19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

95. mál, fóstureyðingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Út af síðustu fsp., man ég það að vísu ekki, hvort rh. SF voru staddir á þessum fundi, en ég hygg, að það hljóti að vera. Ég minnist þess ekki, að þeir hafi báðir verið fjarverandi á neinum ríkisstj.-fundi, sem ég hef setið á þessu ári. Hitt skiptir þó meginmáli, að ég lagði þetta frv. fyrir og fékk heimild til að flytja það sem stjfrv., eins og ég greindi frá áðan, en með þeim fyrirvara, að ég hefði engan áhuga á því, að þingflokkar reyndu að taka þar sameiginlega afstöðu og binda minni hl. við ákveðinn meiri hl. í þessu máli. Þetta mál er þess eðlis, að hver einstaklingur verður að gera það upp við sjálfan sig.

Ég vil þakka hv. þm. fyrir þátttöku þeirra í þessum umr. Umr. hafa yfirleitt verið málefnalegar og fjallað um þetta mikilvæga mál af fullri alvöru. Það er ekki ýkjamargt, sem ég þarf að gera aths. við. Ég skýrði frá viðhorfum mínum eins ljóslega og ég gat í framsöguræðu minni, og við hana hafa ekki komið fram neinar aths., þannig að ég þarf ekki að standa í neinum deilum út af því.

Hv. þm. Gunnar Gíslason vitnaði í allmikið plagg, sem allir þm. hafa fengið og samið er af n. presta, sem biskup skipaði á sínum tíma. Hv. þm. las þann kafla úr þessu nál., sem ég tel vera þann skynsamlegasta, sem þar er að finna, um nauðsyn á varnaðarstarfi og fræðslu og félagslegri aðstoð, og um þessi atriði erum við áreiðanlega mjög sammála. I. kaflinn, sem er undirstaða sjálfs frv., fjallar einmitt um þetta, og eins og ég tók fram áðan, tel ég, að félagslegar ráðstafanir þjóðfélagsins til að aðstoða til að mynda ógiftar mæður og aðrar mæður, sem í vanda kunna að vera, séu enn af allt of skornum skammti, þær þurfi að auka. Og um þetta hygg ég að samkomulag sé í sjálfu sér. Hitt skulum við gera okkur ljóst, að slíku kerfi komum við ekki á, nema það kosti ærna fjármuni. Þess verða menn að minnast á þessum tímum, þegar það er í tísku að tala um þunga skattabyrði, á sama tíma og menn eru með eðlilegar óskir um félagslegar aðgerðir. Þetta hvort tveggja fer ekki saman. Við getum ekki haldið uppi myndarlegu félagslegu kerfi án þess að taka á okkur þann kostnað, sem af því leiðir.

Eitt atriði hefur komið fram í þessum umr., sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir vék að vísu að áðan, en ég held, að þurfi að koma ákaflega skýrt fram. Þar á ég við hið undarlega tal manna um, að fóstureyðingar, eins og gert er ráð fyrir í 9. gr. frv., kunni að leiða til þess, að aðstreymi að sjúkrahúsum muni vaxa feiknarlega og þar þurfi einhverja geysilega aukna aðstöðu til að sinna öllum fóstureyðingarumsóknum. Ég held, að öllum mætti vera það ljóst, að ef um getnað er að ræða, þá er ekki nema tvennt til: fósturlát eða fóstureyðing annars vegar og hins vegar, að barnið fæðist. Hér á Íslandi er það sem betur fer orðin svo til algild regla, að konur fæði börn á sjúkrahúsum, þannig að þetta tvennt fer saman. Það er að vísu dálítið öðruvísi aðgerð að framkvæma fóstureyðingu en fæðingu, en það þarf ekki fleiri sjúkrarúm til þess.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir dró það í efa, að tímabært væri að veita konum þann rétt, sem í frv. felst. Og hún sagði, að þetta gæti leitt til sárra sjálfsásakana eftir á. Þetta er vafalaust rétt hjá hv. þm. Þannig er það með líf okkar manna, við þurfum oft að taka erfiðar ákvarðanir, og við kunnum að draga það í efa eftir á, að það, sem við ákváðum, hafi verið rétt. Engu að síður er þetta sá vandi, sem við verðum að standa í. Þetta er sá vandi að lifa, og menn geta ásakað sjálfa sig fyrir margt annað en þetta. Spurningin er hin, hvort menn eigi að hafa frelsi til að taka persónulegar ákvarðanir af þessu tagi, en því skulum við ekki gleyma, að öllu frelsi fylgir samsvarandi ábyrgð.

