta mun þó koma að gagni, jafnvel miðað við óbreytta aðstoð samfélagsins, því að margir vita ekki um þá aðstoð, sem þrátt fyrir allt kann að reynast tiltæk. Auk þessarar beinu einstaklingsbundnu ráðgjafarþjónustu gerir frv. í 7. gr. ráð fyrir, að í skólum á skyldunámsstigi verði komið fastri skipan á fræðslu um kynlíf, en sú fræðsla er nú algerlega í molum, eins og ég vék að áðan.

Ég kem þá að þeim kafla frv., sem fjallar um fóstureyðingar, en það er sá kafli, sem hingað til hefur valdið mestum deilum í almennum umr. hérlendis. Ég tel rétt að lesa upp í heild 9. gr., sem fjallar um þær forsendur, sem gera fóstureyðingar heimilar, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fóstureyðing er heimil:

1. Að ósk konu, sem búsett er hér á landi eða hefur íslenskan ríkisborgararétt, ef aðgerðin er framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæla á móti aðgerð. Skilyrði er, að konan hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerð og hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagslega aðstoð standi til boða í þjóðfélaginu fyrir þungaða konu og við barnsburð.

2. Að læknisráði og í viðeigandi tilfellum að undangenginni félagslegri ráðgjöf :

a. Þegar ætla má, að heilsu konu, líkamlegri eða andlegri, sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu.

b. Þegar ætla má, að barn, sem kona gengur með, eigi á hættu að fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi, vegna erfða eða sköddunar í fósturlífi.

c. Þegar sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dregur alvarlega úr getu konu eða barnsföður til að annast og ala upp barn.

d. Þegar ætla má, að þessi þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu erfið vegna félagslegra ástæðna, sem ekki verður ráðin bót á.

e. Þegar konan getur ekki vegna æsku eða þroskaleysis, þegar þungun á sér stað, annast barnið á fullnægjandi hátt.

f. Ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli .“ Í síðari hluta þessarar gr. eru skilgreindar nákvæmar en áður þær forsendur, sem verið hafa í l. á Íslandi, og þær að nokkru leyti auknar. Nýjungarnar felast í d- og e-lið, þar sem heimilaðar eru félagslegar forsendur einvörðungu, í fyrra tilvikinu, ef ætla má, að þungun og tilkoma barns verði konunni og aðstandendum hennar erfið vegna félagslegra aðstæðna, sem ekki verður ráðin bót á. Og í því síðara, ef kona getur ekki vegna æsku eða þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

Hins vegar hygg ég, að það sé fyrri hluti þessarar gr., sem mestum ágreiningi veldur. En hann gefur þungaðri konu endanlegt úrskurðavald, eftir að uppfyllt hafa verið þau skilyrði, sem sett eru í gr. Um þessi deilumál langar mig að fara nokkrum almennum orðum. Þetta eru ekki deilur, sem einskorðaðar eru við Ísland, heldur eru þær alþjóðlegt viðfangsefni. Þær eiga sér mjög djúpar, sögulegar rætur og eru á órjúfanlegan hátt tvinnaðar hugmyndum manna um siðgæði og trúmál.

Lögmálið um getnað og fæðingu barns er eitt þeirra náttúrulögmála, sem eru forsenda að tilveru okkar á jörðinni, eitt af þeim lögmálum, sem eru jafnframt eilíft undur hverri nýrri kynslóð. Ég hygg, að ekkert náttúrulögmál sé jafn nákomið hverjum manni, vegna þess að það færir svo til hverjum einstaklingi persónulega reynslu, sem þroskar hann og stækkar, flestum ljúfa reynslu, sem betur fer, en sumum sára og myrka. Það er þetta einkenni lögmálsins, sem hefur tengt það svo mjög siðgæðishugmyndum manna og trúarbrögðum ásamt félagslegum aðstæðum í heiminum, ekki síst stöðu konunnar. Það er lengri og flóknari saga en svo, að ég beri við að fara frekari orðum um hana.

