22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

12. mál, útfærsla fiskveiðilandhelgi í 200 sjómílur

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem hér liggur fyrir, felur það í sér, að Alþ. ákveði að færa út fiskveiðilögsöguna í 200 mílur eigi síðar en í árslok 1974. Hér er um slíkt stórmál að ræða fyrir íslensku þjóðina, að við því hefði mátt búast, að eitthvert orð heyrðist frá ríkisstj. eða stjórnarflokkunum um þetta mál. Það hefur nú ekki orðið, heldur hafa bæði hæstv. ráðh. og aðrir stuðningsmenn hennar kosið að segja ekkert um málið. M. a. hafði formaður utanrmn., hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson kvatt sér hljóðs um daginn, þegar umr. stóðu, en hefur fallið frá orðinu. Ég verð að segja, að mig undrar nokkuð þessi framkoma, þegar um slíkt stórmál er að ræða. Það væri auðvitað vel, ef mætti skoða þessa þögn hv. stjórnarliða sem samþykki við málið. Hins vegar er ýmislegt í þessu máli, sem hendir til þess, að svo sé ekki. Sérstaklega hefði ég getað búist við því, að hæstv. sjútvrh. sýndi málinu þann sóma að vera viðstaddur, þegar umr. fara fram, en svo er ekki, og hefði þó verið sérstök ástæða af hans hendi, vegna þess að fyrir liggja frá honum yfirlýsingar um þetta mál, sem eru harla undarlegar og í litlu samræmi við hagsmuni þjóðarinnar.

Ég vil taka það skýrt fram, að í framsöguræðu minni fyrir þessu máli forðaðist ég að viðhafa nokkrar ádeilur í nokkra átt og sagði ekki eitt orð í slíka átt, hvorki varðandi hæstv. sjútvrh. né aðra. Ég lagði málið þannig fyrir, að það væri sem hlutlausast og áreitnislaust með öllu, í því trausti, að samstaða gæti um það náðst.

Fyrst hæstv. ráðh. og stuðningsmenn stjórnarinnar sjá ekki ástæðu til að segja eitt einasta orð um þetta stórmál, verður ekki hjá því komist að minnast á það eina, sem heyrst hefur frá hæstv. sjútvrh. um málið, en það er í viðtali, sem hann átti við blað sitt, Þjóðviljann, 1. sept. s. l. Fyrir skömmu hafði þá verið gerð ályktun af hálfu þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl í þá átt, sem þessi till. fer fram á, um útfærslu í 200 mílur fyrir árslok 1974. Í þessu viðtali ráðh. við Þjóðviljann segir svo m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Í dag stöndum við í baráttu um 50 mílna landhelgi. Þessi barátta skiptir nú öllu máli. Hitt er allt annað mál, hvort við Íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni, þegar slíkt er heimilt samkv. breyttum alþjóðalögum eða að aflokinni Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna“.

Þessi yfirlýsing er furðuleg. Það hefur verið skorað áður af minni hálfu á hæstv. sjútvrh. að afturkalla þessa yfirlýsingu eða a. m. k. skýra hana nánar. Hann hefur engu sinnt þeirri áskorun. En í þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. felst, að hann sé ekki sammála um, að Íslendingar taki sér 200 mílna lögsögu á næsta ári. Hann getur hugsað sér það einhvern tíma í framtíðinni. En alvarlegast er, að út úr þessum ummælum hans má lesa, að ekki sé heimilt fyrir Ísland samkv. þjóðarétti að taka sér 200 mílna landhelgi, því að hann segir: Það er allt annað mál, hvort við Íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni, þegar slíkt verður heimilt að breyttum alþjóðalögum. M. ö. o.: hæstv, ráðh. lýsir yfir, að það sé okkur Íslendingum óheimilt að óbreyttum alþjóðalögum og of við gerðum það, þá væri það brot á alþjóðalögum. Þetta er vissulega mjög alvarleg yfirlýsing af hálfu þess ráðh., sem fer með landhelgismál í hæstv. ríkisstj., og ég vil enn bera fram þá áskorun til hæstv. ráðh., að hann afturkalli þessa yfirlýsingu.

Hæstv. ráðh. telur, fyrir utan það, að slíkt sé ekki heimilt að þjóðarétti, að eigi að bíða eftir Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Nú er öllum vitanlegt, eins og ég rakti í framsöguræðu minni, að slíkt getur tekið nokkur ár, kannske mörg ár, og enginn veit um niðurstöðu þar.

Ég tel alveg nauðsynlegt vegna þagnar hæstv. ríkisstj., sérstaklega þessa ráðh. um málið að benda á, að hér er um mjög alvarlega yfirlýsingu að ræða af hálfu hæstv. ráðh., sem ég tel rétt að vekja athygli þingheims á.

Ég geri ráð fyrir því, að þessari till. verði vísað til hv. utanrmn., og ég vænti þess, að till. fái þar góðar undirtektir og að viðbrögð hv. þm., einnig úr stjórnarliðinu, verði á aðra lund en afstaða hæstv. sjútvrh. bendir til. Ég vil treysta því, að sú skoðun, sem hæstv. sjútvrh. lýsti 1. sept. í Þjóðviljanum varðandi 200 mílurnar, eigi sér ekki hljómgrunn hjá öðrum hæstv. ráðh. og hann hafi ekki í þessu máli talað fyrir hönd hæstv. ríkisstj.