22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil ákveðið mótmæla því, sem hv. 4. þm. Norðl. v. sagði hér, að ég hefði ekki farið með rétt mál, þegar ég greindi frá viðskiptum við Framkvæmdastofnun. Ég var með þetta skrifað, og það kemur þar allt fram, saga málsins er þar rakin alveg rétt eins og hann sagði. Ég tók fram, að hér hefði verið um heimild til framkvæmdaráðsins að ræða. En þegar stjórnin er búin að veita framkvæmdaráðinu heimild, hvernig á að skilja það? Er nokkur leið að skilja það á annan veg en að það séu meðmæli stjórnarinnar um, að lánið verði veitt? Getur nokkur maður skilið það öðruvísi? Ef bankastjórn mælir með því við forstöðumann víxladeildar, að hann kaupi tiltekinn víxil, þó að jafnvel einhver fýla væri í forstöðumanni víxladeildar, er þá hægt að efast um, að bankastjórnin hafi ætlast til þess, að hann keypti víxilinn. Þetta er hreinn útúrsnúningur og blekking, og hv. 4. þm. Norðurl. v. má vara sig á því að vera með svona fullyrðingar í sambandi við störf stofnunarinnar. Það getur verið, að það komi að því, að þau verði rakin. Ég veit þar um fyrirgreiðslu, sem hann hefur komið í gegn, sem ég hygg, að hann ætti kannske ekki gott með að ræða hér á Alþ., en ég skal ekki fara út í það núna.

Það, sem hér hefur skeð, eru mistök. Það er búið að veita þessa fyrirgreiðslu, 5% lán til þessara aðila. Þeir gera sínar ráðstafanir til þess að fullnægja þeim skilyrðum, sem þeim eru sett um að útvega sitt mótframlag, sín 15%, og eru sumir þegar búnir að því, búnir að leggja inn í sinn viðskiptabanka. Ég held, eins og hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það verði að leiðrétta þessi mistök. Ef það á að vera stefnubreyting frá því, sem áður hefur verið, þurfa menn að vita það, og þá haga menn sér í samræmi við það. En svona snöggleg breyting, án þess að nokkur fái um það að vita, er óafsakanleg og óframbærileg hjá Framkvæmdastofnuninni.

Ég spurðist fyrir um það áðan, hver framtíðarstefnan mundi verða hjá hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi. Það er ekki eðlilegt kannske, að hæstv. forsrh. geti svarað því fyrirvaralaust. En auðvitað þarf að marka þarna ákveðna stefnu, þannig að menn séu ekki að gera ráðstafanir og síðan sé komið í bakið á þeim, eins og gert hefur verið í þessu tilfelli, því að hvaða leyfi hefur t. d. Framkvæmdastofnunin til þess að mismuna mönnum? Það voru flutt inn loðnuskip eftir áramótin á þessu ári. Þau fengu 5% fyrirgreiðslu. Og það voru notuð skip, eldri skip. Annað þeirra fór til Austfjarða og hitt, að ég hygg, hér á Reykjavíkursvæðið. Hvaða leyfi hefur ein opinber stofnun til að mismuna mönnum svona? Það virðist vera undir duttlungum þeirra, sem þar stjórna, komið, hvort mönnum er veitt aðstaða til að kaupa ný atvinnutæki. Ég held, að það verði að gilda þar um alveg ákveðin regla, og ef stofnunina vantar fjármagn, hlýtur stjórn Framkvæmdastofnunar að ræða það við ríkisstj. og hún þá í samráði við stjórnvöld og ráðamenn að gefa út einhverjar ákveðnar reglur, hvernig eftirleiðis verði hagað sér í þessum málum. En slíkt sem þetta má ekki að mínum dómi koma fyrir. Og það er alveg óforsvaranlegt, að stjórnin geri svona samþykkt eins og hún gerði 6. nóv., komi síðan á annan fund og afturkalli það að miklum hluta, sem áður var búið að samþykkja. Þetta er að blekkja menn, þetta er að koma að baki mönnum og valda þeim stórkostlegu tjóni, eins og gerist nú, ef mennirnir verða af þessum skipakaupum.

Ég held því, að það væri best fyrir alla, að menn sameinuðust um það eitt að reyna að ráða fram úr þessu máli, þannig að allir gætu vel við unað, hver svo sem stefnan verður mörkuð eftirleiðis. Það er á valdi ríkisstj. að marka stefnu, ef einhver stefna á að ríkja, eins og ég tel, að verði að ríkja, því að fram undan er uppbygging bátaflotans. Það segir sig sjálft, að bátaflotann verður að endurnýja að vissu marki, og það eru margir fleiri útgerðarmenn en þessir, sem þarna er um að ræða, sem hafa það í huga. Þeir eru að undirbúa sín mál og þurfa auðvitað langan tíma til þess, en þeir verða að vita, hvar þeir standa í þessum efnum.