Það hefur þegar verið vikið að því hér, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi ekki lesið frv. nægilega vel, þegar hún sagði, að hlutur föðurins væri þar enginn. Gert er ráð fyrir því, að faðir sæki um fóstureyðingu, ef því verður við komið, ásamt móðurinni. Ég tel ekki neina hættu á því, að þetta muni leiða til þess, að lítið verði á fóstureyðingu á sama hátt og þungunarvörn. Ég held, að með þessu sé verið að búa sér til mjög ólíkleg tilvik, raunin mun auðvitað ekki verða þessi, heldur mun hún verða hin, að aðgangur að getnaðarvörnum verði miklu greiðari og eðlilegri og vitneskja manna meiri en verið hefur, því að fáfræðin á þessu sviði á okkar landi hefur verið með ólíkindum mikil.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði líka, að þau orð, sem ég hafði hér áðan um mannfjölgun í heiminum öllum, væru ekki röksemd fyrir frjálsum fóstureyðingum á Íslandi. Ég vék að þessu vandamáli vegna þess, að ég hef tekið eftir því, að menn eru að reyna að búa sér til algild siðferðileg lögmál, sem ekki gilda á Íslandi einvörðungu, heldur um heim allan. Ég var að benda mönnum á, hvað af því leiddi, af menn reyndu að halda slíkum viðhorfum til streitu. Með því væru menn að ganga í berhögg við náttúrulögmál, sem hlyti að leiða til þess, að náttúrulögmálin yxu mönnum yfir höfuð og refsuðu þeim þunglega, sem ekki skildu grundvallarstaðreyndir.

Menn hafa hér talað um, að það kynnu að verða mikil brögð að því, að konur óskuðu eftir fóstureyðingu af þessum sökum, og hafa vísað til annarra landa í því sambandi. Ég er ekki ýkjahræddur um þetta. Við skulum muna eftir því, að það eru mjög mismunandi siðgæðisviðhorf í ýmsum löndum. Víða erlendis þykir það til að mynda vera allt að því smánarblettur, ef stúlka verður barnshafandi utan hjónabands, og í slíkum tilvikum er lagt ákaflega þungt farg á þessar stúlkur að láta eyða fóstri. Fóstureyðingar eru framkvæmdar í ýmsum löndum af fólki, sem kann ekki til verka, og það getur haft hinar háskalegustu afleiðingar. Hér á landi eru siðgæðisviðhorf manna, sem betur fer, allt önnur. Hér er ákaflega algengt, að stúlkur eigi börn utan hjónabands. Það er allt upp í fjórðungur af fæðingum á Íslandi þannig til kominn, og þykir engin minnkun að, sem betur fer, þannig að þetta farg, sem liggur þungt á ungu fólki með öðrum þjóðum, er ekki hér á Íslandi. Því ætti að vera miklu minni hætta á því hér en annars staðar, að sá réttur, sem frv. gerir ráð fyrir, að konur fái, verði misnotaður af þessum ástæðum.

Hv. þm. Karvel Pálmason minntist á greinar í Morgunblaðinu, sem ég las einnig, og ég kannaðist við þessar greinar. Ég hafði séð þær áður í erlendum blöðum. Þarna er um að ræða ábyrgðarlaus æsingaskrif. Þessum greinum var svarað erlendis, þar sem þessi skrif birtust upphaflega, og þar var borinn til baka allur þessi æsingakeimur, sem var af þessum skrifum.

Ég vil að lokum bera fram þá ósk, að hv. heilbr.- og trn. og þm. allir íhugi þetta mál mjög gaumgæfilega og af fullri alvöru, eins og ég sagði hér áðan. Hins vegar tel ég miklu máli skipta, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Ég hafði þann hátt á að senda öllum hv. þm. þetta frv. á miðju þessu sumri og beita mér fyrir því, að um það yrðu sem víðtækastar umr. í fjölmiðlum, þannig að ég hygg, að aðdragandinn sé slíkur, að þm. eigi að geta gert upp hug sinn á þessu þingi.

Ég tel þetta mál vera þess eðlis, að það væri ekki sæmandi að láta það liggja hér óafgreitt eftir, og vil því óska mjög eindregið eftir því við hv. n., að hún hagi vinnubrögðum sínum þannig, að Ed. hefði nægan tíma til að fjalla um málið einnig, þannig að þetta gætu orðið lög á þessu þingi, ef meiri hl. hv. þm. er því fylgjandi.