20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

83. mál, trúarsöfnuður Ásatrúarmanna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. sú á þskj. 90, sem hér er til umr., er orðuð þannig, að leitað er upplýsinga um, hvers vegna söfnuður Ásatrúarmanna hafi fengið löggildingu. Svo sem fram kemur af þeim upplýsingum, sem forvera þess hv. þm., sem hér talaði áðan, hv. fyrirspyrjanda, voru veittar í dóms- og kirkjumrn. samkv. beiðni hans, eftir að fsp. var borin fram, ætti fsp að vera um aðdraganda að löggildingu á forstöðumanni fyrir söfnuð Ásatrúarmanna, en það er skýrari orðun á því, sem hér er um að ræða en orðalag fsp., því að lög gera ekki ráð fyrir löggildingu á trúfélögum sem slíkum. Stofnun þeirra og starfsemi er frjáls eins og hver önnur félagastarfsemi í þessu landi, og þarf ekki til þess neina staðfestingu stjórnvalda. Samkv. stjórnarskránni er mótað frelsi til að stofna trúfélög, en það er líka mótað frelsi til þess að stofna félög almennt í hverjum löglegum tilgangi. En því er slegið föstu í stjórnarskránni út af fyrir sig, að það sé í eitt skipti fyrir öll talinn löglegur tilgangur félags að þjóna guði. Ég tel annars ekki ástæðu til að fara hér að neinu ráði út í lögskýringar á þessu sviði, en um það efni hef ég og fleiri lögfræðingar fjallað í kennslubókum á undanförnum áratugum. Slíkar hugleiðingar verða aldrei tæmandi. En hafa verður alla vega í huga, að lagatúlkun hlýtur í slíku efni að fylgja sínum samtíma.

Í lögum um utanþjóðkirkjumenn frá 1886, sbr. lög frá 1904, er greint frá heimild til staðfestingar prests eða forstöðumanns fyrir slíkan söfnuð. Hvorki í lögunum né stjórnarskrárákvæðunum eru rakin skilyrði slíkrar löggildingar, og verður því stjórnvaldið að meta, hvort sú starfsemi, sem um er að ræða, sé svo félagslega mótuð, að eðlilegt sé, að þær heimildir, sem fylgja löggildingu prests eða forstöðumanns, þ. e. til að framkvæma embættisverk og til að veita viðtöku gjöldum, sem annars gengju til þjóðkirkjunnar eða Háskólans, verði veittar hlutaðeigendum. Augljóst er, að mat slíkt sem þetta er erfitt, og hefur reynslan verið sú á undanförnum árum, að ekki er hægt að segja, að könnun hafi verið gerð að neinu ráði á starfsemi þeirri, sem um hefur verið að ræða. Taldi rn. eftir atvikum ekki rétt að hafna löggildingu forstöðumanns fyrir þessi samtök, en lýsti því þá jafnframt, að hin gömlu lög um utanþjóðkirkjumenn yrðu tekin til endurskoðunar og yrðu þeir aðilar, sem hlut ættu að máli, að vera við því búnir að sæta slíkum ítarlegri reglum og skilyrðum, er sett yrðu. Er þess vænst, svo sem ég hef áður getið á Alþ., að lagafrv. um þetta efni verði lagt fram síðar á þessu þingi, þar sem settar verði skýrari reglur um þetta til að fara eftir.

Mér þykir rétt að geta þess einnig í þessu sambandi, að ég hef nýlega, að nokkru vegna ábendingar Kirkjuþings, stofnað til heildarendurskoðunar á löggjöfinni um þjóðkirkjuna, en sú löggjöf er orðin mjög í molum og sundurleit og vissir þættir aldagamlir. Sú endurskoðun er hins vegar mjög umfangsmikið verk, sem ætla má, að taki alllangan tíma. En ekki er ósennilegt, að löggjöfin um utanþjóðkirkjumenn komi einnig þar til frekari skoðunar, þótt síðar verði.

Þessi atriði, sem ég tók fram hér áðan, eru undirstrikuð í bréfi því, sem skrifað var og stílað til Sveinbjarnar Beinteinssonar, þar sem honum var veitt löggilding, sem forstöðumaður þessa safnaðar. Og ef tíminn leyfir, ætla ég að lesa aðeins upp úr því bréfi:

„Í þessu sambandi skal athygli yðar vakin á því, að samkv. 14. gr. l. um utanþjóðkirkjumenn ber yður, áður en þér framkvæmið embættisverk í söfnuðinum, að sýna sakadómaranum í Reykjavík, sýslumanni eða borgarfógeta, er í hlut á, staðfestingu þessa valds yðar, svo og afhenda honum skriflegan eiðstaf eða yfirlýsingu yðar um að hegða yður í þessari stöðu samkv. lögum. Er í því sambandi enn fremur vakin athygli á fyrirmælum 63. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að heimilt sé mönnum að stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti, sem best á við sannfæringu hvers eins, en þó megi ekki kenna að fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu. Það skal tekið fram, að þess má vænta, að reglur framangreindra laga um utanþjóðkirkjumenn verði teknar til endurskoðunar, annaðhvort lögin sjálf eða framkvæmdarreglurnar samkv. þeim. Mega því þeir aðilar, sem eru í fyrirsvari fyrir utanþjóðkirkjusöfnuðina, vera við því búnir að sæta slíkum ítarlegri reglum, sem settar yrðu um grg. fyrir starfsemi og framkvæmd þeirra verkefna, sem þeim eru heimiluð í umboði almannavaldsins, og sæta því, að framhald löggildingar, slíkrar sem þeirrar, sem staðfest er með bréfi þessu, verði háð því, að þeim reglum verði fullnægt.“

Ef menn skyldu halda, að hér væri farið inn á einhverjar nýjar brautir með því, að hér væri í fyrsta skipti söfnuði, sem ekki játar kristna trú, veitt löggilding á forstöðumanni, — eða söfnuði, sem ekki aðhyllist guðstrú í venjulegri merkingu, er kannske rétt að orða það, — þá er það misskilningur. Slíkt skref var a. m. k. stigið fyrir 7 árum, þegar slík og þvílík löggilding, sem hér er um að tefla, var veitt forstöðumanni Bahaítrúarbragðanna hér á landi.

Það er mikið vatn runnið til sjávar, frá því að Grágásarlög voru sett, og reglan nú að mínum dómi, höfuðreglan í trúmálakafla stjórnarskrárinnar, er reglan um trúfrelsi í 64. gr., sem segir það skýrum orðum, að enginn skuli neins í missa af réttindum sínum, þjóðlegum eða borgaralegum réttindum sínum, sakir trúarbragða sinna. Það er reglan, að hér er trúfrelsi og alls engin trúarnauðung, og það er langt síðan horfið var frá því hér á landi, að hér skyldi vera trúarnauðung, en svo var lengi, jafnvel þó að þeir væru svo frjálslyndir árið 1000, að þeir leyfðu að blóta goðin á laun. Hitt er svo annað mál. að einu trúfélagi eru veitt forréttindi og sérstaða umfram önnur trúfélög. Það er ákveðið í 62. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir, að hin evangelísk-lútherska kirkja skuli vera þjóðkirkja og ríkið skuli að því leyti styðja hana og vernda. En hitt ákvæðið, ákvæðið í 64. gr., er að mínum dómi miklu stærri grundvallarregla íslenskra stjórnskipunarlaga.