27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

372. mál, nýbygging Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég lagði hér fyrir nokkrum dögum fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Svör hæstv. heilbrrh. hafa vakið óskipta athygli þeirra manna, sem standa að nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hann vísaði í rauninni til þess, að heilbrrn. hefði gert allar sínar till. í þessu máli, og sagði orðrétt: „Þarna hefur ekki staðið á neinum leyfum frá heilbr.- og trmrn. Frumgögnum vegna viðbyggingar við Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri var skilað inn til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar 9. ágúst s. l.“ Hann sagði enn fremur orðrétt: „Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur enn ekki afgreitt málið, svo að byggingin er ekki enn komin á framkvæmdastig. Þrátt fyrir þetta heimilaði fjárlaga- og hagsýslustofnunin í samráði við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, að framkvæmdir við grunn hæfust um síðustu helgi, og var þá tekið fullt tillit til þeirra óska heimamanna, að framkvæmd þessarar nýju byggingar yrði tengd við 100 ára afmæli sjúkrahússins, sem var hinn 11. nóv.“ Þá mun hafa verið leyft að taka fyrstu skóflustunguna að þessari byggingu.

Samkv. þessu skil ég það svo, að enn þá sé ekki veitt frá réttum yfirvöldum leyfi til þess að gera frekar í þessu mikla máli.

Hæstv. heilbrh. sagði einnig orðrétt: „Ýmsir telja raunsærra að gera ráð fyrir, að sjúkrahúsið verði ekki fullbyggt fyrr en 1984 eða 1985.“ En samkv. áætlun heilbrrn. ætti þetta að gerast fyrir 1980. Af þessum sökum hafa menn gerst ókyrrir og óttast, að leggjast ætti á þetta mál af fjármálavaldinu. Í orðum hæstv. heilbrrh. fólst, að við værum að fara í geitarhús að leita ullar með því að spyrja hann um þetta mál, heldur ættum við að spyrja hæstv. fjmrh. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. þeirrar spurningar, sem er á þskj. 130 og ég þarf ekki að lesa hér upp.