Hitt skiptir öllu, að menn átti sig á, að hér er um að ræða náttúrulögmál. Öll framþróun mannkynsins hefur verið bundin vaxandi þekkingu á náttúrulögmálum. Menn hafa ekki reynt að berjast gegn náttúrulögmálum, enda fánýt iðja, heldur viðurkennt þau, beygt sig fyrir þeim og reynt að hagnýta þau í sína þágu. Þekking á náttúrulögmálum og viðurkenning á þeim er forsenda allra vísinda og þess aukna frelsis, þeirra nýju valkosta, sem þau hafa fært og færa mannkyninu í sífellu. Frelsi er ekki fólgið í því að berjast gegn óhjákvæmilegum staðreyndum, heldur í hinu að hagnýta sér þær. Það er grundvallaratriði í öllum viðbrögðum manna við náttúrulögmálunum, að frelsi er viðurkenning á nauðsyn. Taki menn hins vegar ekki tillit til einhvers af þeim náttúrulögmálum, sem eru forsenda tilveru okkar á jörðinni, vex það okkur yfir höfuð, veldur sívaxandi örðugleikum og tortímir okkur að lokum. Þetta á við um getnað og fæðingu barna ekki síður en önnur náttúrulögmál. Allir kannast við þær kenningar kaþólsku kirkjunnar að taka þetta náttúrulögmál út úr, telja það hafa guðlegan uppruna umfram önnur lögmál og banna öll viðbrögð manna við því, ekki aðeins fóstureyðingar, heldur og allar getnaðarvarnir. Nú blasir það við öllu mannkyni, hvert slík stefna mundi leiða.

Íbúar jarðar eru hálfur fjórði milljarður eða eitthvað þar um bil. Haldi sama fólksfjölgun áfram og nú verða íbúar jarðar 7 milljarðar um næstu aldamót. Og vilji menn enn halda áfram að reikna þetta dæmi, yrðu íbúar hnattarins 30 milljarðar árið 2075. Að þeirri tölu mun þó aldrei koma, vegna þess að löngu fyrr mundi mannkynið hafa breyst í frumskóg villidýra, þar sem hundruð milljónir manna brytust um og berðust um síðustu matarleifarnar. Hin óbilgjörnu náttúrulögmál, sem gera tiltekið jafnvægisástand óhjákvæmilegt, mundu þá grisja mannkynið af miskunnarlausri hörku, stráfella þúsundir milljónir manna. Ég kann ekki að gera mér í hugarlund það mannkyn, sem lifði af slíka eldraun. Hitt fæ ég ekki heldur skilið, hvernig kaþólskir menn telja sig þjóna guði sínum með því að stefna að slíkum ragnarökum vitandi vits, eins og hver skyni horinn maður sér nú þegar fyrir.

Trúlega eru ekki margir Íslendingar, sem aðhyllast kenningar kaþólsku kirkjunnar á þessu sviði. Þó fannst mér ég heyra bergmál þeirra í ályktun, sem íslenska þjóðkirkjan sendi frá sér fyrir skömmu um þetta frv. Þar var rætt um helgi mannlegs lífs, og undir það sjónarmið get ég fullkomlega tekið. En sá helgi verður þá að vera ein og óskipt. Henni lýkur ekki um leið og barn fæðist í heiminn. Það er ekki liðin nema rúm öld síðan barnadauði á Íslandi komst upp í 70%. Þannig er enn ástatt hjá meiri hluta mannkyns, að 7 börn af hverjum 10 deyja og að meðalaldur er um 30 ár. Allt að því helmingur mannkyns þjáist af næringarskorti, sem bitnar ekki síst á börnum. Á hverjum einasta degi deyja um 10 þús. manna af næringarskorti eða heilu hungri, fleiri en nokkru sinni fyrr í sögu mannkynsins. Í Indlandi einu saman munu á næsta áratug deyja um 50 millj. barna af hungri eða farsóttum. Allt stafar þetta af þeirri efnahagslegu staðreynd, að meiri hluti mannkyns hefur meðaltekjur á mann, sem jafngilda 50–60 dollurum á ári. Þeir menn, sem segja, að ekki megi framkvæma fóstureyðingar af virðingu fyrir helgi mannlegs lífs, hljóta að eiga við eitthvert annað líf en það, sem mannkynið býr við um þessar mundir. Þeir verða einnig að muna eftir rétti og mannhelgi þeirra 7 barna af 10, sem deyja skömmu eftir fæðingu hjá meirihl. mannkynsins. Þeir verða að muna eftir mannhelgi þeirra þjóða, sem heyja svo grimmilega og vonlausa lífsbaráttu, að meðalaldur þeirra nær aðeins 30 árum.

