27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

366. mál, rekstur skuttogara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um, eins og hefur þegar komið fram, í fyrsta lagi, hvaða athuganir hafi átt sér stað um afkomu hinna nýju skuttogara á yfirstandandi ári. Það hefur verið fylgst með afla skipanna og leitað eftir upplýsingum hjá útgerðarfélögum um afkomuna. Það er ljóst á þeim tiltölulega litlu upplýsingum, sem liggja fyrir, að afkoman er mjög misjöfn, eins og vill verða, en þar sem rekstur flestra skipanna hefur aðeins staðið yfir stuttan tíma, jafnvel nokkra mánuði, er vitanlega ekki hægt að segja með neinni vissu um það, hvernig útkoman verður. En það verður sem sagt fylgst með þessu og er verið að leita eftir frekari upplýsingum frá eigendum skipanna.

Í öðru lagi er svo spurt: Má gera ráð fyrir, að meiri hluti þeirra geti staðið í skilum með greiðslur á vöxtum og afborgunum? Þessu verður að svara neitandi. Það verður að telja nokkurn veginn augljóst, að meiri hluti skipanna getur ekki staðið undir greiðslum á afborgunum og vöxtum, ekki a. m. k. á þessu ári, þó að líkur bendi að vísu til þess, að næsta ár ætti að verða þeim hagstæðara.

Í þriðja lagi er spurt. Er einhver aðili, sem fylgist skipulega með þeim göllum eða bilunum, sem fram hafa komið á fyrsta ári? Ekki er mér kunnugt um, að það sé neinn sameiginlegur aðili, sem það geri. Hér er um rekstur einstakra útgerðarfélaga að ræða. Sum þeirra, eins og t. d. þeir, sem stóðu að kaupum á japönskum togurum, þar sem voru keyptir 10 togarar frá einum aðila, hafa myndað með sér sérstakt félag og hafa samvinnu sín á milli um marga hluti, einnig varðandi þá galla, sem fram hafa komið. Annars hygg ég, að það megi segja um þessa skuttogara af minni gerð, að þeir hafi reynst sérstaklega vel samkv. þeim upplýsingum, sem sjútvrn. hefur fengið, og bilanir hafi verið óvenjulitlar, miðað við það, sem vill verða á nýjum skipum.

Í fjórða lagi er svo spurst: Hvað má gera ráð fyrir miklu meðalaflamagni og verðmæti á ári hjá 500 brúttótonna skuttogara? Það virðist vera, að meðalafli þessara skipa muni verða á milli 3 og 4 þúsund tonn á ári. Aflaverðmætið er að sjálfsögðu nokkuð mismunandi eftir því, að hve miklu leyti er siglt á erlendan markað, en það mun þá vera í kringum 50–65 millj. kr. á skip og jafnvel yfir það í einstaka tilfellum. Til enn frekari upplýsingar vil ég lesa hér, eftir því sem tími vinnst, upp úr bréfum frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, en til þeirra var leitað, ef þeir gætu gefið svör um þennan rekstur í sambandi við þessa fsp. Í svari Landssambands ísl. útvegsmanna kemur þetta m. a. fram:

„Vér höfum móttekið heiðrað bréf hins háa rn., dags. 6. nóv. s. l., þar sem óskað er eftir áliti voru á afkomu hinna nýju skuttogara. Umsögn vor mun miðast við afkomu þeirra skipa, sem eru minni en 500 rúmlestir, en Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda mun gefa umsögn um afkomu stærri skipa. Vér höfum safnað upplýsingum um afla skipanna og aflaverðmæti, og fylgir það yfirlit hjálagt.