Ég þykist þess fullviss, að fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar séu mér sammála um það, að hér sé um órofa samhengi að ræða, að mannhelgin verði að vera ein og óskipt, að taka verði á þessum hrikalegu vandamálum og leysa þau. En ein meginforsenda þess, að takist að leysa þau, er, að mannkynið læri að stjórna viðkomu sinni með getnaðarvörnum og fóstureyðingum. Tíminn til að læra þetta er svo naumur, að bandarísku vísindamennirnir frægu, sem sömdu skýrsluna um takmörk vaxtarins: „The limits of the growth“, telja nauðsynlegt, að fjölgun mannkynsins nái núllmarki frá og með árinu 1975, þ. e. a. s. að fæðingar og dauðsföll verði sama talan.

Menn kunna að segja, að þetta komi lítið við íslensku frv. um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, að hér á landi séu engan veginn þær aðstæður, sem ég hef verið að lýsa. Það er vissulega rétt. En ef við erum að reyna að búa til almennar og algildandi siðareglur, eins og mér virðist menn hafa verið að reyna að orða, verðum við að taka mið af mannkyninu öllu, en ekki einvörðungu okkur, þessum litla hópi, sem nýtur þeirra einstæðu forréttinda að búa á Íslandi. Ef sú þróun yrði, sem ég var að lýsa, mundu þau forréttindi ekki standa langa hríð.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að sjálfsákvörðunarréttur konu nái til fósturs, sem ekki hefur vaxið í meira en 12 vikur. Þau mörk eru ákveðin með tilliti til þess, að fyrir þann tíma er fóstureyðing talin mjög svo áhættulítil aðgerð, mun áhættuminni en barnsburður. Þessi tímamörk hafa hins vegar leitt til þess, að menn hafa farið að búa til kenningar um það, hvenær telja megi í raun og veru, að líf verði til, og eru a. m. k. þrjár kenningar á lofti, allar hugvitsamlegar og vel studdar rökum. Ég verð hins vegar að viðurkenna, að slík skólaspeki hefur afar takmörkuð áhrif á mig. Hún minnir mig á aðrar kenningarum það, hvenær lífi sé lokið, en þær kenningar hafa leitt til þess, að læknavísindin hafa á undanförnum árum varið óhemju fjármagni og enn meiri snilli til að halda svokölluðu lífi í fólki, sem er í raun og veru dáið. En að mínu mati er þessi iðja ekkert annað en mannúðarleysi og grimmd, sem ævinlega fylgir skólaspeki. Mér finnst deilurnar um það, hvenær líf kvikni, bera nákvæmlega sömu einkenni. Úrslitaatriðið er hitt, að mannkynið verður að læra að stjórna viðkomu sinni, og vilji menn ekki fallast á þá staðreynd með fortölum og rökum, verður hún kennd af harðari húsbændum.

Ýmsir kunna að vera mér sammála að þessu marki, en draga í efa, að rétt sé að gefa konum sjálfsákvörðunarrétt í þessu efni, hér sé um að ræða siðgæðisvandamál, erfiðari og margþættari en svo, að hverri einustu konu sé treystandi til að beita réttinum. Ég er sammála því, að hér er um að ræða stórfelld siðgæðisvandamál. Ég sagði áðan, að getnaður og barneign væru undir, sem færðu svo til hverjum einasta einstaklingi persónulega reynslu, sem þroskaði hann og stækkaði, flestum ljúfa reynslu, en sumum sára og myrka. En hvernig á að leysa siðgæðisvandamál af þessu tagi? Ég held, að allt fólk, sem lifir, lendi margsinnis á ævi sinni í siðgæðislegum vanda. Og þegar til úrslitanna kemur, stendur hver einstaklingur alltaf einn, þrátt fyrir alla hjálp og alla ráðgjöf. Siðgæðishugmyndir okkar og samviska eru vissulega afleiðing af því umhverfi, sem við ölumst upp í, en þó verða þessi viðhorf persónubundin. Hinn svokallaði frjálsi vilji er að vísu ekki ýkja frjáls, en þó er til vottur af honum, sem betur fer, og rétturinn til þess að taka ákvarðanir í samræmi við siðgæðishugmyndir sínar og samvisku er hluti af þeirri vegsemd og þeim vanda að lífa, að vera maður. Sá réttur verður ekki tekinn af hverjum einstaklingi um sig, án þess að skerða frelsi hans, án þess að beita hann andlegri kúgun.

Ýmsir óttast, að einhverjar konur muni nota réttinn til fóstureyðingar af léttúð, og það má svo sem vel vera. En þar sem ákvörðunarvaldið yfir þessum rétti er í fárra manna höndum, hefur því oft verið beitt af engu minni siðferðislegri léttúð, þótt hún kunni að hafa verið annars háttar. Um hitt er ég sannfærður, að allur þorri íslenskra kvenna mundi beita þessum rétti af mikilli siðferðislegri alvöru og eftir það hugarstríð, sem ævinlega er aðdragandi örðugra ákvarðana. Það eitt er í samræmi við hugmyndir mínar um frelsi einstaklingsins, að persónubundnar ákvarðanir eins og þessar verði að vera hjá einstaklingunum sjálfum. Ég hef heyrt lækna og presta bjóða sig fram sem yfirdómara um slík mál, — menn, sem vilja velja, leyfa og banna, og ég undrast siðgæðishroka þeirra manna, sem telja sig þess umkomna að fara með þvílíkt vald.

Ég hef hér tilgreint ýmsar almennar hugmyndir mínar um grundvallarviðhorf í þessum efnum. Hægt væri að tíunda mörg rök önnur, en ég tel ekki ástæðu til að endurtaka þau viðhorf, sem felast í grg. sjálfri, í riti n., sem frv. samdi, eða í þeim almennu umr., sem fram hafa farið hérlendis. Þó vil ég minna á eitt atriði, sem ýmsir aðrir hafa bent á.

Í löndunum umhverfis okkur hefur réttur kvenna í þessu efni víðast hvar verið tryggður með löggjöf á síðustu árum. Nú er ég ekki að halda því fram, að við getum ekki haft sérstöðu um löggjöf í samræmi við aðstæður okkar og viðhorf. En hver yrði afleiðingin, ef löggjöf okkar yrði þrengri á þessu sviði en í nágrannalöndunum. Hún yrði sú, að konur mundu fara utan til fóstureyðinga í miklu ríkara mæli en nú tíðkast. Það yrði komið upp sérstökum fyrirtækjum til að skipuleggja slíkar ferðir í gróðaskyni, eins og raun varð á í Svíþjóð árum saman, meðan löggjöf þar var þrengri en t. a. m. í Póllandi. Þessa aðstöðu gætu þær konur hagnýtt sér, sem hefðu fjárráð og sambönd. Hinar yrðu eftir, sem fátækastar eru og umkomulausastar í þjóðfélaginu, — þær, sem öðrum fremur þyrftu á hjálp að halda. Og við stæðum upp í þjóðfélagi, sem einkenndist af tvöföldu siðgæði, hræsnisfullum varajátningum, en allt annarri framkvæmd í verki. Ég held við þurfum á flestu öðru frekar að halda en að siðgæðishugmyndir okkar sýkist meir en orðið er.

Ég læt þessar hugleiðingar nægja um II. kafla frv., kaflann um fóstureyðingar. Aðrar gr. þess kafla skýra sig sjálfar og eru raunar skýrðar í grg.

III. kafli frv. fjallar um ófrjósemisaðgerðir, en hér er tekið upp nafnið ófrjósemisaðgerð á því, sem í fyrri l. var kallað vönun. Í frv. er gert ráð fyrir rýmkun gildandi l. Gert er ráð fyrir, að ófrjósemisaðgerð verði heimiluð, þegar viðkomandi óskar eftir því að vel íhuguðu máli, og þegar um hjón er að ræða, þá sé tekið tillit til þess, hvorn makann sé æskilegra að gera ófrjóan.

Í 17. gr. er rætt um skilyrði þess, að aðgerðin sé heimiluð, og eins og fyrr sagði, eru þessi ákvæði mjög rúm, því að fyrir utan sérstök tilefni, þá segir svo í 17. gr. 2, að aðgerðin sé heimil, ef kona eða karl eindregið og að vel íhuguðu máli óska eftir því, að komið verði varanlega í veg fyrir, að hann eða hún auki kyn sitt. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 21. gr., að það sé óleyfilegt að gera slíkar aðgerðir á þeim, sem ekki eru fullra 18 ára, nema gild rök hnígi að því, og tilgreinir n. þar sérstaklega mjög mikinn greindarskort samkv. áreiðanlegum greindarmælingum. 22. gr. gerir ráð fyrir því, að ófrjósemisaðgerðir skuli eingöngu gerðar á sjúkrahúsum, sem heilbrigðisyfirvöld heimila slíkar aðgerðir, og að þær séu gerðar af sérfræðingum í almennum skurðlækningum eða kvensjúkdómafræðingi.

Í IV kafla frv. eru svo almenn ákvæði. Þar er fjallað um almenna framkvæmd l., og er þar að finna ákvæði um skýrslugerðir um þessar aðgerðir. Heilbrigðisyfirvöldum ber að hafa eftirlit með framkvæmd l. og ber að stuðla að því, að það verði samræmi í framkvæmd þeirra eftir landshlutum.

27. gr. l. gerir ráð fyrir því, að rísi ágreiningur um, hvort framkvæma skuli fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, þá skuli málinu tafarlaust skotið til heilbrigðisyfirvalda, og er þá gert ráð fyrir, að n., sem skipuð er sérstaklega í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd l., skeri úr málinu. Þessi n. skal skipuð þannig, að í henni sitji 3 menn skipaðir af heilbrrh., þar af 1 læknir og 1 lögfræðingur. Gert er ráð fyrir, að n. úrskurði mál innan viku, frá því að henni berst það í hendur.

Þá er í 28. gr. ákvæði um, að sjúkratryggingar almannatrygginga greiði sjúkrakostnað vegna aðgerða þeirra, sem fjallað er um í l., og einnig er gert ráð fyrir því, að allur kostnaður vegna fræðslu og ráðgjafar greiðist af almannafé.

Í 29 gr. er tekið fram, að ákvæði l. gildi ekki, ef um er að ræða nauðsynlegar lækningsaðgerðir á æxlunarfærum vegna sjúkdóma, enda þótt af þeim hljótist fósturlát eða ófrjósemi.

Í 30. gr., er síðan rætt um viðurlög, ef framkvæmdar eru fóstureyðingar eða ófrjósemisaðgerðir utan við ramma laganna.

Ég læt hér lokið skýringum mínum og athugasemdum um þetta frv. Ég þykist hafa orðið var smávægilegra tilburða til þess að hafa þetta mál í flimtingum eða fjalla um það í æsingatón. Ég vil vara mjög eindregið við öllum slíkum viðbrögðum. Hér er að minni hyggju um að ræða mjög veigamikið mál, og ég tel, að í frv. sé á því tekið af raunsæi í samræmi við breytt viðhorf. Ég tel, að þær úrlausnir, sem í frv. felast, muni með tímanum stuðla að aukinni ábyrgðartilfinningu og auknu persónulegu siðgæði.

Ég vil að lokum láta þess getið, að enda þótt frv. sé flutt sem stjfrv., hef ég ekki gert neinar tilraunir til þess að tryggja fylgi einstakra þm. stjórnarflokkanna við það fyrir fram. Ég fer fram á það eitt, að þm. allra flokka fjalli um það í samræmi við samvisku sína og siðgæðisviðhorf, — þær sömu forsendur og frv. er ætlað að tryggja íslenskum konum, þegar þær standa andspænis hinum örlagaríkustu ákvörðunum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.