Meðalafli skipanna er að meðaltali um 9 lestir á úthaldsdag og meðalskiptaverðmæti kr. 156 þús. á úthaldsdag. Þetta merkir, að ársafli muni verða að meðaltali um 3000 lestir á skip og meðalverðmæti að meðtöldum stofufjársjóði og með hliðsjón af gildandi fiskverði um 65 millj. kr. Þrátt fyrir þennan mikla afla er afkoma útgerðar skipanna mjög slæm. Vér höfum safnað bráðabirgðauppgjörum um mokstur margra skipanna til 1. okt. s. l., og eru niðurstöður þeirra mjög óhagstæðar. Ef miðað er við ársrekstur, má ætla, að beint rekstrartap að meðtöldum afskriftum nemi 15–18 millj. kr. á skip. Eru þá afskriftir reiknaðar með sama hætti og hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar reiknar í mati sínu á afkomu fiskveiðanna, þ. e. 71/2% afskrift af vátryggingarverði, en það jafngildir um helmingsafskrift miðað við lögleyfðar afskriftir til skatts.“

Þessar afskriftir munu vera langalgengastar í kringum 12 millj. kr. á skip af þessari tegund, og er þá sýnilegt, að þetta meðaltal, sem Landssamband ísl. útvegsmanna miðar við, getur verið 3–6 millj. kr., sem er beinn rekstrarhalli fyrir utan afskriftir, ef þetta reynist verða útkoman. En okkur sýnist af þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, að afkoman sé allmiklu betri hjá mörgum skipanna a. m. k.

Í svari frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda segir:

„Landssambandi ísl. útvegsmanna hefur borist bréf hins háa rn., dags. 6. þ. m., þar sem óskað er eftir áliti þess á afkomu hinna nýju skuttogara á yfirstandandi ári. L. Í. Ú. óskaði þess, að vér létum í ljás álit vort um þetta efni varðandi skuttogara af stærri gerð.

Eins og hinu háa rn. er kunnugt, eru komnir til landsins 6 nýir og nýlegir skuttogarar af stærri gerð og auk þess botnvörpungurinn Sólbakur, sem er 461 brt. að stærð og telst til hinna minni skuttogara, en er þó í félagi voru, þar sem skipverjar á honum starfa með sömu kjörum og skipverjar á öðrum skuttogurum í félagi voru. 3 ofangreindra skuttogara hafa svo nýlega hafið veiðar, að erfitt er að gera sér grein fyrir afkomuhorfum þeirra. Þeir eru Bjarni Benediktsson, Júní og Snorri Sturluson. Þessir togarar eru um 940 brt. hver og eru taldir kosta um 200 millj. hver, og er líklegt, að vátryggingarverð þeirra verði hið sama.

Þá eru eftir auk b. v. Sólbaks Karlefni 5 ára gamall, vátryggingarverð 120 millj. kr., Ögri og Vigri, ný skip, sem hafin var útgerð á á síðari hluta ársins 1972, en útgerð b. v. Karlsefnis og Sólbaks hófst fyrr á því ári. Vátryggingarverð Vigra og Ögra er 160 millj. kr. hvors um sig. Þessi fjögur skip hafa því verið gerð út allt þetta ár að fráteknu verkfalli, sem stóð frá 22. jan. til 26. mars. Loks eru nýkomin til landsins tvö skip, Sléttbakur og Svalbakur, eign Útgerðarfélags Akureyringa, sem enn er ekki hafin útgerð á.

Þegar fyrrgreind heiðni hins háa rn. barst, snerum við oss strax til eigenda fyrrgreindra fjögurra togara, Karlsefnis, Sólbaks, Vigra og Ögra, eða þeirra, sem höfðu verið reknir mest allt árið, og háðum um yfirlit yfir afkomu þeirra miðað við 1. okt., s. l. Það sýndist raunar ljóst og hefur ásannast, að frestur var svo stuttur, að ekki var auðið að vinna þetta verk innan hans.“

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að lesa hér miklu meira en þetta. En það, sem hefur komið í ljós, er, að það liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um rekstrarafkomu þessara skipa, þar sem þau hafa mörg hver ekki verið rekin í nokkra mánuði á árinu. Það er hins vegar fylgst með afkomu skipanna, og hægt verður eflaust að gefa frekari upplýsingar um afkomuhorfur þeirra síðar, en eins og sakir standa, er ekki hægt að veita frekari upplýsingar en hér koma